Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eyþór Arnalds næsti bæjarstjóri Árborgar!?

Ef könnun Fréttablaðsins gefur rétta mynd af stöðunni þá verður Eyþór Arnalds næsti bæjarstjóri Árborgar.

VG vinnur stærsta kosningasigurinn í þessum tölum en eru samt mjög tæpir með að ná inn tveimur fulltrúum. Samfylkingin er sögð fá 19% og einn fulltrúa en VG 19,9% og tvo. Þarna skeikar einhverjum örfáum atkvæðum milli þessara flokka og munar samt heilum fulltrúa. Framsókn fær sínu versta útreið með innan við 13%.

Við höfum reynslu til að horfa til þegar kemur að því að Sjálfstæðisflokkur stjórni með hreinum meirihluta. Það er þannig bæði í Kópavogi og Reykjanesbæ og báðir bæirnir eru nú undir fjármálaeftirliti stjórnvalda.

Fyrir okkur sem berum hag Sveitarfélagsins Árborgar og þá einkanlega sveitarsjóðs fyrir brjósti er þessvegna verk að vinna næstu vikurnar.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur fengi meirihluta í Árborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Festa og framkvæmdir í Árborg

Auðveldast í yfirstandandi kosningabaráttu er vitaskuld að gefa út loforð um að Sveitarfélagið Árborg muni á komandi kjörtímabili ráðast í stórfelldar framkvæmdir og útrýma þannig bæði atvinnuleysi og verkefnaskorti vertakafyrirtækja í bænum. En vitaskuld er þetta ekki fær leið þegar halda þarf áfram sparnaði og varkárni í rekstri bæjarfélagsins. Engu að síður er eitt mikilvægasta verkefni okkar allra á næstu árum að minnka atvinnuleysið og koma hjólum atvinnulífsins á aukinn snúning.

Sparnaður bæjarins og framkvæmdir í atvinnulífinu hanga þar samt á sömu spýtu þó með ólíkum formerkjum sé. Eftir því sem betur og fyrr gengur að koma bæjarsjóði á réttan kjöl og snúa tapi í hagnað því fýsilegri kostur verður sveitarfélagið fyrir fyrirtæki og stofnanir sem leita að heppilegu athafnasvæði.

Sterkari sveitarsjóður og traustir innviðir þjónustu í sveitarfélaginu eru mikilvægasta framlag sveitarfélagsins til atvinnusköpunar. Sveitarfélagið þarf að hafa fjárhagslegt bolmagn til að mæta þörfum fyrirtækja í uppbyggingu og geta unnið það starf sem þarf til að laða hér að öfluga atvinnuuppbyggingu.

Eitt það fyrsta sem hugað er að þegar rætt er um tilflutning fyrirtækja eða opinberra stofnana er grunnþjónusta við fjölskyldur starfsmanna. Þar skiptir miklu að Sveitarfélagið Árborg stendur vel hvað varðar uppbyggingu skólamannvirkja og öll almenn þjónusta í sveitarfélaginu er til fyrirmyndar.

Í þeirri efnahagskreppu sem nú ríður yfir eru engar töfralausnir fyrir hendi, hvorki þegar kemur að atvinnuleysi, rekstri fyrirtækja né afkomutölum sveitarfélaga. En með festu við stjórn Sveitarfélagsins Árborgar eigum við góða kosti og raunar betri en víðast hvar. En þá skiptir miklu að allir þeir sem koma að stjórn bæjarfélagsins standi saman um það sem vel hefur tekist og setji sér um leið að markmiði að gera enn betur á komandi kjörtímabili.

(Birt í Dagskránni í dag, 12. maí 2010)


Góð grein hjá Ragnhildi Kolka

Ragnhildur Kolka skrifar þarfa ádrepu um miðborg Reykjavíkur í Moggann í gær. Skynhelgin og endileysan sem oft og einatt einkennir umræður um íslenskt skemmtanalíf er hreinlega óþolandi. Auðvitað verður fólk hífað af að drekka áfengi og auðvitað heyrist eitthvað þar sem margir koma saman.

En það er ekkert meira en við má búast og við má búa eins og Ragnhildur rökstyður svo vel í grein sinni. Hún býr í miðborginni og er held ég áreiðanlega komin af því skeiði lífsins að vera sjálf  á djamminu allar nætur!

Það er eins og það gleymist stundum að umburðarlyndi er dyggð sem við megum vel temja okkur í auknum mæli.


Tarzan það er kvöld!

thorarinneldjarn.jpgÍ bloggi um Jón Ásgeir í gær endaði ég á að vitna í kvæði eftir Þórarinn Eldjárn sem til er í óborganlegum flutningi Megasar.

Þessi söngur sem er fullur af grimmd er um leið frelsissöngur okkar allra sem berjumst gegn heimsvaldastefnu og auðhyggju, hvort sem komin er frá gömlu nýlenduveldum Evrópu eða byssukjöftum Nató. Nú eða þá við gangstera og gúmmikalla eins og Sigga Einars og Jón Ásgeir.

Svo enginn haldi mig vera höfund að slíkri snilld langar mig að birta kvæðið hér í heild eins og það liggur fyrir inni í sjálfri Wikipedíu.:

Kvæðið um Tarsan

Í frumskóginum dimma hangir Tarsan niðrúr trjánum
með tágafléttu greypta bæði þétt og fast í hönd.
Flugumaður valdsins sem með refsivendi og ránum
ríður netið fastar um hin snauðu ríku lönd.

Tarsan hann er upprunninn hjá amerískri löggu
sem eyðilagði í San Fransisco margan góðan dreng.
Söngur Tarsans dynur oss í eyrum allt frá vöggu,
og alla leið til grafar hann slær á sama streng.

Mig skortir orð að tala um allt hatrið sem hann hýsir,
ég held mér frekar saman fyrst ég get ei sagt það vel.
Það nægir bara að minnast þess að málgagn hans er Vísir,
það má nú reyndar segja um það, að kjafti hæfir skel.

Ef einhversstaðar vex með snauðu fólki frelsishreyfing
flýgur Tarsan þangað strax að treysta auðsins völd.
En týnum ekki voninni, það verkar einog deyfing
sem varir aðeins skamma stund, og Tarsan, það er kvöld,

en nóttin flýr og dagur rís, þá sveipast sigurfánum
hin svörtu lönd og brjóta hlekki, ung og stolt og frjáls.
Sem merki um þeirra sigur hangir Tarsan niðrúr trjánum
með tágafléttu reyrða bæði þétt og fast um háls.

(Þórarinn Eldjárn, Kvæði, 1974)


Jón Ásgeir lentur á hrakningi

Nýjustu fréttir af Stöð 2 taka af öll tvímæli um að Jón Ásgeir er lentur á hrakningi. Þessi gúmmítöffari íslensku útrásarinnar hefur til þessa verið ódrepandi. Nú er saumað að öllum þessum köppum, eignir þeirra kyrrsettar, húskarlar þeirra hættir að hlýða og bestu vinirnir búa á einkennilegu hóteli á Eyrarbakka.

Bankarnir hafa eðlilega viljað fara hægt í að umbylta þessum stórfyrirtækjum og er líka meir hugað um peninga en siðferði. En nú er komið að þeim tímapunkti að gömlu gangster-eigendurnir gera meira ógagn en gagn innan þessara fyrirtækja. Þeir fæla viðskiptavini frá með tilvist sinni, halda í oflæti sínu að þeir geti enn rekið mann og annan eins og ekkert sé. Uppákoman á Stöð 2 er hluti af þessari mynd. Þetta er búið, hvað sagði ekki skáldið:

Tarzan, það er kvöld!


Af fákunnáttu og samstarfi í sorpmálum

Guðjón Egilsson á Selfossi skrifar grein í síðasta Sunnlenska um sorpmál sem hann þekkir öðrum mönnum betur svo vel og lengi sem hann hefur þjónað okkur í þeim efnum. Af grein hans er ljóst að allar megináherslur okkar Guðjóns í þessum efnum eru þær sömu og hvorugan hefur borið tiltakanlega af leið.

Mér er aftur á móti ljúft og skylt að biðjast velvirðingar á að hafa farið rangt með nafn Íslenska gámafélagsins og hafa á einum stað kallað það Íslensku gámaþjónustuna. En að sú yfirsjón kalli á að ég sé sakaður um fákunnáttu í þessum málaflokki þykir mér langt til seilst en þó get ég ekki séð í grein Guðjón neina aðra gagnrýni á það sem ég skrifaði í grein minni um þessi mál þann 21. apríl síðastliðinn.

Hvað menn hafa lesið millum línanna í minni grein get ég ekki rætt en mér er fullljóst að þessi málaflokkur er viðkvæmur eins og jafnan vill verða þar sem eftir miklum fjármunum er að slægjast. Sjálfur hefi ég bæði fylgst með málaflokknum hér á Suðurlandi síðastliðinn aldarfjórðung og tel mig hafa nokkuð viðunandi þekkingu á sorpflokkun þar sem fjölskyldan hefur síðan 1990 flokkað sorp eftir norrænu módeli sem við kynntumst í átaksverkefni sem kennt var við grænar fjölskyldur. Í því er meðal fólgin moltugerð sem ég hefi sjálfur séð um í þessa tvo áratugi. Þegar ég er nú sakaður um að hafa ekkert vit á sorpmálum tel ég rétt að geta þessa.

Framundan eru miklar framfarir og mikið uppeldisstarf þjóðarinnar í þessum málum. Þar eiga sveitarfélögin og fyrirtæki á borð við Íslenska gámafélagið samleið og sameiginlega hagsmuni og ég sammála Guðjóni í því að þar vil ég sjá árangur og framfarir á komandi árum.

Við sem höfum reynt flokkun inni á stóru heimili vitum líka að það skiptir miklu að hér gildi einfaldar og auðlærðar „umferðarreglur." Til þess þarf að vera samræmi þannig að ekki gildi margskonar regluverk innan sama svæðis.

Í því skyni hefur Sveitarfélagið Árborg og Sorpstöð Suðurlands markað þá stefnu að vinna með sveitarfélögum á Suðvesturhorni landsins sem samanlagt telja um eða yfir 80% allra íbúa landsins.

Innan þess hóps hefur Árborg verið í forystu og er fyrst hinna stóru sveitarfélaga í landinu til að taka upp fjöltunnukerfi. Því ber að fagna. Íslenska gámafélagið gegnir stóru hlutverki í þessu starfi öllu og sameiginlegir hagsmunir þess og sveitarfélaganna á Suðvesturhorni landsins eru augljósir.


Ég var að koma undan Eyjafjöllum...

Jón Bjarnason er bara snillingur. Þegar fréttamaður RÚV kemur með spurningu um fíflalegar kröfur kratanna um sameiningu ráðuneyta glottir Jón út í annað, tyggur munngúmmi eins og unglingur og svarar svo:

- Ég var að koma austan undan Eyjafjöllum... og það rigndi ösku þar!

Það er auðvitað óþolandi þegar stjórnmálamenn þykjast vera að svara spurningum en gera það ekki. Það fóru aftur á móti engir í grafgötur um að þessum spurningum fréttamannsins ætlaði Jón ekki að svara og lét ekki einu sinni í það skína. En úr því að hljóðneminn var þarna var ekki nema sjálfsagt að segja frá deginum.

Ég átti náið samstarf við Jón þegar við sátum saman í fjárlaganefnd, báðir í stjórnarandstöðu og fullyrði að hann er einn af heilsteyptari og betri stjórnmálamönnum okkar, gegnheill og heiðarlegur. Áfram Jón.


Er Árborg á hausnum? Önnur grein

Búhyggindi taka í engu mið af hægri eða vinstri. Hér hafa verið gerð mistök í ýmsu en í heildina er staðan góð og sparnaðarráðstafanir eru nú að skila sér.

Við getum borið okkur saman við Reykjanesbæ þar sem tap bæjarins og stofnana hans í rekstri nam 571 þúsundi á hvert mannsbarn en sambærileg tala hér í Árborg var 172 þúsund. Meðaltalið á landsvísu var árið 2008 342 þúsund króna tap á hvert mannsbarn. Sjá nánar


Fögnuð ég finn...

Það er ljótt að gleðjast yfir óförum annarra og eiginlega finn ég til með ólánsmönnunum úr Búnaðarbankanum sem gistu á Hverfis í nótt.

En mér er samt eins og þjóðinni mestallri létt að það er þó eitthvað að gerast. Verk þessara manna hafa kostað þúsundir og aftur þúsundir skuldafangelsi og eignamissi. Vonandi er þetta bara byrjunin.

Ég fann aftur á móti ekkert til með ódáminum honum Brown sem átti það meira en skilið að falla þó ég efist svosem um að nokkuð skárra taki við hjá Tjöllum.


Guðrún frá Lundi

Dalalíf Guðrúnar frá Lundi virkar á fyrstu tuttugu blaðsíðunum eins og frekar leiðinleg bók, eiginlega eins leiðinleg og Kristmann eða Hagalín þegar þeir eru hvað leiðinlegastir. Ég áttaði mig á því þegar ég fann ofan í bókakössum fyrsta bindið af þessu mikla verki, frumútgáfu reyndar, að ég hafði byrjað á þessari bók áður og lagt frá mér.

En nú varð ég að halda áfram því einhverntíma í vetur lofaði ég vini mínum Guðjóni R. rithöfundi að mæta á ráðstefnu í sumar um þessa merku konu.

Og viti menn smám saman nær frásagnartækni Guðrúnar valdi á lesandanum, sögupersónurnar verða meira lifandi en vanalegt er í sambærilegum bókum og allur þessi dalur Dalalífsins vaknar raunverulegur og áleitinn.

Þegar bækur Guðrúnar komu út voru þær lítils metnar af bókmenntaelítum landsins en hafa smám saman hlotið meiri virðingu og viðurkenningu. Er það vel og enn skemmtilegra að nú skuli vera framundan ráðstefna um þessa merku konu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband