Þegar guð brosti til smælingjanna

pvbqpnqrcl_draugasetri_fekk_menningarver_lunin_2006.jpgTveir af mínum kærustu vinum, Benedikt Guðmundsson Tyrfingssonar og Þór Vigfússon áttu afmæli í gær og héldu það heilagt á Draugabarnum þar sem saman var komið fjölmenni og þrátt fyrir ræðubann var ég rekinn upp á svið og til þess að brjóta ekki ræðubannið flutti ég eftirfarandi um þá félaga sem eru báðir Selfyssingar en rekja ættir til fátækra og heiðarlegra sveitamanna og endalausrar sögu sem ég reyndi af vanmætti að festa í mynd og var samt ekki með myndavél þannig að myndin hér á vefnum er gömul og segir frá henni hér neðar, en hér kemur pistillinn:

Hvað eiga bæirnir Stekkholt í Biskupstungum
og Kálfholtshjáleiga í Holtunum sameiginlegt
annað en að þar tróðu moldina í þúsund ár
kiðfættar og fjólubláar hrossætur
undir endalausum útburðarvæl
,

fyr útsynning sem stundum varð endalaus
eins og vorsulturinn
og tíðindaleysið.


Nema álfkonur sátu hlakkandi
á gránibbu og röktu garnir 
og vélindu úr óþekkum 
niðursetningi.

Og húsfreyjan rúmliggjandi á annan áratug
og ól samt bónda sínum
tólf börn og einn þeirra 
var umskiptingurinn sem hló
við tungli.

En stafkarlar gengu á vatni og

kýrin gerði það eina gagn í sulti sínum
að segja börnum sögur á jólanótt
löngu eftir að kertið var útbrunnið
og soginn mergurinn úr gamalánni
sem fannst uppþembd
í bæjarlæknum í vikunni á undan hinni vikunni,  

sem var í vikunni áður en

presturinn kom ríðandi á glófextu
og hafði yfir feitu andlitinu skelmissvip
eins og Múhameð Gaddafi.

Allt eru þetta senur úr gærdegi í lífi
þeirra heiðursmanna sem ekki gátu orðið
annað en góðmenni svo mjög sem á brunnu
áheit frá margvisum ömmum
hvísl frá draugi sem faldi sig í vorvindinum
og andvarp djúpt innan úr heygaltanum.

Mest samt endalaust ættgöfgi þeirra manna

sem komnir voru af írskum þrælum og áttu
stórriddarakrossa merkta á bak sér
af illa lyntum böðli og drukknum sýslumanni,

manna sem hlógu
daginn sem þeim var neitað um úttekt
í henni Eyrarbakkahöndlun
og hrintu Flóðalabba ofan í Markarfljót
þegar hann þvældist fyrir dróginni þeirra
sem ekki var annað en beinin og sitt pundið af hvoru
einasta á hnúskóttum kattarhryggnum,

sem gömul frænka á prestsetrinu
hafði laumað framhjá stoltinu
að þeim fátæka
og samt var allt gott.

Nema hvað það var leiðinlegt
að vera búinn úr kútnum í miðjum Flóa
og vakna hálfur ofan í dælu
en samt svo fastur liður og dásamlegur hluti tilverunnar
að kannski var ekkert betra
nema bara að mega þukla 
þá botnóttu um bógana á vori sem hún var ekki reisa
sem bara gerðist í góðu vori,

þegar guð brosti til smælingjanna
þannig að þeir fundu þá hamingju
sem hreppstjórinn vissi ekki
að var til.

Og var kannski alls ekki til nema hjá þeim
armingjum sem var í beinu sambandi
við drauga og forynjur þær
sem allir vita nú að voru aldrei til
rétt eins og allir þá vissu að aldrei
yrðu hér í endalausri mýrinni
til þeir hamingjudrengir sem
nú sem brosa við veröldinni í dag,

í sínu afmæli

algerlega jafnaldra þó að tímamunur í Tungum og Holtum
hafi varnað þeim að fermast saman.

Skál. 

(Á myndinni sem er gömul er ég með blómin
en ekki afmælisbörnin en þannig er það oft

í verunni að sá sem á að fá blóm fær ekkert

og Inga Lára lengst til hægri er hálf
prakkaraleg af því að hún fattar
hvað þetta á eftir að
verða skrýtilegt allt sem flest verður)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Var þá Guð að brosa til þín þegar þú varst settur á launaskrá hjá ráðuneytinu,eða var það bara Jón?

magnús steinar (IP-tala skráð) 3.4.2011 kl. 10:21

2 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Mergjuð samsetning Bjarni. Takk fyrir að deila henni hér.

Svanur Gísli Þorkelsson, 3.4.2011 kl. 10:22

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ný útgáfa Íslandssögunnar og líklega ein sú skársta. Takk fyrir mig þótt ég ætti ekki afmæli.

Árni Gunnarsson, 4.4.2011 kl. 09:59

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Takk fyrir þetta Bjarni, við hjónin komumst ekki í afmælið eins og síðast, svo það er gaman að sjá þetta hjá þér.

Ásdís Sigurðardóttir, 4.4.2011 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband