Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Formaður sem snar er í snúningum...

bjarni_benÉg vil byrja á því að óska nafna mínum Benediktssyni til hamingju með formannskjör í Sjalfstæðisflokki. Bjarni er góður drengur og skemmtilegur í viðkynningu en vissulega hefur fallið nokkuð á hans pólitíska feril á liðnum vetri. 

Hann hefur nú fetað í fótspor Birkis Jóns Jónssonar frá Siglufirði í því að hafa margar skoðanir í senn á ESB málum. Endaði reyndar á að flytja miklar drápur á flokksþingi gegn ESB aðild en það jafnljóst að það tekur þennan gjörvilega stjórnmálamann ekki nema andartak að skipta um skoðun.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með honum að afloknum kosningum þegar samstarfsdyr Samfylkingar verða aðeins opnar þeim sem opnir verða í alla í þessu stærsta deilumáli Íslands siðan landið öðlaðist fullveldi.

P.S: Úlfar Hauksson stjórnmálafræðingur tjáir sig um Bjarna og ESB á dv.is nú  rétt í þessu og er mér mjög sammála. Hann segir m.a.

Úlfar segist telja að Bjarni sé klókari maður en svo að hann muni einfaldlega jánka ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar. „Bjarni er skynsamur og veit hvað klukkan slær. Ég held að hann hafi ákveðnar hugmyndir um hvað beri að gera og að menn verði að nálgast Evrópusambandið á annan hátt en ályktun landsfundar bendir til.

Sjá nánar hér.


Ekki benda á neinn og alls engan sem er hér inni...

Geir H. Haarde er sjálfum sér líkur þegar hann tekur upp hanskann fyrir Vilhjálm Egilsson. Í öllum aðdraganda að hruninu réði mestu að svo illa fór að forsætisráðherrann þáverandi og Samfylkingarforystan ákváðu hreinlega að trúa bankavíkingunum og þeirra mönnum. Það var þægilegra en að hlusta á varnaðarorð okkar í stjórnarandstöðunni eða varnaðarorð Seðlabankastjóra.

Og auðvitað er það rétt athugað hjá Davíð að það er út í hött að vikapiltar bankavíkinganna skuli vera hampað hjá stjórnmálaflokki sem vill vera tekinn alvarlega. Sannast enn og aftur að Sjálfstæðisflokkurinn er einhverskonar millistig milli þess að vera Líonsklúbbur og skagfirskt kvenfélag. Og það má ekkert gagnrýna neinn sem er í félaginu. Bara algerlega ómark og formaðurinn verður að fara í pontu og strika svoleiðis út...


mbl.is Geir: Ómaklegt hjá Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styðjum baráttu Helga í Góu

Helgi Vilhjálmsson sælgætisframleiðandi er einn af þessum óbilandi baráttumönnum. Ég hvet alla sem þetta sjá til að skrifa undir undirskriftasöfnunina hjá honum, http://www.okkarsjodir.is/

Þar hreyfir hann  mikilsverðu máli sem er brask og hálaunastefna lífeyrissjóðakerfisins. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af þessum sjóðum okkar nú í kreppunni og sumir ganga reyndar svo langt að telja þá gjaldþrota,- sem er vitaskuld túlkunaratriði rétt eins og þegar talað er um þjóðargjaldþrot...


Á límingum yfir Davíð...

Það hefur enginn maður annað eins lag á að taka íslenska þjóð á límingunum eins og Davíð Oddsson og líklega telst maður ekki bloggari ef maður bloggar ekki um Davíðsræðuna! sem ég er að hlusta á núna í morgunsárið.

Ræðan er vitaskuld pólitísk, full af skotum og sumum undir beltisstað. En það er merkilegt að sjá ESB-sinna Sjálfstæðisflokksins, krata og fólks sem gerir tilkall til að vera talið til vinstri lenda á innsoginu fjalla um þessa  ræðu út frá því hvort Davíð sé bitur, hvort orðræðan sé makleg og Vilhjálm Egilsson skýla sér bakvið það að með honum í Endurreisnarnefndinni hafi verið 80 aðrir nafnlausir einstaklingar.

Við yfirlit yfir bloggheima sé ég enga af þessum gagnrýnendum fjalla efnislega um hina dreifðu eignaraðild bankanna sem Samfylkingin beinlínis barðist beinlínis gegn. Þetta er ekkert nýtt en þeir stjórnmálamenn sem höfðu allt sitt pólitíska fóður úr Fréttablaðinu þurfa að gera upp sín mistök. Ég hef heldur ekki séð neinn fjalla efnislega um þau augljósu tengsl sem eru milli margra þeirra talsmanna ESB-aðildar og útrásarvíkinganna. 


ESB og könnunarviðræðurnar...

...Vel er líklegt að í þeim viðræðum verði reynt að velta við hverjum steini í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hjá stofnunum þess. Hvað út úr því kemur veit enginn en það er barnaskapur að halda að allt geti lagst aftur í sama far ef aðild að Sambandinu verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar flókin mál eru skoðuð upp á nýtt kemur jafnan eitthvað á daginn sem menn skilja á ólíkan veg og þykir rétt að endurskoða. Við „samningaborðið" verður Ísland með afleita stöðu ef gagnaðilinn reynir að nota tækifærið og færa eitthvað til okkur í óhag.Þá er raunar eins víst að „könnunarviðræðurnar" endi með að valið standi milli þess að ganga í Sambandið eða enda með verri stöðu en áður. ...

Atli Harðarson (sjálfstæðismaður og bróðir minn) skrifar um ESB málin á síðu sinni í dag, afar athyglisverðan pistil þar sem hann rekur meðal annars ofan af þeim barnaskap og tvöfeldni sem felst í því að tala umsókn að ESB sem einhverskonar hlutlausa könnun og part af lýðræðinu. Það eru reyndar endalok lýðræðis í þeirri mynd sem við þekkjum það ef löggjafarvaldið er flutt úr landi og við höfum eftir það álíka mikið um okkar eigin mál að segja eins og Grímseyingar þegar þeir hafa sameinast Akureyrarkaupstað.


Þakkir heimska Bjarna til hans drýldna Jóns

Var vakinn upp fyrir níu íjbh.jpg morgun með þeim fréttum að Jón Baldvin kallaði mig mannvitsbrekku í hálærðri ritgerð í opnu Morgunblaðsins. Umfjöllunarefnið var einkanlega Björn Bjarnason sem er hér fært mjög til foráttu að hafa í ESB málum sömu skoðun og heimskinginn Bjarni Harðarson. 

Sem betur fer tókst mér nú að sofna aftur í minni heimsku og þótti nú heldur vænt um að Jón Baldvin gæti enn gamall maðurinn fundið sér til skammar og skemmtunar.

En ef að ESB-sinnar eiga þessi rök sterkust að kalla okkur ESB-andstæðinga heimska þá er þeim það frjálst og ekki ætla ég að leggja mat á það hvar ég er á greinarvísitölukvarða Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Veit þó að í fræðum Baldurs Þórhallssonar er ég flokkaður með því fólki sem hefur frekar litla eða jafnvel neikvæða evrópuvitund en um þá tegund vitundar hafa menn við Hí skrifað heilu doktorsritgerðirnar og eru skringifræði.


Eignarhaldsfélög stjórnmálamanna og síðbúið sorrí

Eignarhaldsfélög stjórnmálamanna halda aðalfundi sína og þar gerast stórtíðindi. Geir H. Haarde fráfarandi formaður sem hefur margoft lýst því yfir að flokkurinn hafi alltaf gert allt rétt biðst nú fyrst afsökunar. Flokksmenn eru ánægðir með að hann skuli fyrst viðurkenna þessa mistök á innanhússfundi í flokknum en það er síðan flokksins að biðja þjóðina afsökunar.

Flokkshöllum þykir þetta vitaskuld orðhengilsháttur og auðvitað skiptir þetta engu stóru. Við erum öll jafn blönk hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn segir sorrí en óneitanlega er þetta kúnstugt að Geir skuli ekki standa þjóðinni reikningsskil gjörða sinna...


Gamla kratastefnan í ESB málum samþykkt í öllum fjórflokknum!

Nú hefur ESB-sinnum tekist að berja í gegnum allan fjórflokkinn þá stefnu að efnt skuli til ESB kosninga. Það er smá útfærslumunur á því hvenær og hvernig þær kosningar skuli haldnar en allir flokkarnir hafa gert að baráttumáli sínu þá gömlu draumsýn esb-krata að byrja á kosningaferli sem aðeins getur endað á einn veg. Þegar lýðræðishugsunin er sú að kosið skuli þar til "rétt" niðurstaða er fengin þá er alveg ljóst að ESB-sinnar hafa sigrað um leið og menn samþykkja að byrja leikinn. Það  breytir engu þó að þjóðin segi einu sinni nei, bara smá töf á ferlinu. 

Framan af síðasta kjörtímabili var það einmitt stefna Samfylkingarinnar að knýja fram atkvæðagreiðslu um það að senda sendinefnd út til Brussel. Þessa sömu stefnu tók ESB sinninn Birkir Jón upp í Framsóknarflokknum á síðasta vetri og varð upphaf að þeim klofningi sem endaði með afsögn Guðna Ágústssonar síðastliðið haust.

ESB andstæðingar í bæði Sjálfstæðisflokki og VG hampa því að þeir hafi unnið mikla sigra vegna þess að í flokkssamþykktunum er jafnframt tekið fram að flokkar þessir telja að hagsmunum Íslands "hafi verið" betur borgið utan ESB en athygli vekur að þetta er þátíðarsögn í ályktunum beggja flokka. 

Sjálfstæðisflokkur gengur reyndar heldur lengra í að tefja málið en hinir flokkarnir en það er töf sem getur orðið afar dýrkeypt eins og ég bloggaði um í morgun.


Ábyrgðin er hjá EES

Þrátt fyrir seinar afsakanir eru athyglisverðir sprettir í landsfundarræðu Geirs H. Haarde og hann staðfestir nú og enn og aftur þá skoðun sína að EES samningurinn er mestur orsakavaldur bankahrunsins á Íslandi. Með honum voru innleiddar reglur sem engan vegin geta hentað litlu hagkerfi - og reyndar vafamál að þær henti nokkru hagkerfi.

Hitt atriðið sem vakti athygli mína í ræðu Geirs voru hugmyndir hans um tvær atkvæðagreiðslur. Nú er mjög líklegt að það yrði samþykkt af meirihlutanum að leyfa ESB sinnum að fara í viðræður. En um leið og samninganefndin færi til samninga með slíka atkvæðagreiðslu bakvið sig þá veikir það stöðu hennar til samninga,- með vissum hætti væri samninganefnd ESB með þann meirihluta á bakvið sig í því keppikefli að það yrðu að takast samningar. Þessvegna er hugmyndin um forkosningu fyrir samningaviðræður afar vanhugsuð.

Það mætti aftur á móti velta fyrir sér sérstakri atkvæðagreiðslu um það hvort þjóðinni sé alvara með að afnema fullveldisákvæði Stjórnarskrárinnar.

Verkefni dagsins er aftur á móti að fá fram endurskoðun á EES-samningnum sem kannski er lag til eins og Jón B. Lorange hefur bent á.


Bókaverslun ríkisins og heilbrigð samkeppni

Sigurður Salvarsson skrifar ágæta grein um okkur bóksala í Morgunblaðinu í dag og ég vil þakka hlý orð í okkar garð. Ég er samt hugsi yfir þeirri sannfæringu greinarhöfundar að ríkisbankanum Kaupþingi beri nú að gera allt sem hægt er til að halda lífinu í þeirri keðju bókaverslana sem nú eru komnar á ríkisframfæri.

Ég hef sem bóksali keppt við þessar verslanir og mátt hafa mig allan við að bjóða sambærileg verð. Ég vissi ekki í fyrra og hitteðfyrra að ég væri að keppa við búðir sem ætluðu svo að senda reikninginn fyrir sínum undirboðum til ríkisins, á skattgreiðendur. 

Ég hefi fyrr kallað eftir því að við uppgjör kreppunnar verði réttlæti kapítalismans látið gilda. Það er engin önnur leið til og ég held reyndar að það geti skapað gríðarleg sóknarfæri fyrir lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki að glannakeðjurnar fái að fara veg allra vega. 

Að þessu sögðu vil ég samt taka undir með Sigurði að vissulega eru margar þessar verslana miklar menningarstofnanir. En þær verða það ekki síður þó að þær verði reknar hver fyrir sig innan þess eðlilega ramma fyrirtækjarekstrar að hver verðleggi sína vöru í heilbrigðri samkeppni í samræmi við það að geta staðið skil gagnvart sínum skuldunautum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband