Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Hafnfirðingum vorkennt

Ók í gegnum Hafnarfjörð áðan og gat eiginlega ekki að því gert að vorkenna fólki þar svoldið. Rennur líka blóðið til skyldunnar verandi af Hafnfirsku blóði, ömmur mínar í föðurætt voru Weldingar og ef að er gáð er ég skyldur mörgum í bæ þessum.

Nú þarf þetta veslings fólks að kjósa um álver. Fyrir nú utan það hvað þessi upprifna umræða um álver á Íslandi er húmorslaus og leiðinleg er hér verið að kjósa um eitthvað sem er eiginlega ekki hægt að svara með jái eða neii. Meira að segja bæjarstjórinn í Hafnarfirði lýsti því um daginn yfir yfir að hann geti eiginlega ekki ákveðið sig þar sem ekki liggi allar upplýsingar fyrir. Hvað mega þá venjulegir Weldingar segja.

Hreppsnefnd sem ekki þorir að taka af skarið í skipulagsmálum á miklu frekar að segja af sér en að henda boltanum frá sér með þessum hætti. Atkvæðagreiðslur almennings geta í einstöku tilfellum átt við en þetta er ekki gott dæmi um það. 

En þrátt fyrir þetta nöldur er ég nú heldur að vona að ekkert verði úr fyrirhugaðri álversstækkun. Við erum þegar komin á veg með mjög mikla álversuppbyggingu og einhæfni í atvinnulífi er ekki eftirsóknarverð. Og svo hitt að okkur vantar virkilega stóriðjuuppbyggingu á Norðausturhornið en áluppbygging hér dregur úr svigrúminu til þess að ráðast í framkvæmdir þar. Og það er hreint ekkert mikið svigrúm í efnahagslífinu eins og er....

Já og svo segir fólk að það sé mengun af þessari stækkun,- ég veit nú svo sem ekki hvað er til í því en það er vissulega einhver mengun af öllu. Líka frá íbúðabyggð og hótelum. Ég treysti nú einhvernveginn Rannveigu Rist öðrum betur til að passa upp á mengunina. Á sínum tíma töldu sumir að Hafnarfjörður yrði óbyggilegur við komu álversins þar í gamla daga en það hefur hann ekki orðið...


Frá foreldrarölti og 19. aldar cappuchino

Var í foreldrarölti á laugardagskvöldinu. Afar mikilvægt og ekki þungbær kvöð því ég held að það séu alls tvö kvöld fyrir hvern ungling. Þetta gerir fjölmennið hér á Selfossi. Þó svo að okkur þyki allt í allrabesta lagi með unglingana er mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Hlutirnir eru í lagi af því að það er unnið fyrir því en ef við sofnum á verðinum getur hallað á. Það á við um unglingauppeldið eins og allt annað gott.

Við skálmuðum því í frostnepjunni þrjú, ég og hjónin Hjalti og Hildur frá Gufuhlíð. Afar skemmtilegt þó það hefði mátt vera hlýrra. Sáum ekki neina unglinga sem til okkar heyrðu en utan við pakkhúsið voru pæjur og töffarar á fjölbrautaskólaaldri.

Annars hef ég átt róllega helgi og notið þess að sitja yfir ævisögu Eldeyjar Hjalta sem ég eignaðist um daginn austur á Höfn. Mögnuð lesning. Hjalti segir þar m.a. frá kaffidrykkju austur í Mýrdal fyrir hartnær hálfri annarri öld. Húsfreyjan í Kerlingardal, annálaður skapvargur og sóði, skammtaði þar kaffi með þeim hætti að hún hellti fyrst kaffi í bolla allra og tók svo rjómaskál, stakk í rjómann hornspæni (skeið á nútíma íslensku) og skammtaði einni skeið á hvern bolla en í stað þess að demba úr skeiðinni í bollann nostraði hún við með því að stinga rjómaskeiðinni upp í sig og spýtti svo ofan í kaffið. Söguhetjan, Eldeyjar Hjalti var lítið hrifinn af þessari trakteringu og ég lái honum það svosem ekki. En velti því samt fyrir mér hvort kerlingin hafi ekki með þessu verið að ná fram svipuðum áhrifum og við gerum með því að flóa kaffimjólkina í dag,- þ.e. að þetta hafi verið nokkurskonar cappuchino 19. aldar manna sem þarna er lýst. Með spýtingunni hefur rjóminn náð að blandast kaffinu með líkum hætti og ná má með gufuspýtingu nútíma kaffivéla.

Ég hef ámálgað þessa vinnuaðferð við kaffidömurnar mínar á bókakaffinu en fengið fremur dræmar undirtektir. bara íhaldssemi!


Sáttahyggju í umhverfismálum

Mér er í barnsminni að orðið umhverfisvernd hafi merkt að vera sérlegur hatursmaður sauðkindarinnar. Skepna þessi var lengi talin upphaf og endir á allri þeirri gróðureyðingu sem orðið hefði í landinu. Kallaðir voru til vitnis í þeirri umræðu íslenskir menntamenn allt frá dögum Ara fróða. Ómar Ragnarsson gekk í þá daga að vatnsrofi í Grafningsfjöllum og kenndi um sauðfjárbúskap. Virtar leikkonur í Reykjavíkinni vitnuðu um að sauðkindin gerði landið bæði ljótt og leiðinlegt.

Bændur sjálfir voru sjaldnast kallaðir til vitnis og þótti eiginlega jafn fráleitt að tala við þá eins og að beina hljóðnemanum að sauðkindinni sjálfri. Síðan þetta er hefur mikið vatn runnið til sjávar.

Öfgarnar skila engu

Gróðurverndarumræða í landinu hefur fyrir löngu jafnað sig á þessum öfgum. Stórvirki eru í dag unnin í uppgræðslu mela og rofabarða og fremstir í þeim flokki eru nú sem fyrr bændur landsins. Engum dettur lengur í hug að kenna sauðfjárbúskap um eldgos eða harðæri fyrri alda. Miklar framfarir hafa orðið í þessum efnum en mér er til efs að öfgafull umræða á síðasta aldarfjórðungi 20. aldar eigi nokkuð í þeim árangri.

Og öfgamennirnir sem áður hrópuðu á torgum að landið væri að fjúka á haf út hafa vitaskuld fundið sér ný mið. Þeir eru jafnvel orðnir elskir að sauðkindinni en óvinur samtímans þeirra í dag er raforkan og stóriðjur. Eins og þar sé upphaf og endir alls í umhverfismálum í okkar landi.

Stærsti kostur þessara baráttuglöðu víkinga verður nú sem fyrr að þá þrýtur yfirleitt örindið áður en við er litið og hafa að líkindum fundið sér nýjan óvin áður en mörg ár eru liðin.

Sátt og vinnufriður

Nú er það ekki svo að sauðfjárbeit sé alltaf heppileg í viðkvæmu landi. Og það er heldur ekki sjálfsagt að láta undan öllum hugdettum Landsvirkjunarmanna um stóriðjur og vatnsaflsvirkjanir. En það er meðalhófið sem gildir. Án þess eru litlar líkur á farsælum niðurstöðum.

Á sínum tíma voru það farsælir og yfirvegaðir landbótamenn sem gengu inn í gróðurverndarumræðuna og tókst þar að skapa sátt og vinnufrið. Þar má nefna baráttumenn eins og Ólaf Dýrmundsson sauðfjárræktarráðunaut og Jón Helgason bónda og fyrrum landbúnaðarráðherra. Smám saman náðu rök, skynsemi og sáttahyggja yfirhöndinni í þessari umræðu og öfgafólkið fann sér sem fyrr segir ný mið.

Kjarkmiklir framsóknarráðherrar

Í umræðunni um orkumál og stóriðju gildir það sama. Iðnaðarráðherra hefur nú lagt fram mjög merkar tillögur að lögum um nýtingu auðlinda í jörðu. Þar er tekið tillit til sjónarmiða beggja og náttúran þó látin njóta vafans. Þannig viljum alvöru umhverfisverndarmenn í landinu vinna.

Öfgamenn halda áfram að hrópa og segja að þessi nýja sáttatillaga sé einskis virði því með henni sé ekki lagt blátt bann við neinu sem þegar er komið í gang. Það er rétt enda er ekki til verri stjórnsýsla en sú sem telur sig geta stjórnað afturvirkt.

Ég er mikill umhverfisverndarsinni og tel jafnframt að versti óvinur íslenskrar náttúru sé sá skotgrafarhernaður sem öfgamenn vilja halda umræðunni í. Við umhverfisverndarsinnar getum vitaskuld ekki snúið við hjóli sögunnar. Þau leyfi sem veitt hafa verið hljóta að standa en gefa engin forréttindi. Staða mála við Þjórsá er gott dæmi um þetta en þar ber að fagna nýju útspili umhverfisráðherra um að ekki skuli liðið að Landsvirkjun fari með eignarnámi á hendur bændum við Þjórsá. Jónína Bjartmarz sýnir þar meiri kjark en við höfum til þessa séð í samskiptum ríkis og Landsvirkjunar. Með þessu er líklegt að bæði Búða og Urriðafossi verði þyrmt.

Hvorutveggja vekur mér þá von að öfgarnir í umræðunni séu á útleið. Getur þetta öfgalið ekki farið að tala um stéttabyltingu aftur eða bara barist á móti litasjónvarpinu!

(Birt í Blaðinu í Reykjavík 24. feb. 2007)


Í sumarbúðum Framsóknarmanna - á góunni

Framsóknarmenn eru bráðgerir og því eðlilegt að þeir haldi sumarbúðir á góunni. Listi frambjóðenda flokksins í Suðurkjördæmi eru nú í hóteli þeirra Guðmundar og Lóu í Vík og héldu þar dæilega kvöldvöku í gærkvöldi. Í stuttu máli voru menn sammála um allt en óneitanlega hitnaði undir kosningaráðgjafanum þegar hann um miðnótt kom með tillögur sem hinni talnaglöggu Helgu Sigrúnu reiknaðist til að tækju 58 daga í framkvæmd... en auðvitað verður ekki upplýst frekar um hernaðarleyndarmál þessarar góðu samkomu hér á opinni bloggsíðu. Ég tók svo að mér hlutverk ármanns og æpti hér ræs klukkan 8 og stemmningin næstum eins og heimavistum ML fyrir fáeinum árum síðan...

Pólitískir sigrar!

Yfirlýsing Jónínu Bjartmars um að ekki séu forsendur fyrir eignarnámi á landi fyrir Þjórsárvirkjanir marka tímamót og eru stórkostlegar. Hafi hún þökk fyrir. Þar með er framtíð virkjana í neðri hluta Þjórsár komin í hendur heimamanna eins og vera ber.

Þetta er reyndar ekki eini pólitíski sigurinn á þessum góða degi því klámhundar þeir sem hugðust koma til Íslands hafa nú hætt við allt saman. Þar réði úrslitum ákvörðun sveitunga míns Hrannar Greipsdóttur hótelstjóra á Sögu að hýsa þetta fólk ekki.

Fólk þetta boðaði að það ætlaði til kvikmyndatöku í Skálpanesi í Langjökli. Eiginlega finnst mér sá fallegi hvíti hjálmur eigi betra skilið en að vera leiktjöld í klámmyndum...


Virkjum tæknikubbana - Framsóknarleg framtíðarsýn II

Allir sem þvælst hafa um Evrópu þekkja hversu miklir tæknikubbar Íslendingar eru í samanburði við þær þjóðir sem við berum okkur saman við. Um margt nútímavæddari í neti, símum, bílum og atvinnuvegum yfirleitt en nokkur önnur þjóð. Og vissulega hefur tæknidýrkunin bæði kosti og galla.

Þá kosti að við erum fljót að tileinka okkur nýjungar. Þá galla að við erum á köflum bruðlsöm og siglum hratt. Ávinningurinn af tæknihyggjunni vegur eyðsluna þó yfirleitt upp eins og sannast á hagkerfi okkar og hagvexti langt umfram nágrannaþjóðir okkar.

Hlutverk okkar í framtíðinni er að nýta tæknidellu Íslendinga til góðs. Hún gefur fjölmarga möguleika ef rétt er á málum haldið.

Hagvöxtur, framþróun og nýjungar byggja á því að virkja þær auðlindir sem eru í landinu. Hluti þessara auðlinda eru kraftur jökulfalla, hiti hvera og gróska lands og sjávar. Hluti þeirra auðlinda sem við eigum eru mannauður. Því fer fjarri að Íslendingar séu betur gefnir en aðrar þjóðir. Sumt í fari þeirra bendir til að þá skorti margt á í þeirri skynsemi og varfærni sem er ríkjandi meðal Evrópuþjóða og það kann að vera afleiðing af mjög örri breytingu frá örbirgð til allsnægta. En þegar kemur að því tileinka sér nýjar aðstæður, nýjungar í tækni og breytingar á markaði eru Íslendingar fremstir meðal jafningja.

En því er ég að tala um þetta? Segja það sem allir vita og skiptir svosem engu máli. Ekki frekar en kolmórautt jökulfallið sem rennur með dynkjum til sjávar og allir vita að er kraftmikið.

Það þurfti samt Einar Ben. til að tala um það sjálfgefna að í jökulfallinu væri kraftur og möguleiki. Áratugum síðar gerðum við þennan kraft að auðæfum til að klæða og mennta börn þessa lands. Á sama hátt eigum við að gera okkur grein fyrir sérkennum okkar sjálfra og möguleikum okkar út frá þeim. Fyrst er að tala um sérkennin og svo koma möguleikarnir.

Hinir framsóknarlegu tæknikubbar Íslands eru kannski okkar stærsta auðlind. Hver veit?

(Birt í Blaðinu sl. mánudag)


Á röltinu á Hornafirði

Sit í Ásgarði sem var verbúð þegar ég var strákur hér á Höfn á Hornafirði, núna fínasta gistihús og morgunverðurinn hlaðborð sem er annað en var í fiskinum í gamla daga. En Hornafjörður er eins, jökullinn eins, hvorutveggja óborganlegt. Vorum hér á fundi í gærkvöldi, ég og Helga Sigrún Harðardóttir sem ýmist er talin vera konan mín eða systir mín... Nú bíður okkar að fara í fyrirtækjarölt og ef ég þekki Hornfirðinga rétt taka þeir vel á móti okkur. Nú eins og fyrri daginn.

Hitti Öræfinga og Suðursveitunga í gær. Á síðarnefnda svæðinu fann ég að virkilega hafði verið tekið eftir greininni minni þar sem ég skrafaði um að ég vildi verða þingmaður Suðursveitar. Þótti vænt um það og nú er ekki annað að gera en fara að halda sérstakan Suðursveitarfund...

Meira síðar.

ps. skrif mín um meinta klámhunda á Hótel Sögu hafa sveimér vakið athygli og margir hnotið um.  Mér er svosem ekkert hjartans mál hvar flokksþing Framsóknarmanna er haldið en tel bara rétt að það sé á hreinu að Framsóknarmenn gera ekki svona hluti með myndavélar yfir sér...


Nauðgun á íslenskri náttúru!

Auðvitað er ég eins og Flosi Ólafsson og allir aðrir karlmenn á Íslandi svag fyrir klámi. Annars væri eitthvað að mér. En ég geri mér grein fyrir að bakvið kynlífsiðnað heimsins stendur hrottaleg glæpastarfssemi mansals, eiturlyfja, mannfyrirlitningar og kúgunar.

Og þegar ég sé kynbræður mína og réttsýna menn um margt reyna að mæla því bót að Ísland verði vettvangur þessarar iðngreinar er mér nóg boðið. Einn af kostum Íslands sem við höldum í vegna fámennis og velmegunar er að hér er ekki sjáanlegur kynlífsiðnaður. Það er vitaskuld til einhver slík starfssemi og verður alltaf, - því miður. En ef við erum samstíga í okkar góða landi gegn slíkri starfssemi getum við haldið verulega aftur af þessari tegund glæpa. Það hve margir vilja nú sjá í gegnum fingur sér með þessa starfssemi er mér áhyggjuefni. Hafa menn gleymt að landið á dætur!

Í landi þar sem heiðarlegum borgurum leyfist ekki að byggja hænsnakofa uppi í sveit eða eiga kött án þess að skrá hann hjá hinu opinbera, er auðvitað út í hött ef eru til þau stjórntæki sem duga til að koma í veg fyrir umrædda ráðstefnu erlendra klámkónga. Ætlun þessara manna er að nota íslensk fjöll og íslenska náttúru sem leiktjöld fyrir klámmyndir. Ég trúi ekki öðru en því að hægt sé að koma í veg fyrir aðra eins nauðgun á okkar fagra landi.

Með þessu er ég ekki að taka undir það öfgafyllsta sem haldið er fram í baráttu gegn kynlífsiðnaði. Ég tel til dæmis alveg mögulegt að einhverjar heilbrigðar konur stundi vændi og leik í klámmyndum af fúsum og frjálsum vilja. En ég er jafn sannfærður um að fjölmargar konur gera þetta af nauðung fátæktar og vímuefnaneyslu og eigi sökum kúgunar litla sem enga möguleika á að rífa sig undan lífi sem er þeim þó heilt helvíti. Eigendur þessa iðnaðar eru ekki venjulegir heiðarlegir kapítalistar heldur gangsterar og glæponar.

Mér er sagt þessir tignu gestir komi á Hótel Sögu í byrjun mars og geri þaðan út í sínar reisur. Dagana á undan ætlum við Framsóknarmenn að halda flokksþing í sama hóteli sem enda er mörgum okkar frammara mikill uppáhaldsstaður,- sjálf Bændahöllin. En ef hótelhöldurum á Sögu er alvara með að hýsa þetta pakk,- þá hugnast mér nú einhvernveginn betur að við verðum bara á Loftleiðum með flokksþingið...


mbl.is Ung vinstri-græn harma að íslensk fyrirtæki taki á móti klámframleiðendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrbætur í stað refsigleði

Það hefur verið hrollvekjandi að fylgjast með umræðum undanfarinna daga um Breiðuvík vestra og Byrgið hér í Grímsnesinu. Það má samt velta fyrir sér hvort ekki sé mál að linni í lýsingum og reynslusögum og kominn tími á aðgerðir í stað orða.

Aðgerðir vegna þessara mála þurfa að hafa tvennt að markmiði. Í fyrsta lagi að bæta eftir því sem mögulegt er fyrir það tjón sem viðkomandi einstaklingar hafa orðið fyrir. Það á við um bæði þessi tilvik, einnig Breiðavíkina þó áratugir séu síðan. Okkur ber skylda til að veita þeim einstaklingum sem orðið hafa fyrir tjóni á sál og líkama alla þá heilbrigðisaðstoð sem unnt er að veita. Einhverjum kann að þykja fráleitt að tala um slíkt þegar um er að ræða atburði fyrir áratugum síðan en það er það ekki. Sálfræðileg og geðræn vandamál eiga sér oft tilurð í löngu liðnum atburðum og þarf að takast á við með því að opna á umræðu um erfiða hluti. Í tilviki þeirra sem dvöldu í Byrginu þarf að koma til mjög víðtæk aðstoð heilbrigðisþjónustu og félagsmálayfirvalda. Sú aðstoð þarf að ná til allra sem þar dvöldu á þessu tímabili, vistmanna og starfsmanna.

Við megum ekki falla á þá gryfju refsigleði að vilja alltaf og eingöngu lúskra á sökudólgum. Með þessu er ég ekki að segja að menn eigi ekki að taka út refsingu fyrir sín afbrot að því marki sem lög ákveða. Þar fer kerfi lögreglu, saksóknara og dómstóla sína leið og þar handan við tekur svo Fangelsismálastofnun.

Hitt má aldrei gleymast í ákafanum og reiðinni sem við eðlilega fyllumst öll við að heyra um mjög andstyggileg afbrot að brotamaðurinn er í flestum tilvikum einhverskonar fórnarlamb líka. Í öllum afbrotum af því tagi sem hér er talað um er brotamaðurinn fórnarlamb eigin sjúkleika. Allt í kringum hina seku standa svo aðstandendur, börn, makar, foreldrar. Allt þetta fólk tekur nú út grimmilegri refsingu götunnar en nokkurt okkar utan þessa hóps getur almennilega gert sér í hugarlund. Við þurfum í samfélagi okkar að hafa leiðir til að mæta öllum fórnarlömbum atburða sem þessara.

Fjölmiðlar munu segja sögur af þessum stöðum meðan almenningur vill hlusta. Grimmileg uppljóstrun fjölmiðla hefur hér unnið ómetanlegt gagn en hún er tvíbent vopn í höndum fórnarlambanna. Miklu farsælla er nú að þeir sem bera harm vegna viðskipta við þessar stofnanir og aðrar leiti leiða út úr þeim tilfinningum með aðstoð sálfræðinga og sálgæsluaðila fremur en blaðamanna.

En ég gat hér um að aðgerðir í máli þessu þyrftu að hafa tvennt að markmiði. Um það fyrra hefi ég nú talað en það síðara er að afstýra þarf að atvik þessi geti endurtekið sig og séu að endurtaka sig. Það kemur engum sérstaklega á óvart að eftirlit hins opinbera með stofnunum á borð við Breiðavík var í molum á Íslandi fyrir 40 árum. Hitt er til muna einkennilegra að allt síðan þá hafa nær engar framfarir orðið í eftirliti með þeim fjölmörgu aðilum sem þiggja opinbert fé til mannúðar- og líknarmála. Við verðum að vona að atvik eins og þau sem átt hafa sér stað í Byrginu séu algerlega einstæð. En við vitum aftur á móti að fjárhagsleg óstjórn og frjálsleg meðferð almannafjár hefur margoft komið upp á sambærilegum stofnunum án þess að gripið hafi verið inn í. Hinar fjölmörgu og rykföllnu skýrslur Ríkisendurskoðunar um Sólheima bera þessu glöggt vitni og kalla ásamt óhæfuverkum á Byrginu á algera uppstökkun á allri tilsjón með opinberu fjármagni.

(Birt í Sunnlenska fréttablaðinu 15. febrúar 2007)


Framsóknarleg framtíðarsýn I: Afstaðan til afdala

Í lífi okkar allra er það samtíminn sem skiptir máli. Þeim sem ekki tekst að lifa í núinu tekst aldrei að skipuleggja framtíðina og ekki heldur að sættast við fortíðina. Hvern dag söfnum við fortíð og leggjum hana inn fyrir góðri framtíð. Takist okkur ekki að safna góðum minningum eða fortíð eru líkurnar á að okkur takist að leggja inn fyrir góðu lífi eða framtíð minni en ella.

Íslenskt samfélag hefur á mannsaldri gengið í gegnum gríðarlegar breytingar sem okkur gengur misvel að sætta okkur við. Það gilda nákvæmlega sömu lögmálin í sýn okkar á samfélagið eins og gilda í lífi hvers og eins. Okkur er nauðsynlegt að kannast við fortíð okkar, standa traustum fótum í henni og sættast við hana með öllum þeim þolláki sem er í þeirri sögu. Aðeins þannig erum við fær um heilbrigða framtíðarsýn.

Framtíð íslensku þjóðarinnar er vitaskuld ekki í moldarkofum forfeðra vorra en hún er í afdalnum. Sjálft landið er afdalur heimsins og samt nafli hans. Við getum hatast út í þennan afdal og talað okkur niður til þess að hér sé allt verra en í milljónaborgunum. Mynt okkar heiti ekki einu sinni almennilegu nafni. Byggt okkur framtíðarsýn á fyrirlitningu á öllu sem okkur tilheyrir hvort sem það er sagan, menningin eða landið. En það er ekki heillavænlegt.

Heillavænlegra er að horfa á möguleika okkar lands út frá sögunni og þeim tæknimöguleikum sem samtíminn hefur að bjóða. Hlutverk stjórnvalda í þeirri uppbyggingu er að skapa skilyrðin með háhraðatengingum, samgöngubótum og háskólasetrum um land allt.

Fyrir mannsaldri síðan reiknuðu reiknuðu reikniglöggir menn út að við Ölfusárbrú í Árnesþingi gætu í hæsta lagi búið tvær fjölskyldur, alls ekki þrjár. Þegar íbúarnir voru nokkrum árum seinna orðnir 100 reiknuðu enn aðrir út að Selfyssingar gætu orðið 200, alls ekki fleiri. Ég man ekki ártölin eða tölurnar nákvæmlega en þetta var einhvernveginn svona. Í dag eru þeir á sjöunda þúsundinu þvert á öll vísindi.

Selfossbær er vel í sveit settur og hefur dafnað. Ef stjórnvöld halda rétt á málum geta fleiri byggðarlög í landinu dafnað. Nýting okkar náttúruauðlinda byggir á því að við byggjum landið allt. Með því að færa þekkingu og menntun út um landið sköpum við möguleika á að nútímalegri búauðgistefnu. Hún getur legið í virkjun vindorku á Vestfjörðum eða lífdíselframleiðslu í Skaftafellssýslu.

Ef við af skammsýni höldum áfram að hrúga allri uppbyggingu ríkisins og allri menntastarfssemi þjóðarinnar niður á einum stað drögum við úr líkum þess að þjóðin haldi vopnum sínum og noti til fullnustu þá möguleika sem hún á í tækni og þróun.

(Birtist í Blaðinu í Reykjavík, 13. feb. 07)

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband