VG orðinn að ESB-flokki!

Við megum ekki gleyma af hverju við erum í ríkisstjórn. Við erum í ríkisstjórn vegna búsáhaldabyltingarinnar, af því að fólkið krafðist lýðræðis. Við hljótum því ævinlega að styðja tillögur sem efla lýðræðið í landinu, líka tillögur um ESB.

Svo bregðast krosstré sem önnur og þetta hér að ofan er ekki tilvitnun í Árna Pál í Samfylkingu eða Valgerði Sverrisdóttur heldur Guðfríði Lilju Grétarsdóttur þingmannsefni VG. Flokkur hennar samþykkti í dag tillögu sem gengur nákvæmlega í sömu átt og tillögur bæði Framsóknar og Samfylkingar,- Ísland skal á ESB-hraðlestina. Sú lest hefur skilað öllum inn-nema Norðmönnum sem  eru tvisvar búnir að segja nei og nú er talað um að þeir kjósi bara aftur, -þannig er ESB-lýðræðið. Kosið aftur og aftur þar til "rétt" niðurstaða fæst fram.

Steingrímur J. svarar engu í Silfrinu núna áðan nema að það sé vont að fara í ESB-kosningar og tapa þeim!!!

Ég hef áður rökstutt að kosning um ESB aðild er ekki hluti af lýðræði Íslendinga heldur kosning á móti lýðræðinu þar sem við kjósum þá um að börn okkar og barnabörn verða valdalaus um löggjöf á Íslandi, henni verður stjórnað af útlendingum. 

Ef það er raunverulega ætlan Alþingis að afnema fullveldið sem hér var barist fyrir þá er lágmarkskrafa að Stjórnarskrárbreyting  um fullveldisafsal verði samþykkt af þremur fjórðu kjósenda enda um að ræða afnám þess lýðræðis sem Íslendingar búa nú við þar sem stjórnmálalegu valdi verður deilt með milljónum. Fullveldi okkar þar verður ámóta og vald Grímseyjar á Alþingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Atli Hermannsson.

Að sjálfsögðu ætlar VG ekki að útiloka aðildarviðræður. Grænir vita nefnilega að ef aðildarviðræður verða samþykktar á landsþingi Sjálfsstæðisflokksins, þá gætu þeir auðveldlega lent úti í kuldanum og aftur væri komin tveggja flokka stjórn Sjalla og Samfó..... esb hraðlestin brunar.

Atli Hermannsson., 22.3.2009 kl. 18:31

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þakka þér fyrir þetta Bjarni

.

Ég leyfi mér hér að benda á grein mína í Þjóðmálum frá síðastliðnu hausti. Hún er hérna og heitir: Þrífst frelsið í faðmi ESB og evru?

Gunnar Rögnvaldsson, 22.3.2009 kl. 18:33

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Bjarni

Já, það er ekki nema von að það sé titringur í liði ykkar andstæðinga við ESB aðildarviðræður. Það sem ég ekki skil er að þið treystið ekki þjóðinni til að taka þessa ákvörðun. Hvar er trú ykkar á lýðræðið og þjóðaratkvæðagreiðslur?

Sjálfur hef ég alltaf sagt að aðild kæmi þá aðeins til greina að viðunandi lending náist í sjávarútvegsmálum, þ.e.a.s. ævarandi og full yfirráð yfir íslenskum fiskmiðum. Þá hef ég sagt sú lausn verði að bjóðast okkur í aðildarviðræðum að landið leggist ekki í eyði, þ.e.a.s ásættanleg lausn fyrir íslenskan landbúnað. Í hættu eru ekki aðeins störf bæna heldur einnig þeirra sem starfa við afurðavinnslu, hvort sem um er að ræða kjötvinnsla eða vinnsla á mjólkurvörum eða störf í garðyrkju. Sú lausn, sem boðið var upp á fyrir Finnland og Svíþjóð, er að mínu mati ekki nægjanleg. Líta verður til þess að landbúnaður á Íslandi er mun erfiðari en nokkurs staðar annarsstaðar í norðurhluta Evrópu eða í fjallahéruðum Evrópu.

Það sem ég óttast er að menn eins og þið verðið til þess að þjóðin skiptist í 2 fylkingar í staðinn fyrir 3 fylkingar í dag. Í dag má segja að Samfylkingin ein flokka styðji aðild með litlum sem engum skilyrðum. Framsóknarflokkurinn styður hins vegar aðild með ströngum skilyrðum. Sjálfstæðisflokkurinn og VG eru eins og sakir standa andsnúnir ESB aðild.

Mín von er og var að Sjálfstæðisflokkurinn styðji svipaða lýðræðislega nálgun við þetta mál og Framsóknarflokkurinn gerði á landsfundi sínum.

Þrátt fyrir að VG hafi ekki opnað á ESB aðild er málið umdeilt innan þeirra raða, sbr. ummæli Guðfríðar Lilju á landsfundi VG núna um helgina. 

Það mun ráða úrslitum um kosningarnar í vor hvaða afgreiðslu umræða um ESB aðildarviðræður fær á landsfundinum í næstu viku og reyndar "uppgjörsskýrsla" endurreisnarnefndar flokksins. Samþykki flokkurinn ekki skilyrtar aðildarviðræður við ESB er ég ansi hræddur um að margir snúi baki við flokknum í komandi kosningum. Að auki eykst hætta á klofningi flokksins vegna þessara mála og annarra sem umdeild eru innan flokksins.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.3.2009 kl. 19:40

4 identicon

Bjarni !

Hvað er merkilegt við það að VG hafi aðra skoðun en þú vilt vegna ESB ?

Þú ert á móti ESB, og er það eitthvað merkilegt ?

L-listinn er á móti ESB, er það eitthvað merkilegt ?

Það sem er merkilegt, að þú skulir ekki skilja að það er til fólk sem hefur aðrar skoðanir en þú !

Bara til að hafa eitt á hreinu, auðvitað er það okkur fyrir bestu að ganga í ESB !

JR (IP-tala skráð) 22.3.2009 kl. 20:15

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Guðbjörn:

Í ötulli viðleyti þinni við að sverta gjaldmiðil þjóðarinnar, íslensku króuna, þá skrifaðir þú á blogg þínum að íslenska krónan væri fallin um meira en 100%. En allir sem hugsa smávegis vita að ekkert getur fallið um 100% án þess að verða að engu. Því treysti ég þér alls ekki yfir höfuð til þess að fjalla um þessi mál. Ég treysti heldur ekki hinum flokksbræðrum þínum sem hafa sömu skoðun og þú, því rök þeirra eru byggð á álíka fávisku og heimsku.

Það liggja allar staðreyndir á borðinu. Allir vita hvað þeir gagna að. Það er að segja þeir vita það í dag. En ESB í dag er ekki það sama og ESB á morgun. ESB sinnar eru alltaf að fara fram á það sem þeir kalla "skoða kosti og galla". En af hverju fer þessi umræða aldrei fram í þeim löndum sem nú þegar eru með í ESB. Af hverju tala þau aldrei um að skoða kosti og galla þess að segja sig úr ESB? Það er einfaldlega vegna eftirfarandi:

Það er ekki hægt að vita um kosti og galla fyrirfram. Því það tekur mörg mörg ár að læra að þekkja hvernig það er að láta draga úr sér tennurnar í tíu ára löngum tíma hjá tannlækni. En þegar þú kemur tannlaus út þá muntu ekki muna hvernig það var að hafa allar gömlu flugbeittu tennurnar í kjaftinum. Þú munt bara biðja mömmu um mjúka fæðu.

Þetta er alveg eins og Geir Haarde sagði: að það sé erfitt að kaupa hús sem maður hefur aldrei séð eða búið í.

Þegar 10 ára ferlinu inn í ESB verður lokið þá muntu komast að raun um að það ESB sem þú hélst að þú værir að ganga í, er þá orðið allt annað. ESB-sinnar munu þá segja þér að þetta hefði nú ekki átt að verða alveg svona, en að það sé orðið það samt, og þér er þá boðið að kjósa um það sem þú í upphafi hélst að myndi ekki ske, en sem núna samt er skeð. Þetta er svona eins og að fara yfir á tékkareikningi, þú segir bara við bankann að þú getir ekki borgað þennan yfirdrátt til baka og að bankinn verði því að hækka hann. Svona mun þér verða boðið að kjósa um það sem búið er að ske. Þetta er kallað að samþykkja yfirdráttinn.

Þetta er alltaf svona, hjá öllum löndum sem hafa gengið í ESB. Það er þessvegna sem það í raun er enginn meirihluti fyrir verkinu. Allir ganga nöldrandi inn í kosningabúrið og segja já við yfirdrættinum. Þetta er jú óskabarn embættismanna. Ekki fólksins.

Við könnumst öll við þetta. Dæmi úr daglegu lífi er t.d. þegar ríkisútgjöld fara fram úr áætlun en svo er "yfirdrátturinn" samþykkur með "nauði og nöldri" við næstu kosningar. Upp upp upp fara þau. En það er öllu verra þegar yfirdrátturinn sker undan lýðræðinu, dýrmætu sjálfstæðinu og hinu ómetanlega frelsi. Á endnaum þá er bara eitt að gera: að afhenda þeim eldspýturnar!

ESB er ekki gjaldmiðill og Ísland er ekki króna.

Það er einfaldlega FÖLSUN að halda því fram að evra sé GaldraPappír. Og enginn virðist ætla sér að ganga í neitt annað en í evru, sýnist mér. Allavega ekki þeir sjálfstæðismenn sem eru villuráfandi sauðir með Samfylkingareinkenni. Vinsamlegast ekki hugsa eins og að þú ætlir að ganga í vatnsþétt hólf inni í ESB. Ef þú gengur í ESB þá gengur þú í ESB - sem er svæði sem er verið að reyna að sameina í eitt ríki með einum forseta, einni löggjöf og einni stjórnarská. Þetta verður alger geðbilun og hræðilegt stórslys, sem í besta falli mun enda sem sameiginlegt gjaldþrot, og i versta falli borgarastyrjöld þar sem löndin fara að rífast um þrotabúið.

Núna er ESB alltaf að tapa. Alltaf að verða fátækara og fátækara miðað við sett markmið Lissabon 2000, og alltaf að verða fátækara miðað við Bandaríkin og miðað við Ísland.

Árangur ESB og Lissabon 2000 markmiðsins er núna þessi: (fyrir þá sem vita ekki hvað Lissabon 2000 markmið ESB er þá gengur það í stuttu máli út á að verða ríkasta og samkeppnishæfasta hagerfi heimsin árið 2010. Það eru því aðeins 2 ár þangað vil við hér í ESB verðum ríkust allra (brosa hér).

Þjóðartekjur á mann í ESB 2004 voru 18 árum á eftir tekjum í BNA

Þjóðartekjur á mann í ESB 2006 voru 21 árum á eftir tekjum í BNA

Þjóðartekjur á mann í ESB 2007 voru 22 árum á eftir tekjum í BNA

Framleiðni í ESB 2004 var 14 árum á eftir framleiðni BNA

Framleiðni í ESB 2006 var 17 árum á eftir framleiðni BNA

Framleiðni í ESB 2007 var 19 árum á eftir framleiðni BNA

Rannsóknir og þróun í ESB 2004 var 23 árum á eftir BNA

Rannsóknir og þróun í ESB 2006 var 28 árum á eftir BNA

Rannsóknir og þróun í ESB 2007 var 30 árum á eftir BNA

Atvinnuþáttaka í ESB er núna 11 til 28 árum á eftir BNA

Þetta villt þú færa þjóðinni og fá tíkall með gati í staðinn (gamla tíkallinn)

Þessutan þá er: Engin leið út úr evru aftur án þjóðfélags- og efnahagslegs sjálfsmorðs

Þú hefur ekki vit á þessu og þú ætlast svo til að þjóðin geti verið sérfræðingur í þessu. Viltu láta hana kjósa undan sér lýðræðið, frelsið og fullveldið í ógáti? - einungis af því að þið eruð kjánar. Það tek ég ekki í mál sem Íslendingur. Þú færð ekki að leika þér að fullfeldi Íslands.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 22.3.2009 kl. 20:23

6 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Guðbjörn. Sá sem er á móti einhverju berst á móti því að það nái fram að
ganga. Er það ekki hið eðlilegasta mál? Við sem erum ALFARIÐ á móti því að
Ísland gangi í ESB hljótum því að BERJAST GEGN slíkri aðild. Þar með aðildar-
umsókn. Og þar með aðildarviðræðum. Vegna þess að til að fara í aðildar-
viðræður þarf fyrst að sækja um aðild að ESB. Eða, sækir um um að vera
þáttakandi  í því  Guðbjörn sem þú ert ALFARIÐ á móti?  Sé svo, skil ég þig bara alls ekki!  Því miður!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 22.3.2009 kl. 20:43

7 identicon

Merkilegt að lesa þig Bjarni. Upphrópanir um ekki neitt. Lilja kom því skilmerkilega fram í ræðu sinni að hún teldi hagsmunum Íslands best borgið utan ESB. Það sem þú kýst að snúa út úr ræðunni var sá partur hennar sem snéri að því hvort aukinn meirihluta þyrfti í þjóðaratvæðagreiðslu til að ganga í ESB. Þetta er spurning um lýðræði ekki afstöðu til eins eða neins. Það er gott að eiga rökræðu Bjarni en þetta er ekkert slíkt - bara útúrsnúningar.

Þú hefðir allt eins getað birt samþykktar áherslur frá fundinum og komist að hinu gagnstæða:

"Stórákvarðanir á borð við aðild að ESB á að útkljá með þjóðaratkvæðagreiðslu að undangenginni upplýstri og lýðræðislegri umræðu. Afstaða Vinstri grænna er sú að hagsmunum Íslendinga sé best borgið utan ESB." (samþykkt 22. mars 2009)

Er þetta Evrópuflokkurinn mikli Bjarni? Eru hér gerðar einhverjar sérstakar breytingar á stefnu flokksins? Ef þig vantar málefni sem enginn er að nota þessa dagana þá verðuru að leita á öðrum stöðum en hér.

Síðan mætti spyrja fullveldisflokkinn hvort hann ætli að segja upp hafréttarsamningum og öðrum alþjóðasamningum sem hafa áhrif á fullveldi þjóðarinnar? Það er grátlegt að nota hugtak eins og fullveldi í lýðsskrumstilgangi.

En gangi þér vel - ég sá eftir þér af þingi. 

Grímur Atlason (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 00:11

8 identicon

Ég sem hélt að nýjir flokkar boðuðu nýja tíma, það er ekki gott að sjá að L-listinn er bara í nákvælega sama farinu og gömlu þreyttu flokkarnir.

Þið treystið ekki á lýðræði og á að þjóðin geti tekið ákvarðanir fyrir sig sjálf.  Þið eruð víst svo miklir sérfræðingar í ESB málum og örugglega flest öllu öðru.  Ef þetta verður ykkar sýn á hlutina þá vona ég að þið komið ekki einum einasta inn á þing.  Eru þið að stefna á einræðisherran eða?

Hélt einmitt að hugmyndin með búsáhaldarbyltingunni, með nýju framboðunum að við vildum sjá lýðræði og að við vildum að þjóðinn fengi að vera með í ráðum en ekki þetta endalausa ráðherra lýðræði!  

Ég mun ekki setja X við L og ég mun vara alla við því!

Takk fyrir að koma því á hreint fyrir mig!

Unnsteinn Jóhannsson (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 09:02

9 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Láttu ekki svona Bjarni.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.3.2009 kl. 09:56

10 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Svo bregðast krosstré sem önnur tré.Það er ljóst eð VG er fallið, þrátt fyrir yfirlýsingar Hjörleifs Guttormssonar um aðSamfylkingunni takist ekki að kúga VG. Eftir að komin verða lög um þjóðaratkvæði um tiltekin mál geta ESB sinnar beðið færis eftir hentugu tækifæri þar sem hægt væri að leggja samning sem ESB væri búið að samþykkja, fyrir þjóðina og fá hann samþykktan með einföldum meirihluta.Samfylkingin þegir nú um ESB.Það er skiljanlegt. Hugmyndin um að koma okkur inn í ESB skal gerð í myrkri.Áður hafði Samfylkingin kvartað yfir því að ekki mætti tala um ESB.Nú þegja þau sjálf.Þessar kosningar snúast um ESB fyrst og fremst og framtíð Íslensku þjóðarinnar.

Sigurgeir Jónsson, 23.3.2009 kl. 10:14

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Réttur til að hafa þjóðfána er hverri þjóð heilagur, táknar sjálfstæði þjóðarinnar, þótt  þjóðir geti átt þjóðfána þótt sjálfstæði þeirra sé takmarkað.Þegar farið er um Evrópusambandslöndi blaktir Evrópusambandsfáninn hvarvetna við hún samkvæmt reglum ESB til niðurlægingar þeim þjóðfána sem blaktir við hlið hans.Ef vilji ESB sinna nær fram að ganga þá mun ESB fáninn blakta yfir höfði Jóns Sigurðssonar 17. júni.Víð skulum koma í veg fyrir að það gerist

Sigurgeir Jónsson, 23.3.2009 kl. 10:33

12 identicon

Er ekki ráð að sameina Borgarahreyfinguna og L-listan, þá er smuga að þið komist á þing og getið barist þar gegn EBS aðild?

Palli (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 11:02

13 identicon

Er fólk að missa vitið hérna, fólk þarf að átta sig á því að innganga í ESB væri vitfirring, það er í átt að alþjóðavæðingunni sem er verið að mótmæla um allan heim og hefur ekkert gert nema hækkað verð á helstu matvælum og þjónustu.

 Þessari alþjóðavæðingu sem hefur verið mótmælt um allan heim, þó aðalega í þróunarlöndum, vegna þeirra eyðileggingarmátts sem að það hefur haft í för með sér.

 Viljum við virkilega verða meiri þrælar en við erum í dag.

Fólk talar um að ganga í ESB ef að við næðum að semja um fiskinn, en enginn talar um vatnið okkar og orkuna sem við eigum, eru menn búnir að gleyma því að við eigum svo miklu meira en bara fisk, tala nú ekki um olíuna sem er að leynast á drekasvæðinu.

Því miður er fólk greinilega ekki nógu frætt um þessi mál og mmæli ég þá með því rannsaka þetta mál aðeins betur, jafnvel horfa á nokkrar heimildarmyndir ef ekki gefst tími fyrir lestur, ég mæli með þessari mynd sem varpar svona góðri heildarsýn á þessi mál..

ENDGAME- ALEX JONES - Blueprint for Global Enslavement
hérna læt ég link svo fylgja með.   http://video.google.com/videoplay?docid=1070329053600562261
þessa mynd er hægt að horfa á frítt á netinu..
p.s. gangi þér vel frændi.. kv. Siggi Ben

Siggi Ben (IP-tala skráð) 23.3.2009 kl. 11:19

14 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Það er nefnilega heila málið Siggi Ben, fólk er ekki nógu vel upplýst.  Það er nefnilega meira en fiskurinn ,, okkar,,  sem skiptir máli.  Það er t.d. að verða vatnsskortur í heiminum.  Erlendir aðilar eru þegar farnir að sækjast í að kaupa orkuna okkar, það minnist enginn á þetta í fjölmiðlum, nema þá bara á þann veg að þessir erlendu aðilar vilja kaupa orkuna okkar.  Já og ekki bíð ég í það, ef það skyldi nú vera nóg olía á Drekasvæðinu, að missa hana líka ásamt öllum hinum auðlindunum okkar með inngöngu í ESB, því það yrði raunin á endanum með ESB aðild.  Ég skil ekki heldur hvað flokkarnir eru að hugsa, nú allt í einu korteri fyrir kosningar þá tala þeir orðið allir eins, um aðild að ESB, láta kjósa um það o.s. frv.  meira segja kommarnir eru að missa sig í umræðum um ESB aðild. Er þetta fólk svona tapsárt, að þeir geti ekki horfst í augu við það að koma ekki nógu vel út úr næstu kosningum.  Og þá er um að gera að tala á móti sinni eigin sannfæringu og selja sig fyrir ESB. VG minna mig pínu mikið á Framsókn, selja sig fyrir völdin.

Við L -lista fólk  þorum,getum og viljum ! Segjum það sem skiptir mestu máli fyrir þjóðina okkar og stöndum við það. Verjum sjálfstæðið okkar, EKKI ESB.

Áfram L - LISTINN - listi FULLVELDISSINNA.  

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 23.3.2009 kl. 12:12

15 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Nú nú.  Altaf batnar það.

Ætlar ESB líka að "stela vatninu okkar"

Það á ekki af okkur að ganga.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.3.2009 kl. 12:46

16 Smámynd: Héðinn Björnsson

Við munum kjósa um ESB aftur og aftur þar til við fyrst förum inn og síðan út aftur og verðum í kjölfarið útskúfuð frá Evrópusambandinu. Þetta gerir reglubreytingin um að fólk geti krafist kosninga um málefni sem það vill ef það safnar undirskriftum 15% af kosningarfærum einstaklingum sem mun verða niðurstaða stjórnlagaþingsins sem verður hérna í haust.

Héðinn Björnsson, 23.3.2009 kl. 18:33

17 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Pólitíska landslagið á Íslandi er breytt og er að breytast!

Þeir sem vilja félagshyggju til vinstri og ESB veljum VG!  Þar er traustið.

Þeir sem vilja nýfrjálshyggju og ESB velja D! Ég treysti þeim ekki.

Þeir sem vilja jafnaðarmennsku g ESB velja SF. ÉG á bágt með að treysta þeim.

Þeir sem vilja ekki ESB, kjósa xL...ekki spurning. ÉG treysti þeim.

Þeir sem vilja Ástþór....???

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 23.3.2009 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband