Hélað land í holtstöglum Himalaja

helaLandið utan við lestargluggann er hélað. Fallega mótaðar mykjukökurnar sem nota á í brenni eru gaddaðar ofan í svörðinn, klakaskán í pollum. Það er harðavetur í Pakistan. Fjallaskörðin hér ofar hulin snjó. Vinir mínir í Rawalapindi hrista höfuðið þegar ég segi að mig langi upp til Gilgit og helst enn ofar þar sem búa bláeygir og heiðnir afkomendur Alexsanders mikla. Ekki núna, kannski eftir tvær vikur.

Þessvegna er ég á leiðinni til Lahore með frosnar tær í fyrsta klassa í hraðlest sem stoppar í hverju þorpi. Nestaði mig af peningaseðlum í City Bank í Islamabad í gær. Eftirfarandi var hljóðritað á götu í Rawalapindi:

- City Bank, Blue area.

- Blue area.P1200001

- Yes, City Bank.

- City, yes, blue area.

- City bank.

- Yes, city, yes, city bank, don‘t vorry. City, blue area. Bank, yes, yes.

Ég enda á að ganga 5 kílómetra eftir endilöngu viðskiptahverfi Islamabad sem er ræma milli tveggja breiðgatna. Hverfið er algjör andstæða hinna austrænu borga, allt stórt, víðáttumikið og hvergi þrengsli af fólki. Suðurlandsbrautin er líflegri.

Á áfangastað bíður mín orðsending á dyrum hraðbankans. Hér er tekið við framlögum til styrktar forsetanum Asif Al Sardari sem þarf að svara til saka fyrir dómstólum. Svona á að gera þetta, Geir, hugsa ég í prakkaraskap. Ég tek út 40 þúsund rúbíur sem jafngildir nærri 60.000 þúsund íslenskum krónum. Minna má það ekki vera eftir 5 kílómetra labb!haena

Þá er nú þægilegra að vera í lest og láta færa sér kjúkling með tómatsósu. Vindsorfnir leirkambar minna á kúrekalandslag, eins og örmyndir af klettum í Arizona. Héðan koma þorpin, kynslóðirnar hafa tekið hér leir í húsbyggingar sínar og vindurinn séð um listaverkin sem verða eftir. Sorphirða er hér ekki tilefni spillingar, verkfalla eða útboða eins og víða í hinum vestræna heimi. Sorpi er einfaldlega ýtt út fyrir lóðamörk og myndar þar hvítar plastskellur í landinu. Plastið er leiðinlegur eldsmatur en flest annað fer undir pottana.

Fyrir níu að morgni er öll héla farin, hérna niður á 500 metra hárri sléttunni í holtstöglum Himalajafjalla. Ofar eru byggðir í þúsunda metra hæð huldar snjó.

Mynd 1: Morgunkulið út um lestarglugga.

Mynd 2: Á leið í City Bank.

Mynd 3: Morgunmatur í lest.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband