Kjarkur til sparsemi og kiðfættir vinstrimenn

Mörg undanfarin ár hefur þjóðin verið á eyðslufylleríi og hið opinbera hefur þar gengið á undan. Nú þegar harðnar á dalnum er aðalleið ríkisins út úr vandanum að auka skatta. Það eru kiðfættir og klaufalegir ráðherrar sem nú stautast um án þess að þora öðru en að skattpína. 

Ríkisvaldið ætlar áfram að ganga á undan með eyðslu og flottræfilshætti og skírasta dæmið þar um eru fyrirætlanir um að klára hið forkostulega tónlistarhús við höfnina. Fyrir brot af þeim peningi sem kostar að klára þá fordild mætti reisa fullt nógu stóra, fábrotinn en notadrjúgann tónlistarsal sem byggði á fjórum veggjum og þaki.

En það er ekki bara fordildin í tónlistarfólki sem má skera utan af nú þegar að kreppir. Hvarvetna sjáum við bruðl í rekstri sveitarfélaga sem reisa skólahús margfalt dýrari en þyrfti, leikskólar sem fyrir fáeinum árum gátu húsast í venjulegum húsakynnum eru nú tífaldir að verðlagi við íbúðarhús sem þó eru engir kofar á Íslandi. Í nútíma skólastofum sitja grunnskólabörn á snúanlegum skrifborðsstólum eins og þeim sem við systkinin öngluðum saman í handa karli föður okkar sextugum fyrir nokkrum árum af því að við héldum honum það hollt fyrir bakið, gömlum manninum.

Ríkið hagar sér ekkert betur í þjónustu sinni og byggir frekar 100 milljón króna hús fyrir fjóra á fjörtíu manna biðlista fatlaðra frekar en að  sinna öllum og byggja ódýrt. Eins manns sjúkrahúsherbergin eru vitleysa af sama meiði.

Verst er þó bruðl Íslendinga þegar kemur að samgöngumálum og þegar kreppan reið yfir fyrir tæpu ári síðan var enn lag að stöðva fjölmargar óþarfar framkvæmdir. Ég ætla að taka hér til dæmis nokkur verk sem eru í gangi hér í nágrenni Selfoss og ég þekki ágætlega til. Framkvæmdir sem má réttlæta í góðæri en sjálfsagt að slá á frest í harðæri. Þar má nefna Bakkafjöruhöfn sem ólíkt ódýrara væri að leysa með hraðskreiðari ferju til Þorlákshafnar, Suðurstrandarveg  sem tengir saman Grindavík og Þorlákshöfn og er ferðamannaleið sem nægilegt væri að sleikja malbiki ofan á gamla Ögmundarhraunsveginn í bili, Bræðratungubrúna sem engu mun breyta um megin samgönguleiðir í uppsveitum Árnessýslu en er þægilegur lúxus fyrir ferðamennsku og atvinnusókn Tungnamanna yfir í Gullhreppinn. Það fjórða sem var dæmafátt kjarkleysi hjá samgönguráðherra að skera ekki niður er fjórföldun á Suðurlandsvegi yfir Hellisheiði þar sem talsvert gagn gerir að gera veginn bara þríbreiðan að sinni og slá þá um leið á frest nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss.

Það sem okkur vantar er stjórnmálamenn og flokkar sem þora að boða sparsemi og aðhald. Öðru vísi komumst við aldrei í gegnum þann skafl sem fram undan er...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mæltu manna heilastur Bjarni,þetta er hárrétt þetta bruðl á sparnaðartímum er ekki hægt lengur,menn verð að forgangsraða betur og gera það  nauðsinnilegasta/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 28.6.2009 kl. 22:23

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Góður pistill Bjarni, ég vissi ekki að það væru orðnir svona magnaðir skrifborðsstólar í skólunum þó svo að ég hafi tekið eftir því að ytra útlit þeirra nálgast útlit óperuhússins í Sidney ískyggilega hratt. 

Þarf ekki að setja upp meðferðarstofnun að hætti SÁÁ til að gera Alþingi eftirfarandi ljóst?

Skuldsetning er veikleiki okkar.  Við þjáumst af andlegum flækjum og reynum að flýja þær með því að drekkja vandræðum okkar í lántökum.  Við reynum að ýta raunveruleika lífsins frá okkur með því að öðlast lánstraust.  En skuldsetningin fæðir ekki, klæðir ekki né hýsir; hún slær aðeins lán út á framtíðina og eyðileggur okkur að lokum.  Við reynum að kaffæra tilfinningar okkar til að flýja raunveruleikann án þess að gera okkur grein fyrir né hafa áhyggjur af því að áframhaldandi skuldsetning mun margfaldar vandamálin. 

Magnús Sigurðsson, 28.6.2009 kl. 23:11

3 identicon

Góður pistill hjá þér Bjarni eins og vanalega! Því miður stóð RÁNFUGLINN aldrei fyrir því að skera niður ríkisútgjöld þó svo að XD lýsi því ávalt yfir að það sé þeirra stefna! Undir handleiðslu XD hefur ríkið bara þannist út - BILUN - segi & skrifa "bilun...:)". Hjartanlega sammála þínum loka orðum: "Það sem okkur vantar er stjórnmálamenn og flokkar sem þora að boða sparsemi og aðhald. Öðru vísi komumst við aldrei í gegnum þann skafl sem fram undan er..."

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 00:11

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Allt satt og rétt Bjarni, og stórþörf umræða sannarlega.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 29.6.2009 kl. 00:47

5 Smámynd: Haraldur Baldursson

...vonandi endar þetta ekki með niðurskurði eingöngu á suðurlandi...

Haraldur Baldursson, 29.6.2009 kl. 10:18

6 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Eftir heimakstur frá vinnu í Fljótsdalnum um helgina get ég nú ekki verið sammála þér með Suðurlandsveginn þó öðru í greininni sé ég að mestu sammála.

Flöskuhálsarnir eru minnst þrír á þessari leið og þeirra verstur er þrengingin þar sem vegurinn verður aftur 1+1 við Þorlákshafnarafleggjarann. Hinir eru hringtorgin.

Hitt er svo annað mál að mér finnst þessi ríkisstjórn vera nánast jafn dáðlaus og ríkisstjórn Geirs. Skjaldborgin margumrædda virðist vera orðin skjaldborgin um bankana og lífeyrissjóðina en ekki fyrirtækin og heimilin. Svo væri óskandi að þessi evrópuumræða fengi að bíða rétt á meðan verið er að vinna í rústunum.

Ævar Rafn Kjartansson, 29.6.2009 kl. 14:14

7 Smámynd: Jón Á Grétarsson

Góður pistill Bjarni. Sammála öllu nema með Suðurlandsveginn.  Mér finnst að það ætti að fjórfalda hann upp að Þorlákshafnarafleggjaranum, annað getur beðið.  Svo er líka nauðsynlegt að gera aðreinar og fráreinar á leiðinni milli Hveragerðis og Selfoss.

En okkur vanntar svo sannarlega stjórnmálamenn sem þora.

Jón Á Grétarsson, 29.6.2009 kl. 19:50

8 identicon

well,well

Halli ungi (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 19:51

9 Smámynd: Haraldur Baldursson

Bjarni á ferð minni frá Hellu, með viðkomu í frábærri bókaverslun þinni á Selfossi, náði ég að lulla með öllum hinum á leiðina í borgina. Mér var hugsað til þess að etv. nægði að tvöfalda leiðina í bæinn og annað slagið að bjóða upp á 1-->2 fyrir framúraksturs-glaða í austurátt. En öryggið mælist best með 2x2 alla leið. Með allri leið á ég reyndar við Reykjavík Selfoss. Það eru gríðarlegar fórnir sem færðar eru í mannslífum með núverandi vegi.

Haraldur Baldursson, 29.6.2009 kl. 19:56

10 identicon

Test

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 20:07

11 Smámynd: Bjarni Harðarson

nú eru hreppsnefndarmennirnir farnir að tosast um vegaféð og mikið get eg skilið sveitunga mína að þeim svíði að sjá vaðlaheiðargögn sett framar en hellisheiðarveg,- auðvitað á að fresta þeirri framkvæmd alveg fram í það að við komust í álnir á ný. þeim rökum er reyndar gjarnan beitt að koma verði í veg fyrir atvinnuleysi verkamanna og verkfræðinga með meiri nýframkvæmdum,- það er afar óhagkvæm atvinnubótavinna. nær er þá að ráðast í frekara viðhald húseigna á vegum ríkis og sveitarfélaga sem er ekki síður mannaflsfrekst en að tiltölu ódýrt

Bjarni Harðarson, 30.6.2009 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband