Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Ný í stjórn Heimssýnar og eiðstafur Stjórnarskrárinnar

Heimssýn hélt aðalfund sinn í gær og þar komu ný í stjórn samtakanna þau Stefán Jóhann Stefánsson hagfræðingur hjá Seðlabankanum,  Gunnar Dofri Ólafsson menntaskólanemi og Kolbrún Stefánsdóttir framkvæmdastjóri hjá Sjálfsbjörg. Kolbrún er ritari Frjálslynda flokksins, Gunnar Dofri frjálshyggjumaður og Stefán Jóhann varaborgarfulltrúi Samfylkingar. Sannarlega góður liðsauki og umræður á fundinum voru sömuleiðis góðar. stefsjum06Fyrir Framsókn erum við Steingrímur Hermannsson áfram í stjórninni.

Eftir aðalfundarstörf sátu fulltrúar flokkanna í pallborði og ræddu um Evrópumálin en Heimssýn er gunnardofrþverpólitískt félag okkar sem síður viljum ganga í Evrópusambandið. Nafn samtakanna vísar til þess að við teljum heiminn stærri en bara Evrópu og tækifæri okkar liggja í því að vera fullvalda þjóð með veröldina alla innan seilingar. Höskuldur Þór Þórhallsson var þar fyrir okkur kolbrunstefFramsóknarmenn og stóð sig með prýði. Á undan pallborði flutti Einar Kristinn Guðfinnsson erindi um stöðu sjávarútvegsins og möguleg áhrif aðildar á framtíðina þar. Ráðherra var tíðrætt um Maltversku sérákvæðin sem eru að minnsta kosti ekki rök fyrir   því að við fengjum sérmeðferð í ESB samningum!

Umræðan á fundinum var öll mjög hófstillt og mikið rætt um það hvort breyta þyrfti stjórnarskrá landsins vegna ESB umræðunnar og sýndist þar sitt hverjum. Margir bentu á að ef við breyttum stjórnarskránni til þess að gera stjórnvöldum heimilt að framselja hluta af fullveldi landsins værum við um leið að undirbúa jarðveg fyrir slíku fullveldisafsali og inngöngu í ESB. Þá töldu margir í pallborði að óþarft væri að huga að stjórnarskrárbreytingu nema að til þess kæmi að þjóðin ætlaði sér að kjósa um aðild að ESB. Engin ástæða væri til að breyta stjórnarskránni þó svo að fara ætti í aðildarviðræður! (Rétt að taka fram að enginn á fundinum var hlynntur því að farið yrði í viðræður þannig að þetta voru allt miklar ef ef ef umræður.)

Ég hef sjálfur efasemdir. Í fyrsta lagi þá er ég enn á þeirri skoðun okkar Steingrímssinna innan Framsóknarflokksins að EES samningurinn hafi á sínum tíma gengið mjög nærri fullveldisákvæðum stjórnarskrárinnar. Raunar eru margir ESB - sinnar á þeirri skoðun í dag en sömu öfl voru það ekki þegar samningi þessum var troðið upp á þjóðina.

Í öðru lagi þá er ég ekki viss um að ríkisstjórn og Alþingi geti t.d. lagt til að farið verði í aðildarviðræður með núverandi Stjórnarskrá. Það fyrsta sem þingmenn gera við þingsetu er að sverja eið að stjórnarskránni. Sá eiðstafur vísar vitaskuld fyrst og síðast til fullveldis landsins og því getur enginn þingmeirihluti samþykkt eitthvað sem allir eru sammála um að gangi gegn Stjórnarskrá lýðveldisins.

Í þriðja lagi held ég að umræða um það að opna á fullveldisafsal í Stjórnarskrá afhjúpi í raun og veru hversu glórulaus hugmyndafræði það er að landið gangi í Evrópusambandið og dragi þannig tennurnar verulega úr þeim sem mest láta í þeim efnum. Af því leiðir væntanlega að það yrði breið samstaða meirihluta þjóðar og þings um þá tillögu sem Guðni Ágústsson orðaði á síðasta miðstjórnarfundi okkar Framsóknarmanna að slíkt fullveldisafsal yrði bundið því að aukinn meirihluti þjóðarinnar, helst 3/4 hlutar hennar séu bakvið hverskyns fullveldisafsal og það er mikilsvert.

Þrátt fyrir allskonar missagnir í fréttum af nefndum miðstjórnarfundi held ég að hann hafi markað mikilvæga bautarsteina í þeirri fullveldisbaráttu sem framundan er og þar skipti miklu að allir á þeim fundi  lýstu yfir miklum stuðningi við ræðu formanns flokksins.


Af bókunum mínum og heilögu stríði vantrúar

Nú er það síðasta af bókasafninu komið í hillur og það fylgir því mikil hamingja að raða bókum fimm daga í röð. Það má auðvitað ekki segja það en skjálftinn var eiginlega himnasending á þessum tíma. Við vissum alltaf Sunnlendingar að hann hlaut að koma og það að fá hann að miðjum degi og sleppa S5001341hjá umtalsverðum slysum á fólki er virkilega þakkarvert. Og hefði hann nú verið ári fyrr þegar iðnaðarmenn voru allir sprengmóðir! Þess í stað kemur hann núna eins og björgun fyrir alla þá sem annars sáu fram á samdrátt í verkefnum...S5001363

En auðvitað töpuðu margir eigum sem þeir bundu ást við og það er alltaf leiðinlegt. Sjálfur mátti ég horfa hér á eina af mínum uppáhaldsbókum, doðrantshlunk um gátur og þjóðfræði frá aldamótunum þarsíðustu laskaða eftir fall ofan úr hillu. Ættargripur - en samt léttvægt...

Pólitíkin vill gleymast í öllum skarkalanum en samt hefur ekki farið framhjá mér að nokkrir ofstækismenn trúleysisins hafa verið á límingunum yfir mínum skoðunum undanfarna daga. Sannar enn og aftur að ofstækismenn í trúmálum eru alltaf eins, hvort sem þeir leggja ofurkapp á að menn sjá ljós guðs eða guðleysis. Sjálfur er ég trúleysingi og utan allra safnaða en hefi samt talið að menning og menntun í landinu eigi að byggja á þeim grunni sem verið hefur og grundvallast á kristinni menningararfleifð.

Allt hefur þetta aðeins komist í umræðu vegna nýrra grunnskólalaga þar sem Alþingi komst að farsælli niðurstöðu um að kristnidómi skyldi EKKI úthýst úr upptalningu á þeim grunni sem námið byggist á. Ég studdi þá leið og rökstuddi þann stuðning minn í ræðu sem ég flutti um málið í þingumræðunni og tel mig hér tala fyrir munn margra trúlausra manna í landinu sem þó eru lausir við að gera trúleysi sitt að trúarbrögðum.

Einn aðstandenda heimasíðunnar Vantrúar óskaði í kjölfarið eftir að eiga fund með mér sem var sjálfsagt,- en eftir á að hyggja á maður kannski aldrei að setjast einn niður með ofstækismönnum. Fundurinn fór samt vel og við kvöddumst sáttir en nokkrum dögum síðar sakar sami maður mig um óheiðarleika, heimsku, lágkúru, illvilja, skilningsleysi og lygi. Að mér skilst fyrir það að ég skuli ekki viðurkenna að í einkasamtali við hann hafi ég játað yfirsjónir mínar og viðurkennt mig sigraðan fyrir hinu eina sanna trúleysi sem ku túlkað af hinum mikla söfnuði Vantrú.is. Síðan hefur rignt yfir mig rógi og bulli bæði í kommentum á minni síðu, á síðu vantrúar og nokkrum öðrum síðum frá fámennum en giska harðskeyttum hópi. Það nýjasta er að einn þessara snillinga er búinn að boða mér að ég fái sendingu í pósti, einhverskonar útskorna eftirlíkingu af sjálfum mér. Kannski kunna þessir menn vúdugaldra...

Eitt var að ég skyldi voga mér að tala um að það væri barist gegn kristnidómsfræðslu án þess að ég hefði svosem tilgreint neinn sérstakan sem oddamann þeirrar baráttu. Það er alveg ljóst að það hefur dregið úr kristnidómsfræðslu í menntakerfinu jafnt og þétt undanfarna áratugi og ég er ekki svo hjátrúarfullur að halda að slíkt gerist af sjálfu sér. Vel má vera að ofstækistrúleysingjarnir hafi aldrei beinlínis sagt að það ætti að banna alla kristnidómsfræðslu í skólum, það er algert aukaatriði. Á síðunni www.vantru.is, er haldið uppi rótarlegri og ósmekklegri skætingi um kirkju, presta og trésmiðinn frá Nasareth heldur en sæmir fólki sem vill láta taka sig alvarlega.

Þessum mönnum er auðvitað vorkunn, ekki mér að fá yfir mig bullið. En ég veit samt að það eru oft á tíðum ofstækismenn af þessari sort  sem fæla menn frá að taka þátt í opinberri umræðu, skelfa jafnvel fólk með oflátungshættinum og heiftinni. Þetta á ekki síst við um alla þá umræðu sem tengist trúmálum og öllum þeim sviðum þar sem sannfæring manna er af svipuðum hita,- róttækir umhverfissinnar og evrópusinnar eru margir af þessari sort að ógleymdum sumum þeim sem telja sig hafa einkarétt á umræðunni um kvenfrelsi. Frekar leiðinlegt allt og ómálefnalegt í innleggi sínu í pólitíkinni...


Víííltu hnífapör...

Víííltu hnífapör, segir reffilegur ungur maður, dökkeygur, dökkhærður og dökkleitur í yfirbragði. Ég er staddur í kaffihúsi í borginni og framburður þessa unga manns leynir því ekki að hann hvorki uppalninur af Vatnsleysuströnd né Hornafirði. Fyrra orðið í þessari stuttu setningu svolítið afkáralegt en svo kemur hitt lengra eins og fullskapað úr íslenskum munni.

hnifapor

Það fer ekki hjá því að mikil fjölgun borgara af erlendu bergi veki umhugsun. Menn sem ekki áttu bernsku sína, ættir og óðul hér á Fróni. Vekur raunar bæði hugsun og tilfinningar. Í fiskvinnslustöðvum og verslunum víðsvegar um landið er talaður mikill málagrautur og sumar kassadömurnar kunna ekki annað en takk fyrir og viltu poka.

Eins og skröksaga 

Til þess að bregða upp aðeins skýrari mynd af viðfangsefninu langar mig að nefna árshátíð hjá miklu kallafyrirtæki sem ég lenti óvart inn á fyrr á þessum vetri. Þar tróð upp fær söngvari, málaður í framan og klæddur því sem helst yrði kallað sloppur eða kjóll en var þó hefðarkarla þjóðbúningur frá hans heimalandi,- forn. Sömuleiðis var mjóróma söngurinn karlasöngur hans ættarmenningar. Til þess að gera aðstæður þessar síðan enn óvanalegri var sú staðreynd að karlmaður þessi átti sér miðaldra karl annan fyrir maka úti í sal. Hefði ég sagt afa mínum þessum sögu fyrir 30 árum hefði sá sami talið hana meira skrök en öll galdraævintýri Grimmsbræðra til samans.

En um þetta allt ber okkur að tala. Látum aldrei reka okkur í það skúmaskot hræðslunnar að ekki megi tala um mismunandi menningarheima. Að umburðarlyndið liggi í þögninni. Slík bæling mun aðeins valda innibyrgðum vandræðum, líkum þeim sem við sáum glöggt í Frakklandi í fyrra og reyndar bregða fyrir víðsvegar, jafnvel hér meðal okkar. Leiðin þar út er örugglega ekki þögnin.

Þöggunin er hættuleg

En því er ég að tala um þessa hluti að margir telja þögnina allra meina bót og setja í samhengi við það að ömmur okkur kenndu okkur að benda ekki á fólk. Með því ku mega sýna öllu óvanalegu og framandlega þá tillitssemi að ganga að öllu sem gefnu. Rétt eins og hægt sé að stöðva kvarnir hugans.

Staðreyndin er hinsvegar að þögnin elur aðeins á ótta og hatri. Með því að tala um veröldina og allan hennar margbreytileik gerist tvennt. Við lærum að skilja samborgara okkar að því marki sem vit okkar og víðsýni leyfa og rekum þar með fordómana burt. Í öðru lagi léttum við af spennunni sem fylgir samskiptum hópa með mismunandi lífsviðhorf.: ‚Ég veit hvernig þú ert,- þú veist hvernig ég er - þó við séum ekki endilega sammála í lífsviðhorfum.‘

Með umræðunni verða smám saman ráðandi þau sjónarmið og þær tilfinningar flestra okkar að verða stolt af tungumálinu okkar þegar við heyrum mann af framandlegum ættum stauta við að læra það. Þó svo hann segi „víííltu" fyrir viltu. Og við gleðjumst yfir fjölbreytileika mannlífsins þegar við heyrum um lífsform sem afar okkar hefðu talið bæði óhugsandi og jafnvel ókristileg.

Umburðarlyndisfasisminn 

Þögninni og bælingunni fylgir gagnvirk spenna þeirra sem hugsa hver um annan,- þú ert skrímsli og lífi þínu fylgir margt óþolandi þó ég viti ekki fyllilega hvað það er. Neikvæðu ímyndarafli er gefinn laus taumur og af sprettur vaxandi hatur og óþol milli þjóðfélagshópa.

Það sem hér er sagt kann að vera svo sjálfsagður hlutur að mörgum þyki ekki umræðu vert. Engu að síður eru aðstæður á Íslandi líkar því sem verið hafa í Evrópu þar sem sambúð þjóða og þjóðarbrota er víða orðin að alvarlegu vandamáli.

Tvennt veldur þar mestu,- þögnin sem hér hefur verið rætt um og öfgafullt umburðarlyndi sem segir að í sérkennum frumbyggja landanna og siðum þeirra felist ögrun og árás á aðra. Þessa varð áþreifanlega vart í umræðu um meinta skaðsemi þess að kristinn siður fengi að halda sínum sess í íslenskri fræðslulöggjöf. Tilhneigingum sem þessum verður best verður lýst með hugtakinu umburðarlyndisfasismi. Hvorutveggja er nú orðið áberandi í hinu nýkviknaða fjölmenningarsamfélaginu á Íslandi.

Hér hef ég rætt um þögnina - síðar mun ég ræða lítillega um umburðarlyndisfasismann.

(Skrifað fyrir nokkru og birt í 24 stundum sl. helgi)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband