Á skrollinu I: Var vitleysan fundin upp á Ölfusárbökkum?

(Stafsetning og prófarkalestur tekur mið af því að pistill þessi er ekki ætlaður til prentunar heldur var handrit að útvarpsfyrirlestri á útvarpinu  Suðurland FM963, http://963.is/

Ágætu hlustendur að Útvarpi Suðurlands

Þetta er Bjarni Harðarson með vikulegan þátt sinn, Á skrollinu.

Ég hefi verið beðinn af ágætum útvarpsstjóra Einari Björnssyni að hafa hér uppi vikulega pistla um landsins gagn og nauðsynjar hvert gagn sem landi voru verður af því veit ég ekki. En það er illa hægt að byrja pistlagöngu, ég ætlaði ekki að segja píslargöngu ef einhverjum heyrðist það, heldur göngu með pistla sem hér eru bornir í hvert hús með öldum ljósvakans og hlutverk mitt að verða ekki ósvipað Jóhannesar Birkilands sem í eina tíð bjó hér í Hveragerði eins og ég gerði líka ungur og seldi litla bæklinga þó salan væri treg en já það sem ég vildi sagt hafa, það er illa hægt að byrja þessa píslargöngu öðru vísi en að tala um það hvað fór úrskeiðis hér á Íslandi svo mjög að nú hryllir okkur við þeim gömlu spakmælum að orðstír deyi aldregi því ekki er orðspor okkar sem best á erlendri grund þessa dagana. Það ku fylgja sumsstaðar því vorkunnlátt fliss að kynna sig sem Íslending en jafnvel til þær sóknir útanlands þar sem samlandar okkar eru taldir hinir verstu menn.

 

En hvenær byrjaði sá oflátungsháttur sem endaði þar sem við erum í dag. Stundum óma mér fyrir höfði varnaðarorð Halldórs Kristjanssonar og annarra stórtemplara sem héldu því á sínum tíma fram að ef bjór yrði leyfður á Íslandi liðu ekki nema í hæsta lagi tveir þrír áratugir að allt yrði hér komið til helvítis. Og hvar erum við nú?

En þetta er vitaskuld aulafyndni. Bjórbannið var eins og margt annað fyndið ekki annað en úturboruháttur og tilviljun ein sem ræður því að bölbænir templara bitna nú svo harkalega á oss. En auðvitað er aulafyndni best hjálparmeðal til að útskýra það sem maður ekki skilur. Þannig skrifaði ungur maður af Lækjarbotnaætt, Ólafur Arnarson Klásen bók á liðnum vetri sem hét sofandi að feigðarósi og rökstuddi þar í löngu máli að fyrst og fremst hefði Ísland farið koll vegna geðstirðleika Davíðs Oddssonar. Tilgreinir jafnvel dæmi þar um þar sem hinn skapstirði stjórnmálaleiðtogi á að hafa brotið stól og lamið í borð máli sínu til sönnunar en sleppir alveg að geta um eigin þátttöku í ævintýri voru. Ólafur þessi var lengstum húskarl hjá þeim félögum Sigurði Einarssyni frá Miðey í Landeyjum og seinna við uppáskrift skuldaviðurkenninga í fyrirtæki því sem heitir Landic propertí og var í öðrum sóknum en það fyrirtæki átti Jón Ásgeir sem afkastamestur hefur verið allra manna við að skuldsetja íslenska þjóð.

Mig svimar við milljón, sagði einn af landsfeðrum vorum fyrir 100 árum og það er ekkert nýtt undir sólinni því flesta okkar svimar við ef við í verunni reynum að draga upp fyrir okkur þær upphæðir gulldúkata og krónupeninga sem fjallað er um í fréttum af íslenska hruninu. Samt er því haldið fram að það sé undirstöðuatriði til að skilja allt saman að hafa tölur þessar á hraðbergi. Ég sjálfur held að það sé reyndar skrök og nær sé okkur Flóamönnum að muna ögn af okkar eigin sögu til að skilja hvað gerðist í henni Reykjavík. Ef við hefðum haldið þeirri sögu til haga þá er aldrei að vita nema við hefðum getað sagt þeim eitthvað til fyrir sunnan.

Nú kann einhverjum þykja skörin færast upp á bekkinn og síldfiskarnir halda sig laxa. En tilfellið er hér í okkar litla hagkerfi Flóans fengum við skólabókardæmi um fíflaskap mikilmennskunnar nokkrum árum áður en samskonar fíflaskapur rann á allt atvinnulíf landsins. Ég er að tala um það tímabil þegar Sigurði Kristjánssyni var vísað frá Kaupfélagi Árnesinga, nýir menn komu þar til sögunnar og breyttu 60 ára gömlu félagi í einskonar vogunarsjóð og fjárfestingarfyrirtæki. Þetta var laust upp úr 1990 og Kaupfélag Árnesinga nýbúið að gefa út sögu sína í nískulegum búningi eins og allt var hjá þessu kaupfélagi fram til þess dags. Skyndilega komu nýir tímar. Sparðatíningur rekstrarhagnaðar einstakra deilda var orðinn að aukaatriði og allt í einu skipti mestu að ná fram arðsemi með því að breyta til í rekstrinum. Að breyta varð lausnarorð dagsins.

 

Þessi síðustu ár aldarinnar var allt á ferð og flugi á skrifstofum KÁ. Rekstrardeildir voru seldar, aðrar keyptar og í fyrsta sinn í mörg ár fór Kaupfélagið að skila verulegum hagnaði, birtar voru flennifréttir um viðsnúninginn. Gríðarlegan árangur í ársreikningstölum og fyrirtækið sem var áður allt í öllu í verslun og iðnaði ákvað að einbeita sér að ákveðnum sviðum og keypti þessvegna farfuglaheimili og íssjoppur. Hélt blaðamannafundi um nýtt remolaði á hamborgarana í Fossnesti og losaði sig við fasteignir með góðu eða illu. Allt í nafni hagræðingar. Okkur sem var ætlað að skrifa um þetta í héraðsblöð eða aðra miðla hálfvegis svimaði og vorum líka bljúgir þegar við sáum hvað auglýsingaflæðið fór vaxandi. Þetta var nú annað en nánasarhátturinn hjá honum gamla Fáfnisbana.

Öðru hvoru rifjaðist upp fyrir mér í þessu öllu að hafa tekið viðtal 10 árum fyrr við refabónda upp í sveitum sem sagði það arðsama vinnu að byggja sér refahús. Jú, sagði hann og hló í skeggið. Ég tek lán fyrir öllu, líka smíðislaununum og smíða svo sjálfur. Þá breytti kannski litlu hvað refirnir gáfu af sér skornir ef alltaf mátti fá sér nýjan skála. Hagfræði nýja kaupfélagsins okkar minnti svoldið á þennan refabónda. Eitt árið var Kaupfélag Vestmannaeyja keypt, annað árið Kaupfélag Skaftfellinga, svo Kaupfélag Rangæinga og loks Kaupfélagið Höfn. Mig minnir þetta hafa verið í þessari röð. Með því að vera alltaf að kaupa og alltaf að selja skiptu afkomutölur af reglulegri starfssemi svo sem búðarhokri sáralitlu máli. Það sem taldi var ekki hvaða aura þessar gömlu kellingar á kössunum stimpluðu inn heldur stórtölurnar sem voru bakvið stórbísnesinn sem stundaður var á loftinu yfir sömu kellingum. En úr því að farið var að tala um kellingar og breytingar þá rann það líka upp fyrir kaupfélagsmönnum þessa tíma að það voru óttarlegar hrukkur sem sátu þarna niðri og höfðu setið lengi. Þeim var því góðfúslega bent á að nú væru komnar nýjar hillur og nýir kassar og þá væri ekki annað eftir en að fá yngri stúlkur á kassana. Og það var gert án þess að það svo mikið sem möglaði í nokkrum í stjórninni og kannski voru menn bara fengastir því þar að ekki þyrfti líka að yngja upp við háborðið. En hvað þetta var annars allt fallegt og dásamlegt.

Og það komu á hverjum degi nýjar hugmyndir að rekstrarplönum og verkefnum þannig að þó að það sem bollalagt var að skila ætti milljónum á morgun gerði það ekki tók enginn eftir því því þegar sá morgundagur loks rann upp var búið að selja þá kúna, leiða nýja í fjósið og taka grunn að bíóhúsi undir Ölfusárbotni, kaupa rándýrt símkerfi vestan af fjörðum og fjárfesta í refaskála. Man ekki hvort kaupfélagsmennirnir voru sjálfir við að smíða þá en vísast hefðu þeir gert það ef ekki hefði verið seld og horfin byggingavörudeildin.

Já og meðan einhver man, búðarholurnar sem voru nú bara til leiðinda voru seldar. Svo allt í einu var ekkert eftir, ekkert utan eitt vörubretti af Sögu Kaupfélagsins í svörtu sálmabókarbandi. Allt annað var horfið og týnt, farið veg allra vega. Mest af því að misvitrir, já afar misvitrir menn seldu frá sér mjólkurkúna og heldu að það væri endalaust hægt að lifa á að braska með sama stóðhestinn aftur og aftur. Kaupfélagið gufaði upp og eftir varð minning um eitthvað sem hafði grætt milljónir af pappírspeningum sem aldrei reyndust svo til.

Minnir þetta á eitthvað.

Nú þegar útrásarbyltingin stendur í sama flórnum dettur mér stundum í hug að það hafi verið feill að kjósa ekki kaupfélagsstjórann á þing á þessum tíma þegar hann vildi það sjálfur. Hann hafði altjent reynsluna.

Já, útrásarbyltingin var eftiröpun þess sem gerðist á Selfossi og var þá vitleysan fundin upp hér á Ölfusárbökkum. Ekki alveg. Svona loftfimleikar í bísines hafa verið stundaðir alla tíð og síst frekar í Flóanum en annarsstaðar. Líklega var Einar blessaður Benediktsson stórskáld og athafnamaður frumkvöðull í þeirri vitleysu að ætla peningum að vinna án þess að vera nokkuð við hendi fast.

Og rétt eins og Einar þá voru strákarnir okkar, Siggi Einars sem var ættaður úr Landeyjunum, Sandararnir Björgúlfsfeðgar, Bónusfeðgar sem voru eiginlega ættaðir úr Sláturfélaginu og allir hinir, allt saman bara strákar eins og við hinir og ætluðu sér aldrei nema gott eitt en misstu fótanna. Eðlilegast væri að við létum reiði okkar bitna á öðrum en þeim persónulega en sú skjaldborg sem stjórnmálaflokkarnir hafa slegið um þessa menn gerir þeim illt ástand verra. Í stað þess að þeim sé refsað af þartilbærum yfirvöldum, settir í gæsluvarðhald þar sem þess þarf, kyrrsettar fyrir þeim eignir þar sem þess þarf og þeim haldið við að svara fyrir endileysuna sem þeir leiddu okkur öll út í þá hafa talsmenn flokkanna staðið saman um að slá um menn þessa skjaldborg, - kallað upp seint og snemma að ekki megi nú viðhafa nornaveiðar. Afleiðingin verða einmitt nornaveiðar því af öllu þessu kemur það að almenningur hlýtur að reiðast þessum mönnum, sem spranga um glaðbeittir, kaupa sjónvarp í gær, súkkulaðiverksmiðju í dag og opna nýtt magasín í Færeyjum eins og þeir séu enn sá sómi lands, sverð og skjöldur sem þeir illu heilli þóttust vera á óðæristímanum miðjum. Um þetta og fleira því tengt ætla ég að fjalla í næsta pistli en mig langar til að enda þetta skraf með því að gefa ungum skólabörnum í Afríku orðið þar sem þau sungu fyrir mig og segulbandstækið mitt sinn mannréttindasöng og sannast þar að hjörtunum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.

  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband