Flokkakerfið er meinsemd

Sá mæti blaðamaður Sigurður Bogi Sævarsson skrifaði nýlega í pistli hér í Morgunblaðinu um mátt stjórnmálamanna í baráttunni við kerfið og peningaöflin. Hann tók þar dæmi af Clinton Bandaríkjaforseta og segir m.a.:

... Bill Clinton hefði eftir forsetatíð sína á margan hátt þurft að játa sig sigraðan. Ýmis mál hefðu ekki náð í gegn, sakir fyrirstöðu fjármálaafla. Máttur peninga og manna á Wall Street hafi verið meiri en Bandaríkjaforseta, þó embætti hans sé stundum sagt hið valdamesta í heimi. Hugsjónirnar náðu ekki að sigra hagsmunina. Í því ljósi er því eðlilegt að spyrja hvort stjórnmálaflokkarnir íslensku hafi einfaldlega þann styrk að geta lagt til atlögu við banka, verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina sem varið hafa verðtrygginguna af öllum mætti. Þessar stofnanir eru máttugar en hinar pólitísku hreyfingar á margan hátt veikar.

Eins og oft áður hittir Sigurður hér naglann á höfuðið þegar kemur að vanda íslenskra stjórnmála. En það er þó ekki rétt að stofnanir stjórnmálanna séu í þessu efni of veikar. Það sem er of veikt er sjálfstæði stjórnmálamannanna sem starfa innan stjórnmálaflokkanna.

Vald til lagasetningar og framkvæmdavalds er innan stjórnmálaflokkanna en því fer fjarri að stofnanir þessar séu heilbrigðar lýðræðislegar stofnanir. Innan stjórnmálaflokkanna ráða hagsmunaöfl og peningaöfl ferðinni. Fáir komast til metorða í flokkum þessum nema vera þóknanlegir valdamiklum klíkum sem starfa innan flokkanna. Flokksþing eru oftar en ekki sambland af málfundi og skrautsýningu. Þeir sem ætla að hafa áhrif á gang mála hvort sem er við lagasetningu eða stjórnvaldsaðgerðir vita sem er að skilvirkasta leiðin liggur ekki um þingmennina sjálfa, hina rétt kjörnu handhafa valdsins heldur um „vinnuveitendur" þingmannanna, stjórnmálaflokkana.

Birtingamyndir þessa fyrirkomulags eru fjölmargar og þannig finnst mörgum eðlilegt að flokksbundnir menn og einkanlega hátt settir flokksmenn hafi greiðari og almennari aðgang að kjörnum fulltrúum heldur en almennir óflokksbundnir kjósendur. Þegar að er gáð er ekkert í okkar stjórnskipan sem réttlætir þannig hólfa- eða stéttaskiptingu kjósenda.

Margt af því misheppnaðasta í stjórn landsins á undanförnum árum má rekja beint til þess að þingmenn hafi með þvingunum og fortölum flokksræðisins verið sviptir sjálfstæði sínu og rétti til að fylgja eigin sannfæringu. Skýrast í þeim efnum er viðsnúningur VG liða í ESB máli en einkavæðing bankanna og samþykkt EES eru sama marki brennd.

Í ESB máli yfirstandandi kjörtímabils höfum við síðan fengið að kynnast því hvernig sterkir stjórnmálaleiðtogar geta í reynd nýtt flokksstofnanir sínar til þess að losna undan óþægilegum kosningaloforðum sem gefin voru öllum kjósendum en er eftir á breytt af litlum hópi þeirra.

Núverandi kosningakerfi er mjög hliðhollt flokkakerfinu og gerir t.d. einstaklingsframboð ómögulegt. Ein leiðin til framfara í þessum efnum liggur því um stjórnarskrárbreytingar á kosningakerfi en mikilvægast er þó lifandi vakning almennings fyrir því að hér er pottur brotinn og réttur allra kjósenda er sá sami. Við núverandi fyrirkomulag er eina leiðin út úr kerfinu að frambjóðendur bjóði fram í óháðum kosningabandalögum sem ekki mynda stjórnmálaflokk.

(Birt í Mbl 16. mars 2013) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Sæll Bjarni.Þú talar um að einstaklingsframboð séu ómöguleg samkvæmt núverandi flokkakerfi.Það er ekki alveg rétt.Lífið finnur sér alltaf farveg svo ég vitni nú í Jurassic Park.Það er einfaldlega hægt ,eins og ég hef minnst á áður, að hafa stjórnmálasamtök fyrir einstaklingsframboð og hafa forkosningar og raða mönnum þannig á lista samtakanna sem bjóða síðan fram á venjulegan hátt í Alþingiskosningum.Það er hægt að kalla þetta hjáleið.

Jósef Smári Ásmundsson, 16.3.2013 kl. 11:38

2 identicon

Flokkakerfið er jú stórgallað, en þar sem að breytingar gerast kannski best með litlum skrefum, þá er spurning hvort ekki sé einfaldast að hefja það með því að bjóða fram óraðaða lísta. Það er nefnilega skelfilegt að flokkarnir/"flokkseigendurnir" geti alltaf sett óhæfa aumingja í öruggu sætin og svo er stillt upp góðu fólki í baráttusætin.

Af hverju ekki að hafa listana óraðaða og kjósandinn raðar sjálfur í kjörklefanum, þannig þurfa þingmenn að vinna fyrir kjósandann en ekki stjórn flokksins sem hefur í hendi sér hvar þingmaðurinn lendir í röðinni á listanum.

larus (IP-tala skráð) 16.3.2013 kl. 14:25

3 Smámynd: Bjarni Harðarson

Sammála Jósef, ein leið til einstaklingsframboða er líka leið Regnbogans að bjóða fram án þess að stofna flokk. Gallinn við leið Lárusar er að það er ekki bara að einstaklingar geri kröfu um að vera í forystu lista, mjög margir er til í að vera á lista út á það að þurfa alls ekki að lenda í forystu en á óraðaða listanum eru allir í fyrsta sæti!

Bjarni Harðarson, 16.3.2013 kl. 16:38

4 identicon

Félagi Bjarni !

 Vissulega er oftar en ekki hrein hugsunarverð gullkorn í Morgunblaðinu - ella væri blaðið ekki hallt undir flokk flokkana - Sjkálfstæðisflokkinn !

 Hinsvegar er félagi, endemis staðleysa er þú skrifar:(  Reyndar í Morgunblaðinu í dag. " Það sem er of veikt er sjálfstæði stjórnmálamanna innan stjórnmálaflokkanna" Bull. Eða hvað segirðu um Steingrím J., sem ákvað upp á sitt eindæmi að VG skyldi styðja umsókn að ESB, og meirihluti þingmanna flokksins fylgdu sem strengbrúður ? !

 Við þann óheillagjörning urðu margir vandaðir heiðarlegir stuðningsmenn VG., mállausir af undran og .fyrirlitningu. Enda afleiðingarnar að koma í ljós. Flokkur sem fékk nær 20% atkvæða 2009, er að skríða í tæp 8% í skoðanakönnunum þessa dagana." Menn uppskera sem þeir sá."

 Já, menn urðu kjaftstopp af hneykslun  og undran, eða sem Rómverjar sögðu.: " Vox faucibus haesit" þ.e. " Hreint mállausir af undrun" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 16.3.2013 kl. 16:57

5 identicon

Eða reiðleið

Pirraður ekki Piratus né Pílatuss (IP-tala skráð) 16.3.2013 kl. 17:11

6 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

það sem lárus er að tala um með óraðaðan lista er í sjálfu sér það sem ég er að tala um sem forkosningar eða prófkjör.Forkosningar raða fólki á listann sem borinn er síðan fram.þetta eru í raun hinar eiginlegu kosningar.í ykkar framboði Bjarni ,Regnboðanum,sleppið þið þessum kafla að ég held.Verður þú ekki sjálfkjörinn í fyrsta sætið í Suðurkjördæmi?

Jósef Smári Ásmundsson, 16.3.2013 kl. 18:46

7 identicon

Afsökunin fyrir því að ekki sé hægt að breyta kerfinu er að það verði svo flókið.

Það sem ég var að tala um er nú eitthvað í líkingu við það sem norðmenn eru að gera núna. Þar hefur verið sú krafa að kjósendur fái meira vald. Núna er þetta óraðaða kerfi notað í sveitarstjórnar og fylkisþingskosningum þar og hefir gefist það vel að það stendur til að taka það upp í stórþingskosningum 2017. Núna geta flokkarnir "mælt með" tveimur einstaklingum sem fá forskot, þ.e. að atkvæði sem greidd eru þessum einstaklingum fá 25% auka vægi. Ergo ef flokkarnir velja einstaklinga sem enginn vill, þá "tapa" þeir þessum bónusum.

Kjósendur geta einnig valið þvert á lista, þ.e. þurfa ekki að velja alla sína kandídata af sama lista (ath. að það er misjafnt eftir kommúnum hversu marga þú átt að kjósa) og einnig að kjósandi getur líka bara merkt við lista án þess að raða, þau atkvæði eru talin síðust og sá kjósandi hefur þar með samþykkt listan sem hinir kjósendur hans röðuðu upp.

Það hljómar kannski ótrúlega fyrir íslendinga en þetta kerfi virkar og (a.m.k í Hordaland) komu ekki fram kærur.

larus (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband