Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
Allir á Heimssýnarfundi í dag
14.6.2009 | 11:02
Þátttaka almennings í baráttunni gegn ESB aðild skiptir öllu máli, segir Bjarni Harðarson gjaldkeri Heimssýnar í samtali við Skessuhorn, hreyfingar sjálfstæðissinna, en samtökin halda opinn baráttufund gegn ESB aðild að Bifrös í dag sunnudag klukkan 16. Þar verða lögð drög að stofnun deilda fyrir Heimssýn á Vesturlandi.Það er jafnframt fundur í Varmahlíð í Skagafirði kl. 15:30.
Sjá meira af viðtali Magnúsar á Skessuhorni við mig hér,
http://skessuhorn.is/Default.asp?sid_id=24845&tId=99&Tre_Rod=001|002|&fre_id=89183&meira=1
Í landi spillingarinnar...
13.6.2009 | 11:01
Við búum í landi spillingarinnar og það er talandi dæmi um þetta ástand að uppsláttur Morgunblaðsins í dag er að Bakkabræður ætli sér að endurreisa atvinnulífið hér á landi með því að byggja upp matvælaverksmiðju. Þeir geta þá líklega ráðið húskarl sinn Sigurð Einarsson sem forstjóra og þá sem töpuðu aleigunni í Existu og Kaupþingi sem verkamenn.
Nú meira en hálfu ári eftir hrunið ræður Jón Ásgeir áfram yfir meirihluta allrar verslunar og yfir stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins. Veit sem er að maðurinn lifir ekki af brauði einu saman heldur þarf hann Fréttablaðið með sem er eins og allir hinir fjölmiðlarnir skrifaðir af sama settinu og áður lofaði útrásarvíkingana.
Það er eðlilegt að í svona samfélagi telji Valtýr Sigurðsson að það sé hann sem eigi að hafa Evu Joly í vinnu og Gunnar Birgisson verði hvumsa enda píslarvottur á skjön við allt og allt.
Boðorð samtímans á Íslandi er nefnilega, enginn skal axla ábyrgð!
Fjölmiðlarnir á Íslandi og ESB
11.6.2009 | 18:04
Sami blaðamaður og skrifaði fyrir nokkrum árum lofbækur um íslenska auðmenn skrifaði nú á hrunvetri langlokur um það að ef Ísland ekki gangi í ESB þá fari landið aftur á hausinn, líklega aftur og aftur að eilífu! Sjá meira.
Ég hefi nú skrifað þrjár greinar um fjölmiðla og ESB umræðuna, sú síðasta þeirra birtist í Morgunblaðinu í dag og hér:
Hinar eru hér:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ódýrasti bjórinn og besta veðrið
10.6.2009 | 22:23
Veðrið leikur við okkur á þessu kreppusumri og það sem meira er,- ævagamall draumur er orðinn að veruleika. Bjórinn er ódýrari á Austurvelli en á Strikinu. Hvað viljum við það betra!
Verum þess svo minnug að Halldór á Kirkjubóli og Helgi í Ketlu sögðu báðir að Ísland myndi fara til helvítis ef hingað kæmi bjór. Og hvar erum við...
Vitræn mótmæli á Fríkirkjuvegi
9.6.2009 | 13:16
Ég vil ekki espa fólk upp á móti gömlu húsi eða einstökum mönnum en það er sjaldan sem ég fæ ekki kjánahroll af mótmælum. Í gær var einn af þessum ljósu punktum þegar leiðtogar götubardaga í Reykjavík framkvæmdu friðsamlega en táknræna hústöku á Thorsarahöllinni við Fríkirkjuveg. Það var ólíkt gáfulegra en hrópin að Seðlabankanum í vetur leið.
Öskrin um vanhæfa ríkisstjórn voru mjög á gráu svæði og skiluðu í raun og veru engu góðu og munu ekki gera meðan Samfylkingin kemur að stjórn landsins.
Það eðlilegasta í mótmælum og aðgerðum er að beina þeim að því hyskinu sem lengst gekk í glannaskap og setti hér bankakerfi og ríkissjóð á kaldan klaka. Ég hefi lengi talað fyrir því að það átti strax við upphaf hrunsins að taka forsprakkana í yfirheyrslur og eftir því sem við á í gæsluvarðhald. Nú hefur viðskiptaráðherra slag í slag líkt þessu við Enron-hneyklsið en það er þó þessi stóri munur á að Enron gæjarnir voru allir hnepptir í handjárn. Útrásarvíkingarnir eru enn að reka stærstu fyrirtæki landsins, stjórna samtökum atvinnulífsins og já, svo ég kvarti nú ögn sjálfur, keppa meira að segja við okkur hina sjálfbæru hornkaupmenn og blaðaútgefendur þessa lands, í hvaða rétti veit ég ekki.
Enn betra en Fríkirkjuvegur væri svo að beina mótmælunum að 365. Icesave er þó í fortíðinni en hreðjatak marggjaldþrota gangstera á viðskiptalífi og fjölmiðlum er veruleiki samtímans og hreint óþolandi!
Síðbúinn ice-save æsingur
7.6.2009 | 20:33
Þórðargleði
5.6.2009 | 14:27
Það er í fornu íslensku máli kölluð Þórðargleði þegar glaðst er yfir óförum annarra og ekki veit ég svosem hver sá Þórðurinn er. En þetta er aldrei fallegt en tengist köldu íslensku skopskyni til margra alda. Nú geta margir þeir sem töldu í visku sinni að kreppan væri hér sérlega slæm hér vegna lítillar evrópuvitundar farið að huga að plötuskiptum.
Staðreyndin er að kreppan verður Lettum afar erfið og það kemur fram nú sem fyrr í fréttum að utan að Evrópski Seðlabankinn eða ESB verja ekki hagkerfi sem hrynja suður þar. Því miður. Hér verður hver að bjarga sér en það munar miklu við þá björgun að vera sæmilega sjálfráða í sínum aðgerðum. Það eru Lettar ekki og það erum við ekki síðan krötum tókst að troða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að stýrinu hér á Íslandi.
Á Íslandi höfum við tekið út okkar versta skell með snarfallandi gengi krónunnar - Lettar eiga það eftir og erfiðara um vik hjá þeim vegna aðildar að hinu dýrðlega Evrópusambandi.
Lettland sem hið nýja Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Af sótthita ESB umræðunnar
4.6.2009 | 10:37
Ég vék aðeins að því í síðustu grein hvernig fjölmiðlamenn landsins voru á útrásartímanum mataðir af guðum líkum eigendum sínum og tóku þá í tugatali ESB trú upp eftir húsbændum sínum. Kaþólskastir urðu gömlu láglaunakarlarnir á RÚV sem vonuðust til að verða gjaldgengir á markaðinum nokkur ár enn með því að láta nú ekki sitt eftir liggja.
Rétt afstaða til útrásarinnar, ESB og nokkurra annarra lykilhagsmunamála fjárglæframannanna íslensku var lykillinn að starfsframa í fjölmiðlastétt þar sem RÚV marði á botninum í launakjörum og virðingu.
Afleiðingin er sú að um árabil hefur verið slík slagsíða á ESB-umræðunni að leita þarf inn á íþróttadeildir til að finna sambærilegan sótthita. Máske jafnaðist fjölmiðlaumfjöllun um Breta í landhelgisstríðunum við það sama en fullvíst að sambærileg slagsíða var aldrei í gömlu herstöðvadeilunni sem samt klauf þjóðina alvarlega líkt og ESB deilan gerir núna.
Þá voru þeir dagar að fjölmiðlarnir skiptust mjög í tvö horn í þessum efnum og sumir þeirra stóðu opnir í báða enda eins og gamli Tíminn og stundum Alþýðublaðið.
Um árabil hafa þáttastjórnendur, ritstjórar og fréttamenn valið fréttir, viðmælendur, viðtalsefni og sjónarhorn til mála eftir barnalegum naívisma ESB afstöðunnar. Hamrað er á þeim ranghugmyndum að setja samasemmerki sé milli ESB og alþjóðavæðingar. Af sömu ástæðu er andstaða við inngöngu lögð upp sem fornaldarleg einangrunarstefna, þjóðernishyggja eða hreinlega sögð stafa af ofstæki og heimsku.
Samt eru nú 500 síðan það varð heyrinkunnugt á okkar menningarsvæði að heimurinn er stærri en bara Evrópa, reyndar svo miklu stærri að Evrópa er bara pínulítill hluti heimsins og í dag sá hluti sem hvað þyngst horfir fyrir í efnahagsþróun komandi ára og áratuga. En þetta hefur ekki spurst ennþá inn til leiðarahöfunda eða aldraðra spegilfréttamanna. Mestu skiptir þar að tímgunarvandamál Evrópumanna eru meiri en í nokkurri annarri álfu.
Þrátt fyrir þessar staðreyndir hreyta fréttastofur stóru ljósvakamiðlanna, Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins og launaðir fastapennar blaðanna staðfastlega fúkyrðum yfir alla þá sem ekki fara rétt með löngu úreltar ESB - möntrur Jóns Ásgeirs, Bakkabræðra og Kaupþingsdrengja. Talsmenn sömu útrásarvíkinga sem veittu forstöðu milljarða sparnaði landsmanna í gegnum lífeyrissjóði, EXISTA og önnur pappírstígrisdýr eru ennþá vinsælustu viðmælendur fréttastofanna og taldir þess megnugir að segja þjóð sem þeir hafa sett á hausinn hvert hún eigi að fara. Skreyta sig þá jafnvel með forsæti í ASÍ eða Viðskiptaráði.
Hvenær ætla íslenskir blaðamenn að axla ábyrgð, gera upp hegðan sína á útrásartímanum og temja sér í framhaldi hlutleysi í störfum sínum?
(Mbl. 3. júní 2009)
Davíð, AGS og ESB svo...
3.6.2009 | 10:15
Í fréttum af samskiptum Davíðs Oddssonar og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í gær var aðalatriði hvort seðlabankastjórinn hefði farið út fyrir valdsvið sitt, hvort hann hefði verið kurteis, hvernig Ingibjörgu Sólrúnu hefðu líkað viðbrögð hans o.s.frv.
Allt voru þetta fréttir sem tengdust hinni nýju bók Guðna Th. Jóhannessonar sem verður vissulega spennandi að koma höndum yfir.
Vonandi finnum við þar efnislega umræðu um viðbrögð Davíðs sem hafði hárrétt fyrir sér á þessum tímapunkti. Við áttum aldrei að hleypa Alþjóða gjaldeyrissjóðnum hingað inn. Á sínum tíma gengu agentar sjóðsins með Vilhjálm Egilsson fremstan í flokki milli þingmanna og töluðu fyrir því að allir yrðu nú að leggjast á eitt svo Davíð yrði beygður í þessu máli.
Svo kom Ingibjörg heim frá New York og sagði kokhraust í samtali við Moggann; AGS fyrst, ESB svo...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Fíflskan í heimahlaðinu og vísitölujón á blettinum
1.6.2009 | 20:37
Merkur áfangi náðist í dag hér á Sólbakka þegar sláttur hófst og þar með var bundinn endi á óvinveitta yfirtöku túnfífilsins yfir landareign vorri. Já eign því öfugt við flestar lóðir hér við Ölfusá er gamla Sólbakkalóðin 900 fermetra eignarlóð og það downtown á Selfossi. Nú var svo komið að túnfífillinn er á góðri leið með að leggja undir sig blettinn okkar og bílaplanið. Lýsir vitaskuld miklu umburðarlyndi í garðræktarmálum en skyndilega áttaði ég mig á þeim óvinsældum sem ég gæti kallað yfir mig hér í latínuhverfinu ef fíflar þessir breyttust nú allir í biðukollur og fjölguðu sér af meira kappi en svo að lóðin hér dygði þeim til landnáms. Fíflska samfélagsins er nóg þó svo að þessi gulheimski litur bætist ekki við.
Og þá var að möndla sláttuvélinni út úr bílskúrnum og að mér sækja ankanalegar kenndir. Þetta er nefnilega ákveðinn kapítuli í sálarlífi mínu. Á sínum tíma keypti ég forláta bensínsláttuvél rétt eftir að við hjónakornin fluttum á Selfoss og töldumst þá kornung, (nb: við erum ennþá ung, bara ekki barnung lengur.) Og nema hvað sem ég kem með vél þessa stoltur í karlmennsku minni yfir að eiga orðið enn eina bensínvélina í hlaðinu, fyrir voru auk bíls, mótorhjól og sláttuorf og horfi stoltur yfir eignasafnið og læt mig dreyma um að einhverntíma verði það alvöru traktor, þá, einmitt þáopnast útidyrnar og ég verð óvænt og óvarinn fyrir leiftursókn frá vinstri.
- Þú skilar þessari vél. Við vorum með rafmagns og ég vil fá aðra svoleiðis.
Konan mín talaði með rödd sem ég hefði viljað banna og merkir aðeins eitt. Stríðið var fyrirfram tapað. Reyndi samt aðeins en lúpaðist svo til að samþykkja að skila dýrgripnum og að hún sjálf veldi forláta rafmagnsvél í staðin fyrir þá gömlu sem var einhverskonar snemmbúið erfðagóss ofan úr afdölum og mig var búið að hlakka til að gengi úr sér.
Ég má því enn sniglast um með næstum því hljóðlaust og karakterlaust rafmagnshimpigimpi um blettinn. Það er kannski ekki verst. Verst er að mér er farið að standa á sama og jafnvel farið að þykja vænt um hvað það heyrist lítið í vél þessari, feginn að þurfa ekki að skrúfa kerti og pússa af því sót eða blanda tvígengisolíu. Og svo finnst mér bara skemmtilegt að ganga hér um blettinn eins og gaggandi vísitölujón eða kótelettukarl. Þetta er skelfilegt.
Þið munið hvað segir í Hávamálum:
Svo ergist hver sem eldist!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)