Frábær fundur í Eyjum

Tíundi og síðasti sameiginlegi fundur okkar frambjóðenda í prófkjörinu var
í Eyjum nú á þriðjudagskvöldi. Skemmtilegir fundir en undir endurteknum
ræðum ágætra keppinauta gefst tími til að hugsa og skrifa. Eftirfarandi
skrifaði ég á þessum fundi í kvöld...

Sjálfumglaðir eins og Neró

Við fundum í Akóges salnum í Eyjum og meira að segja hér finna menn fyrir
fólksfækkuninni. Sal þennan á klúbbur sem er með föstum félagafjölda. Einn
kemur inn þá annar fer og aldrei verið vandamál að fylla í skörðin,- ekki
fyrr en núna í fækkuninni, segir viðmælandi minn í fundarbyrjun.
Ástandið hér í Eyjum er löngu orðið svo grafalvarlegt að hálfpartinn
finnst mér eins og við séum hér í hlutverki Nerós. Byggðin hér hangir á
bláþræði og við efnum til framboðsfundar til þess eins að mæra okkur
sjálf. Neró sat á þaki og lék á fiðlu meðan borg hans brann.
Nú kann ég ekki ráðin til að rífa upp byggð í Eyjum eða annarsstaðar í
jaðarbyggðum landsins. En fyrsta skrefið í þá átt er pólitískur vilji.
Framsóknarmenn hafa verið hálfvegis ragir við að halda fram hagsmunum
landsbyggðarinnar. Sumir þeirra vilja jafnvel trúa því að sveigja verði
frá gömlu framsóknargildunum til þess eins að laða til fylgi á
höfuðborgarsvæðinu. Sem ekki tekst með þeim aðferðum.

Skattakerfi til byggðajöfnunar

Fylgi á höfuðborgarsvæðinu nær Framsókn ef flokkurinn kannast við sínar
gömlu hugsjónir og þorir að berjast fyrir hagsmunum hinna dreifðu byggða.
Bæði í Breiðholti og Vesturbæ búa fjölmargir einarðir talsmenn
landsbyggðarinnar.
Slagkraftur íslenskra stjórnvalda í byggðamálum hefur lengi verið lítill.
Málið er ekki í tísku. Því er jafnvel haldið fram að í sértækum
byggðaaðgerðum felist mismunun þegnanna. Ekkert er fjær sanni. Enginn
efast um að skattakerfið eigi að vera til lífskjarajöfnunar þegnanna. En
það á líka að vera til lífskjarajöfnunar byggðanna. Hagvöxtur er
gríðarlegur í byggðum næst Reykjavík en samdráttur víða í jaðarbyggðum.
Jöfnunartækifærin eru fjölmörg með skattaafsláttum á landsbyggðinni,
niðurgreiðslum til dæmis á flutningi og beinum fjárframlögum þar sem það á
við.
Þvert á þetta hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að
verkefnatilflutningi frá landsbyggð til höfuðborgarinnar. Og frá minni
byggðarlögum til hinna stærri. Til baráttu gegn þessu þarf
Framsóknarflokkurinn að sýna kjark sinn, vilja og hugsjónir. Enginn annar
flokkur er til þess líklegur.
Náttúruhamfarir náðu ekki að eyða byggð í Heimaey. Við megum þó ekki trúa
því að andvaraleysi í pólitík geti ekki aleytt henni. Við börn 21.
aldarinnar fengum Ísland að léni frá áum okkar albyggt utan miðhálendis og
Jökulfjarða. Vissulega geta og mega áfram verða lítilsháttar tilfærslur í
byggðalínunni en ef við ætlum að skila Íslandi til komandi kynslóða sem
borgríki við Faxaflóa hefur okkur illa farist.

Bjarni Harðarson

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Frábær skrif, hreifa við landsbyggðamanni eins og mér

Hef lengi sagt að einn stærsti vandi landsbyggðarinnar er hversu dýr innanlands flutningurinn er og ef það væru bara felldir allir skattar af flutningum myndi það vænka hag landsbyggðarinnar.

Fyrir nokkrum árum var mér sagt, hvort sem það var satt eða logið, að það væri fjórum sinnum ódýrara að senda skyr með skipi til Danmerkur frá Akureyri heldur en með bíl til Reykjavíkur.

Ef við náum niður verði á flutningum þá vænkast hagur fyrirtækja út á landi og eiga þau meiri möguleika í samkeppni við fyrirtæki bæði á höfuðborgarsvæðinu og erlendis, eins myndi allt vöruverð lækka út á landi sem myndi laða að fólk.

Ágúst Dalkvist, 18.1.2007 kl. 00:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband