Menningarlegir dagar og enn af göngum til Eyja...

ML -ingar hafa vinningar þegar ég ber saman þær tvær leiksýningar sem ég hef setið nú tvo síðustu daga. Fyrst Píkusögurnar sem eru svo sannarlega athyglisverðar, og síðan söngleikinn Í fyrrasumar eftir Mýrdælinginn Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, Jósu. Verkið var sýnt í Aratungu í gærkvöld og óhætt að hrósa þar tilþrifum fjölmargra. Sérstaklega gaman að sjá gamlan vinnudreng föður míns, Jóhann Pétur fara á kostum í aðalhlutverkinu... mlingar_leikhopur2007

Meira um það í Sunnlenska. En ég er svo sannarlega búinn að innbyrða menningu síðustu daga í mun stærri skammti en vanalegt er. Þar ber auðvitað hæst Caput tónleikar í Langholtskirkju þar sem frumflutt var verk eftir Elínu mína. Verk við ljóð eftir uppáhaldsskáldið hennar, Matthías Jóhannessen. Verk sem hefur kostað hana blóð, svita og tár og ótrúlegar efasemdir um eigið ágæti. (Smá ýkjur þetta með blóðið). En það er einmitt undir slíkum kringumstæðum sem bestu verkin koma og alveg fram á síðustu stundu var hún sannfærð um að þetta væri eiginlega alveg ómögulegt og bætti reyndar nýjum kafla inn í á sjálfan frumflutningardaginn. Árangurinn lét heldur ekki á sér standa og verkið þótti með eindæmum gott. Og er það. Ég stóð eins og jólatré á kirkjugólfinu og tók við hamingjuóskum fyrir hennar hönd og fyrir það að eiga svo frábæra konu. Það eru mörg hlutverkin sem okkur eru ætluð í lífinu. Ég er hafður fyrir frambjóðanda, bóksala, álitsgjafa, blaðaútgefanda og margt fleira. En ljúfasta hlutverkið er samt þetta að vera bara Bjarni hennar Elínar!

Svo getum við endalaust velt fyrir tilganginum. Tilganginum með menningunni. Ég er sjálfur löngu sannfærður um að grundvöllur velmegunarinnar er einmitt með listsköpuninni, óskiljanlegum nýlistargerningum, þungmeltum bókmenntatextum, klessuverkum og tónverkum sem brotabrot af þjóðinni fylgist með. Ekki grundvöllur vegna þess að af listsköpunin skapist einhver afleidd störf, bísnes og málverkauppboð. Heldur grundvöllur vegna þess að grunnurinn að allri velmegun er frjó hugsun og hún þrífst ekki þar sem ekki er öflugt listalíf. Listin smitar út frá sér og af henni sprettur kjarkurinn til útrása, þorið til að takast á við hafið, landið og heiminn allan.

Þessi frjóa hugsun þarf reyndar margt. Sjálfstraustið, sjálfsmyndina og sjálfstæðið. Og til þess að íslensk þjóð hafi þessa sjálfsmynd í lagi þarf reyndar fleira en öflugt listalíf, góða menntun, já og stóran Framsóknarflokk þó ég fái ekki alla til að skilja það.

Og það þarf byggð hringinn í kringum landið. Ef við klúðrum því þá er stutt leiðin til helvítis. Ég hef ekki trú á því að það verði sami kraftur í íslenskri borgríkisþjóð við Faxaflóann eins og verið hefur í þjóð þeirri sem byggir landið hringinn um kring. Stór hluti af því að við sækjum fram og erum það sem við erum er þessi blanda af montnum Þingeyingum, hrelljóttum Eyjamönnum, stirfnum Vestfirðingum og hjákátlegum Sunnlendingum.

Og það er þessvegna sem ég held að það séu sömu rök fyrir að byggja Tónlistarhús í Reykjavík og jarðgöng til Vestmannaeyja. Hvorutveggja mun leggja grundvöll að velmegun okkar. Íslenskt samfélag án Vestmannaeyjasamfélagsins er verulega brogað. Vöntunarlegt og vansælt. Þannig eigum við ekki að skila því til afkomenda okkar... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innilega til hamingju með hana Elínu þína, það er svo gott að eiga góðan maka sem maður getur verið stoltur af og liðið vel með.

Ásdís Sigurðardóttir, 20.3.2007 kl. 12:34

2 identicon

Bestu hamingju óskir til  Elínar og þín.

Þetta með göngin til Eyja er nú tóm tjara. Að grafa göng um virkt eldgosabelti er svo arfavitlaust að það tekur engu tali. Auk þess vita allir að berglög í gosbeltinu eru hriplek. Þá er nú flottræfilshátturinn í byggingu tónlistarhúss skárri.

Hörður Vignir Sigurðsson

Hörður Vignir Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 17:41

3 Smámynd: Bjarni Harðarson

er ekki heil reykjavík byggð á jafn virku gosbelti!?

Bjarni Harðarson, 20.3.2007 kl. 18:04

4 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hjartanlega sammála Herði varðand þetta arfavitlausa rugl um göng til eyja versus tónlistarhús og ef ekki er hægt að halda byggð í eyjum án þeirra verður svo að vera........

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.3.2007 kl. 18:35

5 Smámynd: Karl Gauti Hjaltason

Jamm ... Skemmtilegt og uppbyggilegt viðhorf hjá Hafsteini og Herði.  Þeir verða líklega tveir hlið við hlið að hlusta á hámenninguna.

Karl Gauti Hjaltason, 20.3.2007 kl. 19:06

6 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ef Karl Gauti kallar það "uppbyggilegt" og að ég tali nú ekki um "skemmtilegt" að ætla þjóðinni að fara að bora göng þarna út, fyrir hvort heldur er, 40 eða 100 milljarða þá verður hann að eiga það við sig og aðra eyjamenn..........

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 20.3.2007 kl. 19:37

7 identicon

Þarf ekki líka að endurreisa byggðina í Breiðafjarðareyjum og grafa göng frá Stykkishólmi að Brjánslæk? Ísland án Breiðfirðinga er ekkert alvöru Ísland.

Atli (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 21:47

8 identicon

Göng til Eyja kosta 15-25 milljarða og Herjólfur kostar 800 milljónir á ári svo þetta greiðist upp á 30 árum.  Hvaða hagfræði er þetta ?

Eyjamaður (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 12:38

9 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hvurslags hundalógík er nú það að halda fram eins og ekkert sé sjálfsagðara, að þessi göng kosti 15-25 milljarða þegar það liggur fyrir að það hefur enginn þessa tölu og þær sem nefndar eru, eftir að búið er að henda tugum milljóna í að reikna, eru allt uppí 100 milljónir....?

þetta hefur ekkert með hagfræði að gera, held ég, enn sem komið er, það þarf að henda stórum peningum enn í rannsóknir og útreikninga og sennilega vita menn nóg núna til að henda ekki þeim peningum í bullið, hvað sem Árni vinur minn segir....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 21.3.2007 kl. 14:21

10 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Eg vil bara óska að það sem Vestmannaeyjingar vilja !!!!komist á koppin sem fyrst,þeira er valið/Göng eða ekki göng eða ferja skiplægi eð'a hvað /Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 21.3.2007 kl. 15:18

11 identicon

Þvílikt bull þessi grein þín um framtíðarlandið - og svo þykist þú vera umhverfissinni.. Er einhver svo vitlaus að trúa því að t.d. Framsóknarflokknum sé treystandi í þessum málum - af hverju heldur þú að þverpólitísk samtök eins og framtíðarlandið séu stofnuð. - Það er vegna þess að fólk er búið að fá upp fyrir haus. Þið froðusnakkararnir ættuð að hætta hræðsluáróðrinum og fara að hugsa..

Hallgrímur Jónasson

Hallgrímur Jónasson (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 11:57

12 Smámynd: Eiður Ragnarsson

Þú gleymir alveg sérlunduðum austfirðingum íúpptalningu þinni hér að ofan.........

Eiður Ragnarsson, 29.3.2007 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband