Ófyrirleitnir bankar og ónóg samkeppni

Fyrir utan hefðbundnar verslunarmannahelgarfréttir og hörmuleg slys stendur upp úr á þessari verslunarmannahelgi svar bankamanna við gagnrýni talsmanns neytenda í þá veru að fit-kostnaður þeirra sé óhóflega hár og auk þess í algeru samráði. Í einum af mörgum fréttatímum ljósvakans heyrði ég þá skýringu hjá ábúðarfullum fulltrúa þeirra að bönkunum hafi hér verið falið refsivald yfir því vonda fólki sem ástundar sjálftöku fjár með framúrkeyrslum sínum. Þessvegna þurfi gjald vegna þessa engan veginn að endurspegla kostnað heldur taki bankarnir hér að sér löggæslu. man_eating_money

Hvenær er þessu sektarfé brotamanna skilað í ríkiskassann sem ætlað er að innheimta sektir vegna afbrota? Svarið er örugglega að það er aldrei gert. Og viðbára bankamannsins sem ég lagði ekki nafn á minni var ennfremur að raunar kostum við delikventarnir með gulu miðana miklu miklu meira því alltaf sé eitthvað sem tapast af útgjöldum sem þessum. Einhverjir gefi út innistæðulausa tékka eða framkvæmi innistæðulausa straujun á plasti án þess að greiða það nokkru sinni til baka!

Er verið að segja okkur að bankarnir græði ekki nógu mikið! Eða þá að það sé ekki þeirra sjálfra að ákveða hverjir fái plast hjá þeim heldur sé þeim úthlutað frjálst til allra óháð því trausti sem bankinn setur á viðkomandi.

Því er ég að minnast á þetta hér að ég óttast að þessi umræða týnist í verslunarmannahelgarvitleysunni og gleymist svo um ókomna tíð. Það er löngu löngu tímabært að neytendur landsins taki á bönkunum fyrir samráð sem er á köflum ekkert betra en samráð olíufélaganna og séu lagafyrirmæli sem styðja það að bankar fari með refsivald gagnvart fátæku fólki í landinu þá er þar vissulega verk að vinna á komandi vetri...

(Myndinni hnuplaði ég á vef hinum ágæta vef Deiglunnar sem mig grunar að hafi hnuplað sömu mynd í útlöndum en hún sýnir vel þá sturlun sem peningagræðgi getur leitt af sér og hendir jafnt íslenska maurapúka sem útlenda...)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er hægt að taka undir hvert orð hjá þér hérna Bjarni og það væri ánægjulegt ef þú létir þetta mál til þín taka á vetrinum. Það er ekki vansalaust hversu berskjaldaður almenningur er gagnvart sjálftöku hverskonar hér á landi og eru bankarnir gott dæmi þar um. Við heyrðum svo á dögunum hvernig þar til gerðar stofnanir í Bretlandi tóku á dögunum á bönkum þar í landi, en hér er aldrei hreyft við okrinu. Trúi raunar að viðskiptaráðherrann núverandi mundi ekki berjast gegn umbótum á þessu sviði. Gangi ykkur vel.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.8.2007 kl. 10:52

2 identicon

Það er spurning hvort það skuli ekki viðhafa annarsskonar refsingar við því að fara yfir á tékkheftinu í ljósi þess að í raun er um þjófnað að ræða. Þetta er svona dæmigert mál fyrir popúlista eins og Bjarna Harðarson. Ég segi auðvitað á FIT kostnaður að vera hár. Það er fáránlegt að fólk komist upp með að taka fé sem það á ekki og nota...

IG (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 11:17

3 identicon

Ég er þér hjartanlega sammála Bjarni að bankarnir stunda sjálftöku á ýmsum sviðum í skjóli löggjafans og er orðið tímabært að einhver taki þetta upp á vettvangi sem getur gert eitthvað í málinu.

Hvernig stendur á því að bankar og tryggingafélög geta verið í samstarfi um rekstur á sameiginlegri skrifstofu, til að gera hvað?

Hversvegna skoðar samkeppnisstofnun ekki þetta fyrirkomulag með tilliti til hagsmuna landsmanna allra því allir eiga fé í eða skulda banka fé nú eða tryggja sjálfan sig eða eitthvað sem þeir eiga.

Eftirfarandi fékk ég af heimasíðu samtakanna;
"Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) eru ný heildarsamtök fjármálafyrirtækja á Íslandi.

Samtökin hafa tekið við starfsemi Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) og Sambands íslenskra tryggingafélaga (SÍT)."

Gegn hverju eru þessi fyrirtæki að verja sig með þessum samtökum og hversvegna ættu þau að fá slíka vörn frekar en olíufélögin eða svínabændur?

Ásmundur R. (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 12:31

4 identicon

Sko, að bankarnir séu að gera þetta fyrir þjóðina en ekki fyrir FIT kostnaðinn er auðvitað bara hlægilegt. Ég bið ekki um launahækkun af góðvild gagnvart vinnuveitanda mínum, né kaupi ég bjór í ríkinu til að styðja ríkið, heldur því það er ódýrara. Og það að bankastofnanir af öllu, séu að taka gjöld því þeir séu að hugsa um hvað sé landinu fyrir bestu... fyrirgefið, það er ekki til betra orð yfir slíkan málflutning en "kjaftæði". Jafnvel þó það væri satt, ættum við ekki að taka slíkan málflutning trúanlegan.

Svo er annað sem brýtur svolítið í bága við þennan málflutning, annað en hversu fáránlegu hann er, og það er sú staðreynd að bankarnir rukka vexti og færslugjöld rétt fyrir lok mánaðar, rétt áður en langflestir fá útborgað. Niðurstaðan er auðvitað sú að fólk er miklu, miklu líklegra til að fara yfir um undir þeim kringumstæðum. Ef þeir væru því að gera þetta til að halda fólki í skefjum væru þeir væntanlega að taka þessi gjöld þegar það væri hvað líklegast að fólk hefði efni á þeim. En tilfellið er hið þveröfuga.

Mér finnst þessi málflutningur bara skoplegur. ;) Bankanum þínum er sama um þig, og það er eðlilegt, það á að vera þannig, enda eiga landslög að hafa hemil á þeim, ekki þeirra eigin mannúð. Þetta eru rökin sem eru notuð þegar stórfyrirtæki gera einhvern hrylling af sér, en svo er sér snúið við og sagt að þeir séu að hugsa um eitthvað annað en eigin hag, sem er hlægilegt og reyndar, ef ég skil hlutafélagslög rétt, hreinlega ólöglegt. Er það ekki annars rétt hjá mér, er það ekki lögbundin skylda fyrirtækja að þjóna hagsmunum eigenda sinna? Mátt gjarnan láta það flakka hér hvort þú vitir eitthvað um það, ég fann það ekki við stutta uppflettingu á Althingi.is

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 12:40

5 identicon

gott er að einhverjir fleiri en ég tóku eftir þessum dæmalausu svörum Guðjóns.  Ég hjó einmitt eftir sömu atriðum og vissi ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta.  Aðallega var ég orðlaus nokkra stund á því að forsvarsmaður banka og verðbréfafyrirtækja léti svona nokkuð úr úr sér.  Í fyrsta lagi að bankarnir geti hagað sér í því skjóli að þeir séu að framfylgja refsilögum fyrir ríkið.  Í öðru lagi að ábyrgðin á því hvort bankarnir taki í viðskipti samviskulaust fólk eigi að bitna á öðrum viðskiptavinum þeirra.  Bankinn hlýtur að þurfa að taka áhættuna af því sjálfur hverja hann tekur í viðskipti, hann á ekki að láta aðra kúnna blæða fyrir það ef hann gerir mistök á því sviði.

Jón Þorvaldur Heiðarsson (IP-tala skráð) 7.8.2007 kl. 15:57

6 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Við erum í fákeppnisumhverfi þar sem samráð á markaði er bæði hefð og regla - sem kunnugt er - og því víst lítið við þessu að segja. Bankarnir eiga hér alla hluti og þúsundir manna eru gjörsamlega í vasanum á þeim, þám stjórnmálamenn og róbótar á "fjölmiðlum". Þannig að þetta er óskaumhverfi fyrir bankana og það komst einhvern veginn á og þýðir lítið að vakna upp við vondan draum núna.

Baldur Fjölnisson, 7.8.2007 kl. 16:25

7 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Já Bjarni við erum þarna sammála,en eg get ekki verið sammála þessum  Baldur hér áðan að við getum ekkert gert í þessu ,sem Alþingismaður geturðu  hreift málum og auðviða við allir,sem erum viðskiptavinir/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 7.8.2007 kl. 17:22

8 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Eftir fréttirnar í kvöld, tel ég víst að Björgvin Sigurðsson taki á þessu skammarlega rugli og þessu verði breytt, svo Bjarni verður ekki einn að berjast, enda eins gott að menn safni sér á þetta þverpólitískt.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.8.2007 kl. 20:36

9 Smámynd: Guðmundur Björn

Ætti fólk ekki bara að reyna eiga fyrir hlutunum?  Fáránlegt að bankarnir séu álitnir sem einhver glæpasamtök vegna ofneyslu fólks!

Guðmundur Björn, 7.8.2007 kl. 22:07

10 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er fráleitt vegna ofneyslu fólks eða fyrirtækja sem bankar á Íslandi virki eins og "glæpasamtök" og verstur andskotinn að þeir eru ekki einir um það, eins og dæmin sanna, en það gerir þá ekki skárri....

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 7.8.2007 kl. 22:22

11 Smámynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson

Það má nú líka skoða innheimtufyrirtækin. Skuld sem sett er í innheimtu margfaldast og gerir skuldaranum bara erfiðara fyrir að standa skil á sínum málum. Einnig eru innheimtufyrirtækin snögg að láta Lánstraust vita af vanskilum en hins vegar láta þau sér í léttu rúmi liggja að tilkynna þegar skuld er uppgreidd. Það er löngu komin þörf á lagasetningu til verndar skuldaranum. Kröfueigandinn hefur allan rétt sínu megin.

Jónas Yngvi Ásgrímsson, 10.8.2007 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband