Af þorskkvóta, fyrirtækjasósialisma og byggðamálum

Það er auðveldast að blogga um hégóma eins og það að ég ákvað að mæta í vinnuna í grænni skyrtu í dag,- þeirri sömu og ég var í við myndatökur í prófkjörsbaráttunni og skilaði mér vel þar. Nú er sjá til hvernig hún tekur sig út í þinginu,- eiturgræn og framsóknarleg. thorskur

Það er meira krefjandi að skrifa um mál málanna í dag sem er skerðing þorskkvótans og vanda sjávarbyggðanna í landinu. En áhugi á þeim vandamálum er samt það sem rekur mig til að taka þátt í pólitík. Við Íslendingar megum EKKI (orð þetta vantaði upphaflega í færsluna en er hér með bætt inn!) undir nokkrum kringumstæðum tapa svæðum eins og Vestmannaeyjum og Vestfjörðum úr byggð.

Það er einföld lausn að kenna kvótakerfinu og gloppum í vísindum Hafrannsóknarstofnunar um allt saman og segja svo bara; veiðum bara sem mest. Slíka stjórnarandstöðu geta þeir leyft sér vinir mínir í Frjálslynda flokknum enda held ég að þeir geri svosem ekkert ráð fyrir að verða nokkurn tíma kallaðir til þeirrar ábyrgðar að fara með völd í þessu landi. Staðreyndin er sú að við verðum að styðja sókn okkar í sjávaraflann þeim vísindum sem við höfum. Það er ekki valkostur að taka þá áhættu að Hafrannsóknarstofnun hafi ef til vill rangt fyrir sér og ef til vill megi hundsa ráð hennar. Hvað ætlum við þá að segja þegar síðasti þorsktitturinn hverfur okkur sjónum líkt og gerðist við Nýfundnaland?

Ég hef fylgst náið með umræðunni á bloggsíðu flokksbróður míns Björns Inga Hrafnssonar formanns borgarráðs og að mörgu leyti dáðst að hans viðhorfum í þessum málum. Hann varpaði fram þeirri djörfu tillögu um helgina að þegar kæmi að því að auka sóknina að nýju ætti að færa þær aflaheimildir beint til sjávarbyggða í vanda eða svo ég vitni orðrétt í ræðuna:

 Nú þegar blasir við að verulegur samdráttur verði í aflaheimildum við þorskveiðar á næsta fiskveiðiári virðist mér tímabært að stjórnvöld velti upp þeim möguleika, að þegar aðstæður leyfa að hámarksafli verði aukinn á ný, muni þeirri viðbót sem þá kemur til úthlutunar ekki verða sjálfvirkt skipt upp milli eigenda aflahlutdeildar heldur verði einnig skoðað að beita henni með markvissum hætti til að efla og styrkja með svæðisbundinni fiskveiðistjórnun stöðu þeirra byggða sem eiga allt sitt undir fiskveiðum og sjávarútvegi.

Síðan hafa margir rekið upp ramakvein, hæst reyndar fyrst þegar Morgunblaðsvefurinn eignaði þessi orð sjávarútvegsráðherra og útgerðarmenn sáu þar sæng sína útbreidda. Frjálshyggjumenn hafa óskapast og leiðarahöfundar Reykjavíkurblaða látið eins og stunginn grís. Björn Ingi hefur svarað þessari gagnrýni málefnalega á síðu sinni.

En samt, eins falleg og þessi tillaga er þá er ég ekki viss um að hún sé framkvæmanleg nema að mjög litlu leyti. Það er - við getum auðvitað tekið hluta af kvótanum á öllum tímum og úthlutan sem byggðakvóta og það ber okkur að gera. Heldur stærri hluta en við gerum í dag. En við getum ekki notað kvótakerfið í heild til byggðaráðstafana. Hér verður að fara mjög varlega. Það er einfaldlega mjög varasamt að ætla að leggja byrðar byggðastefnunnar óskiptar á herðar sjávarútvegsins.

Það er bæði varasamt sjávarútvegsins vegna sem er í lengd og bráð undirstöðuatvinnuvegur okkar. Sá atvinnuvegur verður þessvegna að vera arðbær og njóta þess frelsis sem nauðsynlegt er til þess að svo sé. Í öðru lagi er þessi stefna varasöm vegna þess að við gerum landsbyggðinni engan greiða með því að segja - ykkur reddum við með sjávarútveginum. Slíkur ríkisstýrður sjávarútvegur verður eins og ég man hann á þeim árum þegar ég byrjaði að fylgjast með pólitík, endalaust vandræða- og styrkjabarn stjórnvalda og staða sjávarbyggðanna verður eftir því.

Það er aukinheldur ekkert í hendi hvenær við getum aukið sóknina í þorskkvótann aftur og staðreyndin er að staða landsbyggðarinnar þolir ekki endalausa bið. Fjarri því. Við verðum þar að bregðast við með öðrum og skjótvirkari ráðstöfunum. Ég tel að við eigum að skoða nánar þær leiðir sem Norðmenn og fleiri Skandínavar hafa farið í sínum byggðamálum með lægri skattprósentu í jaðarbyggðum. Hljómar mjög róttækt að hafa hér tvennskonar skattaumhverfi en ég er samt viss um að slíkar ráðstafanir eru miklu mun ódýrari, skilvirkari og réttlátari heldur en sá fyrirtækjasósíalismi sem við höfum reynt að beita í mörg mörg ár með skelfilega litlum árangri. Meira um fyrirtækjasósíalistana og skattamálin síðar...

(Myndin er frá Hafrannsóknarstofnun og sýnir þann einstakling sem mestu uppnámi veldur.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Bjarni.

Til hamingju með þingsætið, jómfrúarræðuna og megi þér vel farnast í störfum þínum.

Ég er þér algjörlega ósammmála í ofangreindum skrifum þínum og ummælum þínum á Alþingi um fiskveiðistjórnunina.

Þú skrifar m.a.

"Það er einföld lausn að kenna kvótakerfinu og gloppum í vísindum Hafrannsóknarstofnunar um allt saman og segja svo bara; veiðum bara sem mest. Slíka stjórnarandstöðu geta þeir leyft sér vinir mínir í Frjálslynda flokknum enda held ég að þeir geri svosem ekkert ráð fyrir að verða nokkurn tíma kallaðir til þeirrar ábyrgðar að fara með völd í þessu landi. Staðreyndin er sú að við verðum að styðja sókn okkar í sjávaraflann þeim vísindum sem við höfum. Það er ekki valkostur að taka þá áhættu að Hafrannsóknarstofnun hafi ef til vill rangt fyrir sér og ef til vill megi hundsa ráð hennar. Hvað ætlum við þá að segja þegar síðasti þorsktitturinn hverfur okkur sjónum líkt og gerðist við Nýfundnaland?"

1. Í mínum huga er þetta alrangt hjá þér. Þín lausn er því miður "einföld"  en ótrúverðug, ófær og enskis nýt.

Af hverju?

Fyrst og fremst vegna þess að reynslan af þessu fiskveiðistjórnunarkerfi er ólygnust. Kerfið hefur engu skilað, það er ónýtt og óbrúklegt. Tilraunin hefur verið gerð með þetta "verndunar - og uppbyggingarkerfi þorststofns" á þriðja áratug, árangurinn minni en enginn, sífellt minnkandi þorskstofn. Að halda áfram þessari tilraunastarfsemi enn lengur, leiðir einungis til enn frekari ófarnaðar. Það er kominn tími til þess að stjórnmálamenn, sérstaklega stjórnmálamenn D og B lista, sem bera mesta ábyrgð á kerfinu, sýni kjark og viðurkenni mistök sín. Fiskveiðistjórnunarkerfið gengur ekki, það verður að leggja það niður, og endurskoða þessi mál frá grunni.

2: Það væri að mínu mati að sýna ábyrgð og kjark að viðurkenna mistökin og hætta að skýla sér á bak við svokallaðar "vísindalegar röksemdir" Hafrannsóknarstofnunar. Þessi aumingjaskapur stjórnmálamanna virðist fyrst og fremst felast í því að geta enn og aftur "varið" sínar röngu ákvarðanir í þessum máli í blóraböggulsskjóli "þessara afar ófullkomnu og gloppóttu vísinda Hafrannsóknarstofnunar". Stjórnmálamenn verða að hafa kjark til að taka ákvarðanir, þótt erfðar séu og oft og tíðum ekki í takt við "vísindi" eða almenningsálit.

3. Ég ráðlegg þér, í fyllstu einlægni, að setjast á nemandaskólabekk hjá Kristni Péturssyni á Bakkafirði. Hann hefur miklu meiri þekkingu en flestir aðrir Íslendingar á öllum þessum fiskveiðiverndunarmálum, byggðum á skýrslum, gögnum og tillögum Hafrannsóknastofnunar, ár frá ári frá upptöku fiskveiðistjórnunarkerfisins. Hverju tillögur stofnunarinnar hafa skilað og hverju ekki, hvernig þær hafa brugðist aftur og aftur og meira að segja hefur Kristinn mjög trúverðugar skýringar á því af hverju tillögur stofnunarinnar duga ekki, hafa ekki dugað og munu ekki duga til þess að byggja upp þorskstofninn við Ísland.

4. Það er kominn tími til að tillögur í Kristins anda verði reyndar í ca. 10 ár. Það getur ekki orðið verri niðurstaða fyrir þorskstofninn en nú er eftir um 25 ára kerfisrekstur og misheppnaða "þorskstofnsuppbyggingu" eftir og samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar.

5. Úthlutun framseljanlegra aflaheimilda er svo annað mál. Slík áframhaldandi úthlutun er bæði siðleysi og ósamrýmanleg þeim markmiðum að halda Íslandi öllu í byggð til frambúðar. Auk þess er það ekki hagkvæmt nema frá sjónarmiði aflaheimildahafa, ekki frá þjóðhagslegu né efnhagslegu sjónarmiði, taki menn allan kostnað þjóðfélagsins, sveitarfélaganna og íbúanna með í reikninginn. Þetta kerfi ber að leggja niður, því fyrr því betra.

Bestu kveðjur.

Guðm. R. Ingvason

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 13:44

2 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Það er nú alveg óþarfi að vera með blammeringar á Frjálslynda flokkinn í þessu sambandi Bjarni minn. Hann ber hér enga sök. Þeir sem bera ábyrgð og sök á því hvernig komið er í fiskveiðimálum þjóðarinnar eruð þið Framsóknarmenn ásamt Sjálfstæðisflokknum. Þær voru nú ekki ófáar þingræðurnar sem ég hélt um þetta á síðasta kjörtímabili og reyndi að segja ykkur að þið væruð að gera hlutina kolvitlaust í nýtingarstefnunni á þorskinum. Ég mætti bara þögn, hroka og háðsglósum frá félögum þínum. Það má því spyrja hverjir eru trúverðugir og ábyrgir í þessum málum. Við - eða þið - sem eruð nú búin að stórskaða byggð í landinu og lífsafkomu þjóðarinnar með hreinni heimsku sem á eftir að fara í sögubækurnar og verða ykkur til skammar á meðan land byggist. Lestu þingtíðindin þar fjallað er um sjávarútvegsmál á liðnu kjörtímabili. Ræður þingmanna Frjálslynda flokksins ættu að kenna þér ýmislegt. Gangi þér svo vel í þingstörfunum. Kveðjur bestar.

Magnús Þór Hafsteinsson, 6.6.2007 kl. 17:51

3 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Já, Bjarni minn, áhugi þinn á fiskveiðistjórnarmálum er górða gjalda verður þó að þú sért ekki kominn lengra á þroskabrautinni í þeim efnum en að geta ekki hugsað þau mál nema í hinni alræmdu kvótakerfisþráhyggju, sem byggir á gjafakvótaþulunni að hætti LÍÚ.

En nóg um það.

Í framhaldi af grein þinni ágætri hér að ofan langar mig að varpa fram þeirri spurningu, þér til íhugunar því ég held að þú viljir vera ábyrgur þingmaður: Ertu ekki sammála mér, í ljósi þess að þorskstofninn á undir högg að sækja, að loðnuveiðum verði alfarið hætt, a.m.k. næstu tíu árin? Enn fremur að veiðar með flotvörpu verði bannaðar innan 200 mílna lögsögu Íslands? Að mínu mati eru loðnuveiðar við þær aðstæður sem við búum við, sem og flottrollsveiðar, alvarlegt ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda. Það er nefnilega ekki nóg að skera niður þorskkvóta ef blessuð þorskskepnan hefur ekki nóg að éta.

Jóhannes Ragnarsson, 6.6.2007 kl. 17:59

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Sammála síðasta ræðumanni. Ef við ætlum að halda áfram á þeirri braut að veiða frá þorskinum  allt sem hann á að éta getum við  alveg sparað okkur að deila um hvað má veiða mikið eða lítið. Og svo í ofanálag sveltum við líka með þessu háttarlagi alla sjófugla í hel í leiðinni. Ráðlegg öllum að lesa viðtalið við Kristján Pétursson skipstjóra í MBL á sjómannadaginn.

Þórir Kjartansson, 6.6.2007 kl. 20:41

5 identicon

Bjarni !

Taldi, að þú hafir lesið ábendingu mína, um umsögn Gríms vélfræðings Markússonar, frá Borgareyrum um þorskins hátterni.

Tekur þú meira mark, á spéfuglum; eins og Jóhanni frænda mínum Sigurjónssyni og Birni Inga Hrafnssyni ? Um leið, og ég þakka þeim Hönnu Birnu - Magnúsi Þór og Jóhannesi fyrir skilvísar ábendingar, eins og þeirra var von og vísa.

Þetta er nú varla á svo fornu máli; hjá mér, Bjarni að þú getir ekki reynt, að svara þessu; eða hvað ?

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 20:53

6 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég vil byrja á að segja að ég fagna því að fá Bjarna Harðarsson á alþingi Íslendinga og óska honum alls góðs. 

Það er gott til þess að vita að hjarta flokksfélagana Björns Inga og Bjarna Harðar slær með sjávarbyggðunum.  Það er líka sérlega ánægjulegt og góðs viti að jafn réttsýnn maður og Bjarni er skuli láta sig varða um sjávarútvegsmál.  Minna skiptir þó hann sé greinilega að stíga sín fyrstu skref  á því sviði og telji enn að  kvótakerfið  sé til einhvers gagns fyrir þjóðarbúið.  Kjarni málsins er sá að maður með jafn yfirgripsmikla þekkingu á draugum  og Bjarni hefur óneitanlega mun fljótlega átta sig á annmörkum kvótakerfis.  Á því er enginn vafi. 

Sigurður Þórðarson, 6.6.2007 kl. 20:58

7 Smámynd: Jón Halldór Guðmundsson

Ég vil byrja á því að óska Bjarna til hamingju með kjör á alþingi og óska honum velfarnaðar þar. Ég hef lengi fylgst með málflutningi hans, eins og væntanlega landsmenn flestir og heyri að hann hefur mikið til brunns að bera.

Björn Ingi kom með þessa að mörgu leyti fínu tillögu á Sjómannadaginn, að nú þegar væri ákveðið að hinum illa stöddu sjávarbyggðum, sem eiga allt undir fiskveiðum, væri færður byggðakvóti, þegar unnt verður að auka kvótann á ný. Eða svo skil ég ívitnuð orð Björns Inga.

Þetta verður ekki unnt að gera núna, því við stöndum frammi fyrir því enn einu sinni að minnka kvótann, heldur seinna þegar aðstæður leyfa. Allir hljóta að hafa skilning á þvi að það er ekki hægt að gera þetta núna. Núna er samdráttur, - enn einu sinni.

Kvótakerfið var smíðað til að gera íslenskan sjávarútveg að markaðsvæddri grein, og það var ákveðið að láta ekki hagsmuni fiskvinnslunnar og byggðanna trufla það. Kannski voru það stærstu mistökin???  

Jón Halldór Guðmundsson, 7.6.2007 kl. 08:41

8 Smámynd: Hagbarður

Sæll Bjarni og til hamingju með þingsætið!

Ég myndi ráðleggja þér, áður en þú myndar þér skoðanir á fiskveiðistjórnunarkerfinu, að skoða "uppbyggingu" kerfisins og að því loknu fylgja sannfæringu þinni á gagnsemi kerfisins, eins og ykkur þingmönnum er ætlað að starfa.

Ég get bent á nokkur atriði sem vert er að hugleiða. (1) Árangur af fiskveiðistjórnuninni? Árlegur jafnstöðuafli á Íslandsmiðum yfir 500 þús tonn 50 árum fyrir innleiðingu kerfisins og Bretar lágu í smáfiski að auki. (2) Afhverju, selbitinn, margra nátta og marflóarétinn fiskur eru hættur að berast að landi við innleiðingu kerfsins? (3) Hversvegna ýtt er undir vinnslu úti á sjó með hagstæðara nýtingarhlutfalli, þar sem framleiðslutækin eru knúin erlendum orkugjöfum? (4) Afhverju skuldsetning í greininni hefur aukist þrefalt á síðustu fimm árum? (5) Afhverju skiptaverð á lönduðu afla til sjómanna er mismunandi eftir því hvort útgerðin hefur að ráða vinnslu eða ekki?

Ég hvet þig til að kynna þér grunnþætti kerfisins og mynda þér í framhaldi af því sjálfstæða skoðun á því. Ég held að þú verðir margsvísari um á hvern hátt innbyggt er í kerfið bæði sóun og óréttlæti.

Hagbarður, 7.6.2007 kl. 10:34

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

"Tel ég að fram komi afar spennandi tillögur frá Framsókn í þessum málum á komandi misserum."

Ofangreind ummæli eru eftir Gest Guðjónsson á bloggsíðu hans.                                     "Guð láti gott á vita"

Ég treysti því Bjarni að þú munir setjast yfir þetta með opnum huga. 

Sigurður Þórðarson, 7.6.2007 kl. 12:57

10 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Hér sést vel, hvernig hugmyndin  ,,Kvóti" hefur heltekið umræðuna og komið henni þangað sem sumir ,,hagsmunaaðilar" vildu.

Kvóti er ekkert annað en reiknitala miðað við afla LÖNDUÐUM.  Hefur ekkert að gera með hversu mikið er drepið á miðunum, nné hve mikið ferst eftir volk í netum trollana og annarra veiðarfæra.

Það er þekkt staðreynd, marg fram sett af vísindamönnum okkar, að ef hreistur afar margra fiskitegunda hefur verið rispað, á viðkomandi ekki langra lífdaga.  SAMT gera SÖMU vísindamenn ekki neinar athugasemdir við þau veiarðfæri, sem raska ótrúlegum hluta þeirra fiska, sem koma í veiðarfærin en sleppa.  Myndir sýna, að hreistursský eru meðfram flottrollunum, langt langt áður en í pokann er komið.  ÞEssi afli kemur ekki á land.

Svo er það rask á botninum.

Ekki væru menn mikið hrifnir af því, að bændur færu í skoðunarferðir á Jarðýtum t.d. CAT 10 með ribber og tönn niðri, milli byggðalaga.

Skemmdirnas sæust strax og allt yrði sjóðbullandi vitlaust.  En þar sem við sjáum ekki botninn, þa´skella allir skollaeyrum við því.

Það þarf að breyta grunngerð stjórnunar veiða, með svæðisbundinni stjórnun, á veiðarfærum og veiðigetu hvers skips.

Þú þekkir umræðurnar um ítölu á upprekstrarsvæðum norðan og sunnanmanna.  Svipuð umræða þarf nauðsynlega að fara fram um önnur nyt af okkar sameiginlegu auðlindum, sem er lífríkið í kringum landið.

ÁÐUR EN ÞAÐ ER UM SEINANN. Veiðigeta, togkraftur, brotkraftur og hvaðeina er svo ótrúleg að trollararnir sem Þjóðverjar, Bretar og Frakkar voru með hér á miðunum eru sem skellinöðrur við hlið torfærugrinda, að afli og skemmdargetu á náttúrunni.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 7.6.2007 kl. 13:17

11 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Bjarni það eru aldeilis spekingar til sem eru að kom með skoðanir hérna a blögginu þinu,eg sé ekki að við þurfum Hafro)Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 7.6.2007 kl. 15:21

12 identicon

Haraldur vill láta Hafró róa (á haf út).

Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 22:26

13 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Það er bara að koma í ljós sem ég og fleiri hafa sagt frá upphafi kvótakerfisins, þetta er ekki kerfi sem getur gengið.  Sannleikurinn kemur alltaf í ljós þó síðar verði.

Ester Sveinbjarnardóttir, 8.6.2007 kl. 04:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband