Tekur ríkisstjórnin hlutverk sitt alvarlega?
30.7.2007 | 09:07
Var rétt í þessu að renna í gegnum póst þann sem þjóðin kýs að senda þingmönnum þessa lands og staldraði þar lengst við bréf frá Guðmundi Inga Gunnlaugssyni bæjarstjóra í Grundarfirði þar hann kallar eftir raunhæfum mótvægisaðgerðum vegna þorskniðurskurðar. Bréfið er ekki skrifað í vor þegar svarta skýrsla Hafró kom út og ekki í júní þegar sjávarútvegsráðherra gaf út sinn Salómonsdóm. Það sem slær mig á þessum rigningarmorgni hér við Austurvöll er einmitt að bréf þetta er splunkunýtt, skrifað 24. júlí.
Það vekur mig þessvegna til umhugsunar um það hversu hægt fer hjá ríkisstjórninni að ráðast í raunverulegar mótvægisaðgerðir. Guðmundur Ingi vekur athygli á að Vesturlandi muni 30% skerðing þorskkvótans þýða 4,9 milljarða veltuminnkun á ári. Bara á Vesturlandi.
Mikilvægast er að mati bæjarstjórans að bæta sveitarfélögum og fyrirtækjum upp tekjutap það sem þau verða fyrir. Ég er honum sammála í því. Aflasamdráttur eru náttúruhamfarir og þeim þarf að mæta með því hugarfari. Þegar skerðingin er í einu vettvangi svo mikil þá er ekki möguleiki að byggðirnar og fyrirtækin geti mætt henni hjálparlaust og ef eina framlag ríkisins verða vegbætur þá munu byggðir í þessu landi þurrkast út.
Ríkissjóður Íslands stendur gríðarlega vel og það er enn góðæri í landinu. Það er mikilvægt að við notum þessa sterku stöðu ríkissjóðs til að hlaupa undir bagga með sjávarútveginum og verjum þannig góðærið. Alvarleg skakkaföll í sjávarútvegi og hröð byggðaþróun getur verið samfélaginu og því góðæri sem hér hefur ríkt dýrkeypt.
Í landinu situr ríkisstjórn með ofurmeirihluta og mikla Reykjavíkursýn. Ég óttast að þessi stjórn taki hlutverk sitt alls ekki alvarlega þegar kemur að raunverulegum vandamálum þessarar þjóðar og það sé þessvegna brýnt að halda henni við efnið...
Hér að neðan birti ég orðrétt áskorun Grundfirðinga (reyndar samþykkt af öllu bæjarráðinu þar þó bréfið sé frá bæjarstjóranum )sem var það bitastæðasta í póstinum í dag:
Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar skorar á ríkisstjórn Íslands og þingmenn að taka þegar í stað ákvarðanir sem stuðla að raunhæfum aðgerðum til mótvægis vegna skerðingar á þorskveiðiheimildum í Grundarfjarðarbæ. Afar mikilvægt er að þegar í stað komi fram tillögur um aðgerðir svo sveitarfélagið viti hvar það stendur og geti eftir atvikum hafist handa um staðbundnar mótvægisaðgerðir. Mikilvægt er að hefjast handa nú þegar, áður en vandinn verður orðinn of mikill, en til þess að það verði mögulegt þurfa ákvarðanir ríkisvaldsins að liggja fyrir. Nauðsynlegt er fyrir sveitarfélögin, sem verða fyrir mikilli skerðingu á þorskveiðiheimildum og tekjumissi, að þau fái bætta þá tekjuskerðingu og gott betur, svo að hægt verði að hefjast handa við hin ýmsu og fjölbreyttu verkefni sem legið hafa fyrir en ekki hefur verið hægt að framkvæma vegna fjárskorts. Það er augljóst að slíkar aðgerðir myndi nýtast þeim best sem mest verða fyrir barðinu á þessum niðurskurði.Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar telur að þær mótvægisaðgerðir sem getið hefur verið um í fréttum séu ekki líklegar til þess að auka í bráð tekjur hjá þeim sem verða fyrir tekjumissi á norðanverðu Snæfellsnesi vegna skerðingar á veiðiheimildunum, þó að í tillögunum sé ýmislegt ágætt, t.d. flýting vegaframkvæmda, sem a.m.k. sums staðar mun koma að gagni í framtíðinni. Brýnt er að fyrirtæki og einstaklingar sem sjá fram á tekjumissi þegar í haust fái einhverjar úrlausnir tímabundið á meðan fólk áttar sig á breyttum aðstæðum. Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar skorar á ríkisstjórnina að huga alvarlega t.d. að flutningi opinberra starfa til Grundarfjarðar auk framlaga til staðbundinna verkefna sem hafa vægi til þess að vega upp á móti stórfelldri minnkun tekna sem við blasir.Bæjarráðið bendir m.a. á eftirfarandi upplýsingar sem komið hafa fram um þann vanda sem við er að eiga á Snæfellsnesi vegna skerðingarinnar:
Ný skýrsla frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi leiðir í ljós að efnahagsleg áhrif á Vesturlandi vegna 30% skerðingar á þorskkvóta nema 4,9 milljarða króna veltuminnkun á ári. Þar af verða áhrifin um 2ja milljarða króna veltuminnkun í Snæfellsbæ, 1,6 milljarða króna veltuminnkun á Akranesi, tæplega 1 milljarðs króna veltuminnkun í Grundarfjarðarbæ, 350 milljónum króna veltuminnkun í Stykkishólmi og 4 milljóna króna veltuminnkun í Borgarbyggð. Sjávarútvegur er snar þáttur í atvinnulífi Vesturlands, sérstaklega á Snæfellsnesi þar sem fiskveiðar nema um 40% af þáttatekjum svæðisins og fiskvinnslu um 30%. Ákvörðun um 30% kvótasamdrátt í þorski er þungt áfall fyrir Vesturland.
Sjómenn og útgerðarmenn við Breiðafjörð eru almennt á því að veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar byggi ekki á nægilega traustum grunni að þessu sinni. Sjómenn tala um mikla þorskgengd á öllum miðum og segja að erfitt sé að stunda nokkrar veiðar á þekktum fiskislóðum án þess að stór hluti aflans verði þorskur og skipta þá veiðarfæri eða dýpi ekki máli. Af þessu tilefni skorar bæjarráð Grundarfjarðarbæjar á stjórnvöld að óháð rannsóknarstofnun verði fengin til þess að gera ýtarlega stofnstærðarrannsókn á þorski til samanburðar við niðurstöður Hafrannsóknarstofnunar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:09 | Facebook
Athugasemdir
Eina rökrétta mótvægisaðgerðin er sú að afnema kvótakerfið.
Sigurður Þórðarson, 30.7.2007 kl. 15:08
Nú hneykslast kvótasinnar á því að Mannlíf skuli voga sér að fjalla um tvo greifa sem eru að leika sér með 3,5 milljarða í London og allmennigur á Eskifirði skuli ekki bara þegja. Skýringin er einföld:
Greifarnir stungu af með frumburðarétt fólkisns á Eskifirði til að veiða fisk og "sameign þjóðarinnar".
Sigurður Þórðarson, 30.7.2007 kl. 15:16
Þetta sem verið er að fást við er því miður vegna kerfis sem ekki gekk upp og er að miklu leiti á ábyrgð Framsóknarflokksins. Það er sársaukafullur niðurskurður í pípum nú og er í reynd örvæntingarfull tilraun til að bjarga þorskstofninum.
Þetta er eitt að mörgum atriðum sem menn kalla því fagra nafni " að moka Framsóknarfjósið" sem ekki er vanþörf á eftir afturhalds og fyrirgreiðslustjórnmál þess flokks allt of lengi.
Jón Ingi Cæsarsson, 30.7.2007 kl. 17:35
Hafrannsóknarstofnun og Fiskistofa er stjórnsýslustofnanir sem starfa í umboði-og á ábyrgð Alþingis.
Nær aldarfjórðungs vinna þessara stofnana hefur skilað mistökum á mistök ofan og nú er ástandið orðið allri þjóðinni áhyggjuefni.
Alþingi bar ábyrgð á þeirri stjórnun fiskveiða og framsals aflaheimilda sem er langt komið með að eyða byggð á stórum svæðum þessa lands.
Alþingismenn og ráðherrar bera ábyrgð á þeim ósannindum að fiskveiðistjórnunin hafi skila hagræðingu fyrir þjóðarbúið.
Þessi þjóðarlygi gengur áfram til kynslóðanna sem ekki fylgdust með þróuninni, láta sig fiskveiðar og útgerð litlu skipta og greiða þessvegna atkvæði sem tryggja framhald á yfirtöku örfárra á þessari þjóðarauðlind.
Því miður er það of seint fyrir framsóknarmenn að ræða um þetta ástand með postullegri vandlætingu.
En maður spyr um ástæðuna fyrir hugarfarsbreytingunni.
Árni Gunnarsson, 30.7.2007 kl. 17:54
hér er margt sagt og sumu er ég sammála og öðru ekki. sjálfur kannast ég ekki við hugarfarsbreytingu þegar kemur að kvótakerfinu sem ég held að heildina hafi orðið okkur til góðs og ég hefi ekki sannfærst um þau rök að veiða megi miklu meira en hafró mælir með. þau þurfa að vera mjög sannfærandi til þess að gengið sé þvert gegn þeirra stefnu. í heild stendur sjávarútvegurinn mun betur núna þrátt fyrir minni kvóta heldur en hann gerði fyrir 20 árum - það vita allir sem fylgst hafa með fréttum.
Bjarni Harðarson, 30.7.2007 kl. 19:17
Ágæti Bjarni, þú hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér fyrir að vera skemmtilegur. Þess utan en auk þess fyrirgefst mönnum sem hlúa að þjóðlegum fróðleik að jafnaði meir en öðrum. Þannig hefur það verið og þannig á það að vera. Samt ráðlegg ég þér, að kynna þér betur sjávarútvegsmál. Ekki vegna þess að einhver muni núa þér um nasir þótt þú endurtakir einhverja gamla og staðlitla frasa. Heldur vegna þess að metnaður þinn stendur til að láta gott af þér leiða. Ég leyfi mér því að benda þér á eftirfarandi:
"Þrátt fyrir að fiskverð hafi margfaldast að raungildi hafa skuldir sjávarútvegsins aukist með enn risavaxnari skrefum. Þannig hafa skuldir sjávarútvegsins aukist um 350% á tíu árum þó umsetningin sé nánast sú sama".
Sigurður Þórðarson, 30.7.2007 kl. 22:41
Það er engin spurning að vandinn er mikill fyrir sveitarfélög sem hafa átt sitt undir áframhaldandi þorskveiði skv. kvóta, sem nú verður skertur svo um munar.
Hitt er spurning hvort tryggar stoðir undir atvinnulíf verði byggðar á þann hátt sem hér segir:
Nauðsynlegt er fyrir sveitarfélögin, sem verða fyrir mikilli skerðingu á þorskveiðiheimildum og tekjumissi, að þau fái bætta þá tekjuskerðingu og gott betur, svo að hægt verði að hefjast handa við hin ýmsu og fjölbreyttu verkefni sem legið hafa fyrir en ekki hefur verið hægt að framkvæma vegna fjárskorts.
***
Ef þessi fjölbreyttu verkefni eru ARÐBÆR, þá er hægur leikur að bæta úr fjárskorti með útboðum skuldabréfa og/eða hlutabréfa á innlendum fjármagnsmarkaði.
Hins vegar hljóta framlög úr ríkissjóði að duga skammt ef þessi verkefni eru EKKI arðbær heldur atvinnubótavinna af einhverju tagi.
Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 01:07
Ágæti Bjarni!
Ég hef sagt það áður á blogginu að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru bara "friðþægingarhjal" það hefur aldrei staðið til að þær yrðu nokkrar og verða aldrei að veruleika.
Jóhann Elíasson, 31.7.2007 kl. 11:25
Sæll Bjarni. Réttilega tyggur þú upp úr bréfinu frá Grundfirðingnum að nauðsyn sé á að bæta sveitarfélögunum og fyrirtækjunum tekjuskerðinguna vegna samdráttar í fiskveiðum. Er ekki verið að gleyma einhverju þarna? Vinna engir orðið í fiski, sækja engir fiskinn á miðin lengur? Á starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja og sjómenn bara að fara í vegavinnu en rekstraraðilar fiskvinnslufyrirtækja að þiggja styrki. Hverskonar framsóknarflan er þetta eiginlega?
Ég er alveg dolfallinn yfir ræðu Kristins Péturssonar. Það er eins og hann hafi bara verið á miðunum umhverfis landið síðan fyrir stríð. Merkilegt að svona sérfræðingur skuli ekki fá vinnu hjá þeim sem sjá um að úthluta kvótanum
Þórbergur Torfason, 31.7.2007 kl. 22:49
Flott mynd af Guðmundi. kv.
Helga R. Einarsdóttir, 2.8.2007 kl. 22:09
Íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið, þar sem öll skip sem fá veiðileyfi,verða að veiða þorsk eftir kvóta er aðeins ársgamalt.Síðasta skipið sem veiddi þorsk á dögum, fór á kvóta á þessu fiskveiðiári.Dagakerfið íslenska hafði þá verið til í um það bil 30 ár.Það var aflagt vegna þess að það var ónothæft.
Sigurgeir Jónsson, 3.8.2007 kl. 20:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.