Ahmed og Óli Ket

P1200020Ahmed leigubílstjóri er kominn af léttasta skeiði og ber með sér að hafa lært að keyra hjá Ólafi Ketilssyni. Kannski ekki þessum sem bjó á Laugarvatni en þá andlegum bróður hans. Hann á sér þá meginreglu að aka fremur hægt og þegar sést í hvít brotin strik á malbikinu hefur hann þau sem næst undir miðjum bíl. Þessi akstursaðferð hefur ótal kosti, meðal annars þegar skipta þarf um akrein án þess að líta í spegil. Sá sem er þannig búinn að helga sér tvær akreinar getur fyrirvaralaust valið aðra.

Hraðbrautin milli Islamabad og Rawalapindi er áttbreið og umferðarþunginn er mikill. En þegar tappar myndast á þessari miklu samgönguæð þá sést vel hvað aðlögunarhæfileiki leigubílstjóranna er mikill. Í stað þess að mynda 8 einfaldar raðir er fjöldi bíla í hverri breidd misjafn, allt frá fimm upp í fjórtán. Svo er flautað.

Í vegköntum eru vopnaðir hermenn, tilbúnir ef Talibanar og Phastunar láta sjá sig - sem þeir vitaskuld ekki gera.

Ég tek Ahmed í mína þjónustu í höfuðborginni Islamabad en þaðan til Rawalapindi er ekki lengra en neðan af torgi suður í Hafnarfjörð. Karl veit ekkert hvar Antepara hótelið er niðurkomið og keyrir inn á nálæga bensínstöð. Hann fær hjá mér nafnspjald hótelsins og saman fara hann og nokkrir bensínafgreiðslu að bollaleggja um þetta. Svo koma þeir auga á símanúmer og ákveða að hringja á staðinn. Rétta mér svo símann. Ég rétti þeim hann aftur og segist ekki vilja tala við hótelið þar sem enginn talar heldur ensku heldur bara komast þangað. Þar fór það. Stundum verður vandræðagangur heimamanna gagnvart útlendingum broslegur en broslegastir eru sjálfsagt við þessi bakpokalýður sem mætum hingað mállausir og bjargarlitlir.

Ferðin er ævintýri og það er oft stoppað til að rýna ofan í nafnspjaldið. Í lok ferðar gerir hann heiðarlega tilraun til að rukka mig um fjórfalt gjald sem ekki tekst. En þeir fiska sem róa og við skiljum vinir.

Mynd: Fyrir utan gluggann minn í Rawalapindi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábært að lesa þessar ferðasögur þínar, kannski ég smitist af því og leggi í leiðangur með bakpoka einn daginn. 

Hafðu það gott!!

Ásdís Ýr (IP-tala skráð) 21.1.2012 kl. 19:39

2 Smámynd: Hjalti Tómasson

Frábært. Hlakka til að fylgjast með ferðalagi þínu

Kveðja úr snjónum

Hjalti Tómasson, 21.1.2012 kl. 20:07

3 identicon

Það er aldeilis frábært að fylgjast með þér og þínum hugrenningum á ferðalaginu Bjarni, svo skemmtilegt, hér alein og skellihlæ. Færni þín til að meitla hugsanir og semmingu í orð er mögnuð. Góða ferð áfram!

Alda Árnadóttir (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband