Dómsmálaráðherra skrifar um ESB mál
21.1.2009 | 08:56
Björn Bjarnason er tvímælalaust einn afkastamesti penni þjóðarinnar um þjóðfélagsmál. Bæði í bloggi og blaðagreinum. Nú hefur Bókafélagið Ugla - sem ekki er nú nein vinstri sjoppa - gefið út úrval af greinum hans um ESB mál frá allra síðustu árum, tengsl Íslands við hnattvæðinguna og skyld efni. Bókinni sem heitir Hvað er Íslandi fyrir bestu fylgir góður inngangur ritaður laust fyrir jól. Þar leggur bókarhöfundur mat á stöðuna í samtímanum og dregur ekkert af sér í þeirri afstöðu að Íslandi beri að vera utan ESB. Hún sé óþörf þar sem hagsmunum Íslands sé borgið með Shengen samstarfi og EES.
Fyrir okkur sem erum skoðanabræður Björns í þessu tiltekna máli er bókin kærkomin, ekki hvað síst nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn er mjög með mál þetta í deiglunni. Greinar Björns eru skrifaðar af mikilli þekkingu og rökfestu. Vitaskuld er hægt að deila við Björn um ýmis smáatriði þessa máls, eins og Shengen samstarfið og þá ekki síður hugmynd hans um að þjóðin eigi að kjósa um það hvort farið verði í aðildarviðræður. Slíkar kosningar gætu verið slæmt veganesti íslenskri samninganefnd sem væri þá enn frekar skyldug til að koma með aðildarsamning til þjóðarinnar eftir aðildarviðræður, jafnvel þó að skilyrði ESB væru - sem þau verða - algerlega óásættanleg.
Hugmyndinni um að efna til slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu fylgir líka sú míta að með því að fara í gegnum ferlið megi koma málinu út af borðinu en það er ekki reynsla nágranna okkar á Norðurlöndum sem þurfa þá bara að kjósa aftur og aftur, þar til innlimun er samþykkt.
Vil ég aftur í Framsóknarflokkinn!?
20.1.2009 | 21:39
Ég ætlaði að stilla mig um að blogga mikið meira um Framsóknarflokkinn að sinni. Vil helst gefa mönnum á því heimili vinnufrið og mun víst ekki af veita. Þráfaldlegar óskir manna að ég gangi aftur í flokkinn og taki undir með hinum nýja og glæsta formanni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, kalla samt á að ég svari þeirri ósk á opinberum vettvangi. Get þá að einhverju leyti losnað við að útskýra þetta í löngu máli í samtölum með því að vísa í þessa færslu.
Því er þá fljótsvarað. Ég er ekki á leiðinni inn í minn gamla flokk og ástæðurnar eru:
Í fyrsta lagi þá hefur Framsóknarflokkurinn stigið mjög örlagaríkt og alvarlegt skref á móti sjálfstæði landsins með því að álykta sl. föstudagskvöld að hann vilji í aðildarviðræður við ESB. Það þó að þar við séu sett ýmis skilyrði, meira og minna óraunhæf skiptir í raun engu máli. Ingibjörg Sólrún hefur haft á orði að hún setji yfirráð okkar yfir fiskimiðunum sem skilyrði fyrir aðild. Allir vita þó að henni er engin alvara með því enda óraunhæft og sama á í raun og veru við um skilyrði Framsóknarflokksins. Þau eru meira að segja þannig að það er ekki hægt að taka sum þeirra alvarlega - sum ganga til dæmis lengra en náðist í EES. Þar af leiðandi falla þau öll um sjálft sig og við vitum fullvel að þeir sem fengu þessari ályktun framgengt í flokknum eru fæstir mjög þjóðhollir og hafa engan áhuga á að halda skilyrðum þessum til streitu.
Í öðru lagi þá hefi ég ekki sannfæringu fyrir því að mjög margt muni breytast til hins betra í flokknum. Meðan ég starfaði á Alþingi fyrir flokkinn var mjög mætur maður formaður og skoðanir okkar fóru um margt saman. Mér sýnist að núverandi formaður sé einnig mjög mætur maður skoðanir hans einnig fari mjög saman við mínar. Ég hefi aftur á móti efasemdir um að hann nái nokkuð betri tökum á flokki þessum. Vonandi hefi ég rangt fyrir mér þar því eins og staðan er nú þarf Ísland á öllum þjóðhollum mönnum að halda. Ég hefi þegar sent Sigmundi Davíð heillaóskir en geri það hér með opinberlega og mér er full alvara þegar ég óska honum þess að honum takist það sem Guðna mistókst!
Í þriðja lagi þá er það misskilningur að nýtt Ísland verði til með því að setja nýtt fólk í forystu allra gömlu stjórnmálaflokkanna. Í því er fólginn sá misskilningur að kerfið hafi í raun og veru verið í lagi, aðeins að það hafi of gamalt fólk setið í stólum þessa kerfis of lengi. Ég held þvert á móti að það kerfi flokksræðis sem við höfum byggt upp í landinu sé vandamálið og að nokkru orsök ófara okkar. Ekki hvaða fólk valdist til starfa þó víst hafi margir setið of lengi. Þessi gagnrýni mín beinist ekki sérstaklega að Framsóknarflokki en um þetta hefi ég skrifað, t.d. hér og mun skrifa meira á næstunni.
Ég er semsagt genginn úr Framsóknarflokki og eins og fulltrúar á flokksþingi hafa væntanlega heyrt í kveðju minni sem ég fól framkvæmdastjóra flokksins að flytja þá kveð ég þann flokk í friði, þakka samvistina og óska vinum mínum sem þar vilja starfa velfarnaðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Hver ætlar að handtaka hvern...
20.1.2009 | 10:43
Sýslumaðurinn Ólafur Helgi Kjartansson hefur boðað fjöldahandtökur á Sunnlendingum. Hinir seku eru hinir skuldsettu sem ekki hafa mætt til skýrslutöku vegna fjárnáms og annarra leiðinda sem skuldarar vitaskuld lenda í. Ég ætla ekki að mæla skuldaóreiðu bót en margir þeir sem nú eru að lenda á vanskilaskrá hafa til þessa verið vammlausir í sínum peningamálum.
Ólafur Helgi sem er eins og við flest margs góðs maklegur er ekki að gera þetta sem einstaklingur heldur sem fulltrúi dómsmálaráðherra og ríkisvaldsins. Þessa sama valds sem með afglöpum, hagstjórnarmistökum og sofandahætti hefur komið landinu í þær ógöngur að erlendar herraþjóðir vilja helst fara eins með lýðveldið sjálft. Og hann er fulltrúi þess sama ríkisvalds sem ákvað í haust að grípa til þeirra neyðarúrræða vegna skulda að skipta um kennitölur á bönkunum.
Sýslumaðurinn er líka fulltrúi þeirra sömu valdherra og hafa staðfastlega neitað að mæta til skýrslutöku hjá þjóðinni með því að boða til kosninga. Ég er sammála fjölmörgum sem hafa bloggað um það undanfarinn sólarhring að með þessu sé beinlínis verið að hvetja fólk til byltingar. Og þó að mér sé illa við að kalla eftir því að Reykjavíkurvaldið komi hér austur fyrir fjall og setji ofan í við menn þá beinlínis hrópar þessi dagskipan sýslumannsins okkar á að dómsmálaráðherra taki í taumana og geri ákvörðun þessa ómerka.
Annars er aldrei að vita hver handtekur hvern í þessu landi...
(Skrifa
meira um málið á Smugunni síðdegis í dag...)Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Það sem aldrei hefur gerst - getur gerst aftur!
18.1.2009 | 21:28
Ég ætla ekki að hætta að blogga um bækur þó að aðal bókavertíðin sé að baki og átta mig á því núna að fyrir jólin bloggaði ég aldrei um þá bók sem var mér samt hvað hugleiknust þeirra bóka sem út komu. Þetta er bók þeirra Sigurðar Ægissonar og Jóns Baldurs Hlíðberg, Íslenskar kynjaskepnur. Hér er á ferðinni afar vandað rit og kemur um margt inn á þau svið sem hafa verið mér hugleikin. Ég var þessvegna fljótur að segja öllu mínu fólki að þessa bók vildi ég fá í jólagjöf og stillti mig eiginlega um að nefna aðrar. Og af því að ég er jólabarn þá stillti ég mig líka alveg um að lesa þessa bók fyrir jólin og skoðaði hana sem minnst þó allnokkur eintök hafi farið um mínar bóksalahendur.
Og viti menn- þetta bitnaði auðvitað á bókinni því fyrir jólin kepptist ég við að blogga um sem flestar af þeim bókum sem ég kom höndum yfir að lesa eða grufla eitthvað ofan í en sleppti Kynjaskepnunum. Og kannski þykir útgefendum og höfundum seint fram komið að ég skuli vera að hrósa bók þessari nú eftir jólavertíð en ég hugga þá með að ég er búinn að selja nokkur eintök einnegin nú í janúar og lofa mörgum ensku í sumar. Bók þessi er semsagt gefin út samtímis á tveimur tungumálum.
Hér er á einn stað safnað saman lýsingum á helstu kynjadýrum og eiginlega þarf þetta rit á hverju heimili. Það er miklu algengara en af er látið að fólk rekist á skrímsli og mikil hætta á að þeir sem það gera verði að hjárænum á eftir. Þekki menn sem hafa rolast þannig árum saman af ótta við að einhver sjái það á þeim að þeir hafi séð urðarkött, skoffín eða nykur. Ekki svo að þeir hafi nokkru sinni haft orð á enda talið sjálfir að þetta hafi verið ofsjón einhverskonar, skynvilla, heimskulæti og geðveiki. Hafi menn bókina um kynjadýrin við hendina sjá þeir fljótt að dýr sem þessi eru algeng í náttúrunni og það sem þeir sáu er vitaskuld hluti af þeim raunheimi sem við búum við og höfum alltaf.
Og jafnvel þó ekkert af þessum dýrum sé til og enginn hafi séð þau en margir skrökvað þeim sögum þá skyldi maður aldrei útiloka að rekast á slík dýr sem bara eru fram til þess til í sögum. Því eins og sagt er í Hreppunum þegar mikið er haft við og margir koma saman sem er skjaldan þar í sóknum:
Það sem aldrei hefur gerst - það getur alltaf gerst aftur!
Styrkleiki og veikleiki í senn
17.1.2009 | 12:49
Eðli Framsóknarflokksins er sáttahyggjan og í henni felst bæði styrkleiki og veikleiki. Þessvegna gerðist það að meðan Halldór var formaður var fullt af fólki innan flokksins sem barðist af einurð gegn ESB stefnunni og þegar Guðni komst til valda hafði þessi hópur hægar um sig. En ESB sinnarnir geystust fram og sáttahjarta Framsóknar fannst það bara sanngjarnt að þannig fengju bæði sjónarmiðin sinn sess. Í þessu getur verið fólginn styrkleiki, t.d. í samstafi við aðra flokka en til lengri tíma þó meiri veikleiki þess sem veit fyrir vikið aldrei í hvorn fótinn hann á að stíga.
Í anda þessa eðlis ætla ég nú á hádegi á laugardegi að skjóta fram ákveðinni spá um úrslitin, algerlega ábyrgðarlaust og meira til gamans gert enda flokksþing þetta mest til aðhláturs eftir skilyrðapakkann sem settur er fyrir ESB.
ESB sinnarnir munu nú draga sig til hlés og veita hinum leyfi til að samþykkja tvöfalda atkvæðagreiðslu formanns, þrátt fyrir skiljanlega baktjaldaandstöðu Páls. Í framhaldinu verður svo annaðhvort Höskuldur eða Sigmundur Davíð kosinn formaður og flokkurinn er jafn patt og áður.
En ég ætla ekki að veðja neinu...
Laugardagsmótmæli á Selfossi - og smá um Framsókn og Jón
17.1.2009 | 11:17
Vil aftur minna á að þa er mótmælafundur á Selfossi klukkan 13 í dag,- upplagt fyrir þá sem vilja tilbreytingu frá því að mæta á torginu að renna hingað austur. Frábærir ræðumenn og mikil stemning. Sjá nánar: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/16/motmaeli_a_selfossi/
En svo er auðvitað ætlast til að ég bloggi aðeins um Framsóknarflokkinn sem er nú eftir gærkvöldið orðinn að hreinum og klárum ESB flokki. Ég hef aldrei fundið eins sterkt til feginleika að vera ekki þar og get tekið heilshugar undir með Agli Helgasyni sem ku hafa sagt í Kastljósi að flokkur þessi geti nú eins sameinast Samfylkingunni.
Ku hafa, segi ég því ég missti reyndar af þessu Kastljósi þar sem ég sat í stórskemmtilegri hrossaketsveislu á Högnastöðum hjá Jóni bónda sem hans fagra Helga heldur að sé sextugur en við vinir hans vitum að karl þessi er minnst þúsund ára og hefur alltaf verið til...
Sorgardagur á Selfossi
16.1.2009 | 18:10
Í dag var Guðjón Ægir Sigurjónsson lögmaður á Selfossi borinn til grafar. Fráfall hans er okkur öllum hér austanfjalls mikill harmur en þar fór einn af máttarstólpum okkar samfélags, mikill félagsmálagarpur og hvers manns hugljúfi. Sem kunnugt er fórst hann af slysförum 5. janúar síðastliðinn, þá nýorðinn 37 ára gamall. Jarðarförin var fjölmenn og ræða séra Óskars afar vel samsett.
Á degi sem þessum drúpir allt hér höfði og réttlæti heimsins er víðs fjarri. Það hljómar svo tómt að óska aðstandendum samúðar þegar orð eru einskis megnug.
Guðjóni Ægi kynntist ég fyrst fyrir nærri 20 árum þegar hann gók að sér smá málningarvinnu fyrir mig á Eyrarbakka. Var í háttum og viðkynningu nauðalíkur föðurbræðrum sem höfðu deilt með mér plássi á Laugarvatni nokkrum árum fyrr. Ég man að það kom mér á óvart þegar ég bauð þessum snaggaralega pilti ofan af Selfossi í mat að hann sagðist ætla til afa og ömmu konu sinnar, Hjartar heitins í Káragerði og hans konu sem mig minnir að hafi heitið Ásta. Þessi ræktarsemi hjá kornungum slána við eldhúsið hjá tengdaömmu bar eitthvað það með sér sem heillaði mig.
Seinna var það júristinn Guðjón sem stofnaði fyrir mig félag þegar ég í prófkjörsslag þurfti á að halda félagi til að halda utan um kostnað og styrki. Og hvað skulda ég þér, spurði ég framsóknarmaðurinn sem ekki átti á neinn hátt hönk upp í bak kratans - en svarið var; ekkert, þetta er styrkur í baráttunni! Fyrir þann styrk og samferðina vil ég nú þakka og um leið senda Þórdísi, börnum þeirra og öllu þeirra fólki mínar innilegustu kveðjur.
Laugardagsmótmæli á Selfossi!
16.1.2009 | 12:47
Þrír ræðumenn verða á mótmælafundi við Ráðhús Selfoss á morgun laugardag, kl. 13. Þetta er fyrsti laugardagsfundurinn en fyrr hafa verið haldnir fundir í miðri viku við Landsbankann. Ræðumenn núna verða þau Rosmary Þorleifsdóttir formaður SSK og bóndi í Geldingaholti vestara, Ragnhildur Sigurðardóttir fræðimaður í Stokkseyrarseli og Ingibjörg Elsa Björnsdóttir þýðandi á Selfossi. Það eru svo sannarlega konur sem hafa frumkvæðið hér í Flóanum og því erum við Flóamenn enda vanastir. Ég er eini karlkyns þátttakandinn sem hef komist hér á pall - var fenginn til að tala á fyrsta fundinum ásamt þeim Sigríði í Arnarholti og Elínu Björgu verkalýðsleiðtoga. En þetta eru vel skipulagðar aðgerðir og nú er virkilega ástæða til að hvetja alla til að mæta sem vettlingi geta valdið.
"Við höfum tapað tiltrú á ráðamönnum þjóðarinnar. Við erum reiðar yfir því að börn okkar og barnabörn muni þurfa að greiða hærri skatta vegna óráðsíu bankastjóra Landsbankans, Glitnis og Kaupþings sem þeim var leyft að stunda í skjóli stjórnvalda. En reiðastar erum við stjórnvöldum sem aðhöfðust ekki neitt og sitja svo enn í sömu embættum eins og ekkert hafi í skorist. Öllu þessu viljum við mótmæla," segir meðal annars í tilkynningu frá aðstandendum mótmælanna.
(Myndin er af einum ræðumanna, Ingibjörgu Elsu Björnsdóttur.)
Sparnaður og hagræðing stórfiskanna
16.1.2009 | 09:39
Þegar sparnaður verður að sóun!
Heimskan er tvímælalaust sterkasta aflið í mannheimum og heilbrigðiskerfið fer ekki varhluta af henni þessa dagana. Þannig reynir Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra að halda því fram að hann geti sparað með því hringla nú öllu til og sameina stofnanir. Það þó flytja þurfi fæðandi konur um fjöll og höf... Þetta rifjar upp fyrir mér það sem gerðist hér á Suðurlandi á fyrstu árum nýrrar aldar. Fylgdist giska vel með sem blaðamaður á svæðinu.
Þá var farið að tala um að spara með því að sameina heilsugæslurnar á Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Laugarási, Hellu, Hvolsvelli, Vík og Klaustri í eina stofnun. Af þessu yrði mikið hagræði, sögðu mennirnir.
2004 var loks ákveðið að drífa þetta af en rétt fyrir sameiningu þá um haustið var það samt látið berast til fjölmiðla að þetta væri ekki gert í sparnaðarskyni heldur til þess að bæta hina faglegu þjónustu með samlegðaráhrifum...
Vorið 2005 var haldið málþing um stofnun þessa og þá kom fram að kostnaður við rekstur væri reyndar miklu meiri heldur en samanlagður rekstrarkostnaður áður en það væri allt í lagi þar sem faglega væri hann svo miklu betri.
Meðal íbúa er reyndar mjög lítill skilningur á hinum faglegu ávinningum og sumir telja að þjónustan hafi versnað en það er vafalaust vegna þess að íbúarnir eru ekki nógu faglega upplýstir.
Nokkrum misserum síðar kom fram eftir úttekt að rekstur á hinu sameinaða sjúkrahúsi Reykvíkinga væri stórum meiri heldur en var á sjúkrahúsunum þremur sem þar voru áður, Landakoti, Landsspítala og Borgarspítala.
Og er þá nema von að fólk sem ekkert hefur nema brjóstvitið spyrji: Hvenær ætlar íslenska embættisgengið að átta sig á að á Íslandi er sjaldnast hægt að ná fram hagræðingu stærðarinnar. Það er einfaldlega ekki völ á slíkri hagræðingu í kvartmilljónmanna samfélagi. Aftur á móti er víða hægt að ná fram hagkvæmni smæðarinnar en það þykir frekar ófaglegt og hallærislegt. Ekki sæmandi okkur stórlöxunum.
O tempora - o mores...
(Einnig birt á Smugunni 13. jan.)
Í landi kjarkleysis og bölsýni...
14.1.2009 | 19:53
Frá falli bankanna hefur bölmóður verið aðal Íslendinga og allir keppst við að mála alla heildarmyndina í sem allra dekkstum litum. Þetta er vond iðja og heimskuleg. Af sömu ástæðum er móðursýki og nornaveiðar orðnar eitt aðaleinkenni umræðunnar. Sumt í hrakspám þessum er lítt rökstutt og annað byggt á þeirri vissu að allt muni fara á allra versta veg.
Ég gat þannig illa fundið rökin hjá Wade sem kom í Kastljósi í fyrradag og taldi að enn hlyti að koma ný dýfa á Íslandi fyrir vorið. Jú, vegna þess að ný dýfa væri væntanleg ytra sem hann vissi þó ekkert fyrir víst. Tilfellið er að hagfræðingar hafa átt erfitt með að lesa í framtíðina á sæmilega stöðugum tímum en nú er það ómögulegt. Vísindi þeirra eru einfaldlega ekki til þess bær. Þeir eru samt margir glöggskyggnir og vissulega margt til í greiningu Wades á ástandinu en það hættulega er að nú er aðeins markaður fyrir bölsýni og við heyrum aðeins það sem sagt er í þá áttina. Og margir skjóta yfir markið.
Einn þeirra var minn gamli kennari úr menntaskóla, Guðmundur Ólafsson hagfræðingur sem er samt með greindari og skemmtilegri mönnum. En hann tók fram í Kastljósviðtali í gærkvöldi að þó hann hefði nú ekki alveg skilið hvað Wade var að segja teldi hann ástandið talsvert verra! Og minntist í framhaldi á barnadauða í Suður Ameríku sem dæmi um afleiðingar af rangri hagstjórn.
Þetta var reglulega ljótt, kæri Guðmundur, að hræða fólk með tali um barnadauða. Álíka og þegar kollegi þinn Gylfi hjá ASÍ fór að líkja kreppunni nú við móðuharðindin. Það er illa gert að sá slíkum fræjum efa og ótta meðal fólks, langt umfram það sem efni standa til. Við erum ekkert nærri því að fá hér harðindi sem leiða af sér mannfelli og barnadauða.
Kannski datt þetta bara svona óvart út úr Guðmundi sem var fráleitt með sínu besta móti og kannski var þetta bara sambærilegt við það þegar konan á háskólabíósfundi var óvart farin að tala um hótanir ráðherra þegar hún ætlaði eiginlega að segja frá vináttu sinni við utanríkisráðherra. En víst er að orðin eru dýr þessa dagana og spennan mikil. Of mikil til að nokkur leyfi sér að ýkja ástandið.
Verst er vitaskuld að hafa ónýta ríkisstjórn sem hvorki þorir að taka á ástandinu né að tala kjark í þjóðina. Ef við sitjum öll með hausinn ofan í klofinu sannfærð um ótíðindi þá fer auðvitað allt á versta veg. Þessvegna er höfuðhlutverk stjórnvalda að tala kjark í þjóðina og kjarklausir ráðherrar sem eru hættir að þora að takast á við það hlutverk eiga tafarlaust að fara frá...