Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Gott er að eiga mismælin - en ég skrollaði líka

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er keikur og það er gott fyrir mann í hárri stöðu. En ég tel engu að síður hart að sitja undir afsökunarbeiðni útaf mismæli í ræðustól sem ég leiðrétti rétt síðar, féllu um hádegi og voru leiðrétt klukkan 14:28. 53642_Vollur-Loftmynd-OK

Vitaskuld drepur bæjarstjórinn málinu ekki á dreif með slíkum orðhengilshætti og til áréttinar birti ég hér með leiðréttinguna um málið og bíð bara eftir að þurfa líka að biðjast afsökunar á að hafa skrollað...

Mig langar að ræða sérstaklega um það sem varð okkur að ásteytingsefni við gerð fjáraukalaga sem eru málefni hins ágæta félags, Kadeco, sem starfar á Keflavíkurflugvelli. Ég ræddi þetta nokkuð í umræðunni fyrr í morgun en mig langar að byrja þessa umræðu á að gera lítils háttar játningu í framhaldi af orðum vinar míns Árna Johnsens, hv. þingmanns Suðurkjördæmis, sem hafði heyrt þau orð mín þannig í ræðu í morgun að ég hefði sagt að náfrændi hans Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, væri hluthafi í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar og Keili. Til að taka af öll tvímæli um þetta gerði ég mér ferð í segulbandið inni á tölvunni til að hlusta á það og þá kemur í ljós að í tilvitnuðum texta sem ég las upp af minnisblaði sem ég hafði búið til fyrir þennan dag þá fataðist mér í lestrinum og er sjálfsagt að viðurkenna það. Ég bið hlutaðeigendur, bæði vin minn Árna Johnsen og frænda hans Árna Sigfússon, velvirðingar á þessu og vil af þessu tilefni, með leyfi forseta, lesa þennan texta að nýju. Ekki man ég nákvæmlega á hvaða línu á þessu minnisblaði ég byrjaði en ég kýs að taka þá frekar aðeins meira en minna til þess að enginn vafi sé á. En ég var akkúrat í þeim kafla þar sem ég líkti ástandi mála á Reykjanesi nokkuð við það ástand sem skapaðist með uppgangi Hvamms-Sturlu, sem var Dalamaður en það býr margt góðra Dalamanna á Suðurnesjum, og því hvernig þar hefði vald þjappast mjög saman á fáar hendur og þræðir orðið mjög flóknir og valdið svo margs konar vandræðum, þ.e. á Sturlungaöld. Ég er ekki að segja að það sé orðið hér nú en þegar slík samþjöppun valda gerist, líkt og algengt er í Sturlungu og menn geta lesið sig betur til um það, þegar menn leika við sama taflborðið marga mismunandi leiki og hafa mörg hlutverk í sama leiknum getur það oft og tíðum valdið ákveðnum vandræðum. Og þó svo að menn á Sturlungaöld hafi haft mjög skilvirkar leiðir til að leysa þau vandræði þá höfum við það ekki nú og þess vegna höfum við haft ákveðnar vanhæfisreglur til að mæta þessu og það er það sem ég tel að menn hafi kannski skautað svolítið glatt yfir í öllu þessu máli. En ég ætla að lesa þessa tilvitnun þar sem ég sleppti úr einu mikilvægu orði í lestrinum í morgun og hefst þá lesturinn, með leyfi forseta:

„Þá vil ég geta þess að komið hefur fram í fjölmiðlum að fimm af sjö bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ tengjast kaupum og sölu á fasteignum á varnarsvæðinu á einhvern hátt.

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar er í stjórn Þróunarfélags Keflavíkurvallar og stjórnarformaður Keilis. Persónulega á hann ekki hlut í þessum félögum samkvæmt því sem ég best veit en er fulltrúi Reykjanesbæjar. Annar bæjarfulltrúi er stjórnarformaður Base sem einnig hefur keypt eignir á varnarsvæðinu. Þessi sami bæjarfulltrúi er einn eigenda Hótel Keflavíkur sem á 9% hlut í Base. Þriðji bæjarfulltrúinn er stjórnarformaður Sparisjóðs Keflavíkur sem á rúmlega 22% hlut í Háskólavöllum og hlut í Base. Eignarhaldsfélagið 520 ehf., í eigu fjórða bæjarfulltrúans, hefur keypt 800 fermetra skemmu af Base á varnarsvæðinu. Þá er fimmti bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ aðstoðarmaður fjármálaráðherra, en fjármálaráðherra er fulltrúi ríkisins í samningum við Þróunarfélagið. Því til viðbótar má nefna að bróðir fjármálaráðherra er stjórnarformaður Klasa og einn af eigendum þess fyrirtækis."

Svo mörg voru þau orð og ég skal alveg viðurkenna að það er leitt að þurfa að draga persónulega stjórnarþátttöku manna inn í umræðu eins og þessa en það hafa þeir menn kallað yfir sig sem raðað hafa sér við borðið með þessum hætti. Varðandi þetta orð sem ég missti úr í lestrinum í morgun þá má það svo sem vera næsta augljóst af samhengi hlutanna. Ef menn hefðu tekið það alvarlega að það hefði ekki átt að vera þarna þá hefði það þýtt það með öðrum orðum að ég væri að segja að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ væri meðeigandi í Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar eða Kadeco eins og það heitir öðru nafni en allir vita að í því félagi er aðeins einn eigandi eins og ég hafði reyndar vikið að í ræðu minni fyrr.


mbl.is Árni krefst leiðréttingar á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Regnskógavarnir Þórunnar

Það var fiðringur í matsal Alþingis í dag og ástæðan að nú var búist við að byltingu í afstöðu ríkisstjórnarinnar í svokölluðum loftslagsmálum. Yfir dýrindis ýsunni hennar Siggu í mötuneytinu lá ekki bara venjuleg og heilnæm matarlykt heldur líka fyrirboð þess að nú væri komið að því að Samfylkingin næði að beygja íhaldið. Skrýtinn fyrirboði þótti okkur sumum...thorunn

Forsaga málsins var semsagt að í gær var sagt frá fundi fjögurra ráðherra um stefnumótun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum og klukkan 13:30 var svo boðað að umhverfisráðherra myndi fara í ræðustól í upphafi þingfundar og kynna þessa nýju afstöðu af minnisblaði sem áður var kynnt í ríkisstjórn.

Það er fljótsagt að heldur fór hér lítið fyrir garpskap Samfylkingar sem hafði áður uppi stór orð um umhverfisstefnu síðustu ríkisstjórnarinnar enda fór það svo að Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra fórst heldur óhönduglega við kynninguna og tókst ekki að ljúka lestri á minnisblaðinu á þeim knappa ræðutíma sem skammtaður er í umræðu sem þessari í upphafi þingfundar. Varð hún að hætta lestrinum án þess að koma nokkru merkingabæru á framfæri öðru en því að áfram skyldi byggt á sveigjanleika Kyoto-samningsins (les: Ísland fái áfram sérákvæði vegna álvera eins og við Framsóknarmenn höfum lagt áherslu á og Samfylking verið æf yfir til þessa).

Það kom svo í hlut fjármálaráðherra þessarar ríkisstjórnar og þeirrar síðustu einnig, Árna M. Mathiesen að lesa restina af minnisblaðinu þar sem vikið var að raunverulegum verklegum framkvæmdaþætti í bókun ríkisstjórnarinnar en hann hljóðar svo:

"Ísland styður aðgerðir sem miða að því að draga úr eyðingu regnskóga en talið er að eyðing á skóglendi í regnskógum samsvari 70% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu."

Sjálfum þótti mér reyndar vænt um að umhverfissinnanum Þórunni skyldi hlíft við að lesa þessi endemi þar sem íhaldið gat ekki látið nægja að fá Samfylkinguna til að samþykkja áframhaldandi sérákvæði Íslands heldur skyldi hið ríka Ísland sjá það sem sitt helsta skref að ræða um þátt fátækra þjóða í vandanum. Auðvitað á að taka á vanda þróunarlanda og auðvitað er það heimsbyggðinni til góðs að við sem búum að umhverfisvænni orku njótum sérákvæða vegna hennar,- en við verðum líka að geta teflt fram einhverju því sem við ætlum að leggja á okkur, minni bílanotkun, umhverfisvænni fiskiskipaflota eða allavega einhverju öðru en afskiptasemi af innanlandsstjórnun þróunarlandanna.

Markmiðið er nú sett á 25-40% minnkun í losun fram til 2020 sem er raunar ekkert nýtt frá markmiðum fyrri stjórnar þar sem stefnt var að 50-75% minnkun fyrir 2050. Sjálfir höfum við Framsóknarmenn miðað við 50% minnkun á losun bílaflotans á næstu 10 árum.

Það háðuglegasta við þessa markmiðssetningu ríkisstjórnarinnar er að umhverfisráðherra reynir að láta líta út fyrir að eitthvað hafi gerst - þegar það eitt gerist að íhaldið gerir grín að samstarfsflokki sínum!


mbl.is Markmið í loftslagsmálum kynnt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrossaketsát á Bessastöðum

Það hefðu einhverntíma þótt ólíkindi að boðið væri upp á folaldaket á sjálfum Bessastöðum en svo var í gærkvöldi þegar ég kom þar í fyrsta sinn í hús og gladdi mitt geð enda af hrossaketsætum kominn langt aftur. Ekki eru nema nokkrar kynslóðir síðan slátur hrossa þótti hvergi matur nema þá í kothreysum Þykkvabæjar og örgustu þurrabúðum.

bessast

En það fylgir semsagt þingmannslífinu að fá öðru hvoru vel í svanginn hjá þeim heiðurshjónum á Bessastöðum, Ólafi Ragnari og Dorrit Moussaieff og var sérstaklega ánægjulegt samkvæmi í gærkvöld á fullveldisdeginum. Helst að á vantaði að hafa þar fleiri úr virðulegum Heimastjórnarflokki en annars mættu þingmenn vel.

Til útvegunar veislufanga voru að þessu sinni hafðir menn í kjördæmi forseta þingsins, Sturlu Böðvarssonar sem týndu til á glæsilegt hlaðborð kræklinga úr Hvalfirði, kartöflur úr Sauðlauksdal og skagfirskan færleik. Já, og húnvetnsk fjallalömb sem við síra Karl Matthíasson gætum ekki stillt okkur um að stríða Árna Þór Sigurðssyni á að væru nú líklegast frá sauðaþjófum komin en vinstri maðurinn sá á til húnvetnskra að telja og vitaskuld ekki hvinnskra.

Stundin flaug hratt hjá þó setið væri yfir borðum nokkrar klukkustundir enda ræður blessunarlega fáar og þó góðar þær sem voru. Ólafur Ragnar minntist þess hversu stutt væri raunar síðan íslensk sjálfstæðisbarátta hófst með ráðabruggi Bessastaðapilta fyrir hálfri annarri öld. Steingrímur J. tók svari okkar sem komnir erum af þeim íslenskum kotungum sem seint áttu innangengt í Bessastaðastofur en Evrópusinnar skáluðu fullveldinu,- hugsunarlaust.

Sjálfum varð mér hugsað til þess að lítt hefði ég nennt að sitja langar veislur sem þessar yngri maður en í þá daga sem við Elín vórum í okkar tilhugalífi þótti mér allsendis óhugsandi að eyða meiru en klukkustund sitjandi yfir matardiskum og best að borða á Tommaborgurum og borða hratt og halda svo áfram verki...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband