Matur og almenn bilun

tn_matur

Matur hér í Pakistan er með afbrigðum góður, vel kryddaður og fjölbreyttur. Fyrir 100 krónur íslenskar má fá fullkomna máltíð hjá götusala. Ódýrari veitingastaðir eru opnir út á götu, þ.e. framhliðin er bílskúrshurð sem rennt er upp þegar opnað er. Þar fæst prýðilegur kjötréttur fyrir 250 krónur. Grænmetis- og fiskréttirnir eru reyndar á svipuðu verði, það munar ekki miklu.

Í kulda og trekk eins og er hér uppi í Himalajafjöllunum er auðvitað betra að borða einhversstaðar inni við, bakvið lokaðar dyr. Þá fer verðið á máltíðinni upp í 700 kr.

Ég lýg þessu að vísu með trekkinn en það er reglulega kalt þar sem ég er núna í 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Í dag hellirigndi og í smástund var gjóla sem heimamönnum finnst vera rok því það er fátíðara hér en heima.

En rakinn í loftinu er mikill og maður finnur því fyrir kuldanum þó að það sé ekki nema rétt um frostmark. Þetta er vitaskuld bilun að fara úr þræsingnum heima upp í vetrarríki í Himalajafjöllum.

En ég var að tala um matinn. Lambakjötið hér er nú þannig að íslenskir bændur mega passa sig – þeir kalla það mutton, eldað í spaði með beinum og vel kryddað. Það vekur athygli mína að lambið er talsvert dýrara en nautakjötið en ódýrust er hænan sem er gríðarlega mikið étin. Niður á sléttunum, í Lahore og Multan fæst reyndar ekki annað en hænsakjöt og meira að segja hamborgararnir þar eru með kjúklingi.

En það er nú annað hér í uppsveitunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

...potturinn er sannkallaður ,,Grýlupottur"!

Elín Gunnlaugsdóttir (IP-tala skráð) 13.2.2012 kl. 20:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband