Amtmaðurinn sem kallast á við nútímann

amtmadurinnBurtséð frá ágæti bóka þá eiga þær mismikið erindi við okkur og einhvernveginn ekkert sjálfgefið að raunasaga af norðlenskum amtmanni á fyrri hluta 19. aldar eigi mikið erindi við okkur börn 21. aldarinnar. En samt er það einmitt þannig.

Bók þessi, Amtmaðurinn á einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarbort er snilldarlega vel gerð bók og læsileg. Kannski ekki skemmtileg í þeim skilningi að vekja oft hlátur, enda saga Gríms mikil raunasaga en sagan er afar grípandi. Meðferð heimilda einkennist af vandvirkni án þess þó að hin fræðilega hlið beri efnið ofurliði.

En það dýrmætasta við bókina er samt að hún á mikið erindi við okkur í dag. Hér er sagt frá raunum þeirra manna sem veltu fyrir sér sjálfræði Íslands, möguleikum þess og erfiðleikum á tímum þegar fáir trúðu að Ísland gæti staðið á eigin fótum. Sagan gerist að mestu áður en áhrifa Jóns Sigurðssonar fór að gæta og hér kynnumst við ótrúlegu flækjustigi umræðunnar um sjálfstæði landsins. Einmitt þetta flækjustig á erindi við okkur í dag þegar reynt er að gera hugtakið fullveldi að einhverju óskiljanlegu og hanga á orðhengilshætti þegar talað er um sjálfstæði landsins.

Örlög Gríms, þrátt fyrir þjóðhollustu, verða líka þau að verða að skotspæni þeirra manna sem vildu mótmæla og mótmæltu þá næsta handahófskennt. Gerðu hróp að dómkirkjupresti, rektor og loks amtmanni enda landið undir erlendri stjórn og því erfitt um vik að gera hróp að hinum raunverulegu valdhöfum. Í dag er mikill áhugi á mótmælum og við mótmælendur þessa lands að því leyti til betur settir að geta mótmælt raunverulegum valdhöfum þó sumir vilji þar fara húsavillt líkt og landar okkar fyrir hálfri annarri öld.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Rétt er það og satt.

 Húsvillur eru hvimleitt fyrirbæri og aungvum til sérlegs framdráttar. Að "fara húsvillur vegar"? Ætli nýyrðanefnd yrði ginkeypt fyrir því? Skyldi ég fá fyrir það "pjening" eins og lagt var einni sögupersónu í munn, er ætíð talaði um pjeninga. - Aldrei hef ég fengið krónu fyrir orðið "meðvirkni" - en hins vegar hefur mér oft verið sagt í löngu máli hvað það merkir. Það hefur skemmt mér ítarlega á köflum.

Margt er skemmtilegt í lífinu... nema blankheit, ærumissir og ugglaust eitthvað fleira.

Gjört að setri mínu í rétt byrjuðu jólaleyfi.

Hlýjar kveðjur til Elínar og einnegin þín

Helga Ág.

Efitrskrift: hef ég nokkurn tíma sagt þér eins og hvers konar fífli mér líður, þegar ég á að leggja saman fyrir ruslpóstvörnina? Núna var það átta og núll og mig langaði svo óskaplega að skrifa 80. Var það kannski það rétta? Sé það þegar ég reyni að senda.

Helga Ágústsdólttir (IP-tala skráð) 21.12.2008 kl. 00:58

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þessi bók fékk líka einstaka dóma í Kiljunni fyrir góðan stíl og kjarnyrt málfar.

Sigurður Þórðarson, 21.12.2008 kl. 17:37

3 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Heill og sæll Bjarni

Tek það að mér að andæfa þessum SAManburði. Í nútímanum vilt þú taka þátt í hinu alþjóðlega SAMfélagi. Ógnanir og tækifæri krefjast alþjóðlegrar pólitískrar SAMvinnu. Þar eiga Norðurlöndin að mynda sterka einingu innan SAMeinaðrar Evrópu.

(Nú, sé ég að í fjórum línum er ég búin að nefna "SAM" fjórum sinnum og því eðlilegt að benda á að flestir sigla nú í kjölfar SAMfylkingingarinnar í þessum málum)

Afhverju ætli þessi umræða um sjálfstæði verði stærra mál hér og í Noregi en annars staðar? Sennilega vegna þess að þessar þjóðir fengu seint sjálfstæði. Öldin er allt önnur og í stað þess að verkefni nútímans sé að rífa sig lausan frá erlendum drottnurum þá þurfum við að vera hluti af sameinaðri Evrópu til að tryggja stöðugleika og tækifæri.  

Kona sem að hefur orðið fyrir misnotkun er líkleg til að þróa andúð gegn körlum. Ef hún er ekki SAMkynhneigð þá er trúlega æskilegt að hún vinni sig út úr slíkum ótta svo henni farnist vel í SAMbandi síðar. Ísland þarf líka að vinna sig frá óttanum og byrja að treysta því að ekki sé stefnt að misnotkun meðal þjóða í álfunni okkar. Enda óvíða meiri skilningur á mannréttindum en í löggjöf ESB.

Jæja, nú eru fleiri hundruð smákökur komnar í box og ég búin að leggja Evrópu lið.  Kominn svefntími. Þú ert öflugur í bókalestrinum og áhugavert að lesa umsagnirnar. Með kærri kveðju, G

Gunnlaugur B Ólafsson, 22.12.2008 kl. 01:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband