Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
Skuggaleg skuggabankastjórn...
5.11.2008 | 15:49
Ég er sammála skuggabankastjórn Seðlabankans sem skipuð er af ritstjórum Markaðarins að þjóðin þarf nýja menn í Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. En ef ég ætti að velja milli þeirrar stjórnar sem þar situr nú eða skuggabankastjórnarinnar þá líst mér margfalt betur á þá sem situr. Í henni eru margir vammlausir sómamenn eins og t.d. flokksbróðir minn Jónas Hallgrímsson, Halldór Blöndal og Ragnar Arnalds. Þessir menn vöruðu við ástandinu en stofnanirnar voru vissulega máttlausar.
Í skuggabankastjórninni sem skipuð er af Birni Inga Hrafnssyni eru Ásgeir Jónsson frá gamla Kaupþingi, Edda Rós Karlsdóttir sem stofnaði Icesave reikningana, Ólafur Ísleifsson og Þórður Friðjónsson. Þeir tveir síðastnefndu (jú og Edda Rós líka) sátu í nefnd sem í lok síðasta árs valdi Jón Ásgeir sem viðskiptamann ársins og Icesave sem eitt af þremur bestu viðskiptum ársins. Það fyrir tæpu ári síðan, rétt um það leyti sem bankaliðið var að tryggja sig og velta vandanum yfir á almenning og ríkissjóð.
En þetta er liðið sem fjölmiðlar útrásarvíkinga telja best geta gagnrýnt og bent á leiðir út úr vandanum!
Svo ætla ég að fara að áskorun Ólínu Þorvarðardóttir og enda þessa færslu á viðeigandi kröfu:
Burt með spillingarliðið!
Tímar spillingar og fáránleika...
4.11.2008 | 21:17
Við héldum sum að nú væru tímar uppgjörs í íslensku samfélagi. Sársaukafullt að vísu en samt uppgjör sem framkvæmt væri af einhverjum heiðarleika. Að útrásarvíkingarnir hefðu verið teknir útaf taflborðinu og nú yrði reynt að verja hagsmuni almennings.
Eftir síðustu tvo sólarhringa er ég gersamlega ofandottinn yfir þeirri ormagryfju sem opinberast fyrir okkur. Ekki bara útaf því sem var gert er - heldur miklu fremur því sem er verið að gera þessa dagana...
Jón Ásgeir tryggir um helgina eignahald sitt á nær öllum fjölmiðlum í einkarekstri. Semsagt maðurinn sem öllum öðrum fremur er búinn að setja þjóðarbúið á hvolf fær enn og áfram að ráðskast með fjórða valdið, fjölmiðlana. Auðhringar hans hafa raunar misnotað fjölmiðlana um mörg misseri til að halda frá gagnrýninni umræðu um útrásarvíkingana.
Lögfræðingar standa staffírugir framan við sjónvarpsmyndavélar og halda því fram að þeir séu bara fínir til að rannsaka syni sína! Rétt eins og ekki sé til fólk utan elítunnar. Sjálfur þekki ég marga ættlausa lögfræðinga sem engum eru háðir eða skyldir en hinum innmúruðu er ekkert um að fara með verkefnin út fyrir hringinn.
Skuldaniðurfellingar í bönkum og Exista kóróna svo þessa mynd af landi spillingar og fáránleika. Tilraun til að þræta og klóra yfir í gær og í dag eru viðbrögð fólks sem engan veginn kann að skammast sín.
Þjóðinni líður aftur eins og dagana sem bankarnir voru að fara á hausinn - þá vofði yfir okkur nýr banki hvern morgun og einhverjir trúðu að blóðbankinn yrði næstur.
Núna vofir yfir okkur að á morgun komi nýr og verri skandall.
PS: Gleymdi Samsonsmálinu - hvernig datt nokkrum í hug að biðja um greiðslustöðvun fyrir fyrirtæki sem er eignalaust og á ekkert upp í skuldir eins og fram kom í viðtali við talsmann þess. Slíkt er algerlega andstætt lögum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Að sverja ekki af sér spillingu...
3.11.2008 | 17:53
Bankastjóri Kaupþings banka svarar í dag í frétt ásökunum um að bankamenn fái sérmeðferð - og svarar með slíkri þoku að engu tali tekur. Það er ekki annað að sjá en til hafi staðið að fella skuldir af stjórum bankanna og hvað réttlætir það - meðan almenningi blæðir...
Ef allt væri í lagi hefði bankastjórinn sagt afdráttarlaust að ekkert í þessa veru væri í umræðunni en það gerir hann ekki. Bakvið það geta verið þrír möguleikar;
- Það hefur eitthvað mjög óeðlilegt staðið til.
- Bankastjórinn er klaufi í samskiptum við blaðamann
- Blaðamaður Vísis er klaufi - ef svo þá fáum við vonandi eitthvað nýtt í sexfréttunum...
________________
Bætt við kl. 20:35: Kvöldfréttirnar allar segja að ástandið sé verra, miklu verra en mig gat órað fyrir. Sé þar allt rétt hafa bankamennirnir sjálfir fellt niður prívat skuldir sínar - sem er eiginlega sambærilegt við að láta greipar sópa í bankahvelfingunni rétt áður en lyklarnir eru afhentir. Hvað fær menn til að gera hluti sem þessa er algerlega óskiljanlegt og það er útilokað í mínum huga að nokkur þeirra sem þarna kom nærri njóti trausts til að koma nálægt uppbyggingu á nýju bankakerfi...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
...svo ráðskist þeir með fréttirnar!
2.11.2008 | 23:10
Verð að leyfa fleirum að njóta þessa kveðskapar sem íhaldið hann bróðir minn heyrði jólaköttinn söngla á girðingarstaur í morgun.
Það á að ríða rúv á slig
svo ráðskist þeir með fréttirnar
og eigi fyrir eina sig
allar kjaftastéttirnar.
Baugsmiðlarnir eignast auð
og áfram verða á rólunum
því nú er gamla gufan dauð
svo græða þeir á jólunum.
Það þarf að leita langt aftur í sögunni til að finna viðlíka siðleysi í viðskiptum eins og það sem okkur var opinberað í dag með hugmyndum Jóns Ásgeirs um að halda eignarhaldi 365 miðla og Moggans en henda skuldunum í okkur skattborgarana. Er aldrei komið nóg.
Kannski ekki nema von að menn láti sér detta í hug að nú sé rétti tíminn til að þjóðin öll fari til fógeta og gefi sig upp til gjaldþrotaskipta. Ömurlegast í þessu öllu er svo að á sama tíma er menntamálaráðherra að bollaleggja að slátra RÚV svo útrásarvíkingurinn hennar geti enn frekar styrkt stöðu sína...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Og svo gefur Þorgerður þeim RÚV...
1.11.2008 | 17:03
Íslenskir auðhringar bera mikla ábyrgð á þeim hremmingum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Þeir hafa allir starfað í skjóli sinna fjölmiðla sem þeir ráku meira og minna með tapi - og til þess eins að hafa málgögn.
Nú vill Þorgerður Katrín koma fjölmiðlunum til hjálpar og útilokar ekki að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði. Það þarf ekki að velta því fyrir sér að slíkt gengi mjög nærri þeirri stofnun. MJÖG.
Raunverulega er þetta mál reginhneyksli og kallar auðvitað á að menn skoði hlutleysi menntamálaráðherra gagnvart auðhringunum í landinu. Ef einhverjum dettur í hug að ekki komi maður í manns stað í fjölmiðlarekstri þá lýsir það a.m.k. ekki mikilli söguþekkingu. Í fáum greinum er eignarhald fyrirtækja jafn ótraust. Baugsmiðlarnir hafa allir meira og minna rúllað einu sinni.
Og gjaldþrot þeirra hlutafélaga sem halda um fjölmiðlana í landinu verkar síðan ekkert öðruvísi á hagkerfið en gjaldþrot annarra hlutafélaga. Eða ætlar menntamálaráðherra líka að skipa starfshóp um stöðu bókaforlaga og svo hver ráðherra um sín starfssvið.
Þá kastar nú fyrst tólfunum ef það er virkilega tilgangurinn að viðhalda með stjórnvaldsaðgerðum eignarhaldi þeirra Baugs og Samsons á fjölmiðlum í landinu...