Hátíðlegt og formlegt...

Þá er að kveldi kominn fyrsti dagur minn sem sitjandi alþingismaður. Fyrsta þingsetningardagurinn var í senn lærdómsríkur og áhrifamikill. tingfl

Þingsalurinn sjálfur er fornlegur og fallegur, stólarnir góðir og umhverfið er vel tvævetrum sveitastrák úr Tungunum rafmagnað af viti, mælsku og skemmtilegheitum. Þó svo að stjórnin sé illa valin. Síst mátti þjóðin við því að skipa hægri krötum í stjórn með ómenguðu auðvaldinu og aldrei verður Reykjavíkuríhaldið hættulegra en í félagsskap með krötum. En ég ætlaði ekki að blogga hér um pólitík heldur lýsa tilfinningunni sem það er að vera þingmaður - nú á fyrsta degi.

Tala um þingsalinn. Hann er ekki bara skemmtilegur. Hann er líka undarlega fjarlægur öllu öðru með sínum fyrirdregnu gluggum og líkt og virki í heiminum. Auðvitað á þetta að vera svona enda gengi illa að halda uppi vitrænu þingi inni á Hressingaskálanum. Formfestan, þingverðirnir á ganginum, framandleiki hins upphafna og hátíðleiki í loftinu gera allt umhverfið fjarlægt hinu raunverulega lífi, líkt og fréttastúdíó í sjónvarpi eða flugstjórnarklefi í farþegavél. Það er eins gott að gera sér ljóst að þetta er ekki lífið, það er utan við sal þennan.

Auðvitað var ég stressaður áður en prósessían úr þinghúsinu hófst og aftur þegar kom að því að undirrita eiðstafinn sem hinn prúðmannlegi frændi minn Helgi Bernódusson gekk með millum okkar nýliðinna til undirskriftar. Á stundum fannst mér þetta óraunverulegt og að þetta skyldi vera ég, Laugarásvillingurinn gormælti sem sæti hér á sjálfu Alþingi Íslendinga. En  einmitt þá hugsun mun ég nota til að berja mig til þeirrar vinnusemi að ég eigi möguleika á að standa undir væntingum...

(Myndina hér að ofan tók vinur minn Sverrir Vilhelmsson ljósmyndari á Morgunblaðinu og vinnufélagi minn á Tímanum í gamla daga af okkur þingflokki Framsóknar í dag, talið frá vinstri ég, Birkir J. Jónsson, Valgerður Sverrisdóttir, Guðni Ágústsson, Siv Friðleifsdóttir, Magnús Stefánsson og Höskuldur Þórhallsson. Myndina tók ég af vef Sivjar þingflokksformanns.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gústaf Níelsson

Það er ánægjulegt að sjá þig gormæltan villinginn á þingi. Kannski er það bara vegna þess að ég hef þekkt þig í meira en aldarfjórðung. Að sönnu kann formfesta eitthvað að trufla óformlegan mann, en óþarft er að láta formið bera efnið ofurliði. Nú blasir við að láta gott af sér leiða, því þótt þú sést þingmaður framsóknar, ertu í leiðinni þingmaður allra landsmanna. Gangi þér allt í haginn.

Gústaf Níelsson, 1.6.2007 kl. 00:24

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Aftur til hamingju með þingsætið Bjarni.

Einhverra hluta vegna vissi ég það að þú yrðir í sama liði og ég þ.e. stjórnarandstöðu og því fagnar sú er þetta ritar.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.6.2007 kl. 01:04

3 Smámynd: Oddur Ólafsson

Hvenær kemur svo jómfrúarræðan?

Oddur Ólafsson, 1.6.2007 kl. 01:06

4 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þú varðst flottur i gær Bjarni og stóðst þig með prýði/Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 1.6.2007 kl. 10:43

5 identicon

Til hamingju með daginn, Bjarni Harðarson!

Þú tekur þig vel út á myndinni, hefðir þó mátt standa í miðjunni.

kv,

-h

H.Stefáns (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 10:53

6 identicon

Máttu mæla manna heillastur, en hafðu samt í minni það sem sagt var um Kolbrúnu Halldórsdóttur á hennar fyrsta ári, og talið í henni.

Nú þurfum við Framsóknarmenn að taka á því með alvöru stjórnarandstöðu og sýna fólki hvers vegna þetta þjóðfélag okkar er eins vel á vegi statt í dag og raun ber vitni.

Þó með þeim óskum að nýmætt stjórn keyri ekki allt á hliðina.

Með Framsóknarkveðjum frá Asíu, Kristján Guðmundsson. 

Kristján Guðmundsson (IP-tala skráð) 1.6.2007 kl. 21:26

7 Smámynd: Norðanmaður

Til hamingu Bjarni. Mér finnst þú einn sá besti framsóknarmaður sem er á þingi í dag.  Ég hef aldrei kosið framsókn, en samt vænti ég mikils af þér í stjórnarandstöðu.

Norðanmaður, 1.6.2007 kl. 23:58

8 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Þakka þér fyrir að segja sannleikann um slit Framsóknarflokksins á ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn í Blaðinu í dag.En þið Guðni hefðuð átt að gera það strax að loknum Silfur Egils þættinum.Nú legg ég það til að þið sem voruð í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi gangið í Vinstri Græna svo þið þurfið ekki að ljúga ykkur aftur inn á þing í næstu kosningum.En reyndar tókst ykkur ekki að ljúga að mér.Enn þú ert  heiðarlegur maður inn við beinið og átt skilið þakkir fyrir það.Hafðu gleðilegan sjómannadag þótt þú komir aldrei niður á bryggju.

Sigurgeir Jónsson, 2.6.2007 kl. 08:01

9 Smámynd: Heiðar Reyr Ágústsson

Já Bjarni, það er merkilegt að þið í Framsóknarflokknum skylduð ,,gerast sek" um sömu svik og trúnaðarbrest og þið sökuðuð Geir og sjálfstæðismenn um... og það ekki nema rétt þremur klst. eftir að endanlegar tölur voru birtar!

http://www.heidar.blog.is/blog/heidar/entry/228584/

En annars til hamingju með þingmannssætið!

Heiðar Reyr Ágústsson, 2.6.2007 kl. 15:42

10 identicon

Sigurgeir Jónsson hvetur Bjarna til inngöngu í Visnstri græn, en þá fengjum aldrei neina Sigmundsmynd af honum, því að  Vinstri græn má ekki teikna fremur en Múhameð. 

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 2.6.2007 kl. 20:18

11 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Vona að þér líði sem best á þessum indæla vinnustað. Það væri auðvitað alltaf gaman að fá þig til vinstri grænna, en ég á ekki von á að þú færir þig um set. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.6.2007 kl. 23:54

12 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Flott mynd, gangi þér vel á þingi frændi góður.

Ester Sveinbjarnardóttir, 3.6.2007 kl. 02:10

13 Smámynd: Þórir Kjartansson

Til hamingju með nýja starfið Bjarni. Ég vænti þess að þú lokist ekki um of inni í þessum hátíðlegheitum þinghússins, sem þú varst að lýsa. Því miður hefur mér fundist það henda margan góðan manninn að slitna svolítið úr sambandi við kjósendur sína, þegar þessum áfanga er náð.

  Besta kveðja frá Vík

Þórir Kjartansson, 3.6.2007 kl. 08:54

14 Smámynd: Sigþrúður Harðardóttir

Sæll Bjarni. Ég er ósammála þér með ríkisstjórnina. Tel fullvíst að Samfylkingin eigi eftir að ,,mýkja" íhaldið í mörgum mikilvægum málaflokkum, sérstaklega í velferðarmálunum.

En þó ég sé þeirrar skoðunar er ég samt ánægð með að þú skulir vera kominn á þing. Óstýrilátir Tungnastrákar eiga alls staðar heima.....

Sigþrúður Harðardóttir, 3.6.2007 kl. 10:54

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sæll og blessaður, Bjarni, og til hamingju með þingmennskuna. Ég var nú áhugasamur að vita, hvernig þér trúardaufum leið að sækja messuna í Dómkirkjunni -- var settur á þig flokksagi til að fá þig til að taka þátt í því, eða varstu bara of forvitinn til að geta neitað þér um það? Annars voru eftirmælin þín um séra Guðmund í Skálholt góð lesning -- gerðu þetta nú fyrir hann á gamals aldri, sem þú veizt að óskaði þér til handa; og ekki standa mínar bænir í vegi fyrir því. -- Lifðu heill og aldrei hálfur í andanum!

Jón Valur Jensson, 3.6.2007 kl. 22:14

16 Smámynd: Bjarni Harðarson

jón valur - ég er trúleysingi en hefi alltaf gaman af góðum stólræðum og fallegum söng - og ekkert í mínum prinsippum bannar mér að sitja messur!

Bjarni Harðarson, 4.6.2007 kl. 12:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband