Gegn fátækt á Íslandi

Nú á lönguföstu hefur farið fram mjög virk og mikil umræða um stöðu heimilanna í landinu og er það vel. Sitjandi ríkisstjórn hefur þrátt fyrir mörg góð verk brugðist í því verki að endurreisa fjárhag og eignastöðu heimilanna. Endurreisnarverkefni næsta kjörtímabils eru fjölmörg.

Heil kynslóð íbúðarkaupenda var við hrunið skilin eftir með neikvæða eiginfjárstöðu eftir að hafa keypt á þenslutíma og lent síðan í stökkbreytingu lána. Lítill hópur þessara fékk leiðréttingu fyrir atbeina Hæstaréttar en stór hluti situr eftir með óbærilega skuldastöðu. Eðlilegast er að stjórnvöld bæti úr með því að gefa embætti umboðsmanns skuldara raunverulegar laga- og fjárheimildir til að létta af ákveðnum skuldum eða niðurgreiða þær með almannafé. Flöt afturvirk endurgreiðsla getur vitaskuld aldrei náð til allra óháð tekjum og íbúðastærð enda er slíkt ekki endilega réttlátt.

Í framhaldi af aðgerðum í þágu þessa hóps þarf að losa um bönd verðtryggingar, tryggja stöðugleika og létta á landlægu vaxtaokri. Það var miður að ekki var notað tækifærið við gjaldþrot banka og bankakerfið dregið saman í eðlilega stærð miðað við fólksfjölda en hátt verðlag á vöru og þjónustu liggur öðru fremur í offjárfestingu í þjónustu- og verslunargreinum.

Stétt fátækra

En íslenskt samfélag á sér annan misgengishóp hrunsins sem er algert forgangsverkefni að mæta með skilvirkum aðgerðum. Staðreyndin er að það kostar okkur miklu mun minna en að mæta misgengishóp verðtryggingar en samt er umræðan um þennan hóp sáralítil. Kannski af því að hann þykir ekki nógu töff.

Þetta eru hinir lægst launuðu í landinu. Fyrir hrun voru heimili láglaunafólks og bótaþega á mörkum þess að geta framfleytt sér. Við kaupmáttarhrunið 2008 lenti þessi sami hópur langt undir framfærslumörkum með tekjur sínar og hefur síðan átt um sárt að binda. Sitjandi ríkisstjórn hefur vissulega komið lítillega hér til móts en miklu betur má ef duga skal

Skilvirkasta leiðin er vitaskuld hækkun skattleysismarka og í framhaldinu þurfum við að lækka og helst afnema matarskatt.

Skömm Íslands

Þegar horft er til þess hverjir töpuðu mestu í hruninu verða ef til vill á vegi okkar gamlir og ærulausir útrásarvíkingar. En þeir hinir sömu áttu í leyni poka með skotsilfri. Sá hópur sem lifir við nauð eftir hrunið eru þeir sem lægstu tekjurnar hafa. Lægstu launin gátu dugað fyrir húsaleigu og mat á velmegunartímanum meðan krónan var sterk en eru langt frá því marki nú.

Skömm okkar er mikil að á sama tíma og við heyrum af stórfelldum kjarabótum hálaunaaðals og sérgæðinga sitja hinir lægstu enn eftir og við tökum því sem gefnu að hér sé stór hópur réttlítilla bónbjargarmanna.

(Birt í Morgunblaðinu 21. mars 2013)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Félagi Bjarni !

  " .... sitjandi ríkisstjórn hefur .... brugðist því verki að endurreisa fjárhag og eignastöðu heimilanna".

 Get ekki verið meira sammála þér félagi !

Minni á, að þetta skrifar í dag fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra í núverandi ríkisstjórn, og það í dagblaði " íhalds-punganna" og kvótakónganna, Morgunblaðinu !

 Í stað þess að slá skjaldborg um heimilini eru tekin lán á lán ofan, samanber 8,6 MILLJARÐA fyrir göng undir Vaðlaheiði, og þannig mætti lengi telja.

 Er nema von að hátt í 6000 manns - sex þúsund - hafi flúið land á s.l. 4 árum ?

 Síðan kemur  " Regnboginn" og fleiri og krefjast að " losað verði um bönd verðtrygginga" ( BH).

 Framsóknarflokkurinn mun léttilega bjarga slíkum smámunum, " aðeins" 240 MILLJARÐA þarf síðar að greiðast, og af hverjum ? Auðvitað skattborgurum þjóðarinnar. En fjöldi landsmanna hefur fundið nýjan " frelsara" - Framsóknarflokkinn !! ( nú myndi Hriflu-Jónas gleðjast !)

 Og BH heldur áfram " Verðlag og þjónusta... í offjárfestingum í þjónustu og verslunargeiranum".- - Hvílíkt endemis bull !

 Ástæðan liggur í nær endalausum skattahækkunum, jafnt á fyrirtæki sem einstaklinga.

 Fyrsta " skjaldborgar-velferðar" vinstri stjórn þjóðarinnar, veit hvað til hennar friðar heyrir ! 

 Mættum við að eilífu verða laus við ríkisstjórnir sem þá, er nú  innan fárra vikna geispar  golunni, eða sem Rómverjar sögðu.: ""Aeternum vale" - þ.e. " Kvaddir að eilífu" !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 21.3.2013 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband