Ný og betri fornbókabúð
3.1.2009 | 19:26
Nú um áramótin voru vistaskipti í fornbókabúðinni okkar og allar óseldu bækurnar frá síðasta ári fóru í orlof í kjallara bóksalans en nýjar komu í staðin. Búðin öll endurskipulögð og mikið af forvitnilegu efni.
Þetta er búið að vera reglulega skemmtilegt - þó auðvitað taki í að bera mikið af bókakössum. Þá kemur sér vel að eiga unga og fríska syni!
Nánar um brot af því sem nú hér er að finna á vef bókakaffisins...
http://bokakaffid.blog.is/blog/bokakaffid/
Hugvekja um fyrirgefningu á krepputímum
2.1.2009 | 00:07
- Kristin lífsskoðun trúleysingja
Þrátt fyrir þrálátan heiðindóm hefi ég að þessu sinni lagt eyru eftir orðum presta í kringum þessi jól. Var enda mjög ánægður með viðtal RÚV við séra Þorbjörn Hlyn Árnason prófast á Borg sem talaði um réttláta reiði almennings í Speglinum nokkrum dögum fyrir jól. Sóknarprestur okkar Tungnamanna, séra Egill Hallgrímsson bætti um betur í stórgóðri stólræðu á jóladag þar sem hann vék meðal annars að því að guð stæði við hlið þeirra sem mótmæltu óréttlætinu. Frelsarinn sjálfur var enda slíkur mótmælandi fyrir tvöþúsund árum síðan.
Mig langar samt að bæta hér við úr vopnabúri hinnar kristnu siðfræði. Grundvöllur hennar sem stendur okkur næst á jólum er einmitt kærleiksboðskapur og fyrirgefningin. Elska skaltu óvini þína og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Kannski er þessi boðskapur það sem sker kristnidóminn frá öðrum trúarbrögðum með afdráttarlausari hætti en nokkuð annað og lyftir siðferðisboðskap kristninnar á stall ofar þeim siðaboðskap sem gerir hefndina að aðal atriði.
Nú kann einhverjum að þykja undarlegt að nefna elsku að óvinum og fyrirgefninguna í dag þegar samfélagið allt logar af réttlátri reiði gagnvart stjórnvöldum og útrásarvíkingum. Ég hef enda gengið með þessa hugmyndir sem ég hér festi á blað í maganum í nokkra daga í ótta við að kannski sé ég að verða kaþólskari í minni kristnu lífsskoðun en þeir báðir klerkarnir sem ég nefni hér að ofan. Og er ég þó opinber trúleysingi og utankirkjumaður.
Að geta fyrirgefið
Fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.
Þessi lína úr faðirvorinu gerir ráð fyrir að rétt eins og við getum sjálf vænst fyrirgefningar, þegar við biðjum um hana, vegna eigin yfirsjóna þá eigum við að fyrirgefa þeim sem gera á okkar hlut,- þegar þeir beygja sig og biðja um það sama.
En hvaða merki hefur íslensk þjóð um það að þeir sem freklegast hafa brotið á rétti okkar ætli sér nokkuð að biðjast fyrirgefningar. Fyrir utan ofurlitla auðmýkt hjá Björgólfi Guðmundssyni í einu Kastljósviðtali þá hafa hinir íslensku útrásarvíkingar í engu gefið í skyn minnstu eftirsjá. Og þeir hafa með stofnun fyrirtækja eins og Rauðsólar og pappírsviðskiptum með bréf Existu sent okkur skýr skilaboð um að þeir ætli sér að halda leiknum áfram. Fara annan hring.
Á meðan situr máttlítil ríkisstjórn og talar í tæpitungu um að engin ástæða sé til þess að leita sökudólga. Við fáum að vita að enginn ráðherranna hefur í hyggju að segja af sér, engin breyting sé fyrirhuguð í stjórnarráðinu nema stólaskipti til hagræðingar fyrir þá sem þar vinna. Það ætlar semsagt enginn að beygja höfuð sitt fyrir íslenskri þjóð og biðjast fyrirgefningar. Meðan svo er getur ekki orðið af neinu slíku og reiðin er áfram ráðandi.
En reiðin er svo sannarlega ekki uppbyggjandi eða heilbrigð kennd. Hún skilar samfélagi okkar ekki áfram og meðan hún ræður för nær íslensk þjóð ekki vopnum sínum. Og þau okkar sem mest hafa gert á hlut hagkerfisins ná engri sátt við íslenska þjóð nema til komi uppgjör milli þessara aðila. Það kann því að vera bjarnargreiði stjórnvalda við fulltrúa hinna gömlu útrásarvíkinga að leyfa þeim áfram að valsa með eigur okkar og skuldir.
Sjálfur sat ég nokkra fundi í Framsóknarflokki þar sem þáverandi formaður, Guðni Ágústsson, vék að því að ef til vill þyrfti flokkurinn að gera upp við kjósendur hvern þátt hann ætti í því sem miður fór. Svör núverandi formanns og þáverandi varaformanns, Valgerðar Sverrisdóttur, við þessum aðfinnslum voru öll á þá leið að þetta væri óþarfa hjal. Nú hefur Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður staðfest að hann taldi það mikilvægt verkefni að hann og hans stuðningsmenn innan flokksins stöðvuðu að þessi orðræða Guðna færi í hámæli. Eftir þau ummæli tel ég mér skylt að vekja athygli á henni. Hér bregðast þau Valgerður og Jón samt síst verr við en leiðtogar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem í engu ætla sér að axla ábyrgð á þeim óförum sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir. Um VG og Frjálslynda er minna að tala enda aðkoma þeirra að völdum minni.
Samtrygging flokka og fjármálafursta
Í raun og veru má í þessu sambandi tala um ákveðna samtryggingu stjórnmálaflokka og útrásarvíkinga. Meðan allir þræta sem sprúttsalar og viðurkenna ekki þumlung af eigin ábyrgð mun þar við sitja. Ef annarhvor aðilinn opnar á að leita sátta við þjóð sína verður erfiðara fyrir hinn að hreykja sér í hroka sínum. Útrásarvíkingarnir geta gert það með því að ganga frá matadorborðinu. Stjórnvöld með því að efna til kosninga.
Árið 2009 verður ár uppgjörs. Ekki einasta milli ESB andstæðinga og ESB sinna eða milli braskara um uppskiptingu þrotabúa. Það verður ekki síður uppgjör við það stjórnkerfi sem við búum við þar sem samtrygging flokkakerfisins og samtrygging viðskiptablokkanna verður hvorutveggja brotið á bak aftur af þeim breiða hópi almennings sem nú stendur frammi fyrir lífskjararýrnun, gjaldþrotum og eignamissi.
(Skrifað millum hátíða og birt á Smugunni á gamlársdag.)
Ólafur Ragnar með vopnum sínum
1.1.2009 | 15:59
Ólafur Ragnar Grímsson flutti gott nýársávarp til þjóðar sinnar og meira en bitamunur á ávarpi hans í dag og ávarpi forsætisráðherra í gærkvöldi. Ólafur talaði hér kjark í þjóðina en sérstaklega fannst mér mikilsverð sú hugmynd hans að við þyrftum nú á að halda nýjum sáttmála um grundvallarskipan mála. Ég held að þetta geti verið rétt og að í slíka skipan þurfi þá jafnvel að fastsetja hluti eins og gegnsæi stjórnsýslu, valdtakmörk stjórnmálaflokka, launamun, sameign þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar og raunverulega aðkomu almennings að stærri ákvörðunum löggjafarvalds og framkvæmdavalds.
Ólafur hefur mjög legið undir ámæli í haust fyrir þrennt; stuðning sinn og jafnvel dekur við útrásarvíkingana meðan allt lék í lyndi, misráðna valdatöku þegar hann stöðvaði hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp og í þriðja lagi fyrir að birta nú ævisögu þar sem reynt er að gera upp pólitískan ágreining. Fyrir allt þetta hafa margir eins og mín uppáhaldsblaðakona Agnes Bragadóttir farið mikinn og raunar eru margir í mínum vinahópi sem sjá Ólaf með einhverjum þeim gleraugum sem ég hef aldrei skilið. Ekki frekar en Davíðs-hatrið sem hrjáir marga þeirra sem ekki þjást af óþoli gagnvart Ólafi. Ég tilheyri þeim sjaldgæfa miðjuhópi sem sé margt gott við báða þessa menn en sé líka á margra þeirra verkum missmíði.
Í ávarpi sínu í dag baðst Ólafur afsökunar á að hafa um margt gengið of langt í lofi sínu um fjármálaútrásina en benti um leið á það sem rétt er að margt í okkar útrás hefur tekist vel. Ég hef raunar ekki sannfæringu fyrir því að Ólafur hafi gert eitthvað rangt með því að greiða götu íslenskra fyrirtækja í útlöndum. Hann tók ekki þar með að sér að skrifa upp á að sömu menn hefðu alltaf rétt við í viðskiptum. Hann eins og við flest gekk út frá því að svo væri en það var einfaldlega hlutverk annarra að sinna því verki að setja held lög og hafa með þeim eftirlit. Stærstu mistök okkar voru að hafa falið ESB það hlutverk að setja lög og reglur um fjármálaheiminn. Reglur sem reyndust lekar og stórhættulegar fyrir okkar litla en góða hagkerfi.
Þá hefi ég afgreitt að nokkru þá einu yfirsjón sem Ólafur talaði um í nýársávarpi sínu. Um hitt talaði hann ekki en ég vona að hann muni á komandi ári taka til umfjöllunar og vonandi endurskoðunar afstöðu sína til fjölmiðlafrumvarpsins sáluga. Um ævisöguna er minna að segja og má raunar telja að fullrefst sé þeim báðum, honum og Guðjóni Friðriksson með þeim dræmu viðtökum sem bókin hlaut
Landráð af gáleysi og varasamir atvinnupólitíkusar
31.12.2008 | 00:42
Mér er auðvitað oft orðs vant. Oftast yfir einhverju sem er svo yfirgengilega vitlaust að ég verð klumsa. En einstöku sinnum vegna vits. Og þannig er mér farið þegar ég hlusta hér á tölvuskömminni á viðtal Evu Maríu við Pál Skúlason háskólarektor fyrrverandi. Hér er á ferðinni betri og merkari úttekt á vandamálum okkar samfélags.
Eitt af mörgu merkilegu er það sem Páll segir um atvinnupólitíkusa, annað um einokunina, enn annað um flokkakerfið en ég orða þetta aldrei eins vel og Páll. Svakalegast þó þegar Páll talar um landráð af gáleysi!
Semsagt - allir ættu að hlusta, linkurinn er hér: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4454024/2008/12/28/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Engeyjarætt sem starir í stjörnunar!
29.12.2008 | 08:01
Glæstra tíma minnast má
mjög er horfið sparifé.
Staurblönk þjóðin starir á
stjörnurnar í ESB.
Vísan svarna sem er giska góð barst mér ofan úr Hrepp og verður þá einhverjum sveitungum mínum að orði eins og faríseum forðum, hvenær kom eitthvað gott ofan úr Galíleu. Held að höfundur sé Helgi Jóhannesson garðyrkjufræðingur frá Hvammi.
En úr ólíklegustu átt kemur nú það ráðleysi að telja stjörnur þessar allra meina bót og þula sú höfð yfir eins og mantra. Ein slík grein barst úr penna Benedikts í Talnakönnun sem skipað hefur sess í harðasta vígi Sjálfstæðismanna. Var lengi meðal nánustu samstarfsmanna Davíðs og er af Engeyjarætt.
Greinin sem skrifuð er í háði um krónuna dæmir sig sjálf. Allir sem vilja sjá að skuldavandi verður ekki leystur með því að breyta um heiti á gjaldmiðli og lengsta og torfærasta leiðin að gjaldmiðlaskiptum er í gegnum ESB.
Kostulegast er þó að sjá Benedikt afgreiða íslenska hagstjórn síðustu 90 ára sem ein samfelld mistök! Hér er nú öllu mjög turnað. Staðreyndin er að þegar krónan var tekin hér í notkun fyrir um öld síðan vorum við Íslendingar fátækastir allra Evrópuþjóða en erum nú með þeim ríkustu. Afdrifarík hagstjórnarmistök síðustu 20 ára skrifast í smæstu á krónuna en að stórum hluta á EES samninginn og verður ekki bætt fyrir með því að ganga þeirri endaleysu enn frekar á hönd. Hitt er svo fylgifiskur þess að reka mjög smátt hagkerfi að þar verða sveiflur mjög miklar og sveiflujöfnun hagkerfisins mjög lítil. Slíku hagkerfi er ekki endilega greiði gerður með því að afneita sveiflunum með fastgengisstefnu eða erlendum gjaldmiðli.
Apakóngur lokar bókakaffi
27.12.2008 | 17:25
Sunnlenska bókakaffið er lokað í dag, laugardaginn þriðja í jólum enda liggja bóksalarnir uppi í rúmi handan götu og lesa Apakónginn og aðrar gersemar jólabókaflóðsins.
Apakóngur á silkiveginum er eitt af stórvirkjum þessara jóla og í kaupbæti fallegasti prentgripurinn. Á jóladagsmorgun vaknaði einn bóksalanna í Sunnlenska bókakaffinu upp við afmælissöng og var síðan skenkt þessu fjallþunga sýnishorni kínverskrar frásagnarlistar.
Þetta eru alþýðubókmenntir og upphaflega til orðnar á tehúsum Han-þjóðarinnar. Hér segir af köppum og klækjarefum, pólitískum loddurum og allskonar illþýði. Það er kínafarinn Hjörleifur Sveinbjörnsson sem þýðir úr kínversku, velur efni og ritar merkan formála.
Þríríkjasaga er sú fyrsta og segir frá valdabaráttu við Langá þeirra Kínverja, blauðum ráðgjöfum og ráðsnjöllum herforingjum. Pólitískar senur í samræðum og ráðabruggi eru ekki síðri en við þekkjum í Sturlungu og brenndar því sama marki að hér grautast saman mikill skari höfðingja svo stundum er erfitt að greina hver er hvurs í þeim efnum. Enda heita kapparnir nöfnum sem renna svilítið saman eins og Lu Su, Lius Bei, Ci Meng, Cheng Pu, Zhou Dai, Lin Tong, Cheng Zi og ekki má gleyma erkiskálkinum Cao Cao.
Engu að síður renna þessar sögur frábærlega í lestri og víða má finna þráð milli þessara sagna og miðaldasagnaarfs okkar Íslendinga þó svo að allt sé hér heldur stærra í sniðum en við Flóabardaga og jafnvel Svoldarorusta verður hálfvegis afdalaleg í samanburðinum.
Sunnlenska bókakaffið opnar svo að afloknu jólafríi klukkan 12 á mánudag og verður eftirleiðis opið 12-18 virka daga en 12 - 16 á laugardögum.
Gleðileg jól!
24.12.2008 | 09:52
Kæru lesendur, vinir, ættingjar, pólitískir samherjar innan sem utan flokka, bloggarar, guðs börn og hirðar þeirra, hugsuðir, mótmælendur, vættir, bókaormar, þjóðfrelsismenn, framsóknarmenn, alþingismenn, sunnlendingar, kjósendur, dakar-menn, viðskiptavinir í Bókakaffinu, rithöfundar, skáld, kaffigerðarmenn suður með sjó, jólabörn, samherjar í baráttunni og systkin í þjáningunni, og öll þið hin; gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Þakka stuðning og liðnar ánægjustundir.
Hefjum nýtt ár með nýrri baráttu.
Bestu kveðjur af Sólbakkanum
Bjarni Harðarson bóksali
Ísland er flokksveldi segir Njörður P - en Sleggjan blívur!
22.12.2008 | 13:15
Má til með vekja athygli á afar góðri grein Njarðar P. Njarðvík prófessors í Fréttablaðinu í gær (http://vefblod.visir.is/index.php?s=2675&p=67592) um flokksveldi og lýðveldi. Njörður fer hér með skuggalega rétt mál og nefnir einmitt hvernig Alþingi stjórnmálaflokkanna er afgreiðslustofnun og raunar er það svo að oft eru það tveir menn sem ákveða í tveggja manna tali hvernig afgreiðsla Alþingis á veigamiklum málum er.
Var ekki samið um EES aðildina í tveggja manna tali úti í Viðey, milli Davíðs og Jóns Baldvins.
Stríðsþátttöku þjóðarinnar í Írak í tali Davíðs og Halldórs. Og auðvitað margt fleira.
Að ekki sé talað um hvernig þingið er nú teymt í sambúð Geirs og Ingibjargar, í ótalmörgum málum.
Í öllu þessu get ég ekki stillt mig um að lýsa yfir aðdáun minni á Kristni H. Gunnarssyni sem myndar nú eins manns þingflokk og talar fyrir sannfæringu sinni óbjagaðri í hverju málinu á fætur öðru. Bæði við vantrauststillöguna og nú í eftirlaunamálinu. Ég er ekki að segja að ég sé alltaf sammála Kristni en mér er alvara með að við þurfum að hafa Alþingi með 63 sjálfstæðum þingmönnum. Þar með væri úti um hreðjartak framkvæmdavaldsins yfir löggjafarvaldinu.
Og smá bókablogg, annars má ég ekkert vera að blogga núna, ég var búinn að lofa Elínu að skúra! En lesið Annus Horribilis eftir Hugleik Dagsson, það er ekki verri úttekt á kreppunni en margt annað og bráðskemmtileg sem er meira en sagt verður um aðrar kreppu-fréttaskýringar.
Amtmaðurinn sem kallast á við nútímann
20.12.2008 | 22:54
Burtséð frá ágæti bóka þá eiga þær mismikið erindi við okkur og einhvernveginn ekkert sjálfgefið að raunasaga af norðlenskum amtmanni á fyrri hluta 19. aldar eigi mikið erindi við okkur börn 21. aldarinnar. En samt er það einmitt þannig.
Bók þessi, Amtmaðurinn á einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason á Sjávarbort er snilldarlega vel gerð bók og læsileg. Kannski ekki skemmtileg í þeim skilningi að vekja oft hlátur, enda saga Gríms mikil raunasaga en sagan er afar grípandi. Meðferð heimilda einkennist af vandvirkni án þess þó að hin fræðilega hlið beri efnið ofurliði.
En það dýrmætasta við bókina er samt að hún á mikið erindi við okkur í dag. Hér er sagt frá raunum þeirra manna sem veltu fyrir sér sjálfræði Íslands, möguleikum þess og erfiðleikum á tímum þegar fáir trúðu að Ísland gæti staðið á eigin fótum. Sagan gerist að mestu áður en áhrifa Jóns Sigurðssonar fór að gæta og hér kynnumst við ótrúlegu flækjustigi umræðunnar um sjálfstæði landsins. Einmitt þetta flækjustig á erindi við okkur í dag þegar reynt er að gera hugtakið fullveldi að einhverju óskiljanlegu og hanga á orðhengilshætti þegar talað er um sjálfstæði landsins.
Örlög Gríms, þrátt fyrir þjóðhollustu, verða líka þau að verða að skotspæni þeirra manna sem vildu mótmæla og mótmæltu þá næsta handahófskennt. Gerðu hróp að dómkirkjupresti, rektor og loks amtmanni enda landið undir erlendri stjórn og því erfitt um vik að gera hróp að hinum raunverulegu valdhöfum. Í dag er mikill áhugi á mótmælum og við mótmælendur þessa lands að því leyti til betur settir að geta mótmælt raunverulegum valdhöfum þó sumir vilji þar fara húsavillt líkt og landar okkar fyrir hálfri annarri öld.
Göldróttur sunnudagur
20.12.2008 | 12:30
Galdramenn heiðra Sunnlenska bókakaffið sunnudaginn 21. desember og kynna um leið göldrum prýdda bók, Töfrum líkast sem er ævisaga Baldurs Brjánssonar. Bókarhöfundurinn Gunnar Sigurjónsson hefur í tilefni af komu sinni á Selfoss bruggað galdur sem er sérstaklega saminn með sunnlenska Framsóknarþingmenn í huga og verður hann frumsýndur í Bókakaffinu af þessu tilefni. Uppákoman hefst klukkan 15 en Sunnlenska bókakaffið er opið þennan dag frá klukkan 12 - 22.