Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
Af fíflagangi og fjallagrasapólitík
11.2.2007 | 23:06
"Afréttir landsins eru hluti af íslensku héruðunum og það er fráleitt að leggja þær byrðar á íslenskt landsbyggðarfólk að vera eins og uppstoppaðir frumbyggjar í landi sínu svo hagvaxtarfólk við Faxaflóa geti friðað vonda umhverfissamvisku."
Þessi setning er eftir sjálfan mig í umræðu um Kjalveg og hefur valdið miklum umræðum á bloggsíðu minni (www.bjarnihardar.blog.is/) Er verið að veitast að öllum þeim sem búa á hagvaxtarsvæðinu mikla, er spurt. Sjálfur bý ég á þessu sama horni landsins, Selfossi sem er í jaðri höfuðborgarsvæðisins.
Þegar ég tala um það fólk sem reynir að friða vonda samvisku í umhverfismálum þá á slík einkunn ekki við um neinn meirihluta, hvorki þar né hér.
En það er gikkur í hverri veiðistöð. Sjálfsskipað umhverfisverndarfólk hefur um langt árabil lagt sig fram um að hamast á móti selveiðum, hvalveiðum, frumbyggjum og allskonar lífsháttum framandi þjóða. Þó svo að öllum sé auðvitað ljóst að umhverfisógn heimsins er ekki sprottin upp hjá inúítum eða hvalföngurum heldur sóunarsamfélögum stórborga.
Eins er þessu farið hér á landi þó í smærri stíl sé. Ísland sem var næsta óspillt af öðru en torfkofum fyrir öld síðan ber nú æ meiri merki mengunar, mannvirkja og þeirrar spillingar umhverfisins sem fylgja nútímalegum lífsháttum. En þessi mengun er ekki mest áberandi á Austurlandi, ekki á Kárahnjúkum og ekki á Kili. Það vitum við öll sem augu höfum í höfðinu. Utan við fyrrnefnt Stór-Hveragerðissvæði eru menjar mannsins hóflegar og vel innan ásættanlegra marka. Landið er vitaskuld ekki eins og það sé ónumið en samt þannig að náttúran hefur yfirhöndina og við njótum hennar af því að hún er aðgengileg með vegum og húsum í hæfilegu magni.
Það að ætla að skilgreina stór svæði landsbyggðarinnar sem helgistaði þar sem samtíminn má ekki stíga fæti er fráleitt. Við Íslendingar eigum hvergi nema á Vatnajökli ósnortin víðerni sem ástæða er til að varðveita víðernisins vegna. Hvarvetna um byggð og afrétti eru einhverjar nútímalegar mannvistarleifar, s.s. vegir, hús, raflínur og fleira. Rökin fyrir varðveislu ósnortinna víðerna geta átt víða við á hinum norðlægu slóðum heims en einna síst á Íslandi. Við þurfum vitaskuld að varðveita náttúruperlur og eiga þjóðgarða. En hér á landi er aðeins hægt að tala um alvarleg umhverfisvandamál þar sem umsvif mannanna keyra úr hófi.
En þetta er hinum skinhelgu óþægilegt umræðuefni. Hér á okkar horni landsins þarf hagvöxturinn að hafa sinn gang með Sundabrautum og sorphaugum ofan í fallegum sveitanesjum, malbiki upp um Norðlingaholt, yfir Kristnitökuhraunið og niður um bakka Ölfusár. Tölum ekki um það, segir fólkið sem situr á Staksteinum Morgunblaðsins, sellum VG, ólgandi Framtíðarlandi og kannski líka hjá hinum nýlega uppdiktuðu hægri grænu. En gleymum ekki að þetta eru fámennar og mikið háværar klíkur. Alvöru grænir haga sér ekki svona.
En það er þessi spillta úrkynjun, sérgæska og skinhelgi sem ræður því að nú skal hamast á móti því að sunnlenskir og norðlenskir uppsveitamenn skoði kosti þess að tengja byggðir sínar með malbikuðum Kjalvegi. Það má auðvitað rökræða hvernig standa eigi að vegi þessum, eignarhaldi hans og staðsetningu. En að skilgreina allt svæðið millum dala í norðri og suðri sem helga reiti meðan við stígum villtan dans um gullkálfinn heima hjá okkur, það er fáheyrt. Að bera það á borð að milli þessara byggða sé betra að hafa vonda vegi til að draga úr umferð og umsvifum. Hagvöxtur landsbyggðarfólks eigi að einkennast af fíflagangi og fjallagrösum.
Hvenær náði svona fáheyrð ósvífni?
(Birt í Blaðinu laugardaginn 10. febrúar)
Sofið í sokkum...
11.2.2007 | 23:01
Er að skríða saman eftir harða flensu sem var kannski guðleg forsjón því betra frí frá amstri er ekki til en lárétt í eigin fleti og betri dagar til þess fundust varla - nú millum prófkjörs og kosningabaráttu.
Það eina sem skyggði á í vikulangri legu var óttinn við að komast ekki á þorrablót hrútavinafélagsins þar sem ég var tilnefndur í embætti og hvaðeina. Forseti félagsins sendi mér fyrirskipun af forsetasetri sínu á Ránargrund um miðja vikuna að ég ætti að sofa í sokkum og myndi þá flensan útrekast. Og það hefur mikið til gengið eftir.
Ég get ekki sagt að mér hafi verið vel við þetta ráð því einhverntíma sá ég í amerískri kvikmynd að ekkert er talið eins fjarri öllum kynþokka eins og nakinn karlmaður í sokkum og ég var hálfvegis óttasleginn yfir að falla í áliti hjá minni fallegu konu við þessi ráð. Það bjargaði miklu að hún var yfirleitt sofnuð þegar ég skreið upp í enda fylgdi flensu þessari allskonar ónáttúra eins og að sofa á daginn og vaka á nóttunni. Á blótinu í gærkveldi fékk að vita að þrautarráð forsetans ef sokkarnir ekki duga sé að sofa með ullarvettlinga en sem betur fer kom ekki til þess enda er ég óðum að skríða saman og Elín er hérna ennþá.
En ef ég hefði farið í rúmið í ullarvettlingum...
Allaballi yfir í Frjálslynda
8.2.2007 | 22:36
Sá mæti maður Kristinn H. Gunnarsson flutti sig úr Framsóknarflokki í Frjálslynda í dag segir í tilkynningu að Frjálslyndi flokkurinn sé mjög líkur Framsókn!!! Kristinn hefur verið í Framsóknarflokki síðan Alþýðubandalagiþað lagði upp laupana og samt aldrei orðið almennilega hluti af flokksheildinni í Framsókn. Kannski var hann það ekki heldur í Alþýðubandalaginu og kannski verður hann það loks í Frjálslyndum. Ég veit það ekki en vona það hans vegna og Frjálslyndra. En ég held að ef það gengur upp hjá Kristni að komast áfram á þing og nú fyrir Frjálslynda verður hans minnst sem Alþýðubandalagsmanns sem endaði sinn feril í Frjálslynda flokknum með viðkomu í Framsókn. Ekki sem Framsóknarmanns.
Hitt er annað mál að ég er mjög oft sammála Kristni - sammála því sem hann segir en ekki sammála því hvernig hann velur augnablikin til þess að segja hlutina og ekki alltaf viss um að hann fari réttar leiðir í baráttu sinni fyrir málefnum. Eiginlega man ég ekki eftir að haa verið verulega ósammála Kristni H. Gunnarssyni fyrr en núna þegar hann heldur fram að Frjálslyndi flokkurinn sé bestur, skrýtin niðurstaða það hjá jafn vinstri sinnuðum manni...
Framkvæmdir bannaðar austan við 101
7.2.2007 | 18:28
Af Kjalvegi og hægri grænum ráðherra
Stam hæstvirts samgönguráðherra og raus Morgunblaðsins gegn fyrirhugaðri vegagerð yfir Kjöl staðfestir enn og aftur að hugtakið hægri grænn vísar fyrst og fremst til þess að taka undir með því vitlausasta sem komið hefur fram í íslenskri umhverfisverndarumræðu.
Þessi stefna er best lýst með því að tala eigi móti öllum framkvæmdum utan við stórhöfuðborgarsvæðið og líta á landsbyggðina á Íslandi sem einn stóran þjóðgarð. Með allri virðingu fyrir þjóðgörðum þá nær vitaskuld ekki nokkurri átt að aðeins megi veri framfarir og hagvöxtur á einu horni landsins.
Hlutafélagið Norðurvegur ehf. hefur að undanförnu kynnt frekar eðlilegar hugmyndir um að malbika Kjalveg. Helmingur þeirrar leiðar er nú þegar sæmilega byggður malarvegur, hinn helmingurinn troðningur af þeirri gerð að það ógnar bæði gróðurfari og ekki síður öryggi vegfarenda. Verkefnið er í samræmi við langtímaáætlanir í vegagerð á Íslandi og að langstærstum hluta um að ræða endurbyggingu á núverandi vegi. Með uppbyggðum vegi væri byggðum í bæði uppsveitum Árnessýslu og á öllu Norðurlandi gefinn nýr vaxtamöguleiki.
Það er á engan hátt verið að ráðast á náttúru hálendisins með vegalagningu sem þessari. Þannig verður ekki séð að sæmilegur vegur inn að Vatnsfelli við Sprengisand hafi orðið til að spilla umhverfi þar í grennd nema síður sé. Bættar samgöngur á þessa staði auka vissulega ferðamannastraum og þar þarf á sumum stöðum að gæta hófs vegna viðkvæmrar náttúru. En leiðin að þeim umhverfisverndarmarkmiðum eru ekki vondir vegir og bann við uppbyggingu.
Slíkt afturhald er álíka gáfulegt eins og vondir vegir til að halda aftur af aksturshraða. Framlag til umhverfisverndar á hálendinu er mikilvæg og hún er fólgið í betri landvörslu, merkingu og kortlagningu vega og markvissum undirbúningi landsins til að taka við auknum fjölda ferðamanna. Þegar talað er um að ekki megi framkvæma neitt á hálendi Íslands af því að það sé heildstætt ósnortið víðerni þá tala menn af mikilli vanþekkingu. Hálendi Íslands er ekki samfellt ósnortið víðerni og hefur raunar ekki verið um langt árabil. Um aldamótin þarsíðustu átti það kannski við, en þá mátti nánast segja það sama um landið í heild. Síðan þá hafa menn byggt ótal vegi, virkjanir, hús, raflínur og uppgræðslugirðingar á þessu sama hálendi. Náttúruvernd þar lýtur þessvegna alveg sömu lögmálum og náttúruvernd annarsstaðar á landinu. Afréttir landsins eru hluti af íslensku héruðunum og það er fráleitt að leggja þær byrðar á íslenskt landsbyggðarfólk að vera eins og uppstoppaðir frumbyggjar í landi sínu svo hagvaxtarfólk við Faxaflóa geti friðað vonda umhverfissamvisku.
En það er nákvæmlega sem er að gerast þegar Morgunblaðið sem kallar sig blað allra landsmanna ræðst að Kjalvegarverkefninu með offorsi og birti meðal annars áróðursgrein um málið á forsíðu sl. þriðjudag undir yfirskini fréttar. Að kvöldi þessa sama dags máttu landsmenn svo hlusta á samgönguráðherra stama um málið í margar mínútur án þess að hlustendur yrðu annars vísari en að ráðherra teldi fulla ástæðu til að tefja málið sem lengst.
Afstaða Morgunblaðsins kom engum á óvart. Blaðið hefur margoft lýst andstöðu sinni við hálendisvegi og að undanförnu einnig við uppbyggingu ferðaþjónustu á hálendinu eins og þeirri sem fyrirhuguð er í suðurhlíðum Langjökuls.
En ef þetta er sú hægri græna stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn vill marka sér mega landsbyggðarmenn vara sig. Og gæta að því hvað þeir kjósa yfir sig!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Bindishnútar og letilíf
6.2.2007 | 18:40
Lífið verður ótrúlega einfalt allt og ljúfsárt í flensulegu. Sólarhringurinn skiptist upp í fjórar mislangar vökustundir en undanfarna daga hef ég sofið 15 20 tíma. Reyni að spara mig í símanum enda fæ ég af því hausverk og skrifa lítið því það tekur líka á. Horfi á sjónvarp og les Gunter Grass sem er reyndar að verða full langdreginn. Um miðjan dag kom Atli Steinarsson og gaf mér bindi og ég fékk hann til að kenna mér bindishnút. Kunni ekki nema einhvern fermingarhnút og hálfvegis gengið illa að læra tvöfalda hnútinn sem faðir minn notar. Svosem engu skipt í gegnum tíðina hef ég næstum aldrei sett upp bindi. Bara úr sveit og þessvegna í lopapeysum eða vesti. En eiginlega er ég svo sannfærður um að þingmannsslagurinn hafist úr þessu að ekki er seinna vænna en að læra almennilega að setja á sig bindi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Rassgatsmegin að öllum málum
6.2.2007 | 09:55
Það ætti að vera ófrávíkjanleg regla að maður frá Búnaðarsambandi, eða annar óháður aðili með fagþekkingu, komi bónda til aðstoðar um leið og þreifingar hefjast um aðgerðir vegna riðu eða annarra búfjársjúkdóma
Minnir reyndar á alþekkta reglu úr löggusápum (sem betur fer þekkir maður hana bara þaðan) að engan má yfirheyra af löggu nema lögfræðingur viðkomandi sé viðstaddur. Þetta er í raun og veru regla sem ætti að yfirfæra meira og minna á öll samskipti þegnanna við kerfið. Þegar öryrki þarf að leita réttar sins, skattgreiðandi að svara fyrir óvissa útreikninga, rekstraraðili að kljást við leyfisveitingavaldið eða foreldri að glíma við skólayfirvöld,- í öllu þessu er sú hætta fyrir hendi að yfirvöld tali þá latínu sem hinn óbreytti borgari á litla sem enga möguleika á að botna í. Félagsráðgjafar koma á stundum til hjálpar í aðstöðu sem þessari en alls ekki nærri alltaf og oft án þess að vera afdráttarlausir talsmenn borgarans.
Læt þetta duga í bili enda afar vesæll flensuræfill hér við tölvuna. Þetta er fjórði dagur í bælinu og síst betri hinum. Hefði viljað vera heima í Laugarási í dag þar sem mér bauðst að vera með í uppákomu. Og vitaskuld á Norðurvegarfundi í Hótelinu en hvorutveggja verður að sigla sinn sjó.
Jón þumlungur og þjóðlenduréttlætið
4.2.2007 | 06:20
Þetta þótti ekki nema sanngjarnt á þeirri öld þegar heimurinn trúði sterkt á makt djöfulsins og raunar vildi Jón kallinn þumlungur meira.
Bændahöfðinginn Birkir Friðbertsson rifjaði þessa sögu upp á nýlegum stofnfundi Landssamtaka landeigenda og líkti þar eignaupptöku klerksins við hervirki þjóðlendumála nú. Og ég er honum sammála þar og vil halda aðeins áfram með samlíkinguna. Birkir benti á að í stað þess að kaupa lönd af bændum eða taka eignarnámi við verði færi ríkið nú þá leið að dæma löndin af þeim. Rétt eins og Jón þumlungur gerði á sinni tíð.
Það tilheyrir þeirri mildun sem orðið hefur á aldarandanum að enginn nennir nú að horfa upp á bændur brennda á báli og því er slíku sleppt.
Pappírstrúin...
En annars hefur ekkert breyst því allt þjóðlendumálið vitnar um trúarbrögð samtímans. Rétt eins og skynsamir og menntaðir 17. aldar menn og stofnanir þeirra höfðu vissu fyrir göldrum lifum við líka í ákveðinni vissu. Samtíminn byggir algerlega á því að ekkert er til nema til sé bréf upp á það! Lönd eru dæmd af bændum af því að þá vantar skjalfesta samninga til stuðnings landamerkjabréfum. Þó svo að hvergi hafi komið fram efasemdir fyrr um réttmæti landamerkjanna og ekkert í samtímanum sem kalli á slíkar efasemdir. Annað dæmi um þessa blindu bréfatrú eru Landnámufræði þjóðlendumálanna. Bændur sem geta bent á Landnámu máli sínu til stuðnings teljast yfirleitt hólpnir. 100 ára landamerkjabréf sem ekki styðjast við Landnámu eru sum léttvæg fundin þó enginn hafi leitt efa að þeim fyrri. Landamerki aftan úr pappírslausu samfélagi eru ekki virt viðlits þó allir viti að þau eru rétt.
...og réttlætið
Illt er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti,- lætur Laxnes delikventa 17. aldar segja smáða og hrakta undir torfvegg á Alþingi. Í þjóðlenduréttlætinu hefur auk þess að spyrja um pappíra verið spurt um réttlæti í breiðu sögulegu samhengi.
Þannig komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að fjalllendi á Hellisheiði skyldi vera þjóðlenda því ekkert réttlæti hefði verið í því hjá Ingólfi Arnarsyni að taka sér svo stórt land til eignar. Hæstiréttur er hérna á mjög hálli braut að ætla að draga fram réttlæti sögunnar.
Eða hvernig skyldi hafa reitt af þeim 10 jarðarhundruðum sem Jón þumlungur eignaðist eftir að hafa brennt til dauðs eigendur þeirra. Flestir nútímamenn munu sammála um að þar hafi farið fram óréttlætanlegt níðingsverk og réttarmorð sem byggði á hindurvitnum og geðveiki. En jarðarhundruðin skiptu engu að síður um hendur og eignarhald á þeim í dag er grundvallað á þessari grimmdarlegu eignaupptöku.
Sjálfur á ég til þeirra manna að telja sem boðnir voru upp á hreppsþingum og sviptir bæði eignum og mannréttindum fyrir litlar sem engar sakir. En það að draga slíkt og annað óréttlæti fyrri tíðar fram sem eigna- eða fjárkröfu í nútímanum er litlu minni bilun en galdraþrugl Eyrarklerks þess sem kallaður var Þumlungur.
(Áður birt í Sunnlenska en Sigríður Laufey Einarsdóttir hefur nú skrifað á sömu nótum og snilldarlegum rökum í bloggi við síðustu þjóðlendugrein,- takk fyrir það. Myndin í greininni er af kveisublaði frá vestfirsku galdraillþýði,- sjá www.http://www.vestfirdir.is/galdrasyning/viskubrunnur/m_jon-thumlungur.htm)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sem betur fer ekki óléttur
3.2.2007 | 18:34
Hef verið hálfvegis undarlegur undanfarna daga. Byrjaði á fimmtudag með ógleði annað slagið, minnkandi löngun í kaffi og almennu náttúruleysi til kvenna. Bráði svo af mér þess í milli þannig að ég hafði eðlilegt sálarlíf og drakk kaffi lengst af. Eftir að hafa farið í huganum yfir helstu sjúkdómsgreiningar kom eiginlega bara ein til greina sem er ólétta. Kannski afleiðing af því að vera á leiðinni með að verða þingmaður Suðursveitar en þar í hreppi hafa jafnt konur sem karlar átt það til að taka léttasótt.
Mér var því eiginlega létt þegar þessi krankleiki svo braust út í gærkvöldi með háum hita og beinverkjum sem staðfesting á að ég væri þá bara með flensu sem hefði verið svona lengi að ná sér á strik. Nú hef ég sofið meira og minna í 20 tíma og er heldur að hjarna við en samt ekki meira en svo að ég skrifa ekki meira í bili. Verð til dæmis að frábiðja mér í bili að lesa yfir stefnuræðu Adda Kidda Gau sem hann flutti á landsfundi sínum og hefur verið vitnað til sem rasisma. En ég lofa að kíkja á hana um leið ég hef heilsu til og halda þá áfram að tala um innflytjendamál sem talsvert er bloggað um þessa dagana, m.a. útfrá kommenti mínu í gær.
Í bili verð ég að láta duga af vitrænni umræðu greinar sem hafa verið í blöðum eftir mig síðustu daga, hendi inn einni í dag og annarri síðar
Kjarklausir sveitamenn
3.2.2007 | 18:30
Þjóðlendumálið er skólabókardæmi um kjarkleysi íslenskra sveitamanna og talsmanna þeirra. Stofnun samtaka til að berjast í þessu máli vekur vonir um betri daga í þeim efnum.
Nú er það auðvitað svo að stórfelld tilraun ríkisvaldsins til eignaupptöku snertir fleiri en sveitamenn. Íslenskir landeigendur búa víðs vegar, bæði í borg og sveit. Upphaflega eru þjóðlendulög sett til að taka af tvímæli um land sem er í einskis manns eigu. Hvorki samtök bænda né þingmenn landsbyggðar vöruðu sig á að setja yrði sérstakar skorður við því að tekist yrði á um þinglýst lönd einstaklinga. Fljótlega var þó ljóst að ríkið hlyti að ganga út á ystu nöf í kröfugerð sinni sem það enda hefur gert. Þannig eru grunnreglur réttaríkisins.
Það sem vekur furðu er að ekki skuli fyrr hafa komið fram mótuð og ákveðin krafa um breytingu á lögunum. Hún er fyrst nú orðuð af alvöru eftir að fjármálaráðuneytið ræðst á vígi Þingeyinga og kemur kannski ekki á óvart að þar sé vörnin hvað sterkust. Hafi Þingeyingar og aðrir sem að stofnun Landssamtaka landeigenda stóðu þökk fyrir.
Hinir duglausu ...
Þjóðlendumálið allt eru ógöngur íslenska réttarríkisins. Þar bera fjölmargir ábyrgð. Bændasamtökin sem lögðu blessun sína yfir lagafrumvarp um málið, ríkisstjórnin, ráðherrar sem með málið hafa farið en þeir koma allir úr Sjálfstæðisflokki og síðan allir þeir sem létu þetta óátalið. Þar er ábyrgð stjórnarandstöðu mikil en þar í flokki hafa menn haft fjölmörg tækifæri til að setjast niður með landeigendum og forma þær lagabreytingar sem duga til að milda alla meðferð málsins. Sama hefðu óbreyttir stjórnarþingmenn getað gert. Dugleysi þessara aðila er mikið.
En einnig landeigenda og Bændasamtakanna sem hafa haft allan tíma til að vinna að lagafrumvarpi til breytinga og getað síðan látið á það reyna að frumvarpið fengist flutt á Alþingi.
Ég held aftur á móti að það sé ósanngjarnt að draga dómara og kröfugerðarmenn fjármálaráðuneytis fram sem sökudólga. Þeir aðilar eru aðeins að vinna sína vinnu og verða að gera það innan þess ramma sem Alþingi setur. Það er líka ósanngjarnt að draga ráðherra annarra málaflokka fram sem sökudólga í þessu máli. Þeirra staða til að beita sér gegn samráðherrum er afar þröng, - miklu mun þrengri en til dæmis staða óbreyttra stjórnarþingmanna.
...og héraháttur þeirra!
En afhverju hefur þetta farið svo! Afhverju hafa íslenskir sveitamenn ekki haldið betur á sínum málum. Af meiri festu og einurð.
Ég held að ástæðunnar sé að leita í þeirri bælingu sem einkennt hefur alla baráttu landsbyggðarfólks fyrir réttindum sínum innan samfélagsins um langt árabil. Byggðastefnan hefur verið skammaryrði, barátta landsbyggðarfólks verið gerð tortryggileg, aumkunarverð og núið um nasir að vera hluti af sérgæðum og spillingu. Allt er þetta fram úr hófi ósanngjarnt en hefur síast inn í samfélagi þar sem borgríkið við Faxaflóa ber höfuð og herðar yfir allt annað.
Í skjóli þessa hugsunarháttar hafa ógöngur þjóðlendumálanna dafnað. Landsbyggðarþingmenn í stjórnarliði hafa hikað við að standa upp í þessu máli eins og svo fjölmörgum öðrum í ótta við að þar með væri verið að styggja ímynduð meirihlutasjónarmið. Í stjórnarandstöðu hefur áhuginn á hag landeigenda og landsbyggðarfólks verið hverfandi og stundum minni en enginn. Talsmenn landsbyggðarinnar utan þings hafa einnig verið hikandi.
Það er löngu tímabært að landsbyggðarfólk á Íslandi láti af hæversku sinni og hérahætti. Okkar staða í samfélaginu á og getur verið sterk. Landsbyggðin öll og þar með baráttumenn í þjkóðlendumálum eiga sér virkan stuðning við sjónarmið sín meðal fjölda þeirra sem búa við Faxaflóa.
Gott og nauðsynlegt...
2.2.2007 | 14:30
Það er ekki bara gott að stjórnmálaleiðtogar komi nú hver á eftir öðrum og fordæmi daður frjálslyndra við rasisma. Það er algerlega nauðsynlegt. Í stjórnmálum eru ákveðin grundvallaratriði sem þurfa að vera á hreinu. Þar efst á blaði er virðing fyrir mannréttindum óháð kyni, kynþætti, kynhneigð og yfirleitt öllu sem gerir okkur börn heimsins ólík hvert öðru...
Einhverjir hafa líka lagt þetta svo út að kaffibandalagið sé nú endanlega úr sögunni og það er líklega rétt. Enda eðlilegt, fjórflokkurinn á Íslandi er nánast lögmál og hefur verið í bráðum 1000 ár. Sjálfur hef ég enga trú á að til verði raunverulegir og lífvænlegir stjórnmálaflokkar aldraðra eða svokallaðra framtíðarbarna. Og líklegast þykir mér að Frjálslyndi flokkurinn verði varla á vetur setjandi eftir næstu kosningar.
Þar með skapast líka ný staða í bollaleggingum um stjórnarsamstarf og við getum farið að kalla hlutina réttum nöfnum: Samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks væri þá ný viðreisnarstjórn, samstjórn vinstri flokkanna þriggja, Framsóknar, Samfylkingar og VG vinstri stjórn og samstjórn VG og Sjálfstæðisflokks,- æi heitir það eitthvað. Líklega eitthvað svo dularfullt og sjaldgæft að enginn kann á því nafn!
Meira um innflytjendamálin síðar - þar er virkileg þörf á raunverulega frjálslyndri umræðu sem tekur mið af aðlögun, jafnrétti og víðsýni en ekki rasisma og þröngsýni.
Steingrímur: Fyrirfram útilokað samstarf við flokka sem gera út á andúð í garð útlendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |