Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Skilaboðum svarað!

Það eru ekki fleiri skilaboð!

Vissi ekki að það gæti nokkurn tíma orðið jafn langþráð að heyra vélræna rödd segja eins fáfengilega setningu. En eftir að hafa nú haft símanúmerið 1411 á eyranu klukkustundum saman þá var þetta eins og frelsandi rödd. Ekki þar fyrir að skilaboðin sem mér bárust með þessum hætti voru skemmtileg og uppörvandi. Rétt eins og tölvupóstarnir og allar aðrar kveðjur.

Semsagt takk og fyrirgefið að ég næ ekki að svara nema broti.

Vil svo koma einu á framfæri. Það sem ég gerði og varð ástæða afsagnar minnar var ekki rétt, ekki réttlætanlegt og sjálfum mér ekki sæmandi. Þrátt fyrir langar útskýringar fjölmargra ykkar á því andstæðri skoðun hefur ekkert haggað þessari sannfæringu minni. Ég var því strax nokkuð ákveðinn i að segja af mér og skrifaði afsögnina aðfaranótt þriðjudagsins. Beið hinsvegar með að birta hana vegna tilmæla þar um, meðal annars frá forystumönnum í flokknum. Á endanum tók ég þessa ákvörðun síðan einn.

Í þessari upphaflegu afsögn lét ég fylgja útskýringu á því hvernig þetta gat gerst. Við nánari umhugsun og að ráðum míns góða vinar, Guðna Ágústssonar, sleppti ég því að birta þetta í sjálfu afsagnarbréfinu og held að það hafi verið rétt. Ég ætla samt að birta þennan kafla hér, sem svar við spurningum fjölmargra:

"Varðandi bréfaskriftir þær sem eru ástæða þessa vil ég aðeins segja þetta.

Eftir snöggan yfirlestur á bréfi þeirra Gunnars Oddssonar og Sigtryggs Björnssonar flaug mér um stund í hug að þetta ætti erindi við alþjóð. Ég ákvað því að senda það á aðstoðarmann með skilaboðum sem flestum eru kunn. Til þess að létta aðstoðarmanni mínum verkið ákvað ég að láta netföng fjölmiðla fylgja í sendingunni sem laus texti í skjalinu. Til þess að kalla þau fram notaði ég svokallað cc hólf netbréfsins. Mér láðist svo að strika netföngin þar út aftur og tók raunar ekki eftir þeim mistökum mínum.

Þegar ég örfáum mínútum seinna hringdi í aðstoðarmann minn Ármann Inga Sigurðsson til þess að tjá honum þá skoðun mína að þetta væri nú dómgreindarlaust af mér og við skyldum nú hætta við þessa sendingu vakti hann fyrstur manna athygli mína á því hvaða mistök höfðu hér átt sér stað.

Skaðinn var þá þegar skeður og þarf ekki fleiri orð um það að hafa."

Ps: Get ekki líst því hvað það er góð tilfinning að fara nú í lopavesti áður en ég fer í vinnuna hérna hinu megin við götuna - í stað þess að setja á mig bindi!


Af ótímabærum eftirmælum

Það er langt síðan mér datt í hug að dauðinn muni vitja manns með þeim hætti að einn daginn lesi maður um sig dánarfregnir og þvínæst minningagreinar. Ekkert viss um þetta frekar en annað varðandi eilífðarlífið - en rétt að útiloka ekkert. Þessvegna fer ég helst ekki út á morgnana nema gá fyrst hvort ég sé nokkuð sjálfur á minningasíðum Moggans.

Og velti öðru hvoru fyrir mér hvernig tilfinning það verður og hvernig eftirmælin verða yfirleitt um annan eins striga og ég óneitanlega er. Mér hefur aftur á móti aldrei dottið í hug að ég fengi einhvern forsmekk að þessu sprellilifandi. En svo varð.

Eftir að hafa með stuttri tilkynningu sagt af mér þingmennskuí morgun var mér stórlega létt. Fullur tilhlökkunar raunar að mega frekar selja bækur en að sitja á maraþonfundum á aðventunni. Þar sem símtöl tóku drjúgum af nóttinni lagði ég mig um hádegisbil og svaf í um þrjá tíma.

Og - vaknaði við mínar eigin minningagreinar og eftirmæli og skjall og heillaóskir og samúðarkveðjur og hughreystingar og jafnvel lofgerðir. Item áskoranir um að hætta við að segja af mér. Þó mér þyki sjálfum margir mæla hér langt um efni fram um mitt ágæti þá vil ég koma á framfæri þakklæti og biðst velvirðingar á að hafa hvorki náð að svara öllum tölvupóstunum, sms-unum né símtölunum. Við erum að tala um nokkur hundruð rafræn boð - og svo öll hin sem eru borin mér af lifandi fólki. Semsagt takk.

En bara til að fyrirbyggja allan misskilning. Ég sé ekki eftir að hafa sagt af mér, ég er ekki að fara að hætta við að hætta, ég er ekki í rusli yfir ástandinu en kannski svolítið eins og kötturinn, eirðarlaus og uni mér helst við dundur í eldhúsinu. Þar erum við saman, ég og kötturinn sem ég gruna alltaf um að vera krati...


Alvarleg mistök og afsögn

Ágætu lesendur

Í gærkvöldi urðu mér á alvarleg mistök og vitaskuld hljóp hér pólitískur hiti með mig í gönur.

Ég hef af þeirri ástæðu ákveðið að segja af mér þingmennsku enda hefur það ævinlega verið bjargföst sannfæring mín að menn eigi alltaf að axla ábyrgð á eigin gerðum.

Um leið og ég kveð stuttan og viðburðaríkan þingferil óska ég samstarfsfólki mínu á þingi og í Framsóknarflokki allra heilla.

Ákvörðun þessa hefi ég tilkynnt formanni Framsóknarflokksins og skrifstofustjóra Alþingis.

Virðingarfyllst

Bjarni Harðarson, bóksali


Harðlífið finnur sér sökudólg...

Illugi Jökulsson bloggar á DV og þá líklega í boði Hreins Loftssonar. Hann er þar forsíðubloggari og oft hittinn eins og hans er von og vísa. En í dag skýtur hann yfir markið þegar Gísli Einarsson fréttamaður verður að skotspæni fyrir það að leyfa sér að brosa að brosa mitt í alvörunni.

Auðvitað er ástandið alvarlegt og sjálfur tek ég boðskap mótmælenda á Lækjartorgi mjög alvarlega. Mætti þar enda sjálfur. En alvara sem ekki þolir grín er ekki túskildings virði. Ég fékk ekki þá ímynd eftir frétt Gísla að það væri á neinn hátt verið að tala niður til almennings eða að gert væri lítið úr réttlátri reiði. Þvert á móti.

Ég hef verið gagnrýninn á það hversu lítið hefur verið sagt frá reiðinni og mótmælunum. Og ég hef ekkert horfið frá þeirri gagnrýni. Ég vil sjá meira með þetta gert. En það er nauðsynlegt að við brosum líka á alvörutímum og eggjakast er þessháttar gerningur að hann kallar jafnframt á að það sé gert.

Eitt það alvarlegasta í kreppunni nú er að fjölmiðlarnir eru allir á mála hjá útrásarvíkungunum sem eiga mesta sök á því hvernig komið er fyrir almenningi. Þar er DV engin undantekning og nær væri, Illugi, að þú bloggaðir um það...


Hvar er nú IMF kórinn...

Við upphaf krísunnar gerðu stjórnvöld heiðarlega tilraun til að halda krónunni á floti án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins - IMF. Þegar það síðan spurðist út að jafnvel ráðherrar vildu ólmir fara undir IMF þá sögðu Svíar og Rússar og kannski Kanar og Kínverjar líka; við skulum bíða eftir að IMF komi í þetta með ykkur. Semsagt ekkert lán nema IMF komi til líka...

Nú er ljóst að Evrópusambandslöndin ætla að gera allt til þess að við fáum ekki lán hjá IMF nema greiða fyrst upp Icesavekröfurnar sem íslenska ríkið ber þó enga ábyrgð á. Og málið komið í pattstöðu.

Kannski hefði verið betra ef að við hefðum við jafn alvarlegar aðstæður ríkisstjórn sem talaði einni röddu og fylgdi íslenskum hagsmunum í hvívetna.


Bónusfáninn á þinghúsinu...

Var staddur á Austurvelli í gær þegar Bónusfáninn var dreginn að húni á þaki Alþingishússins. Þó svo að lögbrot við mótmælaaðgerðir heilli mig sjaldan þá sé ég enga ástæðu til að liggja á því að framtakið heillaði mig. Ég er ekki að prísa lögbrotið en öfugt við frekar karakterlaust eggjakast í veggi hússins þá var þetta gerningur með boðskap. Listræn mótmæli sem hvert okkar getur túlkað á sinn hátt og ég hef séð ýmsar tilraunir í þá veru hér á netinu.

- þingmenn eru svín og þessvegna er dreginn bónusfáni að húni

- þingið er afgreiðslubúð og þessvegna með búðarfána

- bónusfáninn er orustufáni og þá líklega byltingarmanna ef ég skil kollega minn í þinginu rétt...

Sú túlkun sem stendur upp úr er samt að þarna sé komin táknræn lýsing á því sem gerðist á Íslandi. Við létum útrásarvíkingana, Baugsmenn jafnt og aðra, ráðskast með landið, efnahag þess og framtíð barna okkar með gefa þessum drengjum algerlega lausan tauminn. Í raun og veru var ríkisvaldið undir hæl útrásarvíkinga árum saman og því fór sem fór. ´

Og ég leyfi mér að efast um að hægt sé að túlka þetta ástand sem snjallari hætti en einmitt því að draga Bónusfána að húni yfir þaki löggjafarvaldsins...


Ef við bara hefðum haft evru...

Það eiga margir eftir að skrifa um drottningarviðtal Stöðvar 2 við Sigurð Einarsson sem var að ljúka rétt í þessu. Bara smá athugasemd:

Sigurður reynir eins og margir aðrir útrásarvíkingar að kenna krónunni um. Ég held að það sé verulega málum blandið. En ef við hefðum átt að eiga skjól í evru við fárviðrið nú þá hefði Ísland þurft að ganga í ESB í síðasta lagi við kosningarnar 2003. Og þá hefðum við kannski verið komnir með litlu tá inn í myntsamstarf Evrópuþjóða núna. En líklegast þó staðið jafn fjarri því og mörg Evrópuríki sem hafa fengið að bíða þar á varamannabekknum.

Í mörg ár hafa hagfræðingar, stjórnmálamenn og athafnamenn bent á að þjóðin gæti tekið upp myntsamstarf við aðrar fullvalda þjóðir, t.d. um svissneskan franka eða dollar. Slíkt hefði líklega ekki tekið nema ár eða jafnvel bara nokkra mánuði. Hversvegna tóku bankamennirnir ekki undir það, utan Björgúlfarnir í hálfkæringi. Hefðum líka geta tekið hér upp fjölmyntarsamfélag.

Auðvitað tóku útrásarvíkingarnir ekki undir það vegna þess að það hefði engu breytt ekki frekar en evran. Krónan hafði ekkert með það að gera að hér spiluðu nokkrir strákar matador af glannaskap. En það gott að sitja núna í drottningarviðtali eftir að hafa sett þjóð sína á kaldan klaka og segja,- þetta var nú ekki bara mér að kenna heldur mest ríkinu, Seðlabankanum og krónunni!


Góð grein Kjartans krata

Kjartan Jóhannsson fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins skrifar góða grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann talar um hrollvekjandi spillingu í sambandi við afskriftir Kaupþingsmanna.

Annars er fátt gott frá deginum og blaðamannafundur Geirs og Björgvins snerist mest um það sem kannski yrði gert og væri verið að ræða. Rannsóknanefnd sem rætt væri um að kveðja stjórnarandstöðuna að o.s.frv.

Reyndar held ég að óreiðustigið í stjórnun landsins sé fullkomið. Það sést af því að í gær talar viðskiptaráðherra um að öll íbúðalán bankanna verði öll flutt yfir til Íbúðalánasjóðs sem við þingmenn höfum fengið upplýsingar um að er eiginlega óframkvæmanlegt. Í dag ámálgaði ráðherran það sama aftur án þess að kveða eins skýrt að.

Til þess þarf allavega að auka verulega eigið fé sjóðsins og þá fer að verða spurning hvað sé skynsamlegast að gera við takmarkaða fjármuni hins opinbera. Það hvort lánið sé hjá ríkisbanka eða ríkisíbúðalánasjóði er kannski ekki það brýnasta...

PS: Ég bara gleymdi því (og líka síðast) en í anda Ólínu Þorvarðar og fjölda annarra bloggara endar þetta blogg á setningunni:

Burt með spillingarliðið hvar í flokki sem það kann að standa...


Hagfræðingar landsins og ábyrgð þeirra!

Ólafur Ísleifsson sendi mér línu vegna bloggfærslu um skuggabankaráð Seðlabankans. Þar bendir hagfræðingurinn á að hann hafi aldrei sjálfur mælt með Icesave reikningum Landsbankans og ekki heldur Jóni Ásgeiri. Ég þakka Ólafi tilskrifið en leyfi mér samt að vekja athygli á að um síðustu áramót gerðu hvorki hann né aðrir hagfræðingar athugasemdir við að vera orðaðir við umrædd Icesave-verðlaun. Nú skal það leiðrétt.

Vissulega er ábyrgð okkar stjórnmálamannanna allra mikil en hún er síst minni hjá fræðimönnum á sviði hagfræði sem báru lof á útrásina. Þeir einir áttu að búa yfir þeirri sérfræðiþekkingu að geta séð að hér var stór hætta á ferðinni. Hvort sem úrlausnarefnið lýtur að sauðfjársjúkdómum eða bankamálum hljóta stjórnmálamenn að treysta leiðsögn og greiningu þeirra sem sérmenntaðir eru á viðkomandi sviði.

Og ástandið hefur lítið lagast því sömu hagfræðingar og lofuðu EES samninginn seint og snemma eru núna farnir að tala fyrir ESB aðild beint ofan í efnahagshörmungar þjóðinnar. Staðreyndin er að engir þessara varaði nokkru sinni við hinni minnstu áhættu sem væri fjórfrelsinu samfara. Og var samt mögulegt að setja þjóðarbúið á hliðina með slíkum markaðskratisma. Og sömu tala nú fjálglega um að við eigum að skipta krónunum okkar tafarlaust yfir í evrur. Það undir gengisvísitölunni einhversstaðar á þriðja hundraðinu. Hvað þýðir það fyrir sparifjáreigendur sem nógu hafa tapað - eða þá framtíðar eignastöðu íslenska hagkerfisins inni í Evrópusamrunanum.

Ég spurði eftir því á Alþingi í dag hvort mögulegt væri að það liði einhverju sinni heill sólarhringur án þess að kratar þessa lands töluðu krónuna niður með skrumi sínu. Þórólfi Matthíassyni tók þetta að sér í dag með gríðarlega innistæðulausum gífuryrðum og fékk drottningarleg viðtöl í báðum kvöldfréttatímum Ríkisútvarpsins.


Sökudólgurinn er Alþingi

Hver er ástæða þess að fámennum hópi tókst að kollsteypa íslensku hagkerfi. Víst skipti máli offar einstakra útrásarvíkinga og ennþá frekar ef rétt er að menn hafi skotið milljörðum undan til skattaparadísa suður í heimi. En þegar þeir ósvífnustu hafa verið metnir og einstaka óhappaverk tekin til skoðunar sjáum við líklega að ekkert af þessu breytir heildarmyndinni.

Óhappaverkið 1993

Hinn raunverulegi sökudólgur alls þessa er vitaskuld löggjafarvaldið og þeir sem þar eru í forsvari. Ekki vegna sértækra verka einstöku ráðherra eða rangra ákvarðanatöku framkvæmdavaldsins. Það er mjög hrópað á eftirlitsiðnaðinn í fjármálalífinu en sjálfum er mér til efs að eftirlitsiðnaðurinn einn hefði getað betur. Sökin liggur hjá Alþingi sem ákvað 1993 að fela Evrópusambandinu hluta af því valdi sem fram til þess tíma var Alþingis og þjóðarinnar. Þetta var gert með EES samningnum. Enginn þingmanna Framsóknarflokksins studdi þann gerning.

Við sem lýstum á þeim tíma andstöðu okkar við EES samninginn gerðum það einkanlega á forsendum fullveldis og frelsis þjóðarinnar. Engan okkar óraði þá fyrir að kerfi sem smíðað var af hundruðum þúsunda skriffinna í Brussel gæti verið svo ófullkomið sem raun ber vitni. Á annan áratug hafa þjóðir ESB og EES móttekið tilskipanir frá Brussel og gert að lögum sínum.

Missmíði á fjórfrelsinu

Nú kemur í ljós að í lagaumhverfi og tæknilegri útfærslu á svokölluðu fjórfrelsi eru slíkar missmíðir að jafnvel formaður Sjálfstæðisflokksins er farinn að vísa í EES samninginn sem orsök. Kerfi þetta gaf allskonar ævintýramönnum lausan tauminn í viðskiptum milli þjóðríkja eins og engin landamæri væru til. Þegar kemur að ábyrgð og uppgjöri sjáum við að eftirlit innan hins evrópska skrifræðis einkennist af magni en ekki gæðum.

Engin trygging er fyrir því í kerfi þessu að sá sem er ábyrgur viti af ábyrgð sinni og raunar eru lagaóvissur í þessum efnum svo miklar að þegar hefur kostað milliríkjadeilur, fleiri en bara þær sem eru milli Íslands og Bretlands. Á undan okkur deildu t.d. Írar og Danir um hliðstæða hluti. Verst er að ekkert þjóðríkjanna tók á sig að bera almennilega ábyrgð á að hlutirnir væru í lagi. Allir treystu skriffinnunum sem eru líka um 700 þúsund í einni borg.

Kerfi sem enginn skildi

Vissulega hafa allar smáþjóðir farið þá leið í lagasetningu að taka mið af lögum stærri nágranna sinna. Það gerðum við Íslendingar um aldir og fluttum um Skandinavísk lög allt frá árinu 930 og til okkar daga. En slík yfirfærsla var gerð með þeim hætti að íslenskir yfirvöld þurftu í hvert sinn að gæta að hvernig ein flísin félli þar að annarri.

Með innleiðingu EES - var sú aðgætni ekki lengur fyrir hendi enda um að ræða yfirfærslu sem gilti í senn um heila álfu þar sem við teljumst nokkur prómill af heildinni, náum ekki tíunda hluta af prósenti. Kerfið er í ofanálag svo flókið og risavaxið að í reynd var útilokað að nokkur hér heima gæti haft yfirsýn yfir það og reyndar ekki heldur svo í sjálfri London að nokkur hafi skilið það til fulls. Að minnsta kosti ekki Gordon Brown. Þannig hafa sérfræðingar, erlendir og innlendir, talið allt þar til í haust að innan evrusvæðisins væri samábyrgð Evrópska Seðlabankans fyrir hendi en nú kemur í ljós að hún er alls ekki til. Og við hefðum því í engu verið betur staddir innan evrusvæðis.

Allt bar því að þeim sama brunni að allir treystu í blindni á kerfi sem enginn gat skilið til hlítar. Nú reka Evrópuþjóðirnar sig illa á og Icesave dæmið íslenska er aðeins dropi í þeirri mynd. ESB þjóðirnar deila um ábyrgð á bönkum og draga sig sífellt meir að eigin hagsmunum.

Hagsmunir þjóða og hagsmunir stjórfyrirtækja

Í reynd hefur ríkisstjórnum allra Evrópuríkjanna verið kippt til þess raunveruleika að verða að gæta að eigin hagsmunum og sínu eigin fólki. Þau draga sig því í fleiri og fleiri atriðum frá heildarhagsmunum Evrópu. Og eðlilega vaknar spurningin, hverjir voru þessir heildarhagsmunir. Voru það ekki hagsmunir fólksins.

Þegar að er gáð hefur ESB einkanlega tekið mið af hagsmunum stórra efnahagsheilda, stórfyrirtækja og einokunar og engin tilviljun að hér heima höfum við einnig þokast nær einokunarkapítalisma allan EES tímann. Á erfiðleikatímum verða allar ríkisstjórnir að gæta hagsmuna sinnar eigin þjóðar og allt gildismat færist nær raunverulegum hagsmunum kjósenda.

Vegna EES samningsins gátum við ekki tryggt dreifða eignaraðild bankanna sem með öðru stuðlaði að þeirri óskemmtilegu mynd viðskiptalífsins sem við blasir. Við gátum ekki gengið gegn fjórfrelsinu og bannað bönkum að starfa utan Íslands. Það var mögulegt að stöðva opnun nýrra útibúa en útilokað að stöðva það sem í gang var komið.

Hendur Alþingis til að hafa áhrif hafa verið bundnar og tíska samfélagsins, mótuð af fjölmiðlum tískuauðvaldsins hefur stutt alla þá reginfirru.

(Birt í Mbl. í október 2008)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband