Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
Krúttlegir alþjóðasinnar og 15. aldar sápa
29.6.2008 | 18:39
Morgunmessa varð mér athyglisverð grein í Lesbók Moggans eftir Önnu Björku Einarsdóttur um ímynd Íslands, krúttkynslóðina, póstmódernisma og ímynd Íslands. Löng eins og stólræða og 'óræð eins og myndirnar á Mokka' en samt á köflum giska góð grein. Fjallar þar meðal annars um þjóðfrelsishugmyndir nöfnu sinnar Guðmundsdóttur hinnar heimsfrægu og samhljóm Andra Snæs við frjálshyggjuna. Með greininni er heimildalisti sem kallar á enn frekari lestur....
Hef legið yfir bók Einars Más Jónssonar öðru sinni nú í sumar og held grínlaust að endurreisn hinnar þjóðlegu miðjustefnu eigi að sækja sér vopn í skrif Einars, öfgalausa og þjóðlega og alþjóðlega krútthugsun Sigurósar og Bjarkar Guðmundsdóttur og rómantíska náttúruhyggju. Semsagt öflugt andsvar við hinn straumlínulagaða metró-mann sósíaldemókratanna. Meira um þetta síðar.
Var semsagt í rúminu fram að hádegi yfir Moggum og bókum. Það eru bestu morgnarnir en í rauninni átti helgin að fara allt öðru vísi. Hefði átt að vera í brúðkaupi í Hallormsstaðaskógi, myndlistaropnun undir Eyjafjöllum, Jónsmessuhátíð á Bakkanum og í fimmtugsafmæli í Súðavík. Var búinn að líta við á Bakkanum og rétt á leið að taka flugvél vestur þegar óvæntar uppákomur settu strik í reikninginn. Reyndar alltaf kærkomið að vera heima um helgar og leyfði mér í gærkvöldi að liggja í algjöru meðvitundarleysi framan við tvær bíómyndir í imbanum - sem er þá alveg mánaðarskammtur.
Hef annars verið að lesa Sögu Vestfirðinga eftir Arnór Sigurjónsson, afa Arnórs þess sem leiðir hagfræðistarf Seðlabankans. Bók þessi er tyrfin eins og fleira eftir Arnór en samt skemmtileg 15. aldar sápa um helstu kappa landsins á þeim tíma, ástir þeirra, örlög og málavafstur. Allt frá Birni Jórsalafara til Björns í Ögri, Stefáns grjótbiskups að ógleymdum kvenhetjunum Ólöfu ríku á Skarði og Solkunum í Eyjafirði og Vatnsfirði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Lýðræðisást ESB sinna
28.6.2008 | 11:04
Þrír af áköfustu talsmönnum þess að Íslendingar gangi í ESB hafa nú tjáð sig um kosninganiðurstöður í Írlandi þar sem þjóðin hafnaði frekara samrunaferli aðildarþjóðanna. Írar eru eina þjóðin sem fær að kjósa um svokallaðan Lissabonsamning en áður höfðu Frakkar og Hollendingar hafnað sömu hugmyndum að auknum samruna þjóðanna í þjóðaratkvæðagreiðslum.
Heimskir eru kjósendur
Fyrstur til að gefa út opinbera skýringu á írsku niðurstöðunni var Árni Páll Árnason þingmaður Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir, væntanlega þá fyrir hönd írskra kjósenda, að þeir hefðu í reynd verið að meina allt annað en að hafna Lissabonsáttmálanum. Næstur kom varaformaður Samfylkingarinnar sem lýsti því yfir að kjósendur gætu ekki haft rétt fyrir sér þegar svo víðtæk samstaða væri um málið meðal stjórnmálamanna. Þriðja yfirlýsingin barst svo frá Baldri Þórhallssyni forstöðumanni Smáríkjaseturs HÍ sem taldi fráleitt að smáríki eins og Írar fengju að hafna jafn göfgum áformum stórþjóðanna og nú væri ekki annað að gera en að Írar kysu aftur og kysu þá rétt!
Nýr lýðræðisskilningur
Evrópusambandið hefur á undanförnum árum innleitt nýjan og afar vafasaman skilning á lýðræði þar sem litið er á almennar kosningar almennings sem leið til að þvinga fram ákveðna og fyrirframgefna niðurstöðu. Þannig töluðu talsmenn ESB blygðunarlaust um það sem smáholu í veginum þegar Frakkar og Hollendingar höfnuðu efnisatriðum Lissabonsáttmálans í stjórnarskrárkosningum árið 2005. Niðurstaðan varð því ekki sú að taka mið af afstöðu almennings og sveigja af leið. Þess í stað var komið í veg fyrir að fleiri þjóðir álfunnar fengju að lýsa afstöðu sinni og sömu ákvæði innleidd með nýju nafni. Sú innleiðing heitir Lissabonsamningur og um hann skal ekki kosið í Evrópulöndunum enda vitað að hann yrði víða felldur.
Þannig er stefna ESB skýr og vilji almennings getur aldrei orðið til annars en travala en aldrei breytt þeirri stefnu. Enda svo um hnúta búið í málatilbúnaði ESB að alltaf er hægt að saka almenning um skilningsleysi. Raunar skilur enginn til fulls þá doðranta sem samband þetta sendir frá sér og síst þeir sem berjast af mestri ákefð fyrir frama ESB. Þar ræður trú en ekki skilningur. Því er talið rétt og skylt að almenningur kjósi aftur og aftur þar til hann sér ljósið og kýs rétt.
Leiðarahöfundur Fréttablaðsins túlkar atburði í ljósi þessa rétttrúnaðar og segir að auðvitað verði Brusselvaldið nú að leggja sig betur fram um að sannfæra almenning til þess að slys eins og það sem varð í Írlandi endurtaki sig ekki. Hjá rétttrúuðum er auðvitað útilokað að sveigja eigi stjórnarstofnanir að vilja almennings eða að niðurstöður kosninga ráði einhverju. Það er almenningur sem á að trúa og hlýða.
Sænska leiðin og írska fullveldið
Sænska leiðin inn í ESB er reyndar afar gott dæmi um þá lýðræðisást sem ESB sinnar bera. Þar í landi barðist minnihlutinn fyrir aðild um langt árabil og náði þeirri einstöku stöðu að efna til kosninga á því augnabliki í þjóðmálaumræðunni að þá var meirihluti fyrir aðild. Síðan þá hefur staðan lengst af verið svipuð og áður,- meirihlutinn er andvígur aðild þjóðarinnar að ESB en fær sig hvergi hrært. ESB er ekki klúbbur sem þjóðir ganga í og úr af léttúð heldur endanlegur og lokaður félagsskapur sem engin dæmi eru um að þjóð komist út úr og til fyrra fullveldis. Og þetta er leiðin sem íslensku ESB sinnarnir vilja leiða þjóð sína. Enginn þeirra hefur svarað því hversu oft yrði kosið á Íslandi.
Það gætu að vísu verið nýir tímar framundan, þökk sé skýrum ákvæðum írsku stjórnarskrárinnar um fullveldisafsal. Ástæða þess að kosið var um Lissabonsáttmálann á Írlandi eru skýr ákvæði stjórnarskrárinnar þar í landi um að fullveldisafsal geti ekki farið fram nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Fari svo að Írar reynist staðfastir í sinni afstöðu er eina leið Brusselvaldsins að vísa þessum frændum okkar út úr klúbbnum. Samrunaferli sem miðar að Evrópsku stórríki getur vitaskuld ekki orðið ef ein þjóð beitir neitunarvaldi sínu sem hefur verið virt innan ESB.
En þetta voru líka síðustu forvöð því Lissabonsamningnum ógildir um aldur og ævi þetta sama neitunarvald. Og inn í slíkt Evrópusamband eiga engar smáþjóðir erindi.
(Birt í Mbl. laugardaginn 21. júní sl.)
Með harðsperrum dögum saman!
27.6.2008 | 11:36
Kom úr þriggja daga göngu um Stafafellsfjöll á miðvikudag og kúrðum okkur svo hjónakornin á eftir í notalegu hótelrúmi á Höfn.
Gangan átti reyndar að vera fimm daga en Steingrímur Hermannsson bjargaði mér frá að fara fyrr en tveir fyrstu göngudagar voru að baki og kannski hefði ég ekki þolað meira. Nógar eru harðsperrurnar enn á föstudegi!
Leiðsögumaður var minn gamli vinur og skólafélagi Gunnlaugur B. Ólafsson frá Stafafelli, mikill snillingur og fjallageit, krati af guðs náð og mjög hugsandi maður. Það var mikil skemmtun að vegast þar á í pólitíkinni innan um stórfenglegar skriður og líparítkletta eins og þann sem hér sést á myndinni og heitir held ég Brenniklettur. Við hjónin erum hér til hægri á myndinni og dóttir mín Eva lengst til vinstri en hinir eru flest kennarar þaðan og héðan, reglulega skemmtilegir og líflegir ferðafélagar. Semsagt Eva, Kristín, Fjóla, Magnús, Kristján, Veiga, Jónína, Sigga, Bjarni, Elín, Bryndís og Sigrún en myndina tók leiðsögumaðurinn Gunnlaugur og myndin tekin (með stöðluðu ESB-leyfi) af hans vef.
Til byggða komin biðu mín þau tíðindi að Jón Ólafsson stórsnillingur væri látinn eftir árlangt stríð við krabbamein. Meira um hann síðar en sunnlenskt menningarlíf og sagnaskemmtan hafa mikils misst. Blessuð sé minning Jóns. Hann er hér á mynd, fyrstur frá vinstri, með hljómsveit sinni Hjónabandinu en myndina tók Sigurður Bogi Sævarsson.
Fór í gærmorgun í morgunkaffi til kollega minna hjá fyrirtækinu Galdri sem hafa gefið út blaðið Eystra Horn á Höfn. Liðlega tuttugu ára blað og mikilvæg kjölfesta í menningarlífi Austur - Skaftfellinga allra. Nú hafa þeir félagar ákveðið að hætta útgáfunni og eiga raunar ekki annarra kosta völ. Rekstrargrundvöllinn vantar og þetta er ekki eina dæmið nú um erfiðleika í rekstri lítilla fyrirtækja. Þeim er ekki hjálpað eins og bönkunum heldur þvert á móti þrautpínd með tilhæfulausu og tilgangslausu vaxtaokri sem sligar allt atvinnulíf.
Endirinn á ferðalaginu var svo að heimsækja Þórbergssetrið sem oftar en Elín var að koma þar í fyrsta sinn. Þar fengum við dýrðlega kjötsúpu en toppurinn í matarmenningu ferðarinnar var að fá á Hótel Höfn heimagerðan ís frá Sæmundi í Árbæ á Mýrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Magnaður Steingrímsdagur
22.6.2008 | 21:43
Ráðstefnustjóri kallaði nestor samkomunnar pabba og bauð öðrum að þeir mættu gera það líka enda þingið haldið til heiðurs þeim manni sem hvað framast stóð undir þeirri nafngift að vera landsfaðir.
Samkoman var rafmögnuð á köflum, full af sögulegum vísunum og enginn veit hvenær er raunverulega verið að tala um samtímann sem allt átti hér stefnumót við. Ég er vitaskuld að tala um Steingrímsmessu sem haldin var í salnum í Kópavogi dag til heiðurs Steingrími Hermannssyni áttræðum.
Og Framsóknarstefna Steingríms Hermannssonar á einmitt erindi við samtímann nú þegar það þarf að verða höfuðverkefni Framsóknarflokksins að marka sér stöðu sem félagshyggju- og umhverfisverndarflokkur. Og vera samt á miðjunni,- fær um líkt og Steingrímur var að vinna bæði til hægri og vinstri.
Að öðrum erindum ólöstuðum stóð erindi Birgis Guðmundssonar fyrrverandi ritstjóra Tímans upp úr en hann gerði þar grein fyrir brúarsmiðinum Steingrími sem hefði með ævintýralegum hætti afsannað þá kenningu að vinstri stjórnir væru sundurlyndar með sinni fimm flokka samsteypustjórn seint á sínum ferli. Vinstri stjórn sem þá tók við af sundurlyndri og veikri hægri stjórn. Annarsstaðar var á það drepið að Steingrímur hefði einmitt verið sá mildi og víðsýni landsfaðir sem gat unnið með mönnum þó svo að skoðanir væru skiptar um einstök atriði.
Samkoman sem var haldin af Framsóknarflokknum en samt engin hreintrúarmessa heldur opin og gagnrýnin. Líklega var minnihluti ræðumanna flokksbundinn okkur. Síðastur og ekki sístur talaði Júlíus Sólnes um umhverfismálin og gaf okkur öllum nokkurt nesti. Hreint ótrúlega róttækur í þeim málum - líkt og afmælisbarnið.
Sjálfur átti heiðursgesturinn áttræður lokaorðin og var þar allur kominn, bæði sveitamaðurinn og heimsborgarinn, hinn þjóðlegi og alþjóðlegi,- því auðvitað verður enginn að alheimsborgara án þess að vera þjóðlegur og þjóðrækinn eins og Steingrímur var í allri sinni pólitík. Formaðurinn núverandi notaði reyndar tækifærið og skaut því sama að fundarstjóranum Guðmundi að vissulega væri það svo að vegurinn að heiman væri vissulega vegurinn heim
Eftir Steingrímsráðstefnu fór ég og heimsótti Jón Ólafsson á Kirkjulæk sem var auðvitað erfitt en samt gott. Jón er kominn á líknardeildina í Kópavoginum en jafnvel þar tekst honum með tilvist sinni að vera skemmtilegur. Las fyrir hann úr Rósantrímum Jóns Rafnssonar sem eru mjög í Jónsanda. Vonast til að Jón verði enn til staðar þegar ég kem aftur úr gönguferð um Stafafellsfjöll og þangað til verður þessi bloggfærsla að duga!
(Á myndunum sem Sigurður Bogi tók má sjá Steingrím með Eddu sinni og Jónínu Bjartmars fyrrverandi ráðherra á efri myndinni en á þeirri neðri eru þeir Steingrímur og Geir H. Haarde sem heiðraði afmælisbarnið og okkur Framsóknarmenn þennan dag. Neðsta myndin er af Jóni Ólafssyni við söng með Maríu móður sinni á góðum degi (hnuplað af vefnum art iceland og verður vonandi fyrirgefið.))
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.6.2008 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ættin mín og amstur daganna
21.6.2008 | 21:09
Er latur að blogga um sjálfan mig og daglega lífið en sé samt að það eru þær færslunar sem mest eru lesnar. Þegar ekki hafa staðið yfir fundir og mannfagnaðir sem þingmanni er skylt að mæta til hefur tíminn að undanförnu farið í að pensla með syni mínum gamlan húsbíl sem orðinn var framlágur hér í hlaðinu hjá mér. Líklega sel ég hann í sumar! Það er reyndar í pípunum hjá mér líka að selja torfæruhjólið og kaupa fjórhjól í staðin en svo á ég öðrum þræði óskaplega erfitt með að segja skilið við þessi leikföng mín...
Fyrir viku héldum við afkomendur Jórunnar og Guðlaugs í Gvendarkoti ættarmót og af því tilefni kom Atli bróðir upp myndarlegri heimasíðu um ætt þessa. Hér með fylgir svo mynd af okkur myndarfólkinu sem tekin var á blettinum við Ketilstaðaskóla í Mýrdal þar sem við komum saman.
Á mánudag flýg ég svo austur í langþráða gönguferð um Stafafellsfjöll en þær skámæðgurnar Eva dóttir mín og Elín eru þegar komnar austur og byrjaðar að arka. Sjálfur verð ég að sleppa fyrstu tveimur göngudögunum vegna mikilvægrar ráðstefnu til heiðurs Steingrími Hermannssyni áttræðum sem ég hvet alla Framsóknarmenn til að mæta á.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.6.2008 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vatnajökulsþjóðgarður fluttur til Reykjavíkur
20.6.2008 | 11:15
Vatnajökulsþjóðgarður var formlega stofnaður með pomp og pragt fyrir nokkrum dögum og er virkilega ánægjulegt framtak sem lengi hefur verið unnið að. Það er ljóst af margra ára umræðu um málið að fjárveitingavaldið, sveitarstjórnir, landeigendur og ráðherrar hafa til þessa horft á þetta sem mikilvæga uppbyggingu í náttúruvernd og um leið sem mikilvægan stuðning við áframhaldandi byggð við jökulinn. Þetta fer mjög saman því byggðin þar er forsenda verndunar og aðhlynningar í landi þar sem ferðamannastraumur fer vaxandi.
En nú er öldin önnur. Með valdatöku Þórunnar Sveinbjarnardóttur er markvisst stefnt að því að flytja þjóðgarðsstarfssemina í skrifstofur í miðborg Reykjavíkur. Á síðasta ári kom stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs því inn í gegnum stjórnina að framkvæmdastjóri garðsins skyldi sitja í Reykjavík. Vill reyndar til að stjórnarformaður garðsins er jafnframt aðstoðarmaður umhverfisráðherra. Í framhaldinu var ritari stjórnarinnar og starfsmaður ráðuneytisins, Þórður H. Ólafsson ráðinn til starfans. Sá sem hér skrifar tók það mál fyrir í sölum Alþingis og fékk þá skýr svör frá óbreyttum stjórnarliðum að þetta kæmi þeim spánskt fyrir sjónir og sjálf treysti ráðherrann sér ekki til að staðfesta það í umræðu um málið að höfuðstöðvar þjóðgarðsins yrðu í Reykjavík. Katrín Júlíusdóttir þingkona Samfylkingar í Kraganum staðfesti að hér væri gengið á skjön við hugmyndafræðina bakvið störf án staðsetningar og lofaði að farið yrði yfir málið og svo mætti áfram telja...
En allt kemur fyrir ekki. Nú er það orðið að veruleika þvert ofan í allar væntingar að Vatnajökulsþjóðgarður er kominn með heimilisfesti að Tryggvagötu 19 í Reykjavík. Nú í júnímánuði gerist það svo að stofnun þessi auglýsir almennt skrifstofustarf vegna bókhaldsvinnu og starfsmannahalds og tilgreinir sérstaklega: vinnustaðurinn er í miðborg Reykjavíkur."
Málið var rætt á fundi þingmanna Suðurkjördæmis í gær og það var alveg ljóst á þeim fundi að þar á bæ eru menn óhressir með þessa þróun mála og í sveitunum í ríki Vatnajökuls heyri ég talað um þetta sem hreina og klára stríðsyfirlýsingu möppudýranna fyrir sunnan. Þessu máli er ekki lokið.
Af samtali mínu í morgun við framkvæmdastjóra stofnunarinnar er ljóst að skrifstofan í Reykjavík verður þá í sumar þriggja manna vinnustaður því fyrir er þar auk hans einn aðstoðarmaður í tímabundinni ráðningu. Það er jafnframt ljóst að umrædd skrifstofustörf sem snúa meðal annars að utanumhaldi um tímavinnu landvarða, bókhaldi og símsvörun eru allt störf sem eins er hægt að vinna úti á landi. Og það er jafn ljóst að það er minni en enginn áhugi hjá valdhöfum þessa sama þjóðgarðs að störf tengd þjóðgarðsins verði unnin í nágrenni jökulsins en kannski er jökullinn sjálfur með öllum sínum auðnum að verða aukaatriði í heimi þeirra möppudýra sem hér um véla.
Hvers á æðurinn að gjalda!
17.6.2008 | 10:16
Stóri, góði ísbjörninn liggur í æðavarpi Hraunsbónda á Skaga og étur þar egg og æðarunga að vild sinni meðan beðið er eftir dönskum dýragarðsmönnum sem ætla að svæfa dýrið og fara líklega með það heim í dýragarðinn sinn! Nú er vissulega góðra gjalda vert að þyrma lífi ísbjarnar en ef niðurstaðan er sú að björn þessi lendi í dýragarði þá er sú lífgjöf sannkallaður bjarnargreiði við bangsa kallinn. Og það að verja milljónum í skrípaleik sem þennan er vitaskuld óhæfa. Fyrir sama pening mætti til dæmis styrkja Kattholt eða aðra góða dýraverndunarstarfssemi þannig að bjarga mætti tugum ef ekki hundruðum dýra. Að ekki sé talað um allt annað gott sem mætti gera við sömu upphæð í aðstoð við sveltandi manneskjur.
Þegar kemur að fjárlögum mun ég leggja til að bangsareikningurinn sá arna verði skrifaður á kostnað Íslands við hið einstaka framboð okkar til öryggisráðsins. Það hefur nefnilega spurst út að erlendir sendimenn hafi engan áhuga lengur á að býsnast yfir hvalveiðum okkar en haldi varla vatni af hneykslan yfir hvítabirninum sem drepinn var upp af Gönguskörðunum á dögunum.
Öll endileysan einkennist af raunalegri flokkun teiknimyndasamfélagsins á dýraríkinu í góð dýr, minna góð dýr og vond dýr. Minkur, refur, mávur, starri og mús eru mjög vond dýr og þau má drepa hvernig sem er. Hvalurinn, ísbjörninn, örninn og sjálfsagt fleiri stór gráðug rándýr eru mjög góð og aðeins glæpamenn og lífhræddir vesalingar skerða hár á höfði þeirra. Þarna í milli lendir svo æðurinn með stórum hópi dýra sem menn og ísbirnir mega drepa ef þeir vilja enda líf þessara allra frekar ómerkilegt. (Innan sviga má svo setja þá sérstöku siðfræði að það telst nú orðið til dýrafræðidyggða að drepa sama laxinn oft og utan við siði og rétt eru verksmiðjubúskapar dýr sem menn mega kvelja upp til hins óendanlega, hagvextinum í vil.)
Ég mæli með að umhverfisráðuneytið og Novator gefi nú að loknu Hraunsævintýri sínu út handbók um það hvaða dýr eru mikið góð, hvaða dýr eru minna góð og hver eru mjög vond þannig að allir viti sig hér eftir í fullum rétti að tína af sér flærnar...
Ríkisstjórnin ráðalausa
14.6.2008 | 11:10
Síðan Alþingi var sent heim fyrir hálfum mánuði hefur ríkisstjórnin keppst við að gera ekki neitt. Sem er sama stefna og sama stjórn fylgdi síðasta vetur, sumar, vor og haust og ævinlega með fyrirheitum um að þetta sé allt saman alveg að koma. Alveg að gerast. Unnið sé að aðgerðum og rætt sé um að hefja samráð um hverjar þær aðgerðir gætu verið ef í væri ráðist sem sé samt betra að bíða aðeins með...
Fram eftir vetri máttum við stjórnandstæðingar í þingsölum heyra það ítrekað að við þvældumst nú frekar fyrir í þessum efnum, ráð okkar væru misskilningur og ótti við yfirvofandi kreppu marklítið hróp þess sem í sífellu sér fyrir sér úlfinn ógurlega. Í umræðu á eldhúsdegi nú í vor mátti heyra þann málflutning varaformanns fjárlaganefndar að nær væri að hugsa eins og góðir útgerðarmenn gerðu á verðbólguárunum;- þetta reddast!
Nú þegar ráðherrar eru lausir undan þeim skyldum að mæta stundarkorn í viku hverri í þingsali eru það fréttamenn sem gera þeim lífið leitt. Í gær fengum við að heyra í hádegisfréttum að forsætisráðherra vildi svo gjarnan segja þjóðinni hvað stæði til í efnahagsmálum en gæti bara ekki staðið í því þegar dónalegir blaðamenn þvældust fyrir.
Mótsagnakenndur málflutningur
Málflutningur hins sterka stjórnarmeirihluta hefur verið með eindæmum mótsagnakenndur og einkennst af ráðaleysi. Á sama tíma og forsætisráðherra talaði fyrir þeirri skoðun að efnahagserfiðleikarnir væru óverulegir síðastliðið haust flutti fjármálaráðherra tölur langar um að fjárlög yrðu að miðast við að hér stæði fyrir dyrum samdráttarskeið sem þyrfti að mæta með sérlega bólgnum fjárlögum og aukningu framkvæmda. En ekkert skyldi þó gert til að koma í veg fyrir kreppuna!
Þegar Framsóknarflokkurinn lagði snemma á þessu ári fram tillögur um þjóðarsátt var þeim mætt með fálæti og neikvæðni en nokkrum vikum síðar kom utanríkisráðherra úr einni reisu sinni og sagði að nú yrði að efna til þjóðarsáttar. Sem Sjálfstæðismenn hafa svo ýtt þegjandi út af borðinu...
Og enn verri aðgerðir
Verst er þó hávaxtarstefnan. Það þarf minna en inngangskúrs í hagfræði til að vita að háum stýrivöxtum er aldrei haldið uppi á krepputímum. Reyndar er hávaxtastefna Seðlabanka Íslands einhver sú vitlausasta sem Íslendingar hafa látið sér detta í hug því með henni er verið að pína upp gengisskráningu með spákaupmennsku. Og greiða niður verðbólguna með því að lækka innkaupsverð á erlendum neysluvarningi. Sem gert er beint á reikning útflutningsatvinnuveganna. Og innlendri framleiðslu um leið skákað út af borðinu.
Og samt er þetta í reynd það eina sem stjórnvöld hafa gert í efnahagsmálum. Það þarf ekki að koma á óvart að Seðlabankastjóra þyki betra við aðstæður sem þessar að veifa röngu tré en öngu en vitaskuld ber ríkisstjórnin ábyrgðina. Staksteinar gærdagsins fjalla einmitt snilldarlega um muninn á tveimur stjórnmálaleiðtogum. Annar gerir alltaf eitthvað, jafnvel þó hanngruni það vera rangt. Hinn gerir örugglega aldrei neitt, því hann er ekki viss um neitt. Vandamálum dagsins í dag verður ekki betur lýst.
Ráðaleysi við ríkisfjármálin
Við aðstæður dagsins í dag þarf styrka og tafarlausa stjórn efnahagsmála. Í vetur leið lagði Framsóknarflokkurinn fram metnaðarfullar tillögur um aðgerðir og í flest af þeim er enn hægt að grípa. Við höfum lagt til lækkun á neyslusköttum jafnt á matvælum og eldsneyti til að gíra niður verðbólgu, tafarlausa lækkun stýrivaxta og raunverulega styrkingu gjaldeyrisvaraforða. Þá viljum við styrkja Íbúðalánasjóð til að koma þannig hjólum fasteignamarkaðarins og bankakerfis til hjálpar.
Um leið þarf styrkleika í fjárlagagerðina sem mikið hefur vantað á. Nú í sumarbyrjun heyra kjósendur ráðherra og fjárlaganefndarmenn kallast á í fjölmiðlum um forgangsröðun verkefna. Sjúkrahús eður ei. Slík vinnubrögð eru ekki farsæl og benda til að svipuð lausatök verði á ríkisfjármálum næstu misseri og verið hefur sem er grafalvarlegt við minnkandi tekjur ríkissjóðs og vaxandi efnahagsvanda.
(Birt í 24 stundum í dag, laugardaginn 14. júní 2008)
Von um nýtt heimili fatlaðra á Selfossi
12.6.2008 | 10:50
Það sem hæst ber í vikunni eru ekki þingmannsfundirnir þó margir hafi verið heldur fundur sem við stjórnarmenn Þroskahjálpar á Suðurlandi áttum með Svæðisskrifstofu og ráðuneyti um möguleika á að opna nýtt nokkurskonar sambýli fatlaðra hér á Selfossi. Ef af verður er um að ræða mikinn áfanga í áratuga baráttu. Allt að fimm fatlaðir einstaklingar gætu þá fengið möguleika á að flytja að heiman í verndað umhverfi sem gæti þá verið fyrsta skref viðkomandi að algerlega sjálfstæðri búsetu.
Ég segi þessvegna nokkurskonar sambýli því vitaskuld eru sambýli fatlaðra að nokkru leyti barn síns tíma. Hafandi starfað í þessum geira í gegnum okkar litla félag, Þroskahjálp á Suðurlandi, hef ég fylgst vel með þeirri þróun og líkað sumt en annað miður. Meðan Eggert Jóhannesson var í forystu þessara mála á Selfossi var mikil uppbygging í sambýlum og annarri þjónustu en síðan hann lét af starfi fyrir meira en áratug hefur þróunin verið vægast sagt hægari. Mannabreytingar í forystu Svæðisskrifstofu tíðar og ekkert sambúðarúrræði bæst við þrátt fyrir að íbúafjöldi á svæðinu hafi nærri tvöfaldast! Okkur er sagt að ástandið sé verra á höfuðborgarsvæðinu. Það kallar á úrbætur þar en ekki að við setjumst með hendur í skauti.
Vitaskuld hafa tímarnir líka breyst að því leyti að mun fleiri fatlaðir flytja nú beint úr foreldrahúsum í svokallaða sjálfstæða búsetu og það getur í mörgum tilvikum verið hárrétt stefna. En eins og með allar stefnur þá eru nýjabrum þeirra gott og alræði þeirra að sama skapi vont. Um mörg undanfarin ár hefur ríkt mikil einstefna í þessum málaflokki.
Við sem störfum í grasrótinni hér á Selfossi höfum séð fjölmörg dæmi um einstaklinga sem þetta hentar mjög illa. Sumir geta ekki tekið þetta skref og búa þessvegna í föðurhúsum mun lengur en ella væri og lengur en var hér almennt á Eggertstímanum. Aðrir missa tökin á lífinu og flytja aftur heim til mömmu. Þriðji hópurinn og það er sá sem verst fer út úr þessari stefnu, einangrast félagslega í lítilli blokkaríbúð þar sem viðkomandi tekst ekki að mynda nein tengsl við umhverfi sitt. (Ekki misskilja mig; meirihlutanum hentar þessi leið prýðilega og fjölmargir eins sumir þeirra sem næst mér standa blómstra algerlega við þær aðstæður að verða eigin herrar.)
Sem hagsmunagæslufélag höfum við í Þroskahjálp lengi þrýst á um úrbætur við lítinn hljómgrunn. En nú er lag. Lambhagi 48 er fallegt timburhús í grónu hverfi sem ríkið hefur í áratugi nýtt fyrir svokallaða skammtímavistun fatlaðra og minn sonur naut þar frábærrar þjónustu í nærri tvo áratugi. Nú hefur sú starfssemi verið flutt í annað hús. Eigandi Lambhagans er félagið okkar Þroskahjálp á Suðurlandi og við höfum nú lagt fyrir ríkið hugmyndir um að þar verði rekið sameiginlegt heimili 5 fatlaðra einstaklinga sem njóta aðstoðar við að feta sig frá hinu verndaða umhverfi foreldra sinna. Margir þeirra geta svo síðar flutt í sjálfstæða búsetu. Úrræði sem þessi eru nokkur í Reykjavík og kölluð áfangastaðir.
Þessa dagana er tvennt í athugun í fyrsta lagi hvaða einstaklingar kæmu hér helst til greina og sú vinna fer vitaskuld fram á Svæðisskrifstofunni. Þar liggja umsóknir og biðlistar fyrir. Hitt sem er erfiðari þátturinn - er að berjast í að fá rekstrarfjármagn til verkefnisins sem hleypur vitaskuld á nokkrum ársverkum og kostar sitt
Fasismi hinna „umburðarlyndu,
7.6.2008 | 12:47
Líkt og þögnin elur af sér úlfúð og tortryggni mun afneitun á tilvist þjóðríkisins og hefðum þess aldrei færa okkur annað en bælingu, reiði og átök. Gott dæmi um þessa afneitun eru nýlegar árásir á íslensku kirkjuna. Nú er sá sem hér skrifar ekki meðlimur í því félagi og fullkominn efahyggjumaður í trúmálum.
Farsæl ríkiskirkja
En hin íslenska þjóðkirkja hefur ekki staðið að árásum á fólk af öðrum trúarbrögðum. Hún hefur verið afar umburðarlynd og hófsöm hreyfing sem vinnur gott starf fyrir bæði trúaða og okkur hin. Búddistar, múslimar og kaþólikkar sem hingað flytjast vita að þeir eru að setjast að í landi þar sem er ríkiskirkja og þess verður reyndar ekki vart að þeir telji sig þjakaða af tilvist hennar. Við höfum til þessa leyft kirkjunnar þjónum að heimsækja skóla, sjúkrahús og fangelsi.
Nú bregður svo við að hópur manna sem kennir sig við trúleysi stendur upp og mótmælir því að prestar komi inn í skólahús. Í blaðagreinum má jafnvel lesa þá firru að prestar landsins hafi í gegnum söguna verið andsnúnir menntun og uppbyggingu hennar. Ofstæki af þessu tagi kallar aðeins á það sama. Það er ekki lið hinum hófsömu, skynsömu ríkisprestum okkar. Það er til liðs hinum, þeim örfáu prestum og fjölmörgu trúboðum heittrúarsafnaða sem lifa á því að eiga sér andstæðinga. Kenna þá svo við púka vítis.
Bæling leiðir af sér öfga
Staðreyndin er að þjóðkirkjur og trúfrelsi hafa þrifist mjög vel samhliða. Það sem einkennir samfélög með ríkiskirkjum eins og Ísland, Norðurlöndin, Bretland og fleiri lönd er ákveðin farsæld í trúmálum. Til samanburðar höfum við lönd hins meinta trúfrelsis eins og Bandaríki Norður Ameríku þar sem kirkjur starfa á markaðsgrundvelli sem leiðir til mun meiri öfga í trúarlífi.
Talsmenn hins meinta umburðarlyndis hafa alla jafna horn í síðu þjóðræknislegra viðhorfa. Sér í lagi þeirra sem tilheyra frumbyggjum svæðisins, Íslendinga á Íslandi, Norðmanna í Noregi o.s.frv. Slíkar firrur hafa lengi gagntekið þann hugsjónaskóla sem sækir magt sína í Evrópusambandið. Bæling þjóðrækninnar leiðir aðeins eitt af sér. Uppris hennar í öfgafullri mynd. Við höfum dæmið fyrir okkur í Júgóslavíu þar sem þjóðir risu hver upp á móti annarri í lok Títókúgunar og sambærilegri hlutir, þó meinlausari séu, eiga sér í stað í höfuðborg Evrópusambandsins, Brussel millum Flæmingja og Vallóna.
Prestar allra guða
Með viðurkenningu og gagnkvæmri virðingu þjóðlegra einkenna einstakra hópa má forðast átök af þessu tagi. En það verður ekki gert nema allir leggi eitthvað af mörkum. Við hinir trúlausu verðum að hafa umburðarlyndi gagnvart því að prestar komi í skólana og börn sem ekki vilja hlusta á þeirra boðskap eru ekki verr sett en þau sem til dæmis hafa ekki áhuga á keppnisíþróttum sem samt eru fyrirferðarmiklar í skólastarfi. Vitaskuld fá búddamunkur eða múslimaprestur líka að koma inn í skóla í landi okkar svo lengi sem heilbrigt umburðarlyndi ræður hér ríkjum.
Eitt einkenni hins óheilbrigða og meinta umburðarlyndis er krafan um að allt megi allsstaðar og ekkert skuli heilagt. Aldrei megi virðing skerða frelsi. Vissulega eiga skáld og listamenn að hafa slíkt frelsi að ákveðnu marki,- svokallað skáldaleyfi. En okkur er öllum hollt að hafa aðgát í nærveru sálar og þess sem sálum samborgara okkar er heilagt.
Við kirkjustaðinn Stóra - Núp í Hreppum gerðist það eitt sinn að ráðsmaðurinn á bænum reið úr hlaði um sama bil og hringt var inn til messu. Brá þá svo við að jörð opnaðist undir þeim báðum, manni og hesti og hefur ekki til þeirra spurst síðan. Spottakorn frá kirkju má enn greina holu þá ljóta í flagi sem heitir af atburði þessum Ráðsmannshola.
Nútímamönnum er hollt að skoða hana og draga af sögunni lærdóm svo sem þeir hafa vit til.
(Birtist í 24. stundum í dag 7. júní 2008)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (95)