Áhættulausar aðildarviðræður!?

Í þúsund ár sátu margvísar langömmur við hlóðaeldinn og sögðu okkur sögur af vitgrönnum skessum sem í lífsleiða sínum og heimsku köstuðu milli sín fjöreggi. Mátti þá ekkert útaf bera að þær ekki misstu eggið ofan í hellisgólf og fordjörfuðu þar með lífi sínu. Líkt er þeim farið ráðamönnum þeim sem ósköpin öll langar til að setjast við tröllaborðið í Brussel og kasta þar í milli sín og hinna stóru sjálfstæði þjóðarinnar, sumir í veikri von um að koma samt með það fjöregg óskaddað heim aftur.

Sjálfstæðisþingmennirnir Árni Johnsen, Einar K. Guðfinnsson og Illugi Gunnarsson hafa nýlega bæst í þann tröllahóp sem ólmur vill komast í skessuleik þennan þar sem fyrir voru þær Ingibjörg Sólrún, Þorgerður Katrín og Valgerður Sverrisdóttir. En skyldi fjöregginu sjálfu, fullveldi og frelsi þjóðarinnar einhver hætta búin af leik þessum?

Icesave deilan lærdómsrík

Nýleg uppákoma Íslendinga vegna svokallaðra Icesave reikninga í London kallar á nokkurt endurmat í samskiptum okkar við stórþjóðir. Þar er ljóst að herraþjóðirnar skirrast ekki við að leika þá leiki við hinn litla og veika sem aldrei er boðinn þeim stóra og sterka. Enginn ráðamanna í Englandi hefur farið fram á ríkisábyrgð Bandaríkjamanna af tapi enskra fjármagnseigenda vegna Lehmans bræðra eða stórsvindlarans Madoffs en í samanburði við þessa tvo verða þeir Björgúlfsfeðgar þó sem börn ein. Af hverju erum við ábyrg fyrir Icesave en Bandarísk yfirvöld ekki vegna Madoffs. Ástæðan er einföld,- í leik þjóðanna gilda enn sömu reglur og gilt hafa í árþúsund að hinir stóru kúga þá litlu en fara af varkárni gagnvart leikbræðrum sem þeir ekki hafa í fullu tré við.

Það eru því gæfusnauðir stjórnmálamenn sem nú beint ofan í Icesave deiluna leggja til að Íslendingar gangi að samningaborði ESB og kanni í aðildarviðræðum hvað fást kunni. Rómarsáttmálinn liggur fyrir og er ekkert leyniplagg og sama má segja um yfirlýsingar stækkunarstjóra ESB um að auðvitað fái Íslendingar enga sérmeðferð þegar kemur að fiskimiðum þjóðarinnar. Sem og hitt að til aðildarviðræðna fer enginn með hálfum hug og meira að segja harðir ESB sinnar meðal vinaþjóða okkar í Skandinavíu hafa varað Íslendinga við að setjast að samningaborðinu í svo þröngri og veikri stöðu sem þjóðin er nú.

Hlekkjaðir við samningaborðið

Þetta segja þeir vitandi um það sem ekki liggur fullkomnlega fyrir, en má geta sér til af viðbrögðunum í Icesave deilunni. Vinir okkar í Skandinavíu vita fullvel hversu trauðla auðlinda-hungraðar stórþjóðir ESB muni sleppa svo vænum bita sem Íslandi af borði sínu þegar það væri einu sinni komið þangað.

Það eru víðar dyr inngöngu í konungsríkinu en þröngar útgöngu. Þegar samningaviðræður væru á annað borð hafnar og að þeim tímapunkti kæmi að Íslendingar vildu standa þar upp og þakka fyrir sig er eins víst að skilyrðin verði þau að aðildarsamningurinn verði lagður fyrir þjóðina til samþykktar. Ekki samþykktar eða synjunar eins og gerist í leik hinna litlu heldur til endanlegrar samþykktar í fyrstu, öðrum eða þriðju kosningum eins og gerist hjá hinum stóru og við íslenskir sveitamenn þekkjum vel þegar ráðuneytismönnum dettur í hug að afleggja hjá okkur aldagamla hreppa. Virðingin fyrir kosninganiðurstöðum okkar yrði síst meiri en gagnvart lýðræðislegri niðurstöðu Íra við Lissabon sáttmála.

ESB hefur hér ótal leiðir til að beita okkur þrýstingi. Ein er kúgun vegna skulda, önnur er að hóta okkur vegna EES samningsins og sú þriðja gæti einfaldlega legið í meinleysislegum tæknilegum hindrunum í markaðsaðgangi. Með EES samningi komust þjóðir þessa hálfa leið þar sem við glöptumst í framhaldi af honum til að setja eggin mörg mjög í sömu körfu. Ef okkur dettur í hug að fela fyrrnefndum þingmönnum Brusselferð með þau öll í körfu og þar á meðal gulleggið sem geymir sjálfstæði þjóðarinnar þá er gæfuleysi þessarar þjóðar meira en tárum taki.

(Birt á AMX 13. janúar 2009)


Tengslaflækja ofur-lögfræðinganna

Inn um lúgu - já á pappír - barst nú til mín nafnlaust bréf um tengsl helstu og stærstu lögmannsstofa við bæði ríkisvaldið, útrásarvíkingana, Alþingi og flokkakerfið. Ókræsileg lesning og full sönnun fyrir nauðsyn þess að menn geti tjáð sig nafnlaust. Ég vona samt að höfundur birti þetta sem fyrst á netinu.

Ég hef ekki aðstæður til að sannreyna öll smáatriði sem hér koma fram og mun því ekki rekja neitt af efni bréfsins en sýnist að mikið geti verið til í að sömu menn og vörðu útrásarvíkana séu nátengdir þeim sem nú eiga að rannsaka bankahrunið og jafnvel koma að skiptingu á góssinu upp á nýtt. Því er jafnvel haldið fram að fyrrum lögmenn útrásarvíkinga hafi hér fengið hlutverk skiptastjóra í fyrirtækjum sem síðan eru rétt sömu víkingum. Hvenær á þessu að linna?

Sjálfur hefi ég að undanförnu undrað mig á hversu fastheldnir ráðamenn eru á að ráða áfram vini sína til verka á þessum viðkvæmu tímum og þetta bréf staðfestir þá sýn. Hvernig væri að ráða til verka lögmenn sem hvergi  hafa komið nærri,- það þýðir ekkert að segja að við séum svo fá að það sé ekki hægt. Lögmenn á Íslandi skipta þúsundum og sumir þeirra hafa aldrei gert annað en að vinna hjá hinu opinbera eða reka litlar stofur úti á landi.


Endurreisn lýðveldisins

Má til með að benda öllum á að hlusta á viðtal Egils Helgasonar við Njörð P. Njarðvík í Silfrinu. Þar leggur Njörður til að Íslendingar stofni nýtt lýðveldi með nýju kosningakerfi þar sem flokksveldið í landinu verði brotið á bak aftur.

Það má velta fyrir sér útfærslunni. Njörður er með eina, Ragnar nágranni minn Böðvarsson aðra, Egill Jóhannsson enn aðra og jafnvel Ómar Ragnarsson á eina sýn á þessa hluti en allir eiga þeir sammerkt með stórum hluta þjóðarinnar að sjá að endurreisa verða Alþingi, vald þess og stöðu gagnvart framkvæmdavaldinu...

Persónulegasta finnt mér Ragnar Böðvarsson benda hér á einföldustu og skilvirkustu leiðina en tel að samhliða mætti skoða alhliða endurskoðun stjórnarskrárinnar og þar með endurreisn lýðveldisins...


Ráðstefna um sjávarútveg og ESB

Reglan um svokallað „relative stability" í úthlutun fiskveiðiheimilda ESB er gjarnan nefnd sem rökstuðningur þess að Íslendingar þurfi í reynd ekki að hafa áhyggjur af stöðu sinni þrátt fyrir innlimun. En á hverju byggir þessi regla um veiðireynslu heimamanna og hversu örugg er hún í regluverki ESB.

Er möguleiki að Ísland fengi undanþágu frá þeirri meginreglu ESB að öll yfirráð fiskimiðanna á Íslandi flytjist til Brussel?

Um þessa hluti og fleira í fiskveiðistefnu ESB fjallar norski þjóðréttarfræðingurinn Peter Örebech á ráðstefnu sem Heimssýn boðar til í Þjóðminjasafninu á morgun, sunnudaginn 11. janúar klukkan 15. Auk Peters eru þar ræðumenn frá hagsmunasamtökum sjávarútvegsins á Íslandi en sjávarútvegsráðherra, Einar K. Guðfinnsson setur ráðstefnuna.


Þjóðarmorð á ábyrgð Vesturlanda

Palestina_minnkun
 

Félagið Ísland Palestína boðar til fundar í Iðnó klukkan 16 í dag og full ástæða til að hvetja alla sem heimangengt eiga að mæta. Meðal ræðumanna er aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins. Sjálfur er ég ekki í þeim hópi að komast - er bundinn við bókabúðina hér á Selfossi en ákvað að leggja málinu lið með smá bloggi. Komst reyndar á Palestínufund í Reykjavík á  næstsíðasta degi ársins og birti hér eina mynd sem Egill Bjarnason tók á þeim fundi og aðra sem sýnir þróunina á svæðinu frá stofnun Ísraelsríki 1947. Fyrsta kortið sýnir skiptingu Sameinuðu þjóðanna árið 1947, næsta eins og ástandið eins og það var t.d. 1982 og þær seinni tvær þróun síðustu ára með auknum landnemabyggðum ísraela og múrbyggingu umhverfis gettó Palestínumanna.

Sjálfur kynntist ég þessu svæði vel fyrir rúmum aldarfjórðungi síðan þegar ég bjó í Palestínu og Ísrael í hálft ár. Þá var að vonum talað um aðstæður Palestínumanna sem óásættanlegar og hörmulegar sem þær vissulega voru og heimsbyggðin öll sammála um að eitthvað þyrfti að gera til þess að þjóð þessi ætti möguleika á mannsæmandi lífi. Síðan þá hafa aðstæður bara versnað og versnað mjög mjög mikið. Kortið hér að ofan sýnir það og fréttir dagsins í dag fjöldamorðum ísraelska hersins á íbúum Gaza eru staðfesting á því sama. frid_i_palestinu

Allt er þetta þyngra en tárum taki því við erum að tala um raunveruleg mannslíf, kynslóðir sem koma og fara án þess að sjá nokkurn tíma út úr augum með niðurlægingu, eymd og kúgun. Og allt gerist þetta með velþóknun Vesturlanda, einkanlega Bandaríkjanna. Við Íslendingar höfum lengst af fylgt þeirra stefnu dyggilega og verið með dyggustu bandamönnum Ísraelsmanna. Þessvegna höfum við líka ríkar skyldur og ábyrgð gagnvart ástandinu og þá ábyrgð öxlum við ekki nú nema ganga fram og slíta tafarlaust stjórnmálasambandi við land sem ástundar nú fjöldamorð á almennum borgurum á Gazaströnd.

Palestínufarinn sonur minn birti annars sl. mánudag ágætis dæmisögu um ástandið í Morgunblaðinu sem lesa má hér, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/767490/


Þögull mótmælafundur á Selfossi í hádeginu á morgun

Í hádeginu á morgun, föstudag verður þögull mótmælafundur á Selfossi þar sem gengið verður milli banka bæjarins. Safnast saman við Landsbankann og gengið þaðan að Kaupþingi og Glitni. Engar ræður verða fluttar að þessu sinni en fólk er hvatt til að taka með sér kröfuspjöld. 52motmaeli_selfossi002

Það er eins og við fyrri mótmæli hér á Selfossi hópur fólks, m.a.  af Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem stendur að mótmælunum og það er full ástæða til að hvetja alla til að mæta. Með samstöðu sýnum við mátt okkar og að ekki verður liðið að skuldakröfum auðmannaævintýris sé fleygt á herðar almennings.

Mótmælin hefjast klukkan 12:30 og sem fyrr segir framan við Landsbankann á Austurvegi á Selfossi.

Myndin er frá síðustu mótmælum sem efnt var til í desembermánuði
en þá mættu vel á annað hundrað manns.


Farinn úr Framsóknarflokki

Í morgun sagði ég mig úr Framsóknarflokknum. Ákvörðun um það tók ég endanlega þegar Guðni Ágústsson sagði af sér sem formaður en ákvað að leyfa hátíðunum að líða án nokkurra aðgerða. Ég var aftur á móti ákveðinn í að koma úrsögninni frá mér fyrir flokksþing enda þykir mér ekki heiðarlegt að taka þátt í formannsslag og stefnumótun í flokki sem ég ætla mér alls ekki að starfa fyrir.

En ég er ekki hættur í pólitík. Ég hef eins og lesendur þessarar síðu þekkja skrifað nokkuð um nauðsyn þess að brjóta upp það staðanaða ægivald sem flokkakerfið hefur yfir stjórnmálum landsins. Við sjáum hvað setur!

Er eiginlega búinn að segja svo mikið í samtali við hin ýmsu blöð að ég ætla í bili að láta duga að vitna í það. Hér og hér.

Baráttan er rétt að byrja!


Hvern er verið að plata...

Finnar fengu besta mögulega landbúnaðarsamning við inngöngu í ESB mest vegna þess að þeir eiga lönd norðan við hinn byggilega heim. Líkt og við Íslendingar. Og hvað skyldi þá vera svo gott í þessum samningum, styrkir frá Brussel, markaðsaðgangur umfram það sem áður var....

Nei, - fyrst og fremst fá finnsk stjórnvöld leyfi til að styrkja bændur í norðurhéruðum Finnlands meira heldur en aðra bændur landsins, ráðstöfun sem útaf fyrir sig orkar tvímælis og verður nú til þess að mjólkurframleiðsla landsins flyst yfir í norðurhéruðin! Þetta kemur fram í ESB úttekt Moggans í dag.

Vita ESB sinnar að Ísland hefur í dag leyfi til að styrkja bændur á Ströndunum tíu sinnum meira en bændur í Mýrdalnum og ég hef samt aldrei heyrt að það séu sérstök hlunnindi að mega slíkt. Og ekki einu sinni Strandamaðurinn Jón Bjarnason leggur það til!

Í sama blaði kom fram að 80% af byggðastyrkjum ESB renna til landa þar sem meðaltekjur eru undir 75% af meðaltali ESB. Þrátt fyrir kreppuna nú og hennar svartsýnustu spár á Ísland langt langt í land með að tilheyra þessum hópi fátæklinga. Og við getum ekki fengið eystyrki eins og Kanarí enda alltof þróaðir!

En það getur vel verið að ef evrópukratar allra flokka ráða Ísland samfellt í mörg kjörtímabil komust við þannig á hnén að bændur hér í Flóanum fari að ferðast um á puttanum eins og var vel þekkt í gamla Íslandi þegar við vorum meðal fátækari landa vesturheims. Og þá fáum við Brusselstyrki, ligga ligga lá...

En þrátt fyrir talsverða Stephensenslagsíðu á köflum vil ég þakka Morgunblaðinu fyrir vandaða ESB umfjöllun. Ég er nefnilega einn fjölmargra ESB andstæðinga sem vil sem mesta umfjöllun um málið... lítið ólæsi í landinu og miklar upplýsingar um ESB draga úr líkum á innlimun Íslands!


Bónusfánann á Alþingishúsið aftur

Ég held að það hafi verið mistök að taka Bónusfánann af Alþingishúsinu þar sem Haukur Evuson kom honum svo smekklega fyrir einhvern af mínum síðustu þarvistardögum. Núna þegar útrásarvíkingarnir okkar eiga landið algerlega skuldlaust - því þeir hafa falið okkur að borga skuldir sínar!

Eitt grófasta dæmið er bruna-yfirtaka Icelandic express (Pálmi víkingur í Fons) á Ferðaskrifstofu Íslands og daginn eftir kemur Bjarni Ármannsson heim og kaupir sér aflátsbréf fyrir innan við helming af því sem honum var greitt fyrir að fara. Hvað með allar þær skrilljónir sem hann fékk greiddar fyrir að keyra útrásina á sínum tíma enda var Bjarni mikill frumkvöðull í ofurlaunatöku. Ekki svo að skilja að það sé ekki fallega gert af Bjarna að borga Glitni til baka en betur kynni ég við að menn skiluðu öllu en ekki bara litlu.

Og nöturlegt að sjá hann halda því fram að meginástæðan fyrir því hve illa fór hafi verið gjaldmiðillinn og að Rei málið hafi verið mistök. Það fór illa útaf glannaskap og nú hrynja bankar í evrulöndum, það veit nafni minn vel. Hann veit líka að Rei málið var plott, siðlaust plott, sem mistókst - en að bera það á borð að menn hafi bara ætlað sér óvart að stela sameiginlegum eigum Reykvíkinga er utan við allt velsæmi...


Alvarleg misnotkun á lýðræði

Það er rökrétt að draga þá ályktun af ýmsum ummælum Ingibjargar Sólrúnar að formaður Samfylkingarinnar vilji ekki að Sjálfstæðisflokkurinn nái samstöðu á landsfundinum um það hvernig staðið skuli að viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Það er merkilegt fyrir þær sakir að það er eina hugsanlega leiðin til þess að málið komist á dagskrá við núverandi aðstæður...

Þannig skrifar alþingismaðurinn Ármann Kr. Ólafsson sem situr á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kraganum. Hér er talað tæpitungulaust um það að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi það hlutverk að koma aðildarviðræðum við ESB á koppinn. Hvernig má það vera þar sem nær allir hinna 25 þingmanna voru kjörnir á Alþingi út á þá stefnu að vilja ekki í ESB og ekki í aðildarviðræður. 

Telja þingmennirnir að þeir geti breytt umboði sínu með einfaldri fundarsamþykkt á landsfundi. Það er þá alvarleg misnotkun á lýðræðinu og sannast hér það sem fleiri hafa orðið til að benda á að á Íslandi er flokksveldi ekki lýðveldi.

Skrifaði aðeins um þetta flokksveldi í Morgunblaðinu í gær og þá grein má skoða nánar hér, http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/762204/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband