Bloggfærslur mánaðarins, maí 2014

Friðmar í Tungu (1935-2014)

Í gær var jarðsunginn kær vinur minn austur á Fjörðum, Friðmar Gunnarsson bóndi í Tungu í Fáskrúðsfirði.

fridmar

Ég kom fyrst í Tungu 19 ára strákur þeirra erinda að hitta þar ömmubróður minn sem var ævilangt vinnumaður Tungufeðga. Ég kynntist þá heiðurshjónunum Friðmari og Jónu, sem og foreldrum Friðmars þeim Gunnari og Önnu og á um þau kynni öll ljúfar minningar. 

Seinna hlotnaðist mér að komast á skrall með Nonna, Friðmari og fleiri Fáskrúðsfirðingum. Það var skemmtilegt þó skrall eigi sér alltaf tvær hliðar eða fleiri. Það var í hlaðinu í Tungu sem heyrði þau sannindi einmitt fyrst sögð með þeim hætti að það jafnvel hvarflaði að mér að taka mark á því. Enda var það sjálfur Nonni frændi sem talaði og fyrir honum bar ég barnslega lotningu sem hékk utan í leit minni að uppruna og rótum. 

Í ársbyrjun 1985 komu þeir Kiddi frændi og Friðmar saman til mín í Skildinganes þar sem ég leigði þá með nokkrum ungmennum. Í poka voru þar tvær sjeneverflöskur og innan skamms lá í ritvélinni hjá okkur fullbúin minningagrein um Nonna frænda og við vorum bara dáldið montnir af greininni. Svo opnuðum við seinni sjenever flöskuna og fannst einmitt á þeirri stundu svoldið súrt að Nonni væri ekki með okkur. Hann hafði dáið á aðventunni. 

Þegar við Friðmar hittumst hin seinni ár drukkum við ekkert sterkara en kaffi og dugði alveg. Sjeneverinn hafði sinn tíma, kaffið líka. Samtöl við Friðmar voru mér alla tíð ánægjuleg og þar fór maður sem hafði miklu að miðla í sögum en ekki síður gamalgróinni og sígildri lífsskoðun hins austfirska sveitabónda.

Blessuð sé minning Friðmars í Tungu. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband