Hugvekja um fyrirgefningu á krepputímum
2.1.2009 | 00:07
- Kristin lífsskoðun trúleysingja
Þrátt fyrir þrálátan heiðindóm hefi ég að þessu sinni lagt eyru eftir orðum presta í kringum þessi jól. Var enda mjög ánægður með viðtal RÚV við séra Þorbjörn Hlyn Árnason prófast á Borg sem talaði um réttláta reiði almennings í Speglinum nokkrum dögum fyrir jól. Sóknarprestur okkar Tungnamanna, séra Egill Hallgrímsson bætti um betur í stórgóðri stólræðu á jóladag þar sem hann vék meðal annars að því að guð stæði við hlið þeirra sem mótmæltu óréttlætinu. Frelsarinn sjálfur var enda slíkur mótmælandi fyrir tvöþúsund árum síðan.
Mig langar samt að bæta hér við úr vopnabúri hinnar kristnu siðfræði. Grundvöllur hennar sem stendur okkur næst á jólum er einmitt kærleiksboðskapur og fyrirgefningin. Elska skaltu óvini þína og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Kannski er þessi boðskapur það sem sker kristnidóminn frá öðrum trúarbrögðum með afdráttarlausari hætti en nokkuð annað og lyftir siðferðisboðskap kristninnar á stall ofar þeim siðaboðskap sem gerir hefndina að aðal atriði.
Nú kann einhverjum að þykja undarlegt að nefna elsku að óvinum og fyrirgefninguna í dag þegar samfélagið allt logar af réttlátri reiði gagnvart stjórnvöldum og útrásarvíkingum. Ég hef enda gengið með þessa hugmyndir sem ég hér festi á blað í maganum í nokkra daga í ótta við að kannski sé ég að verða kaþólskari í minni kristnu lífsskoðun en þeir báðir klerkarnir sem ég nefni hér að ofan. Og er ég þó opinber trúleysingi og utankirkjumaður.
Að geta fyrirgefið
Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Þessi lína úr faðirvorinu gerir ráð fyrir að rétt eins og við getum sjálf vænst fyrirgefningar, þegar við biðjum um hana, vegna eigin yfirsjóna þá eigum við að fyrirgefa þeim sem gera á okkar hlut,- þegar þeir beygja sig og biðja um það sama.
En hvaða merki hefur íslensk þjóð um það að þeir sem freklegast hafa brotið á rétti okkar ætli sér nokkuð að biðjast fyrirgefningar. Fyrir utan ofurlitla auðmýkt hjá Björgólfi Guðmundssyni í einu Kastljósviðtali þá hafa hinir íslensku útrásarvíkingar í engu gefið í skyn minnstu eftirsjá. Og þeir hafa með stofnun fyrirtækja eins og Rauðsólar og pappírsviðskiptum með bréf Existu sent okkur skýr skilaboð um að þeir ætli sér að halda leiknum áfram. Fara annan hring.
Á meðan situr máttlítil ríkisstjórn og talar í tæpitungu um að engin ástæða sé til þess að leita sökudólga. Við fáum að vita að enginn ráðherranna hefur í hyggju að segja af sér, engin breyting sé fyrirhuguð í stjórnarráðinu nema stólaskipti til hagræðingar fyrir þá sem þar vinna. Það ætlar semsagt enginn að beygja höfuð sitt fyrir íslenskri þjóð og biðjast fyrirgefningar. Meðan svo er getur ekki orðið af neinu slíku og reiðin er áfram ráðandi.
En reiðin er svo sannarlega ekki uppbyggjandi eða heilbrigð kennd. Hún skilar samfélagi okkar ekki áfram og meðan hún ræður för nær íslensk þjóð ekki vopnum sínum. Og þau okkar sem mest hafa gert á hlut hagkerfisins ná engri sátt við íslenska þjóð nema til komi uppgjör milli þessara aðila. Það kann því að vera bjarnargreiði stjórnvalda við fulltrúa hinna gömlu útrásarvíkinga að leyfa þeim áfram að valsa með eigur okkar og skuldir.
Sjálfur sat ég nokkra fundi í Framsóknarflokki þar sem þáverandi formaður, Guðni Ágústsson, vék að því að ef til vill þyrfti flokkurinn að gera upp við kjósendur hvern þátt hann ætti í því sem miður fór. Svör núverandi formanns og þáverandi varaformanns, Valgerðar Sverrisdóttur, við þessum aðfinnslum voru öll á þá leið að þetta væri óþarfa hjal. Nú hefur Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður staðfest að hann taldi það mikilvægt verkefni að hann og hans stuðningsmenn innan flokksins stöðvuðu að þessi orðræða Guðna færi í hámæli. Eftir þau ummæli tel ég mér skylt að vekja athygli á henni. Hér bregðast þau Valgerður og Jón samt síst verr við en leiðtogar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem í engu ætla sér að axla ábyrgð á þeim óförum sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir. Um VG og Frjálslynda er minna að tala enda aðkoma þeirra að völdum minni.
Samtrygging flokka og fjármálafursta
Í raun og veru má í þessu sambandi tala um ákveðna samtryggingu stjórnmálaflokka og útrásarvíkinga. Meðan allir þræta sem sprúttsalar og viðurkenna ekki þumlung af eigin ábyrgð mun þar við sitja. Ef annarhvor aðilinn opnar á að leita sátta við þjóð sína verður erfiðara fyrir hinn að hreykja sér í hroka sínum. Útrásarvíkingarnir geta gert það með því að ganga frá matadorborðinu. Stjórnvöld með því að efna til kosninga.
Árið 2009 verður ár uppgjörs. Ekki einasta milli ESB andstæðinga og ESB sinna eða milli braskara um uppskiptingu þrotabúa. Það verður ekki síður uppgjör við það stjórnkerfi sem við búum við þar sem samtrygging flokkakerfisins og samtrygging viðskiptablokkanna verður hvorutveggja brotið á bak aftur af þeim breiða hópi almennings sem nú stendur frammi fyrir lífskjararýrnun, gjaldþrotum og eignamissi.
(Skrifað millum hátíða og birt á Smugunni á gamlársdag.)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er afar sérkennilegt að sjá svo litla iðrun eftir miklar skyssur, satt er það. Það er eins og velgengnin hafi spanað gegndarlausan hroka upp í þessum mönnum. En kannski er erfitt að játa á sig svo hræðileg afglöp.
Þín verstu afglöp á árinu voru þau að segja af þér þingmennsku eftir smávægilegan hrekk - sem þó átti fullan rétt á sér. Bréfið sem þú komst á framfæri átti fullt erindi til þjóðarinnar og það var hárrétt að koma því áleiðis til fjölmiðla. Það var svo kjósenda að ákveða pólitíska framtíð þína. Þú ert ágætis náungi en þessi mistök þín - að hætta - eru nálega ófyrirgefanleg.
Baldur Hermannsson, 2.1.2009 kl. 00:18
Þeir biðjast ekki fyrirgefningar, iðrast ekki og setja krafta sína í að byggja upp sérsveitir og vopna lögreglumenn úðabrúsum. Þetta á lítið skylt við kristilegt hugarfar sem valdhafar styrkja þó með 5 milljörðum á ári. Þeir vilja að þjóðin sé fyrirgefandi og hlýði valdinu. Vilja hafa einkleyfi á ofbeldinu rétt eins og velsældinni.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 2.1.2009 kl. 00:28
Og staglast svo á auðmýktinni í áramótaræðunum. Eftir höfðinu dansa limirnir og hvað eiga landsmenn að geraþegar þeir verða vitni að því að landshöfðingjarnir eru að brjóta lög og stjórnarskrá án éss að blikna eða vera dregnir til saka fyrir. Hér verður ógnarástand ef ráðamenn vakna ekki upp til síns vitjunartíma.
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 2.1.2009 kl. 00:34
Gleðilegt ár til þín og þinna Bjarni Harðarson. Ég vil bara taka undir orð B.H. hér að ofan og velja þau mín!
Guð og gæfan veri með þér. K.kv. E.
Edda (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 01:08
Sæll!
Góður pistill. Ég er sammála með fyrirgefninguna. Hún á rétt á sér. Ég vil helst koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Hvað Jón og Valgerði varðar vil ég helst að þau finni sér tómstundir og hafni "félagsmálastörfum" þó "margir" hvetji þau. Ég fer að renna við í kaffi hjá þér. Kveðjur Þoregeir
Þorgeir Þorsteinsson (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 03:20
Eigum við nú ekki að sleppa því að eigna kristnum öll heilbrigð´og sjálfsögð lífsviðhorf? Þurfa þau einhver vörumerki? Sumt er bara universal og inngreypt í okkar náttúrlega altruisma.
Ef þú telur Kristin viðhorf heilbrigð, þá ættir þú að kynna þér ýmsar þversagnir í þessum 31 spakmæli, sem sögð eru vera eftir honum höfð.
Byrjaðu t.d. á Matt: 10:34-39. Raunar sama í Lúkas. Svo er nú ýmislegt um að höggva af sér hendur og stinga úr augu, höggva menn og kasta í elda eins og visnuðu hrísi. Fordæmingin er raunar yfirfljótandi ef menn eru ekki orðnir blindir af ævilangri skilyrðingu.
Jón Steinar Ragnarsson, 2.1.2009 kl. 07:53
"Trúleysingi" að vitna í "Submit or burn", það var þá boðskapurinn Bjarni minn, þú ert ekki trúleysing frekar en ég er kaþolskur.
Þú skilur ekki einu sinni boðskapinn í biblíunni, sem er forsenda þess að vitna í og að trúa á hana.
DoctorE (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 09:20
Sæll félagi og gleðilegt ár.
Hræddur er ég um að stjórnarherrarnir sleppi háskalega vel frá hrapinu, að ekki sé talað um hina sem beinlínis léku leikina í refskák bankakerfisins. Geir karlinn Haarde boðar nú þann vísdóm að láta kjósa um hvort biðja eigi um ESB-aðild, semja ef þjóðin segir já, og kjósa síðan aftur um samninginn. Hann minnist hins vegar ekki á kosningar til Alþingis. Samfylkingin eða hluti hennar er sagður vilja þingkosningar, en í fljótu bragði virðist mér þetta vera leiðin sem hann sér framhjá þingkosningum. Þegar að þeim kemur er svo vonast til að þjóðinni verði runnin reiðin.
Bestu kveðjur í hús þitt.
Helgi Guðmundsson, 2.1.2009 kl. 11:34
Stórfínn pistill hjá þér!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.1.2009 kl. 12:30
Já öldungis hefur mér þótt það merkilegt hve erfitt fólki reynist að segja"nú verð ég að biðja forláts; hér hefur mér orðið illa á í messunni". Þetta er nefnilega hvorki litillækkandi né erfitt og menn standa sterkari eftir.
Í minni vinnu er ég sífellt undir smásjá og verð að svara alls kyns fyrirspurnum, einnegin taka aðfinnslum og gefa haldbærar skýringar, enda eru það skattborgarar míns sveitarfélags sem borga mér laun.
Einhvern veginn er ég nú svo glær í gegn, að mér finnst fólkið, sem ég greiði laun fyrir að ráða öllu á besta veg sem stjórnmálamenn, - og borga þeim bara þokkalega - ætti að svara á skiljanlegu máli fyrir okkur vinnuveitendurna og hafa manndóm til að gangast við mistökum. Það skilja flestir... en ekki þann hroka sem felst í að meðhöndla okkur, sauðsvartan almúgann sem skynlitlar skepnur.
Og hananú...
Helga Ág.
Kannski er þessi athugasemd alveg út úr "Skjöldu gömlu", en það hefur það.
H.
Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 13:37
Sæll Bjarni
Takk fyrir pistilinn.
Og hvern vilt þú helst sjá sem næsta leiðtoga Framsóknarflokksins ?
Sæmundur Heimir (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 13:40
Sæll Bjarni og takk fyir þennan pistil og einnig marga góða frá þér á árinu sem nú er liðið.
Framundan er nýtt ár og það á svo sannarlega líka eftir að verða mjög viðburðarríkt og það verða Alþingis kosningar fyrr en okkur grunar.
Baráttann fyir fullveldinu og sjálfstæði lands og þjóðar á enn eftir að harðna. Þar þarf þjóðin þín á fullum styrk þínum að halda Bjarni Harðarson.
Ég er að lesa bókina "Váfugl" eftir Hall Hallson, stórgóð bók og heimspekileg sem sýnir vel hvað sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar er mikilvægt. Einnig lýsir bókin vel þessum varg- og Váfugli Evrópusambandinu og hvert þetta miðstýrða og siðspillta Kommisara kerfi gæti leitt okkur.
Svo legg ég til að þú leggir það til í stjórn Heymssýnar að þið kaupið 63 bækur af "Váfugli" og færið sem gjöf hverjum einasta alþingismanni á Alþingi okkar Íslendinga.
Að endingu óska ég síðan þér og öllu þínu fólki árs og friðar með þakklæti fyir rliðin ár.
Lifðu heill !
Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 16:52
Gaman að lesa þessa hugvekju. Ég elska óvini mína og mér hlýnar um hjartaræturnar að lesa að þú elskar líka óvini þína.
Sigurður Þórðarson, 2.1.2009 kl. 19:15
Góður pistill. Auðvitað fyrirgefum við þeim eins og bílstjóranum sem keyrði fullur um árið. En þó við höfum fyrirgefið honum þýðir það ekki endilega að viljum halda ökuferðinni áfram með hann fullan við stýrið.
Magnús Sigurðsson, 2.1.2009 kl. 23:21
Gleðilegra ár!
Benedikt Halldórsson, 2.1.2009 kl. 23:39
Bjarni þetta er góður pistill,og þarfur,en þetta með fyrirgefninguna,þar segir" Faðir fyrirgef þeim þeir vita ekki hvað þeir gjöra" Maður er ekki alveg tilbúin til þessa vegna þess að flestir vissu það/Kveðja og Gleðilegt nyt ár/Halli gamli/P/S/Eg spyr eins og annar þarna á undan á hvern veðjarðu sem formann nýja Framsóknarflokksins/sami
Haraldur Haraldsson, 4.1.2009 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.