Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
Umskipti Steingríms Joð og það sem er utan ramma
10.5.2009 | 18:15
Gamlar konur í Þistilfirði sögðu forðum þær sögur af umskiptingum að yfirleitt væru karlbörn úr þeirri hættu að um þau væri skipt af vondu álfafólki þá þau hafi verið blessuð og tekið tennur.
Ástæðan var sú að álfkonur þær sem stálu börnum þessum létu í staðin tannlausa gamla karla sem þær hnoðuðu saman ofan í barnsvögguna og því varð barnið sem tekið var að vera tannlaust einnegin. Í sögum þessum liggur sú speki að erfiðara sé að hnoða saman í barnsvöggu karli sem tenntur er en hinn sem engar hefur. Ekki þarf að taka fram að kvenbörn voru miklu síður í þessari hættu og jafnvel alls ekki enda kom þetta til þegar álfkonur vildu yngja upp hjá sér karlpening sinn.
Hitt er órannsakað hvort karlbörn sem aldrei hljóta almennilega guðsblessan né kristilegt innræti geti aftur komist í sama áhættuhóp við gamalsaldur þegar tennur fer gjarnan að þrjóta. Atburðir helgarinnar benda mjög til að svo sé því nú hefur gamall pólitískur refur norðan úr landi orðið að þeim umskiptingi í stjórnmálum að ekki dugar honum lengur að svíkja loforð sem gefin voru fyrir kosningar.
Loforð sem Steingrímur Joð gaf að þarflausu eftir kosningar, í sjónvarpsviðtali 27. apríl, er líka fokið út um gluggann en þá sagði Steingrímur að "...það væri utan ramma hinumegin að leggja strax fram umsókn." Nú kemur fram að það á að leggja fram umsókn í júlí og ef Steingrímur sjálfur kemur ekki í veg fyrir að umsókn verði lögð fram í þinginu þá er alveg greinilega komin upp ný staða í þeim fræðum sem fjalla um umskiptinga og athugandi að leitarmenn í Þistilfirði fari nú hóandi um kletta næst Gunnarsstöðum og finni okkar rétta og stefnufasta Steingrím aftur.
Hans er sárt saknað!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Hinn stefnufasti flokkur og sigurganga hans
8.5.2009 | 19:05
Mín spá er að hinir valdagírugu ráðherrar og ráðherraefni VG hafi nú bundið snöggan endi á sigurgöngu VG í íslenskum stjórnmálum.
Flokkurinn sem var hinn stefnufasti er að verða að tækifærisinnuðum miðjuflokki þar sem hver höndin verður upp á móti annarri enda er Steingrímur J hættur að horfa einbeittur í augu fréttamanna líkt og hann gerði.
Lesa meira.
Birt á Smugunni en einnig hér.
Davíð sem felldi heilt land
8.5.2009 | 16:24
Davíð felldi Ísland, bankarnir voru vel í felstu ágætlega reknir, krosseignatengslin aðallega vandamálvegna viðbragða Davíðs Oddssonar og náhirðar hans. Engu skiptir að útrásarvíkingarnir voru eignalausir og þar af leiðandi ábyrgðarlausir, engar líkur á að stórfelldir fjármagnsflutningar Kaupþings til Íslands hafi skipt neinu máli því Kaupþingsmenn greiddu svo vel úr þeim málum. Við hrunið í haust stóð Jón Ásgeir sig áberandi vel og hefðu aðrir farið að dæmi hans hefði máske farið betur.
Þetta er meðal þess sem Ólafur Arnarson Clausen kemst að í úttekt sinni á hruninu, Sofandi að feigðarósi. Ólafur réðist í bókarskrifin eftir að ekki var fleiri spennandi verkefni að hafa hjá BaugsfyrirtækinuLandic Property. Ég skrifaði pistil um þessa bók Ólafs sem birtist á AMX í dag.
Máttlausar rangfærslur
6.5.2009 | 21:30
Ef þjóðin er spurð í skoðanakönnun: Á Ísland að sækja um aðild að ESB svarar yfirgnæfandi meirihluti nei.
Ef að kratastjórnin sem nú situr getur farið í aðildarviðræðum eftir forskrift RÚV án þess að sækja fyrst um aðild þá eru það mikil tíðindi og verður örugglega tilefni forsíðufyrirsagna í öllum blöðum álfunnar. Staðreyndin er að áður en farið er í aðildarviðræður þarf Alþingi og ríkisstjórn að taka ákvörðun um að vilja ganga í ESB.
Í þremur könnunum Fréttablaðsins í febrúar, mars og apríl kom alltað það sama út, u.þ.b. 11 af hverjum 20 var andvígur umsókn á móti 9 sem voru því hlynntir eða 55% á móti 45%.
Þá má reyndar búast við að þessar tölur hafi skekkst lítillega síðustu vikurnar enda átt sér stað mjög kostnaðarsöm og um margt vel heppnuð áróðursherferð ESB-sinna undir forystu Benedikts Jóhannssonar hjá Talnakönnun þar sem því er blygðunarlaust haldið fram að þetta snúist um ESB eða dauða.
Það er samt nær lagi miðað við fréttir úr Evrópu þessa dagana að það sé einmitt ESB sem leggur sína dauðu hönd á hagkerfi aðildarlanda sinna.
61,2% vilja aðildarviðræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Að innsigla stjórnleysi...
5.5.2009 | 11:40
Sæt eru völdin og sætt er að henda hraunmola frá sér. Nú hafa kratar og VG fundið upp á þeim hrekk að henda ESB-vandræðunum í fang andstæðinganna. Það er enn svoldið að fullyrða hvað þessi leið felur í sér annað en að það hefur verið ákveðið að leggja upp með óstarfhæfa vinstri stjórn og meira stjórnleysi en þó náðist í henni Viðeyjarskottu Harða Geirs og er þá langt til jafnað.
Ef Framsóknarflokkur, Borgarahreyfing og einhver hluti Sjálfstæðisflokks draga Samfylkinguna að landi og styðja aðildarumsókn sem VG berjast á móti þá er ríkisstjórn VG og Samfylkingar búin að vera.
Það eru tvær leiðir til að stjórnin geti lifað.
Önnur er að tillagan um aðildarumsókn verði felld og kannski telja kratarnir sig geta haldið andlitinu þannig. Þetta er einfaldlega meirihluti þingsins og búið mál. Jóhönnu og Össuri getur örugglega hugnast slík refsskák enda hvorugt þeirra ESB-sinnar í hjarta sínu. En það þarf enginn að efast um að bæði Árni Páll, Björgvin G. og fjölmargir aðrir missa af því svefn og alla ró í sínum beinum. Það er nefnilega ljóst að Samfylkingin hefur þá látið frá sér möguleikann að mynda ESB-stjórn með SOB-samstarfi (þetta er ekki skammstöfun á neinu, heldur bara listabókstafir þriggja flokka!!).
Hin leiðin til að stjórnin lifi er að VG svíki feitt; láni Lilju Mósesdóttur og kannski einn tvo aðra yfir á ESB-vagninn sem verður þá fullskipaður með atbeina frá hálfum Framsóknarflokki, Borgarahreyfingu og kannski grönnum kvisti úr Sjálfstæðisflokki. Ef þetta gerist getur stjórnin lifað en VG hefur þá fórnað allri sinni pólitísku framtíð fyrir ráðherrastóla og þá er nú bleik brugðið...
Að skrifa eins og ESB-sinni
3.5.2009 | 11:38
ESB umræðan í landinu er svo sannarlega í skotgröfum en samt verð ég alltaf jafn undrandi þegar ég les greinar frá hörðum ESB-sinnum þar sem ekki örlar á röksemdafærslum heldur er haldið uppi látlausum fúkyrðaflaumi og klifað á innihaldslausum sleggjudómum. Og þegar höfundar ná að tvinna svoleiðis saman án þess að komast nálægt því að vera fyndnir er ástæða fyrir okkur kaupendur Morgunblaðsins til að biðjast vægðar.
Þannig er ritstjórnargrein Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu í dag þar sem 70% af Sjálfstæðisflokki er afgreidd með hugtakinu litla harðlínuklíkan." Víst er Sjálfstæðisflokkurinn orðinn lítill miðað við það sem hann var en það er nú Morgunblaðið líka! Og að tala um að hinn almenni frjálslyndi armur Sjálfstæðisflokksins þurfi að snúa af sér litlu harðlínuklíkuna er ekki í neinu samræmi við hlutföllin í grasrót Sjálfstæðisflokksins. Síðasti landsfundur þar á bæ sýndi að LITLI hópurinn þar er sá sem Kolbrún kallar hinu frjálslyndu en heita Evrópukratar hjá almenningi.
Vinstri grænir eru afgreiddir sem óstjórntækur afturhaldsflokkur en fær einnig einkunnina þjóðlegur sem er líklega skammaryrði í munni Evrópukrata. Stefnumál VG er eitthvað sem skoppar úr munni þeirra, þeir missa út úr sér korteri fyrir kosningar og byggja málflutning sinn á andúð! Það er von að sá sem svona skrifar reikni með að andúð sé almennt hreyfiafl stjórnmálanna og að umræða geti ekki verið vitræn heldur skoppist hún út úr munni andstæðinganna.
Reyndar eru þau tvö mál sem Kolbrún tekur um gefna heimsku VG klaufalega valin. Annarsvegar sýndi Katrín Jakobsdóttir þann manndóm að viðurkenna fyrir kjósendum að framtíðin fæli í sér skattahækkanir, launalækkanir og upptöku eignaskatta. Hinsvegar upplýsti starfandi umhverfisráðherra efasemdum með olíufyrirætlanir á Drekasvæðinu. Býst einhver við að olíuleit verði hafin hér án þess að einhverjir efist um ágæti þess. Í Noregi hefur olíuleit verið umdeild, í hvert skipti, vegna umhverfismála og hagsmuna sjávarútvegs. En það er rétt sem greinarhöfundur tæpir á, í kosningabaráttunni voru líka vænir og ESB-sinnaðir frambjóðendur sem lofuðu seint og snemma að ríkið muni taka að sér að borga skuldir húseigenda í landinu og jafnfram að engar skattahækkanir séu í farvatninu.
Það eru skynsamir menn og það eru svoleiðis menn sem Kolbrún telur að Samfylkingin eigi nú að tala við.
Grein Kolbrúnar Bergþórsdóttur má lesa í Morgunblaðinu en líka hér:
http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/869273
Stjórnmál og samfélag | Slóð | Facebook | Athugasemdir (100)
Ráðstefna um Pál í Sandvík
2.5.2009 | 11:49
Morguninn hefur farið í að fínslípa ræðu um fræðimanninn Pál Lýðsson í Sandvík en núna klukkan tvö hefst í Fjölbrautaskóla Suðurlands ráðstefna um þennan mikla vesír okkar Árnesinga.
Ráðstefnan um Pál er öllum opin, aðgangur ókeypis og dagskráin forvitnilega en um hana má nánar lesa hér, fraedslunet.is
...þann tudda sem launafólk púar á...
1.5.2009 | 16:49
Alþýðuleiðtoginn Gylfi Arnbjörnsson var púaður niður á Austurvelli í dag þar sem hann flutti sinn venjubundna áróður um nauðsyn þess að Ísland gangi í ESB og taki upp evru. Það er í raun og veru með miklum ólíkindum að Alþýðusambandsleiðtogi sem sækir sín ágætu laun til allra launamanna í landinu skuli verja mestum sínum tíma til að reka áróður fyrir ESB-aðild. Það er ekkert sem bendir til að meirihluti vinnandi fólks í landinu aðhyllist ESB-aðil, ekki frekar en annar meirihluti. Fjórar kannanir Fréttablaðsins í röð benda til að það sé minnihluti þjóðarinnar sem vill leggja fram umsókn um innlimun í ESB.
Þegar kemur að hag verkafólks lítur dæmið þannig út að ESB-aðild myndi hér sem annarsstaðar fylgja kjararýrnun, aukið atvinnuleysi, sterkari staða alþjóðafyrirtækja gagnvart launþegum og að lokum landflótti vegna miðflóttaafls hins evrópska stórríkis.
Kannski að alþýðunni á Austurvelli hafi tekist að opna augu Gylfa á Austurvelli í dag, þá loksins stóð frammi fyrir vinnuveitendum sínum. Sjálfur hefur hann ekki tilheyrt hinni vinnandi alþýðu eins og verkalýðsleiðtogar fyrri tíðar gerðu heldur kemur að embættinu í gegnum hagfræðistörf fyrir ASÍ.
Uppákoman í dag minnir mig á vísu sem ort var um allt annan leiðtoga sem var eins og Gylfi svoldið svíradigur og þrútinn.
Nú lokið er tíð minnar trúar á
þann tudda sem launafólk púar á!
Ég held því að héðan
sé fljótskroppið meðann
í bíltúr austur að Brúará!
Og nú kemur getraun dagsins, um hvern var ort, hver er talinn höfundur og hversvegna er talað um bíltúr að Brúará í limru þessari.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)