Furðuleg kveðja frá Helgu Sigrúnu

Helga Sigrún Harðardóttir sendir mér heldur kaldar kveðjur á bloggsíðu sinni í gær undir fyrirsögninni Étt´ann sjálfur Bjarni Harðarson. Þó ég kunni vel við hreinskilni og tæpitungulausa orðræðu held ég einhvernveginn að pistlar eins og þessir dæmi sig sjálfir. Fyrir utan að vera uppfull af reiði í minn garð leyfir Helga sér að fara með margskonar ósannindi, furður og endaleysur um mig og meintar hugsanir mínar. Slíkt verður hún að eiga við sig.

Það er auðvitað rangt að ég hafi lært á tölvu hjá Helgu Sigrúnu, að ég hafi skipt um skoðun í miðjum stjórnarmyndunarviðræðum vorið 2007, að ég hafi reynt að bola Jóni Sigurðssyni frá formannsstóli, að ég hafi ekki rætt málin við Helgu Sigrúnu, að naflinn á mér sé eitthvað óvanalegur, að ég aðhyllist baktjaldamakk og trúi á samsæriskenningar, gruni menn um græsku og hafi haft uppi dólgshátt á fundum. Það voru aðrir sem það gerðu, Helga! Og um græsku varstu ekki grunuð heldur staðin að verki.

Og það er rangt, Helga, að kjósendur Framsóknarflokksins hafi ákveðið að losa sig við okkur Guðna Ágústsson og fá aðra í staðin. Flokkseigendafélag sem gerir mönnum óvinnandi túlkar ekki vilja kjósenda. Og ég hef hvergi gefið svo mikið sem í skyn að ekki eftir neitt heiðarlegt fólk í Framsóknarflokknum. Allt er þetta tilhæfulaust með öllu. En ég hef haldið því fram að þeir sem voru á póstlista Jóns Sigurðssonar fyrrverandi formanns hafi stundað óheiðarlega undirróðursstarfssemi í flokknum í formannstíð Guðna Ágústssonar. Það er ekki samsæriskenning, það styðst við gögn sem lögð hafa verið fram og er staðfest í viðtali við Jón sjálfan.

Kostulegast er þó þegar þingmaðurinn Helga Sigrún beinir spjótum sínum að Guðna Ágústssyni og raunar flokki þeim sem hún hefur starfað fyrir. Segir í fyrri hluta pistilsins að aldrei hafi neinn reynt að hafa áhrif á hana innan flokksins og sjálf sé hún alsaklaus af því að hafa staðið í illindum við fyrrum formann flokksins. Segir síðan:

Þá má spyrja sig um það hversu vel formaðurinn var í stakk búinn að standa undir hlutverki sínu og hvort hann lagði ekki sjálfur, með dyggri aðstoð Bjarna sjálfs drög að eigin falli?  Ég varð vitni að því þegar menn voru kallaðir á teppi formannsins ef þeir höfðu frumkvæði að því að birta eigin hugmyndir án þess að formaðurinn hefði lagt blessun sína yfir þær. Sumum sagt að hætta að skrifa í blöðin. Öðrum sagt að formaðurinn réði. Punktur. Og fylgið féll.

Semsagt, flokkurinn var gallalaus, enginn reyndi að hafa áhrif á Helgu Sigrúnu í öðru orðinu en svo kemur visnúningur í greinina sem ég hélt að enginn nema Ragnar Reykás réði við. Skyndilega er það fjöldi manna sem verður fyrir grímulausri kúgun Guðna Ágústssonar sem bar þar með ábyrgð á fylgishruni flokksins. Þetta eru þvílíkar staðleysur að engu tali tekur.

Fer nú að hætta þessu enda til efs að ég eigi að svara í þessu tilfelli. Sé ekki betur en að meira að segja flokksskrifstofa Framsóknarflokksins skammist sín hálfvegis fyrir pistil þennan því þar hefur tilvísun á hann verið tekin út í dag og annar eldri settur í staðin. En í miðri greini Helgu Sigrúnar er eftirfarandi sem ég eftirlæt lesendum að dæma og halda það sem þeir réttast telja:

Halda menn í alvöru að Halldór Ásgrímsson hafi ekkert betra við sinn tíma að gera en að fjarstýra Framsóknarflokknum frá Kaupmannahöfn? Halda menn í alvöru að Jón Sigurðsson hafi verið strengjabrúða þegar hann gekk út úr Seðlabankanum og bauð sig fram til formanns og til Alþingiskosninga?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta er það sem mér þykir slæmt við "bloggið" menn setja alls konar drullu og óþverra þar inn um náungann,nokkuð sem þeir myndu aldrei gera annars staðar, hvað veldur?

Jóhann Elíasson, 17.12.2008 kl. 12:38

2 Smámynd: halkatla

Ekki hafa áhyggjur af þessu, það sjá allir í gegnum þennan sorglega pistil (með ófrumlegustu fyrirsögn í heimi). Nema Helga og þau sem kommentuðu hjá henni - það litla gengi virðist því miður þurfa að deila sömu heilasellunni og þau bara fatta ekki djókið

halkatla, 17.12.2008 kl. 12:42

3 identicon

Þessi kona var handvalin á listann af Guðna, Bjarna og Hjálmari.

Þórður Eyjólfsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 12:46

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sú var tíðin að framsóknarmenn, sem völdust til forystu áttu oft rætur sínar í ungmennahreyfingunni og eða samvinnufélögum sem höfðu það meginmarkmið að efla þjóðarhag og hag heimabyggðar, skapa atvinnu með því að ná verslun inn í landið og auka framleiðslu. Þetta fólk hafði hjartað á réttum stað og var vant því að vinna með höndunum. Á herðar þessa fólks settust síðan mjúkmálir skjalatöskumenn sem sóttu í alla sjóði rétt eins og flugur í hunang. Þessir glerfínu menn, sem fæstir hafa unnið ærlegt handtak eiga þann draum heitastan að fá að telja milljarða fyrir svefninn. Skyldi það ekki vera drungalegur svefn? Undarleg hún Sigrún að vera heilluð af andlegum geldfénaði sem þekkir lítt til náttúrukraftanna, hvað þa´drauga eins og þú Bjarni minn.  En ég myndi nú samt ekki vera að hafa áhyggjur af þessu, Það flýgur hver eins og hann er fiðraður til auk þess sem líkir fiskar spyrðast best.

Sigurður Þórðarson, 17.12.2008 kl. 15:44

5 identicon

Ekki vera neitt að velta þér uppúr þessu Bjarni minn, en ég get samt vel skilið að þér sárni að fá svona óþvera yfir þig og það frá konu sem ég hélt að tæki nú vinabönd fram yfir flokkshag og að hún væri nú líka nokkuð ærleg kona. Með geðugri þingmönnum sem sest hefur á bekk Alþingis fyrir Framsóknarflokkinn.

En hún ákveður samt greinilega að ganga frekar erinda flokkseigenda félagsins og S-hópsins, enda var hún handvalinn í 3ja sæti listans af þessum sömu klíkum og á því allt undir þeim.

Þú átt enn mjög marga vini sem þekkja þig af óvenjulegum heiðarleika og réttsýni, þó auðvitað sértu oft skemmtilega mannlegur í bráðræði þínu. 

Ég get ekki séð að þér sé lengur vært í þessum fjörbrota stjórnmálaflokki og það má alveg segja að tilraun þín til þess að siðbæta þennan elsta og um margt merka stjórnmálaflokk hafi mistekist.

Ég held að flokkurinn hafi bara verið orðinn einum of fúinn og spilltur af völdum og sérhagsmuna poti að það hafi ekki verið neinn vegur að rétta þessa skútu við.

Sjálfsagt af þér að mæta á þetta flokksþing þeirra og kveðja þar vini og fjandvini og halda góða og eftirminnilega ræðu þar sem þú segir þeim aðeins betur til syndanna umbúðalaust og skýrir mál þitt og kveður svo með stæl.

Eftir mun sitja hnípinn flokkur í miklum vanda. Ég held að dagar flokksins séu brátt endanlega taldir.

Síðan þarftu að hasla þér völl á nýjum vetvangi stjórnmálanna hvar sem það verður, því þú hefur sýnt það að þú átt svo sannarlega fullt erindi við þessa þjóð.

Hvar sem það verður þá segi ég bara gangi þér vel Bjarni minn.  

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 16:10

6 identicon

Hver er þessi Helga Sigrún Harðardóttir???????????

Gunnar Bender (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 16:23

7 Smámynd: Dunni

Einstaklega merkilega ómerkilegur og fátæklegur pistill hjá flokkssystur þinni Bjarni.  Þetta er reydar í fyrsts sinn sem ég tek aftir að Helga Sigrún er til og fylgist ég þó nokkuð vel með héðan úr konungsríkinu handan hafsins.

En er þetta ekki dálítið dæmigert fyrir bröltið í framsóknarfjósinu. Þar reyna menn að vega hvern annann sjálfum sér til framdráttar.  Það byrjaði ekkert í borgarstjórnarflokknum með Binga. Svona hefur þetta verið í mörg ár.  

Dunni, 17.12.2008 kl. 20:23

8 identicon

Þessi Helga minnir mann óneitanlega á fyrrum spilltan ráðherra framsóknar,hana Valgerði Sverrisdóttur.

Númi (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 20:50

9 identicon

Valgerður Sverrisdóttir er með spillingarstimpil á sér og hún getur aldrei hreinsað það af sér.(fyrrum spilltan,er prentvilla þarna að ofan hjá mér)

Númi (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 20:52

10 Smámynd: Ásgeir Jóhann Bragason

Mér liður eins ég sé vel í glasi að lesa þessi blogg

Ásgeir Jóhann Bragason, 17.12.2008 kl. 22:29

11 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Bjarni, glymur hæðst í tómri tunnu. Helga Sigrún er bara sár yfir því að besta og skemmtilegasta fólkið er að yfirgefa Framsóknarflokkinn, enda spillingin búin að vera algjör og ég spái því að það eigi eftir að koma meiri spilling upp á yfirborðið varðandi Framsóknarflokkinn, og það er miður.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 17.12.2008 kl. 23:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband