Hráskinnaleikur í Icesavemáli

Icesave umræðan er komin í skelfilega heimskuleg hjólför. Í stað þess að tekist sé á um það hvort við eigum að borga eða ekki borga snýst umræðan í vaxandi mæli um það hvort nauðungasamningarnir við  Breta og Hollendinga séu nógu góðir. Eins og nauðungasamningar séu einhverntíma góðir.

Það er alveg kýrskýrt að íslenska ríkið ber ekki lagaleg skylda til að greiða einkaskuldir Björgólfanna og ekki heldur siðferðilega. Ef við borgum er það alltaf af því að við erum beittir óréttlátri nauðung. Þegar Bretar reyna að klína slíku á okkur er rétt að við rifjum upp hvernig kónar þess heimsveldis hafa vaðið yfir þjóðlönd á skítugum skónum án þess að breska krúnan hafi látið sér detta í hug að bæta nokkurn tíma nokkrum nokkuð sem þannig hefur verið afrekað.

Sjálfstæðisflokkurinn leikur þann hráskinnaleik að tala upp í eyrun á fólki í þessu Icesave-máli en vill samt halda þeim dyrum opnum að flokkurinn sé til í að semja um að borga. Þetta er hálfómerkilegur popúlismi og ég get ekki betur heyrt en INDEFENCE taki nú undir þennan söng með því að tala um að það eigi að borga og eigi að semja í stað þess að halda sig við grjótharða andstöðu við greiðsluskyldi Íslands.

Afstaða Sjálfstæðisflokksins er merki um að flokkurinn vill framar öllu halda opnum dyrum í hjónasæng Samfylkingarinnar ef og þegar VG hrökkva endanlega úr þeim standinum að hlýða krötunum.

Og kratarnir hennar Jóhönnu, kannski allir nema hún sjálf, yrðu því fegnastir ef stjórnin springi og þeir gætu alltaf efnt til hjónabands við íhaldið því þar með væri komin staða til þess að keyra alla leið með ESB málið. Eins og stendur fer ESB aldrei í gegnum þjóðaratkvæði með meginið af íhaldinu og framsókn á móti og ekki nema brot af VG með. Ef íhaldið fær að fara í stjórnarsængina má aftur á móti búast við að meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokksins og stærstur hluti kjósendanna þar á bæ líka verði fjarska ESB sinnaðir.

Við skulum ekkert láta okkur detta í hug sú endileysa að það finnist einhver 63:0 niðurstaða í Icesave,- þ.e. að allir flokkar verði sammála. Til þess er refsháttur stjórnmálanna of mikill en ég vara þjóðholla vinstri menn við því að stuðla óvart að því að núverandi ríkisstjórn springi. Það mun einfaldlega þýða enn verri stöðu bæði í Icesave og ESB málum.

Þrátt fyrir allt treysti ég Steingrími J. betur en Bjarna Ben. til að standa vörð um hagsmuni Íslands!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Sverrisson

Þetta er ekki einfalt mál Bjarni. Auðvitað erum við beittir ofríki.  Við hefðum ekki getað komið fram við Breta með sama hætti ef hlutunum hefði verið öfugt farið.  Við höfum tvær leiðir, að lúffa eða berjast. Ég er eiginlega komin á þá skoðun að við verðum að berjast.  En til þess þurfum við pólitískan leiðtoga og hann höfum við ekki.  Það vantar einhvern eins og Jón Sigurðsson eða Jóhannes Paturson langafa minn í Færeyjum.

Það er ráðsist á okkur af þvi við erum litlir og við erum ekki lengur besti vinur Aðals eins og hér á árum áður þegar Kanarnir hjálpuðu okkur að vinna þorskastríðið. Án þeirra atbeina værum við í mesta lagi með 12 mílur í dag.  Núna þurfum við að standa á eingin fótum og höfum eiginlega ekki áttað okkur á því.

Þorsteinn Sverrisson, 13.8.2009 kl. 21:51

2 identicon

Eru ekki núverandi og fyrrverandi framsóknarmenn of staðfastir í mýrinni?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 21:57

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Mæl þú manna heilastur Bjarni. Það þarf að fara að biðja fyrir þessari ríkisstjórn svo hún haldi,, okkur frá ESB. Frábær skrif bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 13.8.2009 kl. 21:59

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég hef auðvitað miklu meira álit á Steingrími en Bjarna enda er Steingrímur pólitíkus en Bjarni er hagsmunagæslumaður. Vona bara að Steingrímur hafi vit á að eyðileggja ekki trúverðugleika sinn meira en orðið er vegna samstarfs í ríkisstjórn. 

Árni Gunnarsson, 13.8.2009 kl. 22:10

5 identicon

,,Það er alveg kýrskýrt að íslenska ríkið ber ekki lagaleg skylda til að greiða einkaskuldir Björgólfanna og ekki heldur siðferðilega."

 Ertu allt í einu að fatta það að eigendur og stjórnendur gamla Landsbankans eru þeir sem eiga að borga ICESAVE ?

Hvers vegna reynir þú ekki að fá þetta fólk til að axla sína ábyrgð ?

Er það vegna hagsmunatengsla við þetta fólk ?

Auðvitað á fyrir löngu að vera búið að sækja þetta ICESAVE lið og láta það borga það sem því ber !

Þetta er fólkið sem ber ábyrgð á ICESAVE : Bjórgúlfur Thor, Björgúlfur Guðmundsson, Kjartan Gunnarsson, Svafa Grönfeldt , Þorgeir Baldursson, Þór Kristjánsson, Halldór Kristjánsson og Sigurjón Árnason !

Bjarni !

Eigum við ekki að ná í þetta fólk ?

JR (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 22:35

6 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Sæll Bjarni

Ég hef enga trú á því að ríkisstjórnin falli vegna Icesave. Það er einfaldlega hræðsluáróður. Bæði framsókn og Borgarahreyfingin hafa heitið því að verja ríkissjórnina. Ég hef fulla trú á því að það standi.

Ég hef enga trú á því að sjáfstæðisflokkurinn þori að taka þátt í ríkisstjórn á næstunni. Það yrði allt vitlaust.

Samfylkingin er að nota þetta tromp um fall vinstri stjórnarinnar til þess að troða Icesave ofan í kok á þjóðinni.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 14.8.2009 kl. 00:06

7 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Sæll bóksali góður, því miður ferð þú með fleypur. Þú ættir að lesa grein Sigurðar Líndal í dag. Það er eins og þingheimur hafi skyndilega áttað sig á þessari stöðu málsins. 

,,Í rauninni snýst málið hvorki um góða Íslendinga né vonda útlendinga, heldur regluverk ESB. Þegar hallaði undan fæti í efnahagsmálum vegna hinnar alþjóðlegu lánsfjárkreppu, sem gengið hefur yfir nálæg lönd, kom í ljós að regluverk ESB var svo gallað að tvísýnt þótti að það stæðist þá skoðun sem fylgdi dómsmeðferð í málum Íslendinga gagnvart Bretlandi og Hollandi”. (Sigurður Líndal Fréttabl 13. 8 2009)

  • Það má vel vera að regluverkið standist ekki einhverja skoðun, en ég hef ekki vit á því. En þetta er regluverk sem farið er eftir innan ESB, því miður. Þeir ESB-aðilar túlka það eins og þeim hentar enda er þetta þeirra regluverk og þeir láta ekki utan að komandi aðila stjórna því hvernig þeir, sem eru í þessu ríkjabandalagi túlka sín eigin regluverk.
  • Ísland er utan að komandi aðili sem hefur valið sér það sjálft, að sleikja afturendann á ESB. Ísland sem ríki hefur kosið að vera í EES og stjórnmálamenn úr öllum flokkum nema VG hafa á undanförnum árum básúnað það við hvert tækifæri, hvað Ísland er heppið og hefur hagnast af tilveru sinni í EES.

Kristbjörn Árnason, 14.8.2009 kl. 00:09

8 identicon

Árni Gunnarsson sagði það sem ég vildi sagt hafa, en annars takk fyrir þennan pistil.

(IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 00:44

9 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Setti þetta inn hjá

Gísla Balvinssyni

mín von er, að þessir sem vilja undir erlent vald verði refsað grimmilega í næstu kosningum, sem ég tel ekki langt undan.

Það er þjóðarböl, hversu mjög hefur safnast að Alþingi snefilmenni og veifaskjattar, þeirra eftirmæli í ritaðri sögu framtíðar verður staða þjóðníðinga.

Gamalmennið hún Jóhanna ljær nafn sitt við samsuðu jafnvel ekki henni bjóðandi.

 Vonandi vaxa hreðjar á framtíðar íslendinga og við náum að hreinsa stóla Alþingis af viðlíka liði og áður vildu ljá Noregskonungum eyjar fyrir Norðurlandi.

Sama ræður gerðum manna nú og þá. 

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 14.8.2009 kl. 00:41

Bjarni Kjartansson, 14.8.2009 kl. 01:05

10 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Samkvæmt frétt MBL núna eru Jóka og Grímsi búin að kúga sitt lið til hlýðni og við verðum ásamt afkomendum okkar seld í ánauð til Brüssel.

Ekki breið samstaða um fyrirvara

Ísleifur Gíslason, 14.8.2009 kl. 01:51

11 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Fréttin á MBL er hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/08/14/ekki_breid_samstada_um_fyrirvara/

ÁFRAM ÍSLAND
NEI við ESB  -  NEI við Icesave

Styðjum Samtök Fullveldissinna
http://www.fullvalda.is

http://l-listinn.blog.is/blog/l-listinn/

Ísleifur Gíslason, 14.8.2009 kl. 01:54

12 Smámynd: Ísleifur Gíslason

Samkvæmt frétt MBL núna eru Jóka og Grímsi búin að kúga sitt lið til hlýðni og við verðum ásamt afkomendum okkar seld í ánauð til Brüssel.

Ekki breið samstaða um fyrirvara MBL frétt

ÁFRAM ÍSLAND
NEI við ESB  -  NEI við Icesave

Styðjum Samtök Fullveldissinna
http://www.fullvalda.is

http://l-listinn.blog.is/blog/l-listinn/

Ísleifur Gíslason, 14.8.2009 kl. 01:58

13 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Mér finnst þú alveg úti á þekju í þessari umræðu Bjarni minn. Þú gerir athugasemd við það að umræðan skuli ekki snúast um það hvort við borgum þessar skuldir eða ekki(væntanlega af því að þú vilt ekki að við borgum) en treystir samt manna best Steingrími J. Sigfússyni til þess að gæta hagsmuna Íslands. Er það ekki maðurinn sem að gerði þennan samning? Eins og ég skil málflutning Sjálfstæðismann og Framsóknarmanna þá eru þeir tilbúnir til þess að borga en með þeim fyrirvörum þó að þetta setji okkur ekki á hausinn með hámarki sem að er viðmið AGS. Eru það ekki hagsmunir Íslands? Eru þá ekki Höskuldur, Bjarni Ben. og allir hinir að gæta hagsmuna Íslands með því að vilja tryggja það að landið verði ekki gjaldþrota? En í þínum augum er það merki um populisma.

Eins og ég skil málflutning Samfylkingarinnar og VG í málinu þá treysta þeir því að hagspárnar klikki ekki, að gengi krónunnar verði ekki mikið lakara en það er en umfram allt að u.þ.b. 75% af eignum Landsbankans í Bretlandi komist í verð. Að rýrnunin verði ekki meiri en 25%. Þetta er svona svipað og þeim skelfilega hugsunarhætti okkar Íslendinga, þetta reddast bara. En ef það gerist ekki? Þá er ekkert þak á skuldbindingunum, ríkissjóður mun þurfa að borga rest hvort sem að hann á fyrir því eða ekki og engin leið að taka upp samningana að nýju.

Í raun er alveg fáránlegt að nú, áður en eignum gamla Landsbankans er komið í verð sé samningur upp á borðum. Viljayfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði átt að duga Bretum og Hollendingum þangað til að vitað væri hverjar heimturnar yrðu. Hver hefði þá verið staðan? Jú þá hefðu menn getað séð hvað stæði út af borðinu og hver greiðslugeta okkar Íslendinga væri. Að samþykkja samning núna, án þess að hafa nokkra hugmynd um það hvað lánið verður hátt, né heldur hver greiðslugeta okkar Íslendinga er er bara alveg út í hött. Þú myndir aldrei fara í banka taka x stórt lán og geta borgað y mikla upphæð á mánuði. Meira að segja Íslendingur er ekki svo heimskur.

En hvað breyttist? Ætli afstaða Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna hafi breyst? Nei það finnst mér mjög ólíklegt. Ætli það sé ekki það að það hafi tekist að snúa upp á hendurnar á þeim þremur þingmönnum VG sem að veittu málinu andstöðu, og þá hafi þessi meirihluti nýtt tækifærið og ekki þurft á stjórnarandstöðunni að halda. Jú við erum komin með meirihluta í málinu, meira þarf ekki. Til hvers að samþykkja málið með fyrirvörum sem að koma í veg fyrir gjaldþrot landsins þegar við getum sleppt því. Auðvitað má ekki ýfa aðeins stélfjaðrirnar á þeim háu herrum í Hollandi og Bretlandi svo að ég tali nú ekki um Brussel. Ætli ESB hangi ekki á spýtunni sem að skýrir þína afstöðu sjálfur Evrópusambandssinnin. Jú það má ekkert gera til þess að ýfa fjaðrirnar á þeim í Brussel enda ESB aðild að veði.

Jóhann Pétur Pétursson, 14.8.2009 kl. 04:06

14 Smámynd: Hulda Haraldsdóttir

Sæll Bjarni, ég ætla mér að taka undir með Jakobínu, mér þykir áróður sitjandi stjórnar alveg með eindæmum. Málið er bara það að við erum snauð þjóð að því leytinu til að við eigum engan góðan leiðtoga og er .á alveg sama í hvaða flokki er það er enginn sem vinnur að hugsjón lengur, það er enginn sem er að stappa stáli í þjóðina eða að vinna að heilindum, og það þykir mér sárara en tárum taki,  þakka annars ágætan pistil 

Hulda Haraldsdóttir, 14.8.2009 kl. 05:38

15 Smámynd: Ragnar L Benediktsson

Hvað myndi gæsalappi segja og gera ef einhverjir óprútnir útlendingar hefðu gamblað burt lífeyris, sjúkra-og tryggingarsjóði landssins ?´

Hvað myndi gæsalappi segja ef sömu útlendingarnir hefðu ryksugað flest stöndugustu fyrirtæki landssins og skilið eftir milljaða skuldir í þeim ?

Ætli gæsalappi væri til í að veita glæponunum einhvern afslátt ? Nei ég er viss um að hann gerði það sama og Hollendingar og Bretar, það er að ganga milli bols og höfuðs á þjófunum. En hvað erum við að gera varðandi glæpamennina sem prettuðu Breta oh Hollendinga ? Jú við fengum stöðumælavörð frá Akranesi til að setjast á stól og bíða. Það þarf að skoða segja stjórnmálamenn hvort þurfi að breyta lögum til að hægt sé að athuga hvort hægt sé að sækja það fé sem var stolið úr bönkunuk og fyrirtkjunum til þjófanna, bara blablabla það er augljóst að ef einhver meinig væri í þessu blaðri, væri löngu búið að gera þær lagabreytingar sem þyrfti til að ná þessum verðmætum.

Ég treysti Grími mun betur en gæsalappa til að komast að vitrænni niðurstöðu varðandi greiðslur til útlendina.

Ragnar L Benediktsson, 14.8.2009 kl. 07:11

16 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Ég ætla bara að ítreka það hér, ég held að enginn sem hér hefur skrifað sé hrifinn af þessu Icesave maíli. Ekki heldur af hugmyndum um inngöngu Íslands í ESB.

Kristbjörn Árnason, 14.8.2009 kl. 08:31

17 Smámynd: Guðmundur Jónas Kristjánsson

Bjarni minn. Þarna erum við SVO GJÖRSAMLEGA ÓSSAMMÁLA og alltaf að koma betur og betur fram  hvað við erum mikilir pólitískir andstæðingar ÞRÁTT FYRIR sameiginlega andstöðu við ESB-umsókn. Talar um ÞÓÐHOLLA vinstrimenn. Þeir eru ekki til í orðabókum mínum. Enda vantaði bara HREINRÆKTAÐA VINSTRISTJÓRN kommúnistanna úr VG og krata til þess að sótt væri um ESB-aðild og svo þennan landráðasamning um icesave, sem ég kalla  Versalasamning í tíunda veldi. Já, HREINRÆKTAÐA VINSTRISTJÓRN:  Seigja svo Bjarni að þú treysti  Ragnari  Reykási íslenzkra stjórnmála,  Steingrími J betur fyrir að gæta þjóðarhagsmuna en Bjarna Ben finnst mér gjörsamlega út í hött. Steingrímur og hans kommar hafa ALDREI
borið þjóðarhagsmuni Íslendinga fyrir brjósti, sbr. ESB-umsóknin og icesave. Enda er það þjóðarnauðsun að koma þessari AND-ÞJÓÐLEGU
vinstristjórn frá völdum ÞEGAR Í STAÐ Bjarni, þvert á það sem þú talar
fyrir, og það síðast í útvarpsviðtali í morgun.  Núverandi vinstristjórn
ógnar FULLVELDI Íslands í hverju stórmálinu á fætur öðru, og sem FULLVELDISSINNI óska ég þess að hún fari frá ÞEGAR Í STAÐ.

En, þarna sem oftar Bjarni minn erum við alls ekki sammála í grundvallar
málum, þótt við séum samherjar í andstöðinni við ESB aðild. Alla vega
ennþá!

Guðmundur Jónas Kristjánsson, 14.8.2009 kl. 10:15

18 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Heill og sæll Bjarni

Við erum ekki eyland og árum saman höfum við átt í samstarfi við ESB (EES samningurinn) um viðskipti og menningu. Skutlaði frúnni til Keflavíkur í morgun, en hún verður næstu vikuna í Prag að kynna sér stefnu og strauma í arkitektúr borgarinnar. Það er ánægjulegt og jákvætt að vera hluti af þeim mikla fjölbreytileika í menningu og hugmyndum sem birtast í þeirri endursköpun sem á sér stað í álfunni okkar. Þetta er ekki bara spurning um aura og krónur.

Hinsvegar verðum við að vera partýhæfir en ekki láta eins og gráðugir dólgar eða ólæsir kjánar. Við tókum á okkur þær kvaðir að bera ábyrgð á tryggingasjóði fyrir íslenska bankastarfsemi í öðrum löndum. Það var trúlega ofurtrú íhaldsins á að Björgólfarnir væru góðu kapítalistarnir sem gerði það að verkum að kröfunni um að Landsbankinn stofnaði dótturfélög var ekki fylgt eftir og losaði okkur þannig undan þjóðréttarlegum skuldbindingum í þessu máli.

Það er rétt eins og bent er á hér að ofan að tap þeirra sem að áttu í viðskiptum erlendis við ICESAVE og víkingana okkar er gífurlegt. Það er einungis verið að tala um að við öxlum ábyrgð á litlum hluta þess. Hinsvegar styð ég það að reynt sé að koma eignum í verð eða upp í skuldakvaðir og að ákvæði er tengjast fullveldi og greiðslugetu verði sett inn sem fyrirvarar á afgreiðslu Alþingis.

Ég fæ smá hroll þegar talað er um þörfina á sterkum leiðtoga. Var það ekki einmitt þjóðrembukennd foringjadýrkun sem kom mokkur í þennan pytt? Þrá mín eftir öflugu og virku samstarfi við önnur Evrópuríki vex til muna þegar ég sé menn draga til stafs undir merkjum mikilla hreðja eða tali um að sleikja afturenda. Hinsvegar ætti fyrir löngu að vera búið að þjóðnýta eignir útrásarvíkinga til að fá upp í þessar þjóðréttarlegu tryggingakvaðir.

        -Með kærri kveðju úr fallegum garði í Evrópu- Mosfellsbænum 

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.8.2009 kl. 10:16

19 Smámynd: Sjóveikur

sammála þessum ÁFRAM ÍSLAND
NEI við ESB  -  NEI við Icesave

http://www.youtube.com/watch?v=vvs5kOZ-VKw

Kveðja, sjoveikur

Sjóveikur, 14.8.2009 kl. 12:30

20 identicon

Niðurstaðan er sú að það er alveg rétt hjá Bjarna að þessi umræða hefur snúist upp í hráskinnaleik -- annaðhvort berum við ábyrgð eða ekki. Stjórnarandstaðan hefur snúið þessu upp þannig að hún ætlar að viðurkenna skuldbindinguna, en víll ráða sjálf hvað Íslendingar borga mikið. Það gegnur einfaldlega ekki upp. Þar sem Bjarni fer villur aftur á móti er að svarið við spurningunni sé "alveg kýrskýrt" og Íslendingum beri hvorki lagaleg né siðferðileg skylda til að greiða "einkaskuldir Björgólfanna". Ef þetta væri svo þá væri væntanlega engin deila -- a.m.k. myndi yfirgnæfandi meirihluti þingmanna ekki vera þeirrar skoðunar að við eigum að greiða skuldirnar.

Eggert (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 12:53

21 Smámynd: Kristbjörn Árnason

Þessi Eggert bullar nú bara

Kristbjörn Árnason, 14.8.2009 kl. 18:16

22 identicon

Það var aldrei raunveruleg spurning á meðal þeirra sem skilja hagsmunina sem eru í húfi hérna, hvort við myndum borga þetta eða ekki. Að borga þetta ekki er efnahagslegt sjálfsmorð.

Fólk talar gjarnan um að þetta sé hræðsluáróður, helst þá vegna þess að Íslendingar eru orðnir svo góðu vanir að þeir beinlínis skilja ekki hversu slæmir hlutirnir geta mjög raunverulega orðið.

Hér er vandinn.

Regluverk ESB um skyldur ríkisstjórnar gagnvart fjármálastofnunum er ekki nógu gott. Það hefur aldrei verið reynt á það fyrir rétti og ef við myndum gera það, tala nú ekki um ef við myndum vinna, þá væri fjármálastarfssemi Evrópu seinustu áratugi búin að öðlast lagalega óvissu sem hefði vægast sagt skelfilegar afleiðingar fyrir öll viðskipti Evrópu, þar á meðal okkar.

Annað er að ef maður lánar einhverjum samkvæmt ákveðnu kerfi, og svo ákveður kerfið bara að gefa skít í mann, þá lánar maður viðkomandi vitaskuld ekki aftur því það væri hreint út sagt heimskulegt. Íslendingar virðast heldur ekki gera sér grein fyrir því að vegna íslensku krónunnar höfum við ekki úr neinu að spila hvað varðar erlend viðskipti eða erlend lán. Við höfum byggt landið á erlendum lánum og án þeirra er ekki hægt að ýkja afleiðingarnar. Það er enginn hræðsluáróður, það er deginum augljósara fyrir nokkrum einasta manni sem hefur meira en lágmarks hundsvit á fjármálum.

Nákvæmlega þess vegna eru jafnvel hörðustu Icesave-samnings andstæðingar fljótir að skipta um skoðun þegar þeir komast inn í nefnd eða inn á Alþingi, vegna þess að þegar gögnin eru komin á borðið og skilningur á grundvallarþáttum alþjóðlegrar bankastarfssemi, þá verður valið skýrt.

Valið stendur milli þess að halda landinu byggilegu, eða réttlæti. Við munum ekki og getum ekki fengið hvort tveggja. Það er hægt að kvarta og kveina burt óréttlæti. Hvar er réttlætið gagnvart breskum og hollenskum innistæðueigendum? Það er ekkert réttlæti þar á ferð heldur. Það er ekkert réttlátt við þetta bankahrun yfirhöfuð. Fer það ekki svolítið að komast á hreint? Hversu lengi ætlar fólk að væla yfir þessu áður en það fer að skilja það? Við töpuðum, stríðið er búið, Versalarsamningur eða ekki, við höfum ekkert val, né hafa hin Evrópulöndin. Þau geta ekki látið áratuga sögu af bankastarfssemi, grundvallarstoð alls efnahagsins, reynast ólöglega.

Einmitt þess vegna eru jafnvel bestu vinir okkar svosem Norðmenn, Svíar, Finnar og Danir svo harðir á því að við göngumst undir þessar skuldbindingar, því ef við gerum það ekki, þá höfum við búið til ennþá stærra vandamál fyrir gjörvalla Evrópu.

Skömmtun, lyfjaskortur og jafnvel hungursneyð eru hugtök sem Íslendingar beinlínis skilja ekki vegna þess að við erum orðin svo góðu vön. Að Ísland verði "Kúba norðursins" er mjög raunverulegur möguleiki. Það er enginn hræðsluáróður, það er bara hin bölvanlega staða sem við erum í, og til þess að takast á við svona vandamál verðum við allavega að skilja þau.

Allt tal um að borga ekki Icesave skuldbindingarnar yfirhöfuð er ekkert nema sönnun á að viðkomandi skilji ekki hvað sé í húfi. Það eru ekki jepparnir, kavíarinn og laxveiðiferðirnar sem eru í hættu, heldur geta Íslands til að standa undir 300.000 manns yfirhöfuð.

Þú myndir ekki skrifa svona lagað, Bjarni, ef þú værir enn á Alþingi. Að því sögðu vona ég að þú sjáist þar einn daginn aftur.

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 18:23

23 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þar sem hér á bloggi Bjarna hefur verið birtur hluti greinar eftir Sigurð Líndal, er ekki úr vegi að skoða meira af því sem Sigurður hefur að segja í Fréttablaðinu 13.ágúst 2009:

Í grein í Morgunblaðinu 7. júlí sl. fullyrti Jón Baldvin Hannibalsson að íslenzka ríkið bæri ábyrgð á lágmarksinnstæðutryggingu sem næmi 20.887 evrum án nokkurrar viðhlítandi tilvísunar í lög eða þjóðréttarsamninga. Í greinarkorni í Fréttablaðinu bað ég Jón að nefna lagastaði fullyrðingu sinni til stuðnings. Það hefur hann ekki gert þótt nú sé mánuður liðinn. Af því verður ekki dregin önnur ályktun en sú, að hann hafi farið með staðlausa stafi.

Þá fullyrti hann (Jón Baldvin) að ekki fyndist neinn lögfræðingur utan landsteina sem tæki mark á "heimatilbúinni" skýringu nokkurra íslenzkra lögfræðinga um að ábyrgð væri takmörkuð við "tóman" tryggingasjóð. Það er nú reyndar rangt að tryggingasjóður hafi verið "tómur", en látum það liggja milli hluta.

Um hina heimatilbúnu skýringu sem enginn lögfræðingur utan landsteinanna taki mark á verður Jón Baldvin að sætta sig við að undir hana hafa tekið brezku lögmannsstofurnar Miscon de Reya og Lowell í London og belgíska lögmannsstofan Schiödt í Brussel, svo að enn bætast ósannindi ofan á ósannindi. Til viðbótar stendur upp á hann að skýra hversvegna Bretar og Hollendingar hafna allri dómsmeðferð úr því að málstaður þeirra er jafn traustur og hann vill vera láta.

En hér er ekki látið staðar numið, heldur skulu allir Íslendingar, auk þungra fjárhagsbyrða, jafnframt úthrópaðir sem lögbrjótar, samningssvikarar og viðskiptaþrjótar sem menn ættu að varast samskipti við. Fáeinir gegnir menn hafa ýjað að þessu, en helzti talsmaðurinn er Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra. Hann styður þessi viðhorf af slíku kappi að hann skirrist ekki við að beita uppspuna og ósannindum til þess að koma boðskapnum á framfæri og villa þannig um fyrir öllum almenningi. Hvaða ályktanir á að draga af þessu?

Hér er auðvitað komið að kjarna málsins. Engin lög eða reglugerðir hins Evrópska efnahagssvæðis kveða á um skyldur aðildarríkja þess, að baktryggja innlána-trygginga-sjóði. Þvert á móti segir Tilskipun 94/19/EB skýrum stöfum að ríkisábyrgðir megi ekki veita. Þetta hefur síðan Seðlabanki Evrópu marg-sinnis staðfest.

Þetta ákvæði er í fullkomnu samræmi við samkeppnis-reglur ESB og venjulegar tryggingafræðilegar forsendur. Við megum ekki greiða þessar tryggingar og því ekkert undrunarefni, að Jón Baldvin skuli ekki geta bent á nein lög eða reglur til stuðnings fullyrðingum sínum.

Mér finnst hins vegar udrunarefni að Jón Baldvin skuli ekki hafa vit á að þegja, þegar allir landsmenn vita að hann er höfundur efnahagshrunsins. Sossarnir í Alþýðuflokknum stóðu fyrir inngöngu okkar í Evrópska efnahagssvæðið. Þar með var vörðuð leiðin að efnahagshruninu. Auk Jóns Baldvins, voru Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson í forustu Sossanna. Þau eru ennþá að sinna sínu uppáhalds áhugamáli - landráðum !

Loftur Altice Þorsteinsson, 14.8.2009 kl. 21:09

24 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Bjarni. Ein spurning til þín. Heldurðu að það geti verið að við ESB andstæðingar séum miklu leiðinlegri en annað fólk svona almennt? kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 14.8.2009 kl. 21:53

25 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Loftur, eru Bjöggarnir sem íhaldið gaf fullt frelsi ekki landráðamennirnir? Eru landráðamennirnir ekkki Sjallarnir sem léttu á skyldum eftirlitsstofnana, Fjámálaeftirliti og Seðlabanka og vildu þróa hér ríki þar sem ríkti skattaskjól og vistarverur fyrir illa fengið fé? Hannes Hólmsteinn talaði fyrir slíku framtíðarríki. Líttu þér nær og axlaðu ábyrgð á skandalnum frekar en að hallmæla tækifærum og frelsi sem urðu til hér á landi með EES samningnum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 14.8.2009 kl. 23:28

26 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Það er leitt að sjá Gunnlaugur, að þú hefur tekið að þér að flytja þá öfugmæla-vísu að innganga okkar á Evrópska efnahagssvæðið hafi skapað "tækifæri og frelsi". Við köstuðum frá okkur góðum tvíhliða viðskiptasamningi fyrir Icesave og bankahrun. Eru Sossarnir sem komu okkur í þessa stöðu ekki landráðamenn ?

Nú flytur Jón Baldvin þann boðakap, að Íslendskur almenningur skuli greiða reikning sem nýlendu-þjóðir Evrópu ættu sjálfar að greiða. Sigurður Líndal hefur skilning á þessu glæpsamlega athæfi, þegar hann segir:

Jón Baldvin Hannibalsson fullyrti að íslenzka ríkið bæri ábyrgð á lágmarksinnstæðutryggingu sem næmi 20.887 evrum án nokkurrar viðhlítandi tilvísunar í lög eða þjóðréttarsamninga…….En hér er ekki látið staðar numið, heldur skulu allir Íslendingar, auk þungra fjárhagsbyrða, jafnframt úthrópaðir sem lögbrjótar, samningssvikarar og viðskiptaþrjótar sem menn ættu að varast samskipti við. Fáeinir gegnir menn hafa ýjað að þessu, en helzti talsmaðurinn er Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra. Hann styður þessi viðhorf af slíku kappi að hann skirrist ekki við að beita uppspuna og ósannindum til þess að koma boðskapnum á framfæri og villa þannig um fyrir öllum almenningi.

Varla getur það verið sálarstyrkjandi Gunnlaugur, að taka upp handskann fyrir Jón Baldvin og félaga hans í Alþýðuflokknum. Þetta sama fólk, sem vann það ógæfuverk að nauðga okkur til samneytis við nýlenduveldi Evrópu, er aftur komið til starfa.

Sá gerningur sem 01.janúar 1994 leiddi til inngöngu okkar á Evrópska efnahagssvæðið var gerður með naumum meirihluta á Alþingi. Ekki hvarflaði að Sossunum að spyrja þjóðina álits. Nú skal höggva í hinn sama knérunn og ganga endanlega frá Íslendskri þjóð, með inngöngu í Evrópusambandið og Icesave-skuldaklafanum. Aftur verður lýðræðið fótum troðið af því hyski sem gjarnan hrópar hæst um lýðræði.

Loftur Altice Þorsteinsson, 15.8.2009 kl. 00:31

27 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Já, við lítum sitthvorum augunum á silfrið Loftur. Ekki fannst mér nú ár DO einkennast af lýðræði eða að eiga samræður um hugmyndir. Græðgisvæðingin gaf okkur mikið af ljótum húsakosti og svo sannarlega gekk næstum endanlega frá íslenskri þjóð. Nú þurfum við að endurhæfa hina íslensku þjóðarsál undir algjörlega nýjum merkjum. Ekki þjóðrembu, drambi og valdhroka íhaldsins. Mjög mikilvægur hluti þess er að taka fullan þátt í samvinnu innan Evrópu og taka upp evru sem gjaldmiðil. Það er ekkert að óttast í þeim efnum, þó við þurfum að sjálfsögðu að gæta okkar hagsmuna. -Jón Baldvin er rökfastur og flottur í sínum málflutningi. Það tekur enginn það frá honum. Ég skil ekki hvert Sigurður Líndal er að fara með þessari umræðu um að við berum ekki ábyrgð vegna aðildar að tryggingasjóði.

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.8.2009 kl. 09:54

28 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Gunnlaugur, þú segist ekki skilja "að við berum ekki ábyrgð vegna aðildar að tryggingasjóði". Mér er sjálfsagt jafn óskiljanlegt, að þú skulir ekki skilja málið.

Lestu grein mína sem birtist í Morgunblaðinu 01.ágúst og nefnist: Evrópusambandið sjálft bannar Icesave-samninginn !

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/923672/

Málið er einfaldlega það, að samkvæmt Tilskipun 94/19/EB frá Evrópusambandinu er blátt bann lagt við að aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins (EES) gangist í ábyrgðir fyrir innistæðu-trygginga-kerfum. Ástæða þessa er af tvennum rótum:

  1. Samkeppnis-ákvæði. Til að vernda samkeppnis-umhverfi á fjármálasviði, er nauðsynlegt að hindra ríkis-vald aðildarríkjanna í að veita bönkum eigin lands tryggingar og ríkisstyrki.
  2. Tryggingafræðileg-ákvæði. Trygginga-byrði verður að vera skilgreinanleg, svo að vit sé í iðgjöldum og rekstri tryggingafélaga. Án skilgreinanlegrar trygginga-byrði væri tryggingastarfsemi einfaldlega fjárhættuspil.

Reglur ESB um innistæðu-tryggingar eru því ekki gallaðar, eins og sumir halda fram, heldur eru þær rangt túlkaðar af fávísum stjórnmálmönnum. Þegar aðildarríki EES hafa stofnað innistæðu-trygginga-kerfi samkvæmt Tilskipun 94/19/EB, er bóta-ábyrgð kerfisins alfarið á herðum kerfisins sjálfs og ríkissjóðir eða aðrir utan að komandi aðilar mega ekki skipta sér af málum.

Þess má geta að Seðlabanki Evrópu hefur við mörg tækifæri staðfest Tilskipun 94/19/EB, enda væri hann annars að vinna gegn samkeppnisreglum ESB og einnar grundvallar reglu tryggingarfræðinnar.

Loftur Altice Þorsteinsson, 15.8.2009 kl. 12:14

29 Smámynd: Elle_

Fjöldi fólks að ofanverðu fór með gott mál að mínum dómi.   Og eins og Jóhann Pétur sagði: ". . . er alveg fáránlegt að nú, áður en eignum gamla Landsbankans er komið í verð sé samningur upp á borðum.  Viljayfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefði átt að duga Bretum og Hollendingum þangað til að vitað væri hverjar heimturnar yrðu."   Og  "Til hvers að samþykkja málið með fyrirvörum sem að koma í veg fyrir gjaldþrot landsins þegar við getum sleppt því."  

Helgi: "Versalarsamningur eða ekki, við höfum ekkert val, né hafa hin Evrópulöndin. Þau geta ekki látið áratuga sögu af bankastarfssemi, grundvallarstoð alls efnahagsins, reynast ólöglega."   Og   "Einmitt þess vegna eru jafnvel bestu vinir okkar svosem Norðmenn, Svíar, Finnar og Danir svo harðir á því að við göngumst undir þessar skuldbindingar, því ef við gerum það ekki, þá höfum við búið til ennþá stærra vandamál fyrir gjörvalla Evrópu."

Þessi rök eru eitt það óskiljanlegasta sem ég hef heyrt.  Við eigum að sætta okkur við VERSALASAMNINGA af því við megum ekki kollvarpa öllu bankakerfi Evrópu og þó engin lög skyldi okkur?   Misskildi ég þig Helgi Hrafn?

Elle_, 15.8.2009 kl. 21:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband