Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Bretana heim og Ísland úr Nató!

Ráðaleysi ríkisstjórnarinnar er algert þessa dagana. Viðtalið við Geir H. Haarde í Kastljósinu varpaði skýru ljósi á það en ef við skoðum það sem þar var sagt og hefur verið sagt undanfarið þá er myndin svona:

Ísland reyndi af veikum mætti að semja við Rússa og Skandinava.

Hinir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins og þingmenn Samfylkingar gerðu háværa og miður gáfulega kröfu um að Ísland semdi tafarlaust við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (IMF).

Breskir kratar ákváðu að nota Ísland til atkvæðaveiða og gerðu efnahagslega árás á landið sem kostar bæði íslenska hagkerfið og sparifjáreigendur í íslenskum bönkum hundruði milljarða. Sumir þessara sparifjáreigenda eru sjálfir breskir. Bretar heimta að íslenska þjóðin borgi innistæður Icesave sem eru um 600 milljarðar króna eða næstum eins og hálfsárs fjárlög.

Rússar og Skandinavar frétta af IMF blaðri nokkurra ráðamanna og ákveða því að bíða eftir að sjóðurinn skili skýrslu um Ísland og lána okkur svo...

IMF - sem Bretar og Hollendingar eiga báðir stjórnarmann í  -  gerir kröfu um að Ísland gangi frá sínum málum gagnvart Breskum stjórnvöldum - semsagt skuldsetji börn okkar fyrir 600 milljörðunum.

Dagarnir líða og Rússar og Norðmenn og Svíar og fl. fleiri bíða með peningapokana sína eftir IMF skýrslunni sem íslenskir kratar hafa blaðrað um svo vikum skiptir...

Filipus Grín fjárdólgur frá Bretlandi hugsaði sér gott til glóðarinnar og vildi kaupa hér allt fyrir slikk. Hann fékk það ekki og er farinn.

Í staðin eru komnir enn verri gestir - sem er samninganefnd Gordons Brown sem líka hugsar sér gott til glóðarinnar að láta íslendinga skrifa undir 600 milljarða víxilinn með hjálp þumalskrúfu IMF. Sem við megum alls ekki gera - en ég óttast að verði enda ekkert aðgerðaplan í sjónmáli.

Slíkt plan gæti verið:

 

  1. Senda bresku sendinefndina heim og vísa öllum ágreiningsmálum þjóðanna fyrir dómstóla. Það er vafamál að íslenska þjóðin skuldi að lögum innistæðueigendum Icesave krónu..
  2. Gera þá kröfu á IMF að hann skili a.m.k. greinagóðri skýrslu um Ísland enda landið stofnaðili að sjóðnum...
  3. Gera síðan þá kröfu á vinaþjóðir okkar að þær hjálpi okkar án skilyrða...
  4. Ganga úr Nató. Þegar gamlar bandalagsþjóðir skilgreina okkur sem hryðjuverkamenn og engin af þeim í stóru í Nató lyftir litla fingri þá er einfaldlega ekkert annað að gera...

Fyrir þessari leið þarf mikinn kjark og alls ekkert óðagot og það þarf standa fast á íslenskum hagsmunum.


Goddurinn góður... og skrýtinn dagur!

Kastljósviðtal við listamennina Goddinn og Val Gunnarsson var athyglisverðast í öllu fjasi kvöldsins. Þeir ræddu meðal annars krúttkynslóðina sem er hugtak sem ég hef ekki frekar en aðrir skilið til fulls. En Guðmundur skýrði þetta - hugtakið snýr að lopapeysufólkinu sem hefur hafnað glamúrnum og lífsgæðakapphlaupinu, tekið umhverfismálin alvarlega og ég hefði viljað bæta því við að hópurinn á sparsemi og ráðdeild að einkennismerki,- gömul og góð íslensk gildi.

Ég held að það sé rétt að þessi þjóðfélagshópur sé til - hvort sem allt það fólk er af sömu kynslóðinni eða fleiri. Og hópurinn er ekki mjög einsleitur í pólitíkinni, margir eru auðvitað vinstri sinnaðir en ég þekki líka anarkista og frjálshyggjusinnaða í þessum hópi og marga marga sveitalega Framsóknarmenn. Og ég er sammála Goddanum að þetta er hópurinn sem mun landið erfa og vonandi taka Nýja Ísland með trompi...

Annars er dagurinn búinn að vera skrýtinn í pólitíkinni. Í gærkvöld svaraði ég blaðamanni nokkrum spurningum um óróleika í Framsóknarflokks þar sem Björn Ingi og nokkrir með honum hafa um langt skeið sprengt reyksprengjur. Ég fékk svo miður kurteislega gusu yfir mig um hádegisbilið og svaraði henni lauslega í kommenti hjá viðkomandi. Þetta er reyndar í annað skipti sem þessi hópur líkir mér við Sleggjuna (Kristinn H. Gunnarsson). Þó ég kunni nú alltaf hálfilla við svona barnaleg samanburðarfræði hljómar það ólíkt heiðarlegra að vera líkt við Kristinn heldur en t.d. REI - borgarfulltrúann fyrrverandi.


Hvor okkar er aftur í stjórnarandstöðu!!!

Sat í morgunkaffi á Útvarpi Sögu í morgun sem telst varla til tíðinda. Með mér þar í beinni útsendingu var Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar. Það sem gerði umræðuna merkilega en um leið fáránlega var að ég lenti hér ítrekað í að verja stjórnarathafnir sitjandi ríkisstjórnar og valdastofnana. arnipallarnason

Nei, Árni við erum ekki komin að fótum fram, nei, gjaldeyrisviðskipti hafa ekki öll stöðvast, nei það er ekki rétt að grípa til varagjaldeyrissjóðs þjóðarinnar, jú hann er víst til o.s.frv.

Raunar er allur málflutningur Samfylkingarinnar í því háskalega ástandi sem nú ríkir fyrir neðan allar hellur. Við stjórnarandstæðingar gerðum óformlegt samkomulag við ríkisstjórnina um að stilla málflutningi í hóf og gefa ráðherrum sem bestan vinnufrið. Töldum það einfaldlega réttara heldur en huga að pólitískum keilum. Á móti höfum við farið fram á samráð og daglega upplýsingagjöf.

Þar með er ekki sagt að aðhaldshlutverki okkar sé lokið en við teljum að það hafi það sem af er mánuði ríkt slíkt ástand að rétt sé að slíðra sverðin og standa saman að aðgerðum. Því studdum við Framsóknarmenn neyðarlög ríkisstjórnarinnar og yfirtöku bankanna þó auðvitað megi gagnrýna margt í því ferli.

En það hafa mörg mistök verið gerð og þeim verður haldið til haga nú þegar um hægist. Bæði of mikið verið sagt og of lítið gert. Stærstu mistökin eru vitaskuld hversu seint er gripið til allra ráðstafana og varnarorðum ekki sinnt.

En á sama tíma og við slíðrum sverðin halda Samfylkingarmenn uppi látlausu blaðri og jafnvel árásum á valdastofnanir samfélagsins sem allar þurfa á öllu sína að halda. Flokkur þessi hefur líka ítrekað sent óheppileg skilaboð inn á afar viðkvæmt samningaborð Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Það ótrúlega gerist nú hér í stjórnmálalífi landsmanna að jafnvel í stjórnarþátttöku tekst Samfylkingunni að einangra sig pólitískt með innihaldslitlu og stundum miður greinarlegu gaspri...


Háskalegt tal um þjóðargjaldþrot!

Skuldir Íslendinga eru margfaldar á mannsbarn miðað við það sem við sjáum í nágrannalöndum okkar og erfiðleikar okkar í bankakreppunni eru það versta sem við höfum séð í sambærilegri kreppu.  Af þessu hafa fjölmargir dregið þá ályktun að um þjóðargjaldþrot sé að ræða og að landið eigi sér nú enga leið út úr vandanum aðra en að kalla hér til Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) og fela honum stjórn mála.

Í þessu er fólgin mikil einföldun. Einkanlega vegna þess að höfðatöluútreikningar á skuldastöðu segja ekki nema hálfa sögu. Með sama hætti er hægt að benda á að náttúruleg auðævi Íslendinga eru margfalt meiri en nokkurrar annarrar vestrænnar þjóðar, ef reiknað er út frá höfðatölu. Raunhæfast er kannski að meta annarsvegar auðlindir þjóða og hinsvegar skuldir en sleppa ómegðinni. Í þeim samanburði er næsta víst að staða Íslands er öfundsverð eins og starfsmenn IMF höfðu reyndar á orði í heimsókn sinni hingað í sumar.

IMF dæmir sig úr leik

En er kannski farsælasta leiðin að fela IMF hin pólitísku völd á Íslandi? Ég leyfi mér að efast um að svo sé. Í fyrsta lagi þá hefur þegar komið fram að IMF gerir ákveðnar kröfur vegna þeirrar deilu sem sprottin er upp milli Bretlands og Íslands og hefur þar með dæmt sig úr leik. Þar er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld haldi á málum af festu og láti ekki ómerkilegan áróður Gordons Brown afvegaleiða umræðuna. Við hann er ekkert að tala nema fyrir dómstólum.

Fyrir kratanum breska er Ísland það sem Falklandseyjar voru Margréti Thatcher. Mannkynssaga síðustu alda er ekki síst saga af ósanngirni breska heimsveldisins gagnvart öllum þeim sem þeir hafa getað haft undir. Árangur okkar í landhelgisdeilum 20. aldar eru einar af örfáum undantekningum þar frá. Ef deila þessi er falin yfirþjóðlegu valdi verða sjónarmið smáþjóðar mjög fyrir borð borin.

Um helgina vöruðu þeir Ragnar Önundarson og Þráinn Eggertsson við því í fjölmiðlum að íslenska ríkið tæki á sig afarkosti og vísuðu í því samhengi til Versalasamninganna 1919. Ef Ísland gengst IMF á hönd höfum það ekki lengur í hendi okkar hver niðurstaðan í fyrrnefndum skuldaskilum verður. Það orkar mjög tvímælis að halda því fram að bankainnistæður breskra sparifjáreigenda í Icesave hafi verið með íslenskri ríkisábyrgð.

Bretar báru sjálfir nokkra ábyrgð á hvaða fjárglæfrar voru stundaðir í Lundúnaborg og það er fráleitt hvort sem litið er á málið út frá lögfræði eða viðskiptasiðferði að íslensk alþýða beri ábyrgð á gjörðum íslenskra „athafnamanna" á erlendri grund. Og að nokkru er málið afleiðing af marglofuðu fjórfrelsi Evrópulanda sem Bretar bera ábyrgð á að minnsta kosti til jafns við Íslendinga.

Í annan stað ríkir enn mikil óvissa um hvert raunverulegt umfang Icesave reikninganna er þegar teknar hafa verið með eignir bankakerfisins. Bretar telja sig reyndar þegar hafa fryst eigur íslenskra banka sem nema innistæðunum og síst þarf þá fé skattgreiðenda þar til viðbótar. En um þetta er enn allt mjög á huldu og upplýsingar misvísandi.

Fullveldi til verndar auðlindum

Önnur ástæða þess að Ísland ætti í lengstu lög að forðast afskipti IMF er að með slíkri íhlutun stefnum við mjög í hættu yfirráðum okkar yfir auðlindum lands og sjávar. IMF hefur fylgt hráum og oft illskeyttum frjálshyggjukapítalisma í sínum lausnum á vanda þjóða og í litlu skeytt um félagsleg eða þjóðhagsleg sjónarmið. Mér er mjög til efs að hann hafi alltaf verið lánþegum sínum farsæll. Bankakreppan nú er í reynd áfellisdómur yfir þeirri hagfræði sem sjóðurinn hefur fylgt en það mun taka langan tíma að leiðrétta þann kúrs þar innanhúss.

Vel gæti verið að sjóðurinn fyrirskipaði einhverskonar útboð orkuauðlinda sem gæti verið fyrsta skref útlendinga inn í þau vé okkar. Slíkt er í fullu samræmi við algilda alþjóðavæðingu, villta frjálshyggju og önnur frekar úrelt og vafasöm sjónarmið. Sjóðurinn hefði engar skyldur gagnvart almenningi í þessu efni og þarf hvorki að taka tillit til vilja þjóðar né þings.

Draumsýn ESB - sinna

Af framansögðu er ljóst að það er okkur hættulegt að ganga á fund IMF í þeirri kokhreysti að þar verði engin skilyrði sett. Það er aftur á móti sjálfsagt að stjórnvöld ræði málefni landsins við sjóðinn og þreifi á hvaða aðstoð er möguleg án skilyrða. Hafi ég skilið fregnir helgarinnar rétt hefur fjármálaráðherra setið slíka fundi vestanhafs.

Á sama tíma hafa forystumenn Samfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins hamrað á að þegar eigi að ganga til samninga við IMF. Slíkt hefur verið einhverskonar pólitík til heimabrúks en vitaskuld hafa allar slíkar glósur farið hraðþýddar til IMF við borð fjármálaráðherra. Síðast á mánudagsmorgni lýsti utanríkisráðherra því fjálglega yfir að fyrst ætti að semja við IMF og síðan ESB!

Athyglisvert að nær allir þær fræðimenn og stjórnmálaleiðtogar sem hafa hampað nauðsyn þess að leita strax til IMF eru þeir sömu og talað hafa fyrir tafarlausri aðild Íslands að ESB. Getur verið að til séu í landinu þeir menn sem eiga einhverskonar þrot hins íslenska fullveldis sem draumsýn?


Ótrúlegt stjórnarsamstarf!

Hvernig ætli það sé eiginlega að vera fjármálaráðherra í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Á sama tíma hrópa ráðherrar og framámenn Samfylkingingar, Ingibjörg, Össur og Ágúst Ólafur í sífellu, göngum IMF á hönd skilyrðislaust...

Nýjasta útspilið var hjá Ingibjörgu í morgun, IMF fyrst og svo ESB. Afhverju segir hún ekki bara hreint út, niður með Ísland?

Og nú vilja bretar samninga við Ísland. Ég vona að Geir hafi kjark til að bjóða þeim byrginn því staðan er öll okkar megin í dag - Bretar hafa skapað sér billjóna skaðabótaábyrgð gagnvart okkur og slíkt verður ekki útkljáð við samningaborð.


Fantagott viðtal við Jón Ásgeir

Egill átti fantagott viðtal við Jón Ásgeir í Baugi nú í Silfrinu og raunar allur þátturinn góður. Ekki það að Jón segði neitt. Hann var afhjúpaður sem kaupmannssonurinn sem átti milljónir og tókst með ófyrirleitnu liði gamblara að breyta þeim í pappírs-skrilljónir - mest vegna þess að viðskiptasiðferðið var ekkert og gamblararnir í kringum hann máttu gera hvað sem er...

Öðru hvoru undanfarin ár hef ég heyrt menn halda því fram að Jón Ásgeir sé svo klár, svo klár. Ég fæ aftur á móti á tilfinninguna eftir þetta viðtal að þessi strákur sem byrjaði á lyftara hjá pabba sínum hafi kannski aldrei skilið almennilega hvað var að gerast í kringum hann - og talar núna í frösum um að úr því að Lehman fór á hausinn hafi hann mátt...

Og að Glitnir hafi verið í góðum málum með öll Stoðabréfin!


Sérhæfir sig í ljósritun - eða gjaldþrotum!

Ein af skemmtilegri auglýsingaseríum sjónvarpsins eru auglýsingar Prentmets þar sem gert er grín að litla atvinnurekandanum sem sérhæfir sig í ljósritun, aðallega A4 og er hallærislegri en allt sem hallærislegt er. Frábærlega leiknar og fyndnar en...

...frámunalega drýldnar og hrokafullar í garð lítilla samkeppnisfyrirtækja og svolítið með holum hljómi þessa dagana. Þó ég hafi fulla trú á sterkri fjárhagsstöðu Guðmundar í Prentmets (enda fyrirtæki hans gott) þá eigum við eftir að sjá alvarlegar afleiðingar þeirrar stefnu bankanna í mörg undanfarin ár að leyfa stórum fyrirtækjum að skuldsetja sig langt langt umfram það sem leyft er í litlum einyrkjafyrirtækjum.

Þá er ég ekki að tala um að auðvitað fái stóru fyrirtækin meira lánstraust sem nemur stærð þeirra. Tilfellið er - og sjálfur hefi ég oft býsnast yfir því undanfarin ár - að þá hefur trúin á mátt hinna stóru þýtt að stórum fyrirtækjum er lánuð margföld ársvelta út á ímynduð veð, nokkuð sem við smákapítalistarnir fengum blessunarlega aldrei að gera...

Við erum nú stödd í þeim hvirfilvind miðjum að stórfyrirtækin rúlla eitt af öðru en ef frá er talinn byggingaiðnaðurinn hef ég trú á að litlu fyrirtækin lifi kreppuna langflest og gjaldþrotin þar verði hlutfallslega miklu, miklu færri.

En, - jú, okkar fyrirtæki eru oft svoldið hallærisleg...


Kreppan og ESB og IFM...

Kreppan kallar fram bæði það versta og besta í manninum. Þannig hefur það alltaf verið.

Það versta er að sjá lukkuriddara nota aðstæðurnar til að troða fullveldi landsins ofan í forina. Sterkasti áróðurinn í því stríði er að allt sé tapað og þjóðarbúið gjaldþrota. Staðan er vissulega erfið og verður enn um sinn,- bæði hér heima og meðal annarra þjóða. Sérfræðingar telja að kreppan í ESB sé sex mánuðum á eftir því sem er í Bandaríkjunum og eins og oft erum við miðja vegu í kúrvunni miðað við þessi stórveldi.

Það getur vel farið svo að Ísland verði að leita eftir aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðsins en það er of snemmt að slá því föstu og flest sem bendir til að það muni ekki marka nein stórkostleg þáttaskil í glímunni við kreppuna.

Við erum einfaldlega alltof rík og vandinn slíkur skammtíma- og trúverðugleikavandi að það gæti eins orðið að Ísland fengi aðallega klapp á öxlina frá þeirri stofnun. Jú,- kannski alþjóðlegan trúverðugleika en það getur líka snúist í höndunum á okkur því við yrðum fyrsta vestræna ríkið til að þiggja slíka hjálp í marga áratugi. Það að lenda undir IMF gæti þessvegna eins orðið til að draga okkur enn meira niður í trausti meðal þjóða. Slíkt er dýrt en ekki neitt sem getur sett okkur á hliðina.

Það vekur mér aftur á móti ugg að sumir þeirra sem tala sem ákafast fyrir því að við leitum tafarlaust til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru sömu aðilar og hafa talað af hreinum trúarhita fyrir því að við göngum í ESB. Kannski verða þröskuldarnir þangað inn færri þegar við höfum einu sinni afsalað okkur fullveldinu til IMF.

 


Að kúra á pappírsmiðunum

Í meira en viku hafa sparifjáreigendur lagt leiðir sínar í bankana og tekið allt út, í reiðufé. Rogast svo heim með töskur eða poka fulla af fimmþúsundköllum. Sumir með milljónir sem þeir geyma þannig undir koddanum eða í földum skókassa inn í kúsaskáp. Ekki skynsamlegt...

Ef allt fer á versta veg þá bjargast þessir peningar ekki - heldur frekar hinir sem eru í sparisjóðsbókum. Því ef allt fer á allra allra versta veg verður hér slíkt ástand að Seðlabankinn verði að fara að prenta peninga í stórum stíl. Þá tekur við óðaverðbólga og af óðaverðbólgunni leiðir svo að seðlabúntin heima verða að verðlausum pappírum.

Það að taka peningana út með þessum hætti getur ýtt mjög harkalega undir þessa þróun og orðið til að skapa hér ástand sem kallar á peningaskort og síðan óðaverðbólgu. Það er einfaldlega ekkert sem getur orðið til að innistæður á hefðbundnum sparisjóðsbókum glatist...


Í ómi frá Bubba og ákalli á bankaræningja...

Það er góð hvíld frá þvarginu að hlusta á Bubba sem kyrjar hér yfir okkur öllum sem vinnum við Austurvelli og mörgum sem mætt hafa. Ég heyri hér suma hnjóða í þennan trúbadúr okkar fyrir að hann hafi nú sjálfur tekið manna skverlegast þátt í gamblinu og sé því kominn í hring,- að stál og hníf aftur á ný.

Sjálfum þykja mér skilaboðin frá Bubba góð,- það erum við sem skiptum mestu máli og meiru heldur en krónur og aurar. Bubbi er kannski holdgervingur okkar allra,- þó sjálfur hafi ég fyrir fátæktar sakir sloppið að mestu við að eiga hlutabréf eða peninga.

Bubbi er að minnsta kosti trúverðugari talsmaður en þeir þingmenn Sjálfstæðisflokks og leiðarahöfundur Fréttablaðsins (sl. þriðjudag) sem kyrja nú að ekki eigi að leita sökudólga og reiði fólksins sé bara leiðindatuð. Eða Davíð kallinn sem talar nú drýgjindalega um að hann hafi nú vitað þetta allt saman lengi!

Kostulegast alls nú eru samt Glitnisdrengirnir sem hrópuðu upp bankarán, bankarán fyrir viku en ætla nú að lögsækja menn fyrir að framkvæma ekki sama bankarán!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband