Fjórflokkurinn og skjaldborgin um vini hans

Hin stóru pólitísku tíðindi liðinna daga eru í reynd ekki að Jóhanna Sigurðardóttir hafi verið gerð að forsætisráðherra þó vissulega sé það vænn áfangi. Stórtíðindin eru heldur ekki tilraun Jóhönnu til að slá skjaldborg um heimilin heldur vel heppnuð skjaldborg sem vinstri stjórnin slær nú um hagsmuni útrásarvíkinganna.

 

Snemma í stjórnarmyndunarferlinu tóku Framsóknarmenn að sér það vafasama hlutverk að slá út af borðinu allar hugmyndir um að eigur yrðu kyrrsettar. Samfylkingin tók þá undir þau falsrök að þetta væri vitaskuld ekki hægt vegna stjórnarskrárvarinna réttinda. Þar með gat andað léttar sú dúsín íslenskra fjölskyldna sem samviskusamlega skaut hundruðum milljarða undan um leið og hún setti íslenskt hagkerfi á kaldan klaka.

Það er vitaskuld fráleitt að hér megi í skjóli efnahagsörðugleika víkja öllum mannréttindum til hliðar. Ennþá fráleitara er að í landinu skuli vera sá forréttindahópur að mannréttindi hans skuli varin framar mannréttindum allra annarra. Alkunna er að við rannsókn venjulegra brota, sem oftast snerta örfáar krónur, er heimilt að skerða tímabundið stjórnarskrárvarin réttindi brotaþola. Það er gert með gæsluvarðhaldi og upptöku ýmissa eigna sem vandlega er rökstutt með vísan í lög. Vitaskuld er hægt að hreyfa við lögvörðum réttindum stórtækari brotamanna með sama hætti ef pólitískur vilji er fyrir hendi.

Innan íslenska flokkakerfisins eru aftur á móti sáralitlar líkur til að sá pólitíski vilji skapist. Fjórflokkurinn er allur samspyrtur og margflæktur hagsmunum þeirra afla sem farið hafa með og fara enn með fjárhagslegt forræði atvinnuvega landsmanna. Fáir stjórnmálamenn eru svo lítilssigldir að hafa ekki þegið einn eða fleiri styrki frá útrásarvíkingunum blessuðum. Meiru varðar þó að sömu víkingar hafa um áratugi haft fjárhagslega heilsu sjálfra flokksvélanna í landinu í hendi sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Sæll nafni.

Alkunna er, hvernig spilað er á tilfinningar manna og hvert leikritið uppsett til friðþægingar lýðsins.

Eitt er nú í gangi niður við Seðlabanka.  Ekkert á bak við bullið og ekki heil hugsun þar á bakvið.

Svo furðulega bar til, að Sigurður Einars, --[sá sem af gæsku og veglyndi, lánaði/gaf milljarðahundruði af gjaldeyri, til vildarvina , bræðra í allskonar braski í Bretlandi og sérlegum vinum öðrum í Katar vésírum digrum sem fengu lán/gjöf til að ,,eignast" hlut í Kaupþingi og alldeilis að ógleymdum sonum og hirðmönnum Gadaffýs í Líbýu, hverjir vilja nú eignast Kaupþing í Lúx með tilstuðlan og velvilja sama Sigga Einars og félaga hans Ólafs í Samskipum og Finns Ingólfs Samvinnuforkólfs tryggingabana]--ryðst nú fram og hellir ú hlandkoppum sínum öllum yfir Seðlabanka og sérstaklega Davíð fyrir að stoppa frekari lánveitingar til Glitnis og svo Kaupþings, hvers veð í danska bankanum reyndist ekki pappírsins virði.
Eru menn ekki enn teknir fyrir veðsvik og blekkingar?
Nei minn kæri vopnabróðir gegn allskonar spillingu, okkar bíður brekka og hún bæði löng og allbrött.
Vonum á vorið
Megið Hann gefa okkur styrk, hver svo sem Hann er í hugum hvers og eins.
Miðbæjaríhaldið
Telur sig í hópi hrópanda í allskonar eyðimörkum, Kvóta, Verðtryggingar og platverðmæta  ,,sköpunar"

Bjarni Kjartansson, 11.2.2009 kl. 11:56

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þegar orðið "útrásarvíkingar" er notað kemur mér alltaf í hug víkingar til forna. Þeir fóru um rændu, rupluðu, nauðguðu og hjuggu mann og annan. Er þetta bara ekki akkúrat það sem útrásarvíkingarnir gerðu og eru enn að reyna að gera.

Því miður eru þessir menn svo siðblindir að þeir sjá ekki sök sína í þessu máli en eru tilbúnir að saka þá sem hefðu átt að vera búnir að stöðva þessa útrás fyrir löngu.

Tómas Ibsen Halldórsson, 11.2.2009 kl. 13:16

3 Smámynd: Þór Ludwig Stiefel TORA

Já þú ert að impra á viðkvæmu máli. Ég held að vandinn liggi kannski mest í vanþekkingu þingmanna á lögum -  svo sorglega sem það nú kann að hljóma. Þú ert að benda á kjarna málsins: þetta snýst um pólitík og ekkert annað.

Þór Ludwig Stiefel TORA, 11.2.2009 kl. 16:11

4 Smámynd: Þór Jóhannesson

Af hverju má ekki kalla hlutina sínum réttu nöfnum? Þetta er einfaldlega pólitísk spilling af verstu gerð og það er bókstaflega nauðsynlegt að stjórnmálaflokkar gefi upplýsingar um hverja einustu krónu sem til þeirra berst. Þannig er hægt að kalla hlutina sínum réttu nöfnum þegar upp kemst um framlög "undir borðið" - Spillingu/Mútu - sem ennþá virðast þykja sjálfsögð.

Þór Jóhannesson, 11.2.2009 kl. 19:21

5 identicon

Eins og kona nokkur rifjaði upp um daginn í sjónvarpinu og hafði eftir Jóni Hreggviðssyni "vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti".  

Það er undarlegt þegar lög þjóðarinnar virðast vernda menn sem rökstuddur grunur er um að hafi aðhafst að meira eða minna leyti meðvitað gegn 99,99% hennar.  Þá er eitthvað komið á hvolf.

Elvar Eyvindsson (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 20:39

6 identicon

Hafa ekki prófkjörin leitt til þeirrar niðurstöðu að þingið er fullt af lukkuriddurum sem tókst bara þokkalega að markaðssetja sig fyrir hæfilegt.

Eru án innihalds og skortir víðsýni og þekkingu. 

Hæfir menn gefa ekki kost á sér meðan mannvalið er svon. 

Annar.  Er þetta ekki bara þverskurður þjóðarinnar og getum við vænst annar. 

101 (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 20:47

7 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Mikið andsk.. er ég sammála þér Bjarni.. ég hef áhyggjur af því  ég verð að segja það...kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 11.2.2009 kl. 23:15

8 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Bjarni ég er sammála þér og hef sko ekki áhyggjur af því

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 12.2.2009 kl. 01:17

9 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Takk fyrir þennan pistil Bjarni. Hér virðist allt vera að falla í einhvern doða. Vona að þú bjóðir þig fram á þing með heiðarlegu fólki.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.2.2009 kl. 02:39

10 identicon

Þó svo margir hér að ofan séu "sammála þér", þá átta ég mig nú reyndar ekki á hverju þeir/þær eru "sammála.  Þú talar um að það sé vænn áfangi að Jóhanna Sigurðardóttir skuli hafa verið gerð að forsætisráðherra og síðan kemurðu inná "vafasamt hlutverk" Framsóknarflokksins um að slá út af borðinu allar tilraunir til að eigur verði kyrrsettar og að Samfylkingin taki undir það.  Þá geri ég ráð fyrir að VG sé sammála þessu ráðabruggi þó svo þú komir þeim lítið fyrir í textanum nema þá kannski innan "fjórflokka".  Í lok greinar ertu í raun að segja hversu gjörspilltir stjórnmálaflokkar á Íslandi eru.  Útrásarvíkingar og aðrir víkingar hafa sem sagt "mútað" alþingismönnum og haft heila flokka á valdi sínu í áratugi.  Er verið að nota Jóhönnu og með því "blekkja almenning" til að fela spor stuðningsmanna og þeirra sem í raun hafa ráðið aðgerðum valdhafa á Íslandi í áratugi.  Þú hefur greinilega kynnst þessari "spillingu" á þínum pólitíska ferli og ættir því að eiga auðvelt með að koma þinni vitneskju á framfæri við "þá nefnd" sem nú er að störfum og ættir ekki að þurfa að "óttast" að upp um þig verði komið.  Nema þessi "nefnd" sé skipuð af "gjörspilltum pólitíkusum" og sé ekkert nema sýndarleikur og það vitir þú.  ;-)

Páll A. Þorgeirsson (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 10:44

11 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Nefndin sem er að störfum er ekkert nema sýndarleikur.

Henni stýrir Páll Hreinsson sami lögfræðingurinn og Björn Bjarnason pantaði lögfræðiálit sem leyfði sölu á stofnfjárein sparisjóðanna fyrir Árna Matt vin sinn.

Það má sjá nánar um þetta á blogginu hjá Gunnari Axel.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.2.2009 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband