Til hamingju Ísland!

Orð Silvíar Nætur eiga alveg við í dag. Ekki getur það versnað frá Viðeyjarskottunni*)sem nú hrökklast frá. Sjálfstæðisflokkurinn er loks útrekinn úr Stjórnarráði þar sem enginn flokkur ætti að hafa leyfi til að sitja lengur en 8 ár samfellt. Já og svo eru hamingjudagar okkar því krónan er að styrkjast - góð úttekt á því á AMX eftir Ágúst Þórhallsson.

En nú reynir á að vinstri stjórnin þori að taka á fjármálafurstunum, útrásarvíkingum sem ætla að kaupa eigin dreggjar á slikk. Það var útilokað að samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks gerði það - svo víða lágu þræðir þeirra flokka. Og því miður er stór hætta á að Samfylkingin veigri sér við að hrófla við sínum gömlu styrktarmönnum en við hljótum þó að vona það besta. Og Jóhanna er óneitanlega betri kostur en Ingibjörg.

ESB barátta kratanna heldur greinilega áfram og verður fróðlegt að sjá hvernig VG snýr sér gagnvart kröfunni um auðlindaafsal Stjórnarskrárinnar. Það er í raun og veru fyrsta skrefið að fullveldisafsali og mikilvægt að hin þjóðlegu öfl landsins standi þar fast á grundvallarréttindum landsins.

(PS: Gamla samstjórn krata og íhalds sem Davíð og Jón Baldvin stofnuðu illu heilli til úti í Viðey fyrir tveimur áratugum var kölluð Viðeyjarstjórn. Stjórnin nú var vitaskuld afturgagna þeirrar stjórnar og þessvegna eðlilegt að hún heiti Viðeyjarskotta. Draugstelpa þessi er nú sér gengin upp að knjám og töturleg!)


Fjórhjólaferð sem var betri allri pólitík

Hef eins og flestir, næstum allir fengið nóg af miklu blaðri í kringum fátt í pólitíkinni. Ólafur Ragnar baðar sig í athyglinni og reynir að gera hluti sem enginn ætlar honum - Ingibjörg Sólrún er í spunaleikriti og gerir Jóhönnu Sigurðardóttur spontant að forsætisráðherra án þess að láta hana almennilega vita í stjórn sem er hætt og stjórnarandstaðan meira og minna á flæmingi undan því að þurfa að axla ábyrgð því það gæti skaðað fylgið í komandi kosningum.

Allir að hugsa um sinn flokk og sinn rass en enginn um þjóðarhag. Og forsætisráðherrann ber auðvitað enga ábyrgð - aldrei.PIC00073

En nóg af þessu og ég ætla að birta hér myndir úr frábærri ferð sem við feðginin fórum á laugardag inn frá Hundastapa um slóða inn að Hítardal og ég eiginlega enn með strengi enda ekki stórkostlegt íþróttafrík.

En Hítardalur og Hítarvatn voru frábær í vetrarbúningi og ennnú frábærari þessi fallegi burstabær á leiðinni. Komumst köld og hrakin og hamingjusöm til baka.  Skoðuðum auðvitað kirkjugarðinn sem er þá sami og tilheyrði Jóni Halldórssyni sagnaritara, Staðarhraunskirkju og nokkrar misfornar réttir. Vona að Hítardalsbóndi fyrirgefi okkur átroðninginn við kirkjugarð þar sem við fundum hvorki Jón þennan né frændur hans nána en nokkra Mýramenn síðari alda.

Lengi vel átti ég mitt eigið tryllitæki til ferðalaga sem þessara en notin eru örfáir dagar á ári og þessvegna þægilegra að leigja. Sæmundur Skagamaður frá Ánastöðum leigði okkur sitthvort kínahjólið, engin stórkostleg tryllitæki en dugðu samt enda ferðalagið og útivistin meira atriði en tækjadellan.

PIC00074   PIC00075


Tíminn er kominn!

Minn tími mun koma, er ein frægasta yfirlýsing stjórnmálamanns frá seinni árum en hana gaf Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún laut í gras fyrir Jóni Baldvini fyrir margt löngu. Og síðan hefur Jóhanna átt langt og merkilegt pólitískt líf. Og rís kannski hærra í dag en nokkru sinni.

Henni er í dag teflt fram sem þeim sterkasta á öllu þinginu og má svo sannarlega segja að hennar tími sé kominn. Vel má vera að Ingibjörgu Sólrúnu hafi tekist að snúa taflinu snilldarlega,- lítur þannig út í augnablikinu og spennandi að sjá hvernig útspilið virkar á Steingrím J.


Valdaskessan sýnir sig!

Guðni Ágústsson kallaði Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur valdaskessu fyrir hálfu öðru ári og fékk bágt fyrir kjaftháttinn. En algerlega er það réttnæmt í dag - og var það reyndar þá einnig þó stundum megi satt kjurt liggja.

Þegar landið logar stafnanna á milli af óáran, skuldabasli, mótmælum og úrræðaleysi er það eina sem stjórnarflokkarnir rífast um hvort Samfylkingin fái forsætisráðherrastól síðasta korterið fram að kosningum. Eins og það sé eitthvað sem skiptir máli!

Og hefndin skal líka fram koma þó seint sé með sparki í gamlan ref uppi í Seðlabanka!

Réttast væri þá að gera Björgvin G. að forsætisráðherra - af þingmönnum Samfylkingarinnar er hann áreiðanlega vinsælastur nú um stundir!


Kratar klókir í morgun og klaufskir í kvöld...

Ríkisstjórnarfarsinn heldur áfram. Ég er aftur á móti ekki of viss um að Ingibjörg Sólrún hafi spilað vel úr þeim kortum sem Björgvin G. gaf henni. Í morgun stóð flokkurinn keikur og spjótin beindust að Sjálfstæðisflokknum að hann yrði að gera eitthvað. Láta einhvern fara eða tapa atkvæðum ella.

Frá sjónarhóli þeirra sem hæst hrópa og reiðastir eru stjórnvöldum hefur Samfylkingin kannski gert rétt í að láta kné fylgja kviði og heimta afsögn Davíðs. Ég held aftur á móti ansi margir sjái í gegnum þennan leik og þá um leið að kratarnir ætla að gera allt til að komast út úr ríkisstjórninni og setja þessvegna kröfur á íhaldið sem það getur ekki svarað.

Þar með gerist það svo að íhaldið verður hinn ábyrgi sem reynir að halda einhverjum sjó og viðurkennir samt kosningar. Í morgun var svo augljóst að Geir var með svartapétur í höndunum en í kvöld er ég ekki eins viss. Veit ekki nema honum hafi tekist að lauma honum í pilsvasann hjá Imbu um leið og hún gekk út.

Verst er að á sama tíma og karpað er um algjör aukaatriði, eins og hvort Davíð situr mánuðinum lengur eða skemur þá brennur hér landið og heimilin engjast í skuldunum. Það var ekki að heyra að það skipti miklu máli í dag- það var enginn að tala um að færa niður skuldir almennings eða aftengja verðtrygginguna. Og ekki að auka fjármagn til samhjálpar eða lækka byrðar hinna lægstlaunuðu.

Nei, nei, - stjórnmálamennirnir eru að hugsa um hlutverkin!


Kjartan í áhættuhópi!

Nú er Kjartan Ólafsson í Hlöðutúni í áhættuhópi. Hann er eini þingmaðurinn úr Árnesþingi sem ekki hefur sagt af sér en við vorum fjórir í upphafi kjörtímabils. (Björgvin í Skarði er reyndar enn á þingi!)

En án gríns þá er útspil Samfylkingarinnar klókt og setur mikla þumalskrúfu á Davíð, Árna Matt og fjöldamarga aðra. En það er líka í þessu útspili mikil örvænting hjá krataflokki sem tapar og tapar í skoðanakönnunum og reynir nú að snúa þróuninni við...

En þetta er skuespil!


Einkennilegir dagar og ábyrgðarlausir stjórnmálamenn - og já mótmæli á morgun

Þetta eru einkennilegir dagar og afskaplega sláandi og alvarlegar fréttir sem bárust þjóðinni nú í hádeginu í dag. Á degi sem þessum finnum við öll hvað manneskjan er miklu verðmætari en dægurþrasið.

En - það er samt afar alvarlegt ef það tilfellið að ekki sé hægt að mynda þingmeirihluta fram að kosningum í vor - bara vegna þess að flestir eru að hugsa um að skaða ekki fylgi sitt með því að taka á stjórnarathöfnum.

Kannski er hugmyndin um þjóðstjórn það sem eðlilegast er eða þá að menn sammælist um að veita öðrum hvorum núverandi stjórnarflokka hlutleysi til stjórnunar fram að kosningum - sem á vitaskuld ekki að draga í neina í fjóra mánuði. Líklega er áframhald núverandi stjórnar versti kosturinn.

Og það er alveg sama hvaða stjórn verður þennan tíma - hún mun starfa sem máttlítil starfsstjórn frekar en raunveruleg ríkisstjórn. Þessvegna er mikilvægt að hafa kosningarnar sem fyrst, sem allra allra fyrst.

----

Allavega - ég reikna með að það verði törn framundan, hvernig sem fer og þessvegna ákváðum við að efna við sjálf okkur loforð, ég og dóttir mín Eva og förum saman í fjórhjólaferð á morgun. Það er ekki víst að það verði tími fyrir slíkt næstu vikurnar...

Ps.: Og meðan ég man það verður mótmælastaða framan við ráðhúsið á Selfossi á morgun klukkan eitt en í ljósi aðstæðna öll með mjög stillilegum blæ. Engir ræðumenn auglýstir en væntanlega kveikt á kertum og spjallað. Sjálfur verð ég í þetta sinn fjarri en vil samt hvetja fólk til að mæta.


Nýtt lýðveldi - burt með flokksveldið!

Heimasíðan Nýtt lýðveldi, http://nyttlydveldi.is/ opnaði í dag og safnar nú undirskriftum þeirra sem vilja tafarlaust senda þingið heim og koma á embættismannastjórn í nokkur misseri sem bæði tekur til og breytir landinu úr flokksveldi í lýðveldi. Sem yrði þá annað Íslenska lýðveldið, kannski þriðja því þjóðveldið var í raun og veru einhverskonar lýðveldi en hvað um það...

Hugmyndasmiðurinn hér bakvið er Njörður P. Njarðvík og ég hef áður lýst yfir hrifningu minni yfir hans hugmyndum. Verð þó að taka fram að ég hefi ekki skrifað undir. Ég set einfaldlega fyrirvara við það að koma hér á bráðabirgðastjórn sem ekki er skipuð mönnum sem bera ábyrgð gagnvart kjósendum. Ekki að þetta sé neitt útilokuð hugmynd en ég held að þetta sé ekki sú besta.

Við sjáum nú gríðarlega marga sem eru með svipaðar hugmyndir. Þar má nefna mjög merkilega hreyfingu undir forystu Egils í Brimborg sem hefur með fleirum stofnað heimasíðuna um lýðveldisbyltingu, http://lydveldisbyltingin.is, sjálfur hefi ég talað fyrir tillögum í sömu veru, m.a. hér á blogginu, það hefur Skúli Helgason hjá Samfylkingunni gert líka, VG menn og mín orðhvata vinkona og arftaki Helga Sigrún Harðardóttir er einnig í þessum sömu pælingum ásamt fjölda samflokksmanna. Þessar tillögur ganga ekki endilega í takt en heldur ekki hver gegn annarri og með smá málamiðlunum er hægt að samhæfa þær.

Allir þessir og held eiginlega allir í landinu nema þá Sjálfstæðismenn sjá nú hið augljósa að Alþingi hefur verið máttlaus stofnun vegna þess að flokkarnir og framkvæmdavaldið hafa ráðskast með þá stofnun. Það er ekki bara að ógöngur okkar inn í bankahrunið sé að nokkru leyti hægt að skrifa á máttleysi Alþingis. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í dag er líka afleiðing af flokksræðinu.

Hvar sem einhverjir þrír Íslendingar eiga hagsmuna að gæta nýtur að minnsta kosti einhver einn þeirra verndar annaðhvort Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingar. Ráðherrarnir og þingmenn þessara flokka eru ekki í vinnu hjá kjósendum sínum, þeir eru í vinnu hjá flokkunum sem er alls ekki það sama. Það fær enginn að vera þingmaður ef hann lendir í ónáð hjá sínum flokki. Flokkarnir hafa svo það hlutverk að halda utan um hagsmuni sinna manna, síns fólks eins og ættbálkur í Afríku eða Sturlungu.

Þessvegna þarf að brjóta niður ægivald flokkanna yfir lýðræðislega kjörnum fulltrúum, fyrr nær Alþingi ekki vopnum sínum gagnvart framkvæmdavaldinu.


Kosningar strax!

Ef Geir Haarde væri skynsamur stjórnmálamaður þá stæði hann upp í þinginu nú við upphaf fundar, ryfi þing og boðaði til kosninga.

Allt tal um að ekki sé hægt að kjósa vegna þess að ríkisstjórnin eigi svo annríkt við björgunarstörf er endileysa. Ríkisstjórnin hefur ekki komið með neinar úrlausnir og mun ekki gera það úr þessu. Þjóðin er betur sett með tímabundna starfsstjórn og einhverja von um starfhæfa ríkisstjórn í framhaldinu. Þetta veit Geir en hann veit líka að pólitískt líf hans hangir á bláþræði og kannski yrði þetta hans síðasta embættisverk. Og það er liðin tíð að fráfarandi forsætisráðherra bíði þægilegur stóll uppi í Seðlabanka.

Nú reynir á kjarkinn, Geir.

Sjálfur verð ég í minni vinnu á skrifstofu Heimssýnar í dag í Hafnarstræti 18 en þar ætlum við að opna með pomp og prakt (ég kaupi kremkex!) klukkan 17 í dag. Auðvitað lendum við í skugga stærri viðburða en höldum samt okkar striki.


Er Reynir Trausta í ríkisstjórninni

Sá framan á DV í dag þar sem því er nú slegið upp að stjórnin sé að falla.

Sama dag koma Samfylkingarmennirnir, varaformaðurinn þar á meðal og fella stjórnina. Eða svo gott sem!

Veröldin er ótrúlega rafmögnuð þessa dagana og með hverjum nýjum kúnna hingað í búðina er borið í mig eitthvað nýtt og svo kíkjum við saman hér ofan í tölvuskáinn.

Ég verð reyndar alltaf svoldið dapur þegar ég sé borgaraleg mótmæli leysast upp í einhverskonar ofbeldi. Ég er sjálfur hrifinn af að fólk mótmæli en þeir sem vilja beinlínis hvetja til borgaralegrar óhlýðni eru að leika sér að eldi sem við vitum ekkert hvar endar...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband