Spilltir stjórnmálamenn og sakleysi Baugsflokksins

Spilling í samkrulli stjórnmála og viðskipta er eitt stærsta vandamál Íslendinga síðari ár og hefur leitt gríðarlega skuldaklafa yfirþjóðarbúið. Sýslungi minn Sigurður Grétar Guðmundsson greinir þennan vanda í opnu bréfi til mín í Morgunblaðinu 16. mars sl. Niðurstaða hans er að Samfylkingin sé sýkn saka en helstur sökudólgur spillingar sá sem hér ritar fyrir dulítið bréfkorn um mæta flokkssystur.

Flokkur í gíslingu S - hóps

Það er rétt hjá Sigurði Grétari að undirrituðum varð á í frægri tölvupóstsendingu sem tengdist illvígum átökum innan Framsóknarflokksins sem ná allt aftur til þess tíma þegar flokkurinn klofnaði í afstöðunni til EES. Átök þessi snúast um fullveldi og frelsi Íslands. Í þeim átökum höfðu fylgismenn Valgerðar Sverrisdóttur marg oft beitt þeirri aðferð gegn þeim sem hér ritar og gegn sitjandi formanni, Guðna Ágústssyni, að senda nafnlaus skeyti til fjölmiðla. Slík vinnubrögð eru því miður alsiða í stjórnmálum og meira að segja gögn ríkisstjórna og utanríkisþjónustu leka með þessum hætti til almennings. Hér heima og erlendis.

Það varð mér mjög til happs að kunna ekki allskostar á klækibrögð sem þessi og því snerust tölvuskeytin í höndum mér. Í framhaldinu gat ég með góðri samvisku sagt af mér þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn og skráð mig úr sama flokki. Þar með tel ég mig hafa axlað fulla ábyrgð á smávægilegri yfirsjón en um leið komið mér úr þeim ógöngum sem það var vissulega að vera í stjórnmálaflokki sem S-hópurinn gerir eilíft tilkall til að stjórna.

Í títtnefndu bréfi sem ég velti fyrir mér að ætti erindi á alla fjölmiðla rekja tveir Skagfirðingar sögubrot af spillingunni inni í Framsóknarflokknum og það bréf var sent mér án nokkurs trúnaðar. Mín mistök voru þau að senda það ekki áfram undir fullu nafni til alþjóðar.

Guðni flæmdur út!

Sigurður Grétar spyr hvort ég hafi ekki vitað af tilvist Finns Ingólfssonar þegar ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og ég get svarað því að ég þekkti til hans og fleiri Framsóknarmanna sem tengdust viðskiptum. Og þó ég hefði engar mætur á ofsagróða þessara manna þá grunaði mig ekki þvílíkt hyldýpi spillingar og óráðs hefði átt sér stað í útrásarbyltingunni á Íslandi. Ég var þar jafn grunlaus og allur meginþorri þjóðarinnar. En nú vitum við betur og ég skal viðurkenna að það var rangt að ganga til liðs við stjórnmálaflokk sem var jafn illa flæktur í net spillingar.

Framsóknarflokkurinn átti þó smá möguleika á uppgjöri við þá spillingu meðan Guðni Ágústsson leiddi þann flokk en vammlausari stjórnmálamaður er vandfundinn. En við sem næst honum störfuðum fundum einnig að hinar gömlu viðskiptaklíkur flokksins gáfu hér engin grið og tókst að lokum ætlunarverk sitt að flæma mætan dreng úr stóli og koma sér þóknanlegri manni til valda.

Borgarnesræðan og Baugsmálin

Sigurður Grétar sakar mig um ósannindi þegar ég lýsi bankaeinkavæðingunni með eftirfarandi hætti:

Þar fengu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eða aðilar þeim tengdir, hvorn sinn banka og aðilar tengdir Samfylkingu þann þriðja í gegnum FBA sem rann inn í Glitni.

Þetta er þó það sem alþjóð veit og það er brjóstumkennanlegt að flokksþrælar reyni nú að hvítþvo sinn flokk eins og telji líkt og Geir H. Haarde að enginn samflokksmaður sinn hafi gert mistök.

Eða um hvað snerist Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur ef ekki að verja hennar eigin menn í stjórnmálum, eigendur Glitnis? Eða málflutningur Samfylkingar þegar Baugsmál stóðu yfir? Og hversvegna taldi Jón Ásgeir Jóhannesson sig hafa efni á að kalla fyrir sig og lesa skammir yfir þáverandi viðskiptaráðherra, nóttina sem Glitnir var þjóðnýttur? Og hversvegna töldu bæði formaður Framsóknarflokks og fulltrúar Samfylkingar við myndun núverandi ríkisstjórnar að ekki mætti skerða hár á höfði útrásarvíkinganna við rannsókn bankamála? Krafa sem virkar fyndin nú nokkrum vikum síðar.

Fjórflokkurinn sem hér hefur ráðið ríkjum mun einn og hjálparlaust aldrei leysa upp þau óæskilegu bönd sem hafa verið milli viðskipta og stjórnmála á Íslandi. Í bankahruninu hefur okkur opinberast betur en áður hversu háskaleg blanda þetta er. Sá sem hér ritar býður fram krafta sína í komandi kosningum til að endurreisnar og telur sér það frekar til tekna en hitt að hafa þó axlað ábyrgð á eigin mistökum.

Sigurður spyr mig einnig í grein hvernig ég ætli Íslandi að komast af án þess að afsala sér fullveldinu og ganga í ESB. Ég mun með ánægju svara þeirri spurningu í sérstakri grein.

(Birt í Morgunblaðinu 18. mars)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Athyglisverð grein og margt til í þessu.  Það er mjög líklegt að ákveðin samtrygging hafi ríkt á milli allra flokka í þessu máli og allir fengið sitt.  Það er ekki tilviljun að alþingiskosningar fara fram nú í apríl en ekki síðar á árinu og að allir flokkar hafa keyrt prófkjör í geng á mettíma þannig að gamlar valdaklíkur ráða enn öllu sem þær vilja ráða.  Það þarf algera hreinsun á íslenskum stjórnmálaflokkum til að birti yfir Íslandi.  Það sem við höfum séð hingað til er smá kattarþvottur. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 18.3.2009 kl. 12:23

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Vel mælt en sárt að lesa.

Vér gamlir Íhaldsmenn erum með böggum Hildar yfir því, hvernig okkar afkomendur geta snúið sér, þegar DÓMAR í svikamálum ganga nánast ætíð gegn auðsæum hagsmunum þjóðarinnar.

Sviksemi er nú talin dyggð í dómum okkar dómara.

Þessir menn eru svo gersamlega komnir út á þorp hvar vindar blása óhindrað um sálartetur þeirra.

Var að skýra fyrir ungu fólki, hvað ég tel hafa farið miður hjá afar stórum hluta þeirra sem ginntust og eins og við Einar minn Oddur heitinn (Guð almáttgur og Æsir allir gráti þann mann í Paradís/Gimlé )  sögðum, ærðir og særðir gýgjum Græðginnar.

Ég tel að Mammon hafi komið speglum í hendur þeirra sem eru svo slegnir blindu, að þeir sjá ekki annað en sjálfan sig í ljósroðnu ofursæti yfir alla hafinn, í raun ekki guðum líkur, heldur Guði.

Því séu þeir ósnertanlegir og allt sem þeir gera og hugsa sé rétt en hitt rangt.  Sumir Dómarar eru slegnir svipaðri blindu.

Sorgmæddur segi ég,

Mínir Flokksmenn gerðu allmargt illa og mjög margt rangt og vona ég að eitthvað verði plástrað á Landsfundinum nú fljótlega.

Með virðing

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 18.3.2009 kl. 12:32

3 identicon

Félagi Bjarni !

 Gleymum aldrei að mesta framfaraskeið, -já , - og mestu uppgangsár Íslandssögunnar, voru árin frá 1991 til haustdaga 2008.

 Þar áttu hlut að máli, Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur

 Heiður þeim sem þá stýrðu þjóðarskútunni !

  Í öllum þjóðríkjum, á öllum tímum mannkynssögunnar, hefur viðgengist spilling. Mismikil.

 " Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum"

 ESB ., er hugsjón áttaviltra einstaklinga.

 Mammons-börn Samfylkingarinnar munu aldrei ná að selja auðlindir Íslands !

 Takist slíkt, er þjóðin á grafarbakkanum !

 Eða sem Rómverjar sögðu.: " Actum est de republica" - þ.e. " Þjóðin búin að vera " !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband