Við kaffihlaðborð á ættarslóðum

nordurferdir09_saevarland_hafragil 193

Komst í gær að bænum Sævarlandi í Laxárdal í Skagafirði með vini mínum Karli Örvarssyni. Kvöldið áður var ég veislustjóri í sviðamessu úti á Vatnsnesi þar sem strjúpasöltuð húnvetnsk svið tóku fram öllum þeim kræsingum sem fást í höllum drottninga.

Minnugur þess að fólk eigi ekki að vinna á sunnudögum lögðum við Kalli upp daginn eftir í reisu í Laxárdalinn að skoða þar jarðeignir hans að Hafragili. Þetta eru mínar ættarslóðir í beinan karllegg sem ég rek til Björns Halldórssonar og þaðan enn um Birni og Halldóra allt norður um Skaga. Skagfirsk fræði segja að Björn þessi sem var frá Sævarlandi hafi verið hugvitsmaður og það urðu hans örlög að flækjast um milli örreytiskota í Dölum og Djúpi. Sonur hans var snikkarinn Halldór Skagfjörð sem fór roskinn vestur um haf og vann um árabil við smíðar í New York. Hefi ég ekki heyrt annað en gott handbragð þyki vera á þeirri borg.

Á Sævarlandi býr nú mikið heiðursfólk, systkinin Regína og Guðmundur ásamt Jósefínu Hansen dóttur Regínu, manni hennar Tryggva og dótturinni Regínu yngri. Hér er rammíslenskt heimilishald hjá greindu og hjartahlýju fólki sem býr við íburðarlausa skynsemi. Okkur bar að garði þar sem bændur voru að hala lambhrút af sillu þar sem heitir við Landsenda í Tindastóli. Myndin af Guðmundi er tekin þar úti við en efst er mynd af húsfreyjunni Regínu sem reiddi fram kaffihlaðborð fyrir langferðamenn af mikilli rausn. Ekki spillir fyrir að heimkominn sé ég að þau Sævarlandssystkini eru komin af Reginbalda frá Skálholti sem ég held helst að til séu vísur um og sögur einhversstaðar meðal Tungnamanna.

nordurferdir09_saevarland_hafragil 118 (Kalli jarðeigandi)

nordurferdir09_saevarland_hafragil 134 

(Guðmundur á Sævarlandi, mig minnir að dranginn sem sést hér á hafi heiti Sævarlandsstapi. Efsta myndin í greininni er af Regínu systur Guðmundar.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:

Það hefur viðrar fallega á þig

, 12.10.2009 kl. 10:36

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

sé eg tár á hvarmi/sviðaveisla nammi namm/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 12.10.2009 kl. 19:57

3 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Norskir eta bara söltuð svið og kalla smalahuvud. Hreint sælgæti.

Eiður Svanberg Guðnason, 12.10.2009 kl. 20:54

4 Smámynd: Baldur Hermannsson

Alltaf einhver sérstakur blær yfir Skagafirði. Þar á ég marga frændur, afkomendur Sveins skotta Björnssonar. Enda kalla Skagfirðingar ekki allt ömmu sína.

Baldur Hermannsson, 12.10.2009 kl. 22:04

5 identicon

Nei Baldur minn.... það gerum við sko ekki skagfirðingar, enda ömmur okkar engin blávötn, erum enda svolítið sérstakur "þjóðflokkur" :-)

(IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 23:36

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Að Sveinn skotti eigi afkomendur í Skagafirði!!

Alltaf skalt þú verða til vandræða Baldur hvar sem þú drepur niður fæti eða fingri. 

Árni Gunnarsson, 12.10.2009 kl. 23:37

7 Smámynd: Steingrímur Helgason

Öngvann 'Zkaffózkríl' þekki ég, viljandi, en einztaka óviljandi...

Steingrímur Helgason, 12.10.2009 kl. 23:42

8 Smámynd: Baldur Hermannsson

Jájá, víst á hann Svenni krakka út um allan Skagafjörð, ég hef sjálfur hitt vasklega menn sem röktu ættir sínar til hans. Þeir drápu hann fantarnir í Reiðskörðum á Barðaströnd, og þegar ég bað um að fá að setja þar upp silfurskjöld til minningar um hann, þá brugðust heimamenn illa við. Smámunasemin í þessum bændalýð.

Baldur Hermannsson, 13.10.2009 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband