Spilltir stjórnmálamenn og sakleysi Baugsflokksins

Spilling í samkrulli stjórnmála og viðskipta er eitt stærsta vandamál Íslendinga síðari ár og hefur leitt gríðarlega skuldaklafa yfirþjóðarbúið. Sýslungi minn Sigurður Grétar Guðmundsson greinir þennan vanda í opnu bréfi til mín í Morgunblaðinu 16. mars sl. Niðurstaða hans er að Samfylkingin sé sýkn saka en helstur sökudólgur spillingar sá sem hér ritar fyrir dulítið bréfkorn um mæta flokkssystur.

Flokkur í gíslingu S - hóps

Það er rétt hjá Sigurði Grétari að undirrituðum varð á í frægri tölvupóstsendingu sem tengdist illvígum átökum innan Framsóknarflokksins sem ná allt aftur til þess tíma þegar flokkurinn klofnaði í afstöðunni til EES. Átök þessi snúast um fullveldi og frelsi Íslands. Í þeim átökum höfðu fylgismenn Valgerðar Sverrisdóttur marg oft beitt þeirri aðferð gegn þeim sem hér ritar og gegn sitjandi formanni, Guðna Ágústssyni, að senda nafnlaus skeyti til fjölmiðla. Slík vinnubrögð eru því miður alsiða í stjórnmálum og meira að segja gögn ríkisstjórna og utanríkisþjónustu leka með þessum hætti til almennings. Hér heima og erlendis.

Það varð mér mjög til happs að kunna ekki allskostar á klækibrögð sem þessi og því snerust tölvuskeytin í höndum mér. Í framhaldinu gat ég með góðri samvisku sagt af mér þingmennsku fyrir Framsóknarflokkinn og skráð mig úr sama flokki. Þar með tel ég mig hafa axlað fulla ábyrgð á smávægilegri yfirsjón en um leið komið mér úr þeim ógöngum sem það var vissulega að vera í stjórnmálaflokki sem S-hópurinn gerir eilíft tilkall til að stjórna.

Í títtnefndu bréfi sem ég velti fyrir mér að ætti erindi á alla fjölmiðla rekja tveir Skagfirðingar sögubrot af spillingunni inni í Framsóknarflokknum og það bréf var sent mér án nokkurs trúnaðar. Mín mistök voru þau að senda það ekki áfram undir fullu nafni til alþjóðar.

Guðni flæmdur út!

Sigurður Grétar spyr hvort ég hafi ekki vitað af tilvist Finns Ingólfssonar þegar ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn og ég get svarað því að ég þekkti til hans og fleiri Framsóknarmanna sem tengdust viðskiptum. Og þó ég hefði engar mætur á ofsagróða þessara manna þá grunaði mig ekki þvílíkt hyldýpi spillingar og óráðs hefði átt sér stað í útrásarbyltingunni á Íslandi. Ég var þar jafn grunlaus og allur meginþorri þjóðarinnar. En nú vitum við betur og ég skal viðurkenna að það var rangt að ganga til liðs við stjórnmálaflokk sem var jafn illa flæktur í net spillingar.

Framsóknarflokkurinn átti þó smá möguleika á uppgjöri við þá spillingu meðan Guðni Ágústsson leiddi þann flokk en vammlausari stjórnmálamaður er vandfundinn. En við sem næst honum störfuðum fundum einnig að hinar gömlu viðskiptaklíkur flokksins gáfu hér engin grið og tókst að lokum ætlunarverk sitt að flæma mætan dreng úr stóli og koma sér þóknanlegri manni til valda.

Borgarnesræðan og Baugsmálin

Sigurður Grétar sakar mig um ósannindi þegar ég lýsi bankaeinkavæðingunni með eftirfarandi hætti:

Þar fengu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eða aðilar þeim tengdir, hvorn sinn banka og aðilar tengdir Samfylkingu þann þriðja í gegnum FBA sem rann inn í Glitni.

Þetta er þó það sem alþjóð veit og það er brjóstumkennanlegt að flokksþrælar reyni nú að hvítþvo sinn flokk eins og telji líkt og Geir H. Haarde að enginn samflokksmaður sinn hafi gert mistök.

Eða um hvað snerist Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur ef ekki að verja hennar eigin menn í stjórnmálum, eigendur Glitnis? Eða málflutningur Samfylkingar þegar Baugsmál stóðu yfir? Og hversvegna taldi Jón Ásgeir Jóhannesson sig hafa efni á að kalla fyrir sig og lesa skammir yfir þáverandi viðskiptaráðherra, nóttina sem Glitnir var þjóðnýttur? Og hversvegna töldu bæði formaður Framsóknarflokks og fulltrúar Samfylkingar við myndun núverandi ríkisstjórnar að ekki mætti skerða hár á höfði útrásarvíkinganna við rannsókn bankamála? Krafa sem virkar fyndin nú nokkrum vikum síðar.

Fjórflokkurinn sem hér hefur ráðið ríkjum mun einn og hjálparlaust aldrei leysa upp þau óæskilegu bönd sem hafa verið milli viðskipta og stjórnmála á Íslandi. Í bankahruninu hefur okkur opinberast betur en áður hversu háskaleg blanda þetta er. Sá sem hér ritar býður fram krafta sína í komandi kosningum til að endurreisnar og telur sér það frekar til tekna en hitt að hafa þó axlað ábyrgð á eigin mistökum.

Sigurður spyr mig einnig í grein hvernig ég ætli Íslandi að komast af án þess að afsala sér fullveldinu og ganga í ESB. Ég mun með ánægju svara þeirri spurningu í sérstakri grein.

(Birt í Morgunblaðinu 18. mars)


Enn um 20% vitleysuna og réttlæti framsóknarfrjálshyggjunnar

Ég get ekki alveg sagt skilið við tillögur Tryggva Þórs sem hrifist hefur einstakri af nýfrjálshyggju Framsóknarflokksins. Það er ekki til vitlausari jafnaðarstefna en sú að gefa ríkum meira en fátækum. Þetta er gert í nokkrum tilvikum, t.d. getur forstjóri sem fer í fæðingarorlof fengið frá ríkinu margfalt það framlag sem útigangsmaður fær - bara af því að hann er svo merkilegur!!!

Og núna er sú tillaga uppi að fella bara jafnt niður skuldir hjá öllum. Það þýðir að sá sem keypti sér af góðum efnum einbýlishús fyrir 200 milljónir og skuldar í því 70% sem hann kannski vel ræður við að borga,- hann fær gefins úr ríkissjóði 28 milljónir. Sá sem keypti sér af vanefnum (með 90% láni) litla íbúð á 10 milljónir og skuldar hana alla fær 2 milljónir gefins. 

En ríkið hefur alveg efni á þessu segja Tryggvi og hinir Framsóknarfrjálshyggjumennirnir okkur - jú vegna þess að það verða felldar niður svo miklar skuldir bankanna. Ríkið var semsagt að græða á bankayfirtöku. Ég hefi greinilega misst út einhverjar fréttir!!!

En ég var að aðeins að hugsa um ungan mann sem ég þekki. Hann beið með að kaupa sér íbúð af því að honum þótti verðið hátt og geymdi smá aura illu heilli annarsstaðar en undir koddanum - kannski í sjóði 9 hjá Íslandsbanka. Hann er nýbúinn að missa atvinnuna og er svo gæfulaus að hann skuldar ekkert. Í réttlætissamfélaginu sem Sjálfstæðisflokkur og hinn nýi Framsóknarflokkur boða fær hann vitaskuld ekkert gefins úr ríkissjóði enda er það svo í guðspjöllunum að þar er boðað að þeir sem ekki eiga, frá þeim muni jafnvel tekið verða...


Við vorum ógeðslega ríkir og viljum sko vera það áfram

Við vorum ógeðslega ríkir og viljum sko vera það áfram.

Þetta er mottóið sem formaður Framsóknarflokksins, Bjarni Ben. og Tryggvi Þór Herbertsson vinna eftir þegar þeir heimta að fá felldar niður 20% allra sinna skulda. Ég fjallaði aðeins í síðasta bloggi um það sem lýtur að fyrirtækjunum í þessum fíflalegu tillögum en langar að koma að þætti heimilanna. Heimir Hafsteinsson skrifaði aðeins um þetta á snoppubókinni minni, m.a. þetta:

Hvernig væri nú að fá þína sýn á hvað er best að gera. Hvað sérðu fyrir þér?? 30.000 heimili eru "tæknilega gjaldþrota" Hvað ætlarðu að gera ef allir þessir aðilar hætta að borga?? Þá fara bankarnir og Íbúðalánasjóður á hausinn og hvað þá?? Þetta sem þeir félagar hafa verið að tala um er hið eina rétta í stöðunni og mun ef gert verður stytta til muna þann tíma sem tekur að rétta Ísland við aftur.

Eitt það mikilvægasta til að Ísland rétti við er að við förum vel með fé. Það er vafalaust nærri lagi að 30 þúsund heimili séu tæknilega gjaldþrota. Við lausn á því vandamáli ætla þeir kónar ættaðir úr ESSO og Askar capital að gefa 100 þúsund heimilum slatta af peningum. Þessi 30 þúsund fá þá reyndar miklu minna en þau þurfa en hin fá gott í skóinn! Það er í fullu samræmi við þetta að fara svo að tillögu Tryggva Þórs og afnema tekjutengingu vaxtabóta! Þá eru semsagt öll aðstoð veitt án tillits til aðstæðna og þeir ríku halda áfram að vera jafn mikið ríkari og þeir eru en þeir fátæku fara jafnt á hausinn. 

Með sömu peningum og færu í þetta - sem eru líklega um 1500 milljarðar og hér yrði svo síðan snöggt þjóðargjaldþrot  - er hægt að bjarga öllum sem eru í greiðsluvandræðum og neikvæðri eiginfjárstöðu - bara ef við sleppum þeirri endileysu að gefa ríku fólki peninga.

Mín tillaga: Tökum bara helminginn af þessum peningum (það verður nógu erfitt) og notum hann til að aðstoða heimili í kröggum með uppkaupum ríkisins á húsnæði sem síðan er leigt íbúunum með forkaupsrétti. Þannig getum við leyst vanda mjög margra án þess að ríkið sé að gefa peninga, enda spretta peningar ríkisins ekki á trjánum. Þar sem skuldastaða er svo slæm að þetta dugi ekki þarf að koma til félagsleg aðstoð og við þurfum að stórauka hana á næstu árum.

Hættum svo að trúa á hókus pókus lausnir!


Gefiði mér pening segja súkkulaðidrengirnir

Það er ótrúlegt og langt utan þess sem getur talist siðlegt að heyra Tryggva Þór Herbertsson og Bjarna Benediktsson taka undir yfirboð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins um 20% niðurfellingu skulda hjá öllum fyrirtækjum.

Látum vera með 20% til handa heimilunum, - sú tillaga er bara kjánaleg og óréttlát. En að lauma fyrirtækjunum með er síðbúin græðgi.

Tillagan frá þessum fulltrúum stórfyrirtækjanna í landinu um að þeir fái 20% niðurfellingu skulda er bara einföld frekjukrafa  á skattgreiðendur frá þeim öflum sem komu okkur á kaldan klaka. Skuldir hinna stóru eru hlutfallslega miklu meiri en skuldir litlu rekstrareininganna. Og fyrirtæki hafa einfaldlega fullt af lögformlegum leiðum til að létta af sér skuldum með hefðbundnum leiðum, s.s. nauðasamningum og sumsstaðar á algjörlega við að farin sé gjaldþrotaleið. 

Bæði Bjarni og Sigmundur Davíð tengjast N1 sem er eitt þeirra mörgu fyrirtækja sem var holað að innan af eiginfé þegar græðgisvæðingin stóð sem hæst. Tryggvi Þór kemur úr hinum margrómaða fjármálageira.


ESB slagsíða fjórflokksins

L - listi fullveldissinna varar við ESB slagsíðu flokkanna

Frambjóðendur L - lista fullveldissinna lýsa yfir þungum áhyggjum af fullveldi og sjálfstæði Íslands í kjölfar nýliðinna prófkjöra. Líkur benda til að fleiri ESB sinnar setjist nú á Alþingi Íslendinga en áður.

Vaxandi ítök ESB sinna á öllum framboðslistum Sjálfstæðisflokks eru hér sérstakt áhyggjuefni en flokkurinn var til skamms tíma brjóstvörn sjálfstæðissinna á Íslandi. Yfirlýsingar frá oddvitum allra lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu benda til að Sjálfstæðisflokkurinn stefni ótrauður að aðildarviðræðum við ESB. Frambjóðendur L - listans telja að þar með sé lagt í hættulegan leik með það fjöregg þjóðarinnar sem sjálfstæði þjóðarinnar er.

Fullveldissinnar lýsa einnig yfir þungum áhyggjum af stefnubreytingu formanns Framsóknarflokksins sem lýsti því yfir á Viðskiptaþingi í síðustu viku að stefna hans flokks væri sú að Ísland ætti að sækja um aðild að ESB og taka upp evru. Þá er uppgangur harðlínu ESB manna innan Samfylkingar áhyggjuefni. Að síðustu telur L - listinn rétt að vekja athygli á þeirri sýn varaformanns Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð að flokknum beri að ná sameiginlegri ESB stefnu með Samfylkingunni á næsta kjörtímabili.

(Fréttatilkynning L - listans 16. mars 2009)


Örvita bankamenn og fjárhagsleg heilsa

Þetta er önnur þjófstolin færsla, nú frá Arnþóri Helgasyni bloggara þar sem hann fjallar um almennan aulagang Sparisjóðs, sama sparisjóðs og stagast á hugtakinu fjárhagsleg heilsa:

Sparisjóðsstjóri Byrs sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að í apríl hefðu menn ekki séð hvað væri á næsta leiti. Og nú hugsa menn sér að sækja í ríkissjóð um svokallað eiginfjárstyrk eða hvað það kallast og taldi sparisjóðsstjórinn að um gæti verið að ræða allt að 10 milljörðum króna frá almenningi.

Hvað segir almenningsálitið um það?

Hvað segir almenningsálitið um fjárhagslega heilsu Byrs?

Er þeim sem hafa spillt fjárhagslegri heilsu sinni ætlandi að efla fjárhagsheilsu annarra?

Hvað er fjárhagsleg heilsa?

Varða kannski auglýsingar Byrs um fjárhagsheilsuræktina við lög?

Allt tal fjármálafurstanna og einnig stjórnmálamanna að þeir hafi bara ekki haft hugmynd um hrunið fyrr en það bara kom er svo dæmalaust ósvífið og fíflalegt að engu tali tekur. Geir H. Haarde hélt því líka fram að enginn hefði séð fyrir hrun á húsnæðismarkaði fyrr en það allt í einu varð. Félagi minn sem er samkvæmt opinberum mælingum talinn andlega fatlaður vissi það árið 2006 að það borgaði sig alls ekki að kaupa íbúð, þær væru svo dýrar og hlytu bara að lækka.

En forsætisráðherra og bankastjóra bauð ekki grun hvað væri á næsta leiti. 


Þjófstolið blogg um Sjálfstæðisflokk

Félagi minn Páll Vilhjálmsson skrifar örstutta og magnaða greiningu á prófkjörsúrslitum Sjálfstæðisflokksins, svohljóðandi:

Læmingjahneigð Sjálfstæðisflokksins

Læmingjar eiga það til að efna til fjöldasjálfsmorða með því að þramma allir sem einn fram af bjargbrúninni. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins sýnir áþekka tilburði. Ættarauðvald, Glitnissjóður 9, Árni Johnsen og mosfellska Framkonan sem vill fyrst ganga inn í Evrópusambandið og spyrja síðan hvort það henti okkur: Þetta er liðsuppstillingin fyrir kosningarnar í vor. Hver skrifaði eiginlega þennan tragíkómíska brandara?

 Þetta verður ekkert betur orðað!


Helgin sem átti að vera svo spennandi...

Egill Helgason bloggar á sinni Silfruðu síðu að prófkjörahelgin hafi verið þunglyndisleg og það er dálítið til í því. Aldrei hefur áhugaleysið verið jafn sláandi í tengslum við val á frambjóðendum, þátttakan almennt léleg og aldrei hafa jafn sakbitnir og skömmustulegir menn boðið sig fram. Það er eins og allsstaðar vanti gleðina í pólitíkina, sigurvíman er galli blandin og súrt yfirbragð á umræðuþáttum.Sem er ekki nema von þegar sömu aðilar og settu landið á kaldan klaka ætla að leiða það áfram...

Í áhugaleysinu endurspeglast nefnilega að gömlu flokkshestarnir einir taka þátt og velja hina gömlu aftur. Sitjandi þingmenn raða sér í efstu sæti eins og reyna að láta eins og ekkert hafi gerst. Menn sem sátu í stjórnum peningamarkaðssjóða og stórfyrirtækja leiða lista. Hversu marktækar þessar niðurstöður eru fyrir vilja almennings veit enginn.

Það er athyglisvert að sjá hvernig harðir ESB sinnar herða nú tök sín í nær öllum flokkum. Bjarni Ben. og Þorgerður leiða Kragann, Ragnheiður Elín hér í Suður, ESB sinnarnir Illugi og Guðlaugur Þór í Reykjavík.

Hjá Samfylkingu eru vitaskuld allir ESB sinnar eftir að Einari Má var varpað fyrir róða en menn eru það samt af mismiklum ákafa og einstaka maður þar af þeim trúarhita að til fádæma horfir. Í þeim hópi er Árni Páll sem er nú sennilegt formannsefni þess flokks og sama má segja um Katrínu Júl. og Björgvin G. 

Sigmundur Davíð kom svo út úr skápnum í fyrradag sem ESB sinni og Steingrímur J. óttast að einangrast ef hann er ekki pínulítill landsölumaður líka...

 


ESB stefna Framsóknar er skýr - INN SKAL EK!

Í aðdraganda formannskjörs Framsóknarflokks reyndu margir að fá mig til að taka þátt og styðja hinn unga og efnilega Sigmund Davíð.

Þar gengu vasklega fram ESB sinnar sem höfðu á foringjanum mikið dálæti og sömuleiðis ESB andstæðingar sem voru sannfærðir um að Sigmundur væri sá maður sem ætlaði að snúa niður allt ESB daður Framsóknarmaddömmunar. Ég verð alltaf var um mig þegar mönnum tekst þannig að tala upp á eyrun á ólíkum hópum.

Í gær var hinn nýi formaður á Viðskiptaþingi með mörgum ESB sinnum og sagði þar ef marka má Fréttablaðið:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, sagði stefnu flokksins skýra: "Afstaðan er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru," sagði hann.

Sigmundur spurði þá Steingrím nánar út í hans afstöðu; hvort hann útilokaði stjórnarsamstarf við Samfylkinguna, setti hún Evrópumál að skilyrði. Steingrímur svaraði því ekki játandi en vildi þó vara Samfylkingu við að setja skilyrði.

Reyndar held ég að tvöfeldni hefni sín ætíð eins og marka má af þessari færslu SME um Framsóknarbyltinguna sem sýnir að lífið er enginn dans á rósum hjá hinum nýja formanni.


Ungs manns afrek - og enn montinn...

bjarni_baendabl.jpgÉg er ennþá dáldið montinn af Bændablaðinu sem við stofnuðum nokkrir ungir drengir fyrir meira en tveimur áratugum. Yfirleitt hef ég þetta mont fyrir mig en um daginn bað Þröstur Haraldsson núverandi ritstjóri blaðsins mig að skrifa aðeins um þessa sögu og síðan birti hann frásögnina í 300. tölublaði Bændablaðsins hins síðara. 

Og til að halda til haga því sem ég sendi frá mér á prent leyfi ég þessari grein að liggja hér á baksíðu, 

http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/827798

Meðfylgjandi eru myndir af okkur Jóni frá þessum dögum. Hér er ég í símanum, furðu mjór og síminn forn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband