Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sérkennileg viðhorf gagnvart fötlun
26.3.2009 | 17:34
Það eru vægast sagt sérkennileg sjónarmið sem birtast okkur í þessum dómi gagnvart hegðan hjá fötluðu barni. Ég er ekki að segja að kennarinn sé ofsæll af því að fá bætur en hefði talið miklu eðlilegra að skólinn hefði verið dæmdur til þeirra bótaábyrgðar.
Það er viðurkennt að fötlun á borð við einhverfu hefur áhrif á skapsmuni og getur orsakað hvatvísi og stjórnleysi. Hér fer saman mikil hvatvísi og slysalegt atvik. Ég velti fyrir mér hvaða áhrif þetta hefur á ábyrgð foreldra fatlaðra barna sem eru samkvæmt þessu í fullri ábyrgð foreldra þó svo að skólinn hafi í þessu tilviki tekið við umsjóninni.
Þarf að greiða kennara bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bannaðar skoðanir og baráttan fyrir sjálfstæði
26.3.2009 | 17:08
Barátta lítillar eyþjóðar fyrir sjálfstæði sínu tekur á sig ýmsar myndir. Nú síðast þá að engum dyrum má nú loka gagnvart ESB sinnum, hvorki í umræðu né pólitísku starfi. Og ESB sinnarnir ætla sér svo sannarlega inn um allar glufur sem þeir komast.
Fulltrúar fjórflokksins býsnast nú mjög yfir því að það sé orðin til pólitísk hreyfing þeirra sem vilja standa utan ESB og að ESB sinnum skuli ekki hleypt að starfi L - lista fullveldissinna. Þannig réðist áhrifamaður VG að hreyfingunni í nýlegum sjónvarpsþætti og sakaði hana um að vera afar ófrjálsa fyrst liðsmenn væru sammála í þessu máli.
Hugarheimur þeirra sem vilja afhenda útlendingum sjálfstæði landsins er utan þess sem ég fæ skilið. En ég hefi fyrir löngu áttað mig á vinnubrögðum þessa hóps. Hún miðar öll að því að gera hófsama sjálfstæðissinna tortryggilega og læða sér svo inn í allar stjórnmálahreyfingar, smáar sem stórar. Þannig sjáum við nú ESB sinna spretta upp í starfi Vinstri grænna og nýlega gekk einn af ESB sinnum Samfylkingarinnar til liðs við Frjálslynda flokkinn. Í prófkjörum Framsóknarflokksins takast fyrst og fremst á sannfærðir ESB sinnar, hálfvolgir ESB sinnar og hópur kleifhuga sem telur að það eigi ekki að ganga í ESB en samt að sækja um aðild.
Kleifhugaeinkennið er einnig ríkjandi í Sjálfstæðisflokki. Þar á þjóðfrelsið sér formælendur fáa og ekki hægt annað en að dáðst að Pétri Blöndal alþingismanni sem stendur þar þá vakt að minna flokksbræður sína á heiti flokksins.
Hættulegasti áróður ESB sinna fyrir komandi kosningar er að ESB inngangan sé mál sem engu skipti nú enda ekki á dagskrá. Það er alveg ljóst að mál þetta verður meira á dagskrá eftir kosningar en nokkru sinni enda verður Samfylkingin í lykilstöðu við stjórnarmyndun. Nú munu allir flokkar koma knékrjúpandi fyrir kratamaddömmunni og biðja hana að taka sig upp í stjórnarsængina.
Landsmenn sáu glöggt í vetur hvernig mikill meirihluti þingmanna Sjálfstæðisflokks var tilbúinn til að leggja í ESB viðræður til að halda stjórnarsamstarfinu við Samfylkingu og þess þá heldur verða þeir tilbúnir eftir kosningar.
Í Framsóknarflokki verður sem nú Höskuldur einn í þröskuldi ESB væðingar og hjá VG stefna nú vígreifir ESB sinnar á þing. Frjálslyndi flokkurinn hefur lengi látið kúgast af þeirri bábylju að allir flokkar verði að leyfa ESB sinnum að vera innanborðs.
L - listi fullveldissinna verður eini valkostur þeirra sem vilja ljá lýðveldinu og sjálfstæðinu óskoraðan stuðning sinn.
(Birt í Fréttablaðinu 26. mars 2009)
Októberstjórnin á Íslandi og ESB
26.3.2009 | 12:00
Stóru flokkarnir halda aðalfundi sína um þessar mundir og sverja sumir vinum trúnaðareiða og festa óvinum niður hæla fyrir hólmgöngur. Um vélráð þessi gildir þó líkt og borgarísjaka að aðeins sér í toppinn.
Nýliðin helgi með fundarsamþykkt VG í þá veru að sverja Samfylkingu trúnaðareiða fyrir kosningar eiga sér forsögu allt frá í október. Þó ekki hafi komist í hámæli þá hefur sá sem hér ritar vissu fyrir að núverandi stjórnarfyrirkomulagi var fyrst komið á flot í októbermánuði í samtölum Össurar Skarphéðinssonar og fleiri Samfylkingarmanna við forystumenn VG og þáverandi varaformann Framsóknarflokksins, Valgerði Sverrisdóttur.
Að þeirri stjórnarmyndun komu 5 þingmenn Framsóknarflokksins en þar með var tryggður lágmarksmeirihluti.
ESB andstæðingum haldið utan við
Nú veit ég ekki hvað varð til að þessi áform Össurar urðu ekki að veruleika þá strax en það lá fyrir að talið var heppilegast að halda bæði þeim sem hér ritar og þáverandi formanni Framsóknarflokksins utan við þessar viðræður. Mig grunar að Ingibjörg Sólrún hafi hér þrátt fyrir allt tekið í taumana og viljað sýna Sjálfstæðisflokki meiri heiðarleika í samskiptum en samflokksmenn hennar töldu nauðsynlegt.
Eins og alþjóð veit tókst vinstri flokkunum nokkrum mánuðum síðar að koma fyrirætlunum sínum í kring en þá voru við Guðni líka farnir af vettvangi. Spaugilegast í þeim leik var að sjá hvernig hin gamla lumma haustsins var nú látin líta út eins og splunkuný uppgötvun Framsóknarformannsins nýja, honum og flokki hans að lokum til mikils tjóns.
ESB undirmál Steingríms
Það fyrsta sem ég varð var við þessa október-stjórnarmyndun var þegar varaformaður og þingflokksformaður kölluðu inn á sérstakan þingflokksfund sveit ESB-sinna úr banka- og viðskiptalífi sem við síðar fréttum að hefði í sömu viku heimsótt bæði Vinstri græna og Samfylkingu. Í þeim umræðum var mikil áhersla lögð á aðkomu IMF sem forleik að ESB og jafnframt á brautargengi nýja auðvaldsins sem þáverandi Seðlabankastjóri átti að hafa ofsótt með aðgerðum í bankahruninu!
Skilningsleysi okkar Guðna Ágústssonar á þessari orðræðu sendisveitarinnar hefur vafalaust ráðið miklu um það að sendimennirnir sáu þann kost vænstan að halda okkur utan við og svo virðist sem það hafi orðið að samkomulagi að hafa hlutina með þeim hætti milli varaformanns Framsóknarflokksins og fulltrúa Samfylkingarinnar í þessum hráskinnaleik. Hver þáttur Vinstri grænna í þeim hluta af samkomulaginu var veit ég ekki og ekki heldur hvaða samningar tókust milli VG og Samfylkingar í þessum þreifingum.
Ég ætla því ekki halda að ég viti nokkuð það sem ég ekki hef fengið staðfest en grunur minn er að samkomulagið frá októberstjórninni sé enn í fullu gildi og verði endanlega efnt á nýju kjörtímabili. Á því kjörtímabili mun hinn aldraði leiðtogu Samfylkingar væntanlega afhenda Steingrími J. forsætisráðherrastólinn. Hvað Steingrímur J. lætur í staðin liggur ekki fyrir en hættan er sú að það verði fullveldi Íslands sem komi þar í skiptum.
Og þá er illa komið íslenskri þjóð.
Baugsflokkarnir allir þrír...
26.3.2009 | 10:23
Sem fyrr segir var það bankastofnunin Byr sem fjármagnaði kaup Jóns Ásgeirs -og greiddi líka arð út til eigenda Byrs. Nú örfáum vikum síðar kemur sami banki fram, segist vera félagslegur sparisjóður og vill ríkisstyrk. Fari svo að núverandi ríkisstjórn greiði af almannafé til að halda lifandi þessari síðustu bankastofnun Baugsveldisins þá skal ég aldrei aftur nota orðið Baugsflokkur- í eintölu. Það er þá orð sem nota á í fleirtölu um alla ríkisstjórnarflokkana þrjá.
Sjá meira hér http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/838018
Spillingin og svikamyllurnar...
25.3.2009 | 23:43
Bjarni. Þar sem þú ert gengin úr framsóknarflokknum gerðu þá okkur þann greiða að segja heiðarlega frá? Þú veist það vel að framsóknarflokkurinn, á meða þú taldist meðlimur, var á kafi í spillingunni og þú gerðist meðreiðarsveinn á þeirri leið. Þú getur sagt okkur hvers vegna Valgerður ,,var látin gera" það sem hún gerði varðandi sölu búnaðarbankans ? Þú sagðir hér í einum pistli þínum að Davíð odsson ,,hefði eitthvað" á ráðherra í ríkisstjórn ? Nú getur þú sagt frá hvað það var sem Davíð Oddsson ,,hafði á" ráðherra?Þú virðist nefnileg þekkja svo hvernig ,,samsæri" og ,,svikamyllur" virka í raun !
Ég er eins og svo oft hér að svara kommenti. Þetta kom í dag frá JR hver sem það nú er. En því er til að svara JR að spilling er ekki iðkuð með þeim hætti að hún sé rædd opinskátt á flokksfundum.
Tökum dæmi: Ef tveir borgarfulltrúar ákveða að rétta skítblönkum milljarðamæringum vænlegt orkufyrirtæki á silfurfati þá búa þeir svo um hnútana að á ytra borði líti þetta út sem eðlileg pólitísk ráðstöfun. Flokksbræður mannanna standa frammi fyrir gerðum hlut flokksbræðra sinna og verða nú að velja um tvo kosti og báða vonda:
- Beita sér gegn hinni spilltu ákvörðun og hinum flokksbróður en viðurkenna þannig um leið að í eigin flokki sé spilltur stjórnmálamaður.
- Styðja hinn spillta stjórnmálamann til að forða sínum flokki frá hnekki.
Ég hef staðið frammi fyrir vali sem þessu og þeir sem fylgst hafa með vita hvernig í brást þá við. Ég fór fram á afsögn manns sem þó var í sama flokki og fékk víða bágt fyrir og afar fáir bökkuðu mig upp í að gera þetta. En ég var stoltur af þeirri frammistöðu eftirá og er enn. Og ég skal lofa þér því JR, ef ég frétti eitthvað, þá læt ég þig vita. Hér á þessari síðu! Loforð!
Virðingarleysi við byggðalag Kjarvals
25.3.2009 | 20:53
Niðurskurður fjárveitinga getur tekið á sig fáránlegar myndir. Svo er um þá ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Austurlands að skera niður "þjónustu" á Borgarfirði eystra. Samt er varla hægt að tala um þjónustu á þessum stað.
Læknir vitjar þessarar afskekktu byggðar einu sinni í mánuði og af frétt Sjónvarps að dæma er þessi þjónusta mikið notuð. Nú á að hætta því. Sparnaðurinn er varla mjög raunverulegur en lýsir því virðingarleysi fyrir byggðinni sem oft einkennir stjórnvaldsákvarðanir á Íslandi. Það eru hin dreifðu byggðalög sjávarútvegs og landbúnaðar sem grundvölluðu auðsæld Íslendinga -og ekki við þau að sakast í kreppunni nú. Þessutan eigum við fegurð Borgarfjarðar að þakka andagift okkar færasta málara. Borgarfjörður eystri og íbúar þar eiga betra skilið.
Minnisblaðið staðfestir samsæri
25.3.2009 | 12:20
Samsæri er stórt orð en það var líka mjög langt gengið í að koma íslenskri þjóð á kaldan klaka. Nýja auðvaldið hafði byggt upp svikamyllu á Íslandi. Með þessari svikamyllu tókst fáeinum mönnum að skjóta undan til eigin nota gríðarlegum auðæfum en skilja þjóðina eftir með skuldirnar.
Það hefur lengi legið fyrir að Samfylkingin hefur verið þessum öflum auðsveip og hliðholl. Minnisblað sem sýnir að Björgvin G. Sigurðsson hafi beinlínis staðið í vegi fyrir rannsókn og afléttingu bankaleyndar eru grafalvarleg tíðindi og benda til að hér sé á ferðinni samsæri gegn hagsmunum þjóðarinnar. Samsæri sem Samfylkingin er hluti af.
Hælarnir voru niðri í viðskiptaráðuneytinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hjörleifur svarar þó Steingrímur þegi
25.3.2009 | 09:56
Í ESB-málum mun blessunarlega ekkert gerast á næsta kjörtímabili ef VG og Samfylking verða áfram í ríkisstjórn. Varla getur Samfylkingin heldur af pólitískum ástæðum snúist til hægri og endurnýjað samstarf með Sjálfstæðisflokknum, jafnvel þótt hann léði máls á aðildarumsókn.
Ofanskráð er tilvitnun í Hjörleif Guttormsson sem svarar skorinort því sem þingmenn og formaður VG heykjast á að svara. Í vikubyrjun var ég á fundi með nemum í HÍ þar sem Álfheiður Ingadóttir var spurð að því að hvort flokkur hennar gæti setið í ríkisstjórn sem hefði að stefnu að sækja um ESB aðild. Ég skal fúslega viðurkenna að sessunautur minn Álfheiður sagði ekki já en heldur ekki nei og raunar var svar hennar efnislega að um þetta mætti og yrði að semja.
Sama var að lesa út úr svari Steingríms J. í Silfrinu um liðna helgi. Það væri guðsblessan ef Hjörleifur væri enn á þingi en af núverandi þingmönnum og þingmannsefnum VG eru fáir sem ég treysti algerlega í þessu máli.
Fjölgun hjá Sólbakkaslekti
25.3.2009 | 08:46
Það urðu stórtíðindi í fjölskyldunni í gær þegar læðan Ariel á Árveginum gaut tveimur gullfallegum grábröndóttum afkvæmum, líklega kvenkyns. Eigandi Ariel er Magnús sonur minn, verslunarmaður í Bónus sem hér sést stoltur heimilisfaðir með annað krílið í lófanum.
Viljum við vinstri ESB stjórn...
24.3.2009 | 18:42
Hinn einlægi ESB sinni Hallgrímur Thorst skrifar sunnan úr Garðabæ og ég sammála honum enda Grímsi bæði glöggur maður og með pólitískt nef:
Það verður endalaust spurt að þessu í kosningabaráttunni og þess vegna væri kannski hreinlegast að svara því strax: Það verður sótt um aðild að Evrópusambandinu nái Samfylkingin og Vinstri grænir meirihlutafylgi í kosningunum.
Á landsfundi sínum hefðu Vinstri grænir getað lagt stein í götu tafarlausrar aðildarumsóknar og krafist þjóðaratkvæðis um hvort aðildarumsókn yrði lögð fram. Þau gerðu það ekki. Af augljósum rausnarskap við þjóðina og væntanlegan samstarfsaðila leggja þau ákvörðun um umsókn í hendur Samfylkingarinnar með þegjandi samkomulagi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)