Jómfrúarræðan var auðvitað um þjóðlendumál!

"Þú erð ekki jómfrú út í sumarið, strákur," sagði dimmraddaður formaður Framsóknarflokksins á þingflokksfundi. Jæja, ég bæti því nú kannski við upp á stílinn að hann hafi sagt strákur um hæstvirtan þingmann en sagan er betri og skemmtilegri þannig. kaldidalur_skjaldbreidur En það heitir semsagt jómfrúarræða sú fyrsta sem þingmenn flytja fyrst í þingsalnum og ég get alveg viðurkennt að ég var með svolítinn glímuskjálfta fyrir flutning hennar. Var miklu rólegri þegar ég talaði svo blaðlaust í umræðum í gærkvöldi.

Ég hafði semsagt það verkefni um helgina að semja tveggja mínútna jómfrúarræðu fyrir óundirbúninn fyrirspurnartíma og auðvitað spurði ég um þjóðlendumálin, - kosningaloforð Árna Mathiesen sem hann er greinilega búinn að gleyma og auk þess svo valdalítill nú að hann á ekkert í að efna þau ef marka má svör hans í þinginu sem má lesa á þingvefnum, sjá tengil hér að neðan. En svona var ræðan: 

Herra forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstvirts fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen varðandi þjóðlendumál.

Á undanförnum árum hefur fjöldi Íslendinga verið sviptur eignum sem ríkið hefur til áratuga jafnvel um aldir skilgreint sem einkaeignir og skattlagt sem slíkar. Sumt þetta land hafði ríkið sjálft selt aðilum við verði en sölsar nú undir sig bótalaust með ofríki. Tilviljanakennd varðveisla pergamentpappíra og skrýtlur úr Landnámu hafa ráðið úrslitum um það hvort einstaklingar teljist geta uppfyllt barnalega sönnunarbyrði sem júristar í pappírsleik hafa búið til.

Framkvæmd þjóðlendulaga hefur öll verið á hendi ráðherra Sjálfstæðisflokks og var frá fyrstu tíð mótmælt af Framsóknarflokki, fyrst ráðherrunum Páli Péturssyni og Guðna Ágústssyni og oft síðan.

Það er fyrst nú í aðdraganda kosninga árið 2007 sem ljáð er máls er breyttum vinnubrögðum við framkvæmd laganna. Þar með voru gefin fyrirheit um að - eins og segir orðrétt í stjórnmálaályktunum Sjálfstæðisflokksins frá því í aprílmánuði síðastliðnum - með leyfi forseta, að

"...við meðferð þjóðlendumála verði þess gætt í hvívetna að eignarréttur landeigenda og þinglýstar eignarheimildir séu virtar ásamt öllum þeim lögvörðu réttindum sem jörðum fylgja."

Sá sem hér stendur hefur, öndvert við málflutning Sjálfstæðisflokks, haldið því fram að breytt vinnubrögð muni í engu breyta niðurstöðum ef ekki komi til endurskoðun þjóðlendulaga. Nú ber svo við eftir kosningar að á forsíðu Morgunblaðsins er skýrt frá því að þessu sé einmitt svo farið að breytt verklag,- með leyfi forseta: breyti ekki niðurstöðu - óbyggðanefndar og dómstóla.

Í huga landsmanna er Morgunblaðið að fornu og nýju talið málgagn Sjálfstæðisflokks og því er það spurning mín til hæstvirts fjármálaráðherra sem sér um að afla ríkissjóði þjóðlendna:

Er hans skilningur á hinu breytta verklagi hið sama og Morgunblaðsins og ef ekki mun Sjálfstæðisflokkurinn þá hirða um að koma réttum skilaboðum á framfæri til landeigenda og lesenda Morgunblaðsins.

Í öðru lagi,- mun Sjálfstæðisflokkurinn beita sér fyrir því að þjóðlendulögin verði endurskoðuð á næstunni eins og fyrirheit voru gefin um í ályktunum Landsfundar flokksins.

(Sjá nánar á þingvefnum og þar sést að ég braut hér öll þingsköp með annarrar og þriðju persónu ávörpum - en Guðni Ágústsson segir að fall sé hér fararheill og guð láti þar gott á vita. Myndin er af Skjaldbreið sem er gott dæmi um land sem ríkið seldi og fékk heila jörð fyrir en stal svo aftur með þjóðlenduránskapnum. )


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður... Bjarni

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 12:24

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Takk fyrir þetta Bjarni.  Veit að þú munt ekki bregðast í þjóðlendumálunum.

Þórir Kjartansson, 5.6.2007 kl. 15:59

3 identicon

Sæll Bjarni. Þú stendur þig með sóma. Eftirfarandi var skotið á mig í dag:

Út í sumrið Bjarni skeiðarStoltur, fullur framsóknartrú.Stúlkur elta strákinn leiðar

því hann er orðin jómfrú.

kv.G.B. 

Gunnar Bragi Sveinsson (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 19:50

4 identicon

Sæll, Bjarni og aðrir skrifarar !

Jóhann - Þórir og Gunnar Bragi ! Læt nú vera, aumleg var þjónkun Bjarna, við ''vísinda'' áliti Jóhanns frænda míns Sigurjónssonar, frá Hafrannsóknastofnun, um skerðingu þorskveiðanna, á komandi fiskveiði ári, í þinginu í dag.

Mér er til efs, að Bjarni hafi nokkuð komið að sjávarútvegi, jah.. hann leiðréttir mig þá bara, sé svo.

Ekki seinna vænna, að þingmenn Framsóknarflokksins viðurkenni afglpahátt fyrirennara sinna, með setningu kvótalaganna; 1983/4. Fann, á eigin skinni, líkt og fyrrum sveitunga minna, Stokkseyringa, hversu þetta andskotans kerfi hjó; smám saman, í undirstöður atvinnulífs og mannlífs, á Stokkseyri, á sínum tíma.

Átti langt spjall, niður í Höfn síðdegis; við Grím vélfræðing Markússon, frá Borgareyrum. Taldi Grímur ekki að ófyrirsynju, að veiða mætti, allt að 300 þús. tonn, á komandi fiskveiði ári. Þorskurinn lifir á, allt frá 1 - 600 m. dýpis, og er alþekkt flökkudýr, í hafinu, og duglegur að bjarga sér. Til fulltingis orða minna, má benda á Annála Íslands 1400 - 1800, gefnum út, af Hinu íslenzka Bókmenntafélagi, á þriðja áratug 20. aldar, hvar komið er, m.a. inn á fiskgegnd, við Íslandsstrendur, í aldanna rás.

Að éta hráan ''stórasannleik'' möppufræðinga, við miðbik Faxaflóans; kann ekki góðri lukku að stýra, fyrir íslenzka þjóð. Nær, að taka mark á sjómönnum og þeim, sem við útveginn starfa, að staðaldri; og hafa starfað.

Jú, jú,.... víst má styðja Bjarna, sýni hann þrek til, að vinna að aflagi hinna heimskulegu þjóðlendulaga, og stuðli þar með að; að landeigendur sjávarjarða- og lands, fá næði fyrir ásælni fjármála ráðherrans, og hans nóta. 

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum       

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 5.6.2007 kl. 21:38

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

sæll gunnar - þessi tala hefur komið fram en ég man hana ekki - minnir þó að samanlagður kostnaður ríkisins og útlagður kostnaður annarra sem ekki hefur fengið greiddur sé talinn hlaupa á tölu sem losar milljarð... sagt án ábyrgðar! kv.-b.

Bjarni Harðarson, 5.6.2007 kl. 21:50

6 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Góð fyrirspurn og þörf hjá þér Bjarni, ég vona að þú haldir áfram á þessari leið því það er algjörlega óviðunandi að sönnunarbyrðinni í þessum málum sé snúið svona algjörlega á haus eins og ég hef reyndar bent á í bloggi mínu. http://orri.blog.is/blog/orri/entry/149768/ & http://orri.blog.is/blog/orri/entry/226379/

Baráttukveðjur frá "afdalamanni" í Vestmannaeyjum.

Guðmundur Örn Jónsson, 5.6.2007 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband