Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Einkennilegt viðtal og undarlegt siðferði

DV er um margt einkennilegt blað og þrátt fyrir góða spretti þarf líka að taka efni þess með nokkrum fyrirvara.bjorgvin_dv.jpg

Nú áðan datt ég um viðtal  við nágranna minn hér úr Latínuhverfinu á Selfossi, Björgvin G. Sigurðsson þar sem blaðamaður hefur eftir honum að flokkurinn hafi lofað honum vinnu eftir afsögn. Þetta er fáránlegra en svo að ég trúi því upp á þann ágæta dreng Björgvin að hann hafi nokkru sinni sagt þetta. 

Flokkar eru einfaldlega ekki vinnumiðlanir og þó að þeir hafi í sukki og svínaríi fyrri ára leyft sér slíkt þá hefi ég miklar efasemdir um að nokkur flokksforysta telji sig geta hagað  sér með þessum hætti dag.

Verði viðtalið ekki borið til baka skuldar bæði Samfylkingin og Björgvin G. þjóð sinni skýringar á þeim þankagangi sem hér liggur að baki.

 


ESB-martröðin senn á enda

ESB umsókn Íslendinga er sjálfdauð. Evrusvæðið glímir nú við kreppu sem dýpkar með hverju misseri og það verður sífellt fjarstæðukenndara að gangast þeirri martröð á hönd. Ofurtrú Össurar og annarra sem sjá enn ljós þegar ekkert blasir við nema myrkur minnir á gömlu kommana sem lofuðu Kína og Sovét löngu eftir að ljóst var að þessi ríki höfðu ekkert að bjóða.

Það styttist í að almenningur í landinu taki málið í sínar hendur enda er hér líkt og í Noregi langt yfir 2/3 hlutar almennings andvígur aðild. Það getur engin ríkisstjórn í lýðræðisríki komist upp með stórfelldan fjáraustur í verkefni sem rétt um fjórðungur landsmanna styður. 


Magma og klofningur Sjálfstæðisflokksins

Birgir Ármannsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins talar um klofning ríkisstjórnarinnar í þessu ólukkans máli sem er beint framhald af gömlu REI-spillingunni.

Kannski er það rétt og það eru þá einhverjir væntanlega í Samfylkingunni sem eru ánægðir með þessa útsölu orkuauðlinda. Þeir hafa samt ekki gefið sig mikið fram. Aðallega er hér á ferðinni að útlensku skúffufyrirtæki hefur verið gefinn kostur á að nota sér veika stöðu Íslands.

Hitt er athyglisverðara að bera saman annars vegar málflutning Davíðs Oddssonar ritstjóra Moggans annarsvegar og svo hinsvegar þingmannanna Ragnheiðar Elínar og Birgis sem eru óskaplega ánægð með Magma.

Davíð á sér helst málsvara í Ögmundi, Lilju og öðrum ríkisstjórnarliðum í þessu máli.

Hvað er að gerast í Sjálfstæðisflokknum?


mbl.is Vill banna fjárfestingar erlendra aðila í orkufyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mölbrotinn eiðstafur og farísear

Nímenningamálið er sorglegt dæmi um fyrirlitningu einhverskonar farísea gagnvart því alþýðufólki sem stóð að réttmætum og löngu tímabærum mótmælum á Austurvelli.

Sami vandlætingakór hefur til þessa ekki haft áhyggjur af stjórnarskránni og eiðstaf þingmanna.

Sjá nánar í grein minni á Smugunni.


Ef einhver hefði hlustað á Brynleif

Ég sagði það, ég sagði það, heyrist á blogginu og í pólitíkinni þegar menn hafa þörf fyrir að hampa því að allt sé nú komið fram sem þeir spáðu. Stundum slá menn um sig og hafa þetta á ensku, æ-sed-só.

Verra er þó þegar svo langt líður að menn séu dauðir þegar að öllu kemur sem þeir sáu samt fyrir. Það eru nú meira en hálf öld síðan sá merki maður Brynleifur Tobíasson frá Geldingaholti enti sína hérvist. Hann flutti lýðveldisárið 1944 nokkra pistla í útvarpi sem útvarpsráði líkaði svo illa við að síðasta pistilinn var honum bannað að flytja. Hann hafði þá eftir siðvenju síns tíma skilað útvarpsráði handriti þar sem starfsmaður þess merkti við það sem óhæfa þótti að flutt yrði. Þetta voru þeir dagar.

Brynleifur dó ekki ráðalaus frekar enda væri það ólíkt Skagfirðingum. Hann gaf pistla sína út í litlu kveri sem heitir Horft um öxl og fram á leið. Þar feitletrar höfundur allt það í síðasta erindinu sem útvarpsráð hafði merkt við og taldi óheppilegar skoðanir til flutnings í útvarpi. Það er athyglisvert nú meira en hálfri öld síðar að Brynleifur sá fyrir alla samspillingu stjórnmálaflokkana og hvernig þeir myndi smám saman verða innantómu lýðskrumi að bráð. Brynleifur vildi koma í veg fyrir þetta með sterkara forsetavaldi og fullum aðskilnaði framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Í umrótinu eftir fall bankanna er merkilegt hvað fáir hafa gefið því gaum að ofurveldi flokkanna og framkvæmdavaldsins er ein af höfuðmeinsemdum samfélagsins.

Brynleifur dregur ágætlega fram í riti sínu hvernig allt hangir á sömu spýtunni, lýðskrumið þar sem enginn þorir að segja sannleikann, dugleysið þar sem duglitlir snatar flokkanna komast til æðstu metorða, flokksræðið og klíkukennt vald Alþingis umhverfis flokksforingjanna.


Íhaldið biðlar til Samfylkingar

Nýjasta greining sjálfstæðismannsins Þorsteins Pálssonar á ástandinu rímar afar vel við ræður Bjarna Ben. í vikunni. Þeir segja báðir: Með okkur gæti Samfylkingin gert allt sem hana langar til að gera og líka gengið í ESB.

Og það skuggalega við þennan málflutning er að þegar kemur að völdum er ekkert sem heldur aftur af Sjálfstæðisflokknum. Þegar gamla ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sat að völdum og til stóð að breyta ESB-kúrsi flokksins fyrir liðlega ári voru það örfáir af þingmönnum flokksins sem hægt var að treysta til að vera einarðir á móti. Nú eru flestir þessara hættir og við vitum ekki hverjir reynast öruggir í ESB-andstöðunni. Pétur Blöndal er sá eini sem er naglfastur í þessu efni.

Það er vissulega mikil andstaða við ESB í grasrót Sjálfstæðisflokksins en eins og í öllum flokkum er það þó forystan sem leiðir grasrótina en ekki öfugt. Meirihluti þessarar grasrótar mun snúast með svikulli forystunni, ef það er það gjald sem greiða verður fyrir völdin. Ef þetta gerist versnar til muna vígstaða okkar sem viljum halda í sjálfstæði landsins.

Enn og aftur eru það brýnustu hagsmunir okkar ESB andstæðinga að halda lífi í vinstri stjórninni enda er það sú stjórn sem síst getur komið landinu í ESB. Þar fyrir utan eru svo þeir hagsmunir þjóðarinnar að hafa vinstri stjórn í endurreisn eftir frjálshyggjufylleríið en það er önnur pólitík.


Og hér í Árborg er auðvitað allt í steik!?

Bærinn er á hausnum, á Selfossi er ekkert við að vera, hér eru hvorki hjólastígar né reiðleiðir, vegurinn hingað er lífshættulegur og einn umferðartappi, verktakafyrirtækin öll á hausnum og allt í kringum okkur hálfbyggð draugahverfi. Atvinnuleysið er meira en nokkru sinni áður og á ströndinni berjast ferðaþjónustufyrirtækin í bökkum. Er ég að gleyma einhverju, jú, sundlaugin er lokuð á helgidögum og það er verið að ala múkkann í fuglafriðlandinu.

Einhvernveginn þannig hljómar söngur sem við heyrum alltof oft í okkar ágæta sveitarfélagi. Og víst er það svo að verkefni næstu ára eru ærin. En það er mikill bölmóður þegar talað er á þá lund að hér sé allt í steik. Staðreyndir tala allt öðru máli. Staða bæjarfélagsins er viðunandi miðað við hamfarir liðinna frjálshyggjuára og öfundsverð í samanburði við mörg sambærileg sveitarfélög. Við erum einfaldlega ekki á lista Eftirlitsnefndar um fjárhag sveitarfélaga og ekkert sem bendir til að við lendum þar.

Það er óvíða eins gott að vera fyrir bæði hestamenn og hjólhestamenn. Vissulega þarf enn úrbætur í þessum málum, einkanlega hvað varðar leiðir fyrir hestamenn suður fyrir bæinn og þar grillir sem betur fer í lausnir. Það eru óvíða ef nokkursstaðar á landsbyggðinni eins góðir hjólreiðastígar en vitaskuld þarf að efna afar gamalt og dýrmætt loforð fyrri framboða um hjólaleiðir milli kauptúnanna í sveitarfélaginu.

Vegbætur eru sömuleiðis í farvatninu. Staðreyndin er samt sú að þegar talað er um umferðarhnúta á Ölfusárbrú og slysahættu á Hellisheiðarvegi hættir okkur til að grípa í ýkjustílinn. Miðað við þær kröfur sem gerðar eru í nágrannalöndum okkar, hvort sem er í Evrópu eða Ameríku þá teljast vegirnir hér engan veginn alvarlega ofsetnir og umferðarhnútar í miðbænum okkar og á brúnni eru örfáir á árinu. Með nýrri Ölfusárbrú léttum við mikið á umferðinni og sömuleiðis eru vegbætur í Ölfusi og Hellisheiði á teikniborðinu.

Á Selfossi er ekkert við að vera, er viðkvæði margra. Þetta er einfaldlega rangt enda eru örfáir bæir á landsbyggðinni sem búa að jafn mikilli umferð og viðskiptum ferðamanna, jafnt innlendra sem erlendra. Hingað sækja menn margháttaða þjónustu sem er enda hlutverk bæjarins og allt í kring eru svo vinsælir áningarstaðir. Það er Selfoss sem sem nýtur góðs af þeirri umferð sem náttúruperlur Suðurlands draga til sín. Vitaskuld er brýnt að byggja einnig upp afþreyingu í bænum við ána. Undirritaður hefur sjálfur reynslu af slíkum rekstri þar sem er Sunnlenska bókakaffið og ég tel að í þessum efnum eigi einkaframtakið í bænum mikið óunnið. Þar getur hvatning bæjarstjórnar skipt miklu.

Það er dæmigert fyrir málefnafátækt minnihluta bæjarstjórnar að gera lokun Sundhallar Selfoss á opinberum helgidögum að kosningamáli. Síðast þegar opið var sumardaginn fyrsta komu um 40 ferðalangar á staðinn auk fastagesta! Óhróður manna um fuglafriðlandið er langt utan þess raunveruleika sem við aðdáendur Flóagaflshverfisins þekkjum.

Atvinnuleysi, gjaldþrot verktaka og hin hálfköruðu hverfi umhverfis þéttbýlið eru alvarleg verkefni í kjölfar frjálshyggjutímans og þau kalla á viðbrögð. En bölmóðurinn mun engu skila. Til þess að ná árangri þurfum að við að hafa jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi. Þannig getum við lyft grettistaki og gert gott sveitarfélag ennþá betra.

Gerum það.

(Birt í Sunnlenska 13. maí 2010)


Takk, takk!

Sem fornbókasali svara ég öllum sem vilja losna við gamlar bækur og tímarit eins að ég taki við öllu en borgi sáralítið. (Auðvitað borga ég alltaf ef mér bjóðast dýrar perlur og feit dánarbú.) Það er svo sunnudagsgaman mitt að raga í gegnum bókakassa og raunar veit ég ekkert eins skemmtilegt. Margt fer auðvitað á haugana eins sárt og það nú samt er að henda bók. Það verður í þessari vinnu eins og annarri að gera fleira en gott þykir. Í viku hverri berast mér allskonarkassar sem fólk vill bara losna við og fær oft ekki annað í kaupið en kaffi og vöfflu.

Í morgun beið mín óvæntur glaðningur á stéttinni framan við bókakaffið. Þar hafði einhver sett kassa með bókum og þar í nokkrar eigulegar. Þar sem ég hefi ekki hugmynd um hver gefandinn er segi ég bara í gegnum þessa síðu í veikri von um að gefandinn lesi; takk.


Í hvaða liði er Bjarni Ben.

Eftir fréttir af þingumræðu morgunsins þar sem Össur Skarphéðinsson talar um að Jón Bjarnason þurfi að sjá ljósið vakna ótal spurningar. Sú stærst hversu lengi Samfylkingunni haldist áfram að keyra einleik sinn í ESB umsókn. Þar er ábyrgð VG mikil og nú þegar andstaðan er meiri en nokkru sinni með þjóðinni er tímabært að vinstri menn setji Evrópukrötunum stólinn fyrir dyrnar.

Það hjálpar samt ekki okkur andstæðingum ESB hvernig formaður Sjálfstæðisflokks talar út og suður. Segir að það þurfi að tryggja breiða samstöðu í viðræðunum, sem hann telur ganga mjög vel og bara ef samstaðan náist sé allt í lagi að halda henni áfram! Semsagt ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi nú að vera með í leiknum. 

Sá sem er einarðlega á móti því að Ísland gangi í ESB vill enga samstöðu um umsókn og sá hinn sami gefur heldur ekki út umsagnir á þá leið að aðildarumsóknin gangi vel. En Bjarna Ben er sama um fullveldið og meira í mun að sýna Samfylkingunni á þau spil að hann sé nú alveg til í að taka við af VG og gera þetta allt miklu, miklu betur...


mbl.is „Bara ef Jón myndi sjá ljósið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Arnarson undan sauðargærunni

Ólafur Arnarson sem ýmist titlar sig hagfræðing eða rithöfund er nú kominn undan sauðargærunni. Hann gengur nú fram af nokkurri einurð og ver útrásarvíkingana sem nú sitja í steininum enda lengi og kannski enn á launum hjá þeim.

Í bókinni Sofandi að feigðarósi (sem ég skrifaði um fyrir ári) upplýsir Ólafur að hann var fram að hruni sjálfur útrásarvíkingur, starfaði fyrir eitt af hinum kostulegu útrásarfyrirtækjum Jóns Ásgeirs og reynist Jóni og vinum hans trúr. Það er svoldið sætt. 

En það er ósmekklegt þegar menn skreyta sig titlum sem þeir standa illa undir, eðlilegast er að næst þegar Ólafur kemur fram í fjölmiðlum verði hann titlaður "Fyrrverandi útrásarvíkingur."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband