Hugsjónaeldar yfir moldum búnaðarmálastjóra

Sú var tíðin að vinstri menn íslenskir skreyttu sig hugsjónum hins ríkisvæna sósíalisma og hægri menn hafa á tyllidögum reynt að punta frjálslyndi og jafnvel frjálshyggju. Allt er þetta þó við heldur holan tón þar sem hvorutveggja orkar hálf illa á allan almenning. Mér varð hugsað til þess yfir moldum Jónasar búnaðarmálastjóra í liðinni viku að það eru einungis hugsjónir manna eins og hans sem lifðu 20. öldina af og þær verða áfram í fullu gildi alla þá 21. GIJFS1U0
Þetta er hin aldagamla hugsjón þess sem trúir með öðru á mátt sinn og megin, land sitt og fólk. Trúin á moldina, firðina, dalina fremur en regluverk úr útlendum eða himpigimpislega frjálshyggjuóra. Vitaskuld hefur flokkur okkar Jónasar búnaðarmálastjóra, gamla Framsóknarfleyið goldið afhroð og getum um sumt sjálfu sér um kennt. Geldur þess líka að á tímum gulls og velsældar gleymast hugsjónir. Framsýnin nær þá illa út fyrir veisluborðið.

Hugsjónir lesnar af bók eða landi
Við ræddum þetta lítillega í síma í vetur, ég og Jónas heitinn og vorum sammála, enda þar sannur hugsjónamaður. Einkanlega ræddum við hvernig Framsóknarflokki hefði daprast að nýta sér sinn gamla hugsjónagrunn á nýjum tíma en í staðin verið eins og leitandi og villuráfandi unglingur að nýjum gildum og nýjum kjósendum.
Það er samt enginn vafi á að hin þjóðlegu gildi og baráttan fyrir landsbyggð og sveitadölum á sér vaxandi fylgi á nýrri öld og sífellt fleiri sem gera sér grein fyrir að verðmæti þjóðarinnar eru fólgin í að viðhalda hér þjóðríki með menningarlegri fjölbreytni hringinn í kringum landið. Það verður hlutverk Framsóknarflokksins á nýrri öld að leiða þessar hugsjónir.
Það eru vitaskuld árin síðan að hægri og vinstri skýjaglópar sátu með Marx og Mill á hnjánum og þóttust lesa úr fræðum þessum hvernig best væri að hefja íslenska þjóð til auðlegðar. Á sama tíma horfðu hugsjónamenn sveitanna ofan í svörðin og viðlegukantana og lásu sínar hugsjónir í landinu sjálfu. Til guðs lukku urðu leiðir Framsóknarmanna iðulega ofaná og skiluðu Íslandi ríkara og fallegra en nokkurn óraði fyrir á morgni 20. aldar. Íslensk velmegun varð ekki til til fyrir þröngsýna trú á erlend dogma.

Framsóknarhugsjónir
En því á þetta við í dag að sagan endurtekur sig. Ennþá reyna brjóstumkennanlegir vinstri menn tveggja flokka að lesa framtíð Íslands út úr bókum erlendra grillufangara eða sem verra er, regluverkssmiða í Brussel. Og á hægri kantinum geltir í frjálshyggjunni af margföldu afli við það sem áður var. Hugsjónir á báðum síðum eru fyrst og fremst í því fólgnar að fylgja erlendri leiðsögn og þröngva upp á aðstæður okkar einhverju sem gæti kannski hafa átt við í útlendu platríki.
Öllum þessum bókarhöfundum er vitaskuld sama um Siglufjörð og Vík og hafa að engu menningararf lítillar smáþjóðar. Pólitískar ákvarðanir eru byggðar á reikniverki þar sem mestu skiptir að meirihluti þjóðarinnar hafi sem mest upp úr á sem allra skemmstum tíma. Stjórnmálamenn sem sjá sannleikann í vísitölum eru allra líklegastir til skammsýni sem mun skila Íslandi fátækara til komandi kynslóða.
Í dag velur sér enginn að setjast að með sitt fólk í Jökulfjörðum því þar er engin sú grundvallar þjónusta sem nútímamaður þarf til lífsviðurværis. Það verður hlutverk Framsóknarflokksins að halda því til haga að komandi kynslóðir geti áfram valið sér að búa á Ströndum eða í Meðallandi og þekki áfram Þingeyinga sem annað og meira en sögulegt hugtak. Til þessarar baráttu þarf raunverulegt hugsjónafólk.

(Birt í Mbl. 8.8.2007)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Hvort er nú líklega að þessir bjartsýnu bændur á Ströndum og í Meðallandi verði leiguliðar Wernerserfingjanna eða Guðmundar á Núpum?

Árni Gunnarsson, 10.8.2007 kl. 18:44

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hann svaraði nú alveg rosalega vel þessari grein þinni hann Þorgrímur Gestsson í Mogganum í dag, Bjarni minn. - Með góðri kveðju á Selfoss,

Jón Valur Jensson, 10.8.2007 kl. 19:22

3 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Og hvað hafði Jónas heitinn að segja um kvótakerfi Framsóknar og andskotans??? Var hann á því að það mundi efla þessi krummaskuð sem honum var svo umhugað um að þinni sögn???

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 10.8.2007 kl. 21:25

4 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Þekkti Jónas sem mikinn heiðursmann og sakna hans sem slíks. Góðar minningar úr Búnaðarfélaginu þar sem fóstri minn vann mestalla sína starfsævi og Jónas var góður vinur. Á gagnfræðaskólaárunum sá ég um kaffið í Búnaðarfélaginu í aukavinnu og þarna vann mikill indælishópur, Jónas ekki sístur, alltaf hlýlegur og indæll. Í málefnadeiluna og framsóknarmennskuna blanda ég mér ekki, það er ekki vegna skoðanaleysis heldur einfaldlega af því það er lengra mál en hæfir núna, þar mér er einfaldlega ofar í huga að þakka þér, Bjarni, fyrir að minnast þetta ágæta manns.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 10.8.2007 kl. 21:37

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Jónas var hlýr og vandaður sómamaður og má ekki minna vera en að taka undir með öllum þeim sem um það hafa rætt. Nærvera hans var traust og sannfærði alla sem honum kynntust um að þannig var maðurinn allur. Ég hygg að Jónas hafi alla ævi verið sá framsóknarmaður sem hann var i upphafi og sem ég kynntist veturinn 1952-3 er við sátum báðir í Bændadeild Hólaskóla.

Jónas hefur áreiðanlega aldrei á neinu því níðst sem honum var til trúað. 

Árni Gunnarsson, 10.8.2007 kl. 22:30

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ég þekkti Jónas ekki neitt en las það sem hann skrifaði í blöð, ef ég rakst á það,hvort sem það var um landbúnað í Frey, eða um eitthvað annað í öðrum blöðum.Af þeim lestri hef ég dregið þá ályktun að þar hafi verið vandaður sóma maður á ferðinni, sem hafi unnið vel fyrir þjóð sina.Rétt eins og samtímamenn hans í Framsóknarflokknum gerðu,en vissulega vilja allir nú, Lilju kveðið hafa.

Sigurgeir Jónsson, 10.8.2007 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband