Davíð rekur þjóðina í Evrópusambandið

Til var það fólk sem trúði að flengja skyldi sífrandi börn og því meira flengt sem sífrið var hærra.  Þetta gat átt til að gagnast en miklu oftar urðu flengingarnar til þess að auka enn á skælið,  en sá flengdi oft hálfgerður kramaraumingi á eftir.  Á sumum bæjum var samt haldið á með þetta kynslóð af kynslóð, lögmáli vandarins fylgt dyggilega.david_oddsson

Í hagfræðilögmáli ku skrifað að hækka skuli vexti til að draga úr eftirspurn eftir lánsfé og því meiri sem eftirspurnin var því meira skuli hækkað. Fastar beitt vaxtavendinum til flenginga á fátækri alþýðu.  Og lögmálið er þarna óhagganlegt og öruggt í sinni fávísi þrátt fyrir að heimurinn hagi sér ekkert eftir lögmálinu. Patentlausnir eiga það til að svíkja.

Vaxtasvipa og flottræfilsháttur

Þar til fyrir fáeinum árum bjó íslensk þjóð við skömmtun á lánsfé þannig að í raun og veru hafði enginn verulegar áhyggjur af því að safna of miklum skuldum. Bankinn passaði það. Það var helst áhyggjuefni að ná ekki nógu miklum lánum, því verðbólgan borgaði lánin og aðeins óvitar lögðu fé inn í banka.

Þó svo að það séu síðan liðin mörg ár eða allavega nokkur, eftir því hvernig er talið þá tekur það mannskepnuna lengri tíma að læra. Í hinni óþolinmóðu pólitík samtímans er gert ráð fyrir að maðurinn breyti í samræmi við óorðna hluti en reyndin er að við erum öll full af löngu úreltri þekkingu, þeir mestri sem telja sig nútímamenn. Og auðvitað virkar vaxtasvipa ekki á íslenskan almenning eins og þann sem búið hefur við jákvæða vexti og opinn lánamarkað um aldir.

Bruðlunarsemi og skuldasöfnun er höfuðlöstur þjóðarinnar og verri hér en í nokkru öðru landi. Grunnur alls þess er flottræfilshátturinn þar sem ríki og sveitarfélög ganga í dag á undan með vondu fordæmi.  Skólakrakkarnir okkar mæta í skóla sem eru alsettir skrifstofustólum af sama klassa og við systkinin nurluðumst til að kaupa í sameiningu handa föður okkar sjötugum. Og auðvitað apar alþýðan þetta eftir og nú verða láglaunamenn að keyra um á milljóna jeppum um malbikuð stræti.

En ekkert af þessu lögum við með vaxtaokri.  Það hefði líklega meira að segja ef Seðlabankinn flytti sig í iðnaðarhúsnæði, seldi flottræfilshúsið við Arnarhól og bankastjórarnir færu að aka í vinnuna á gömlum Lödum. Því þetta er spurning um þankagang.

 

Lögmálsmenn sem trúa á þá patentlausnir eru dæmdir til að gera vitleysur. Með vaxtaokri Seðlabankans gerist það eitt að almúginn reiðist og heimtar evru og inngöngu í Evrópusambandið, bara af því að þar er ekki verið að berja hann daglangt með hnútasvipu hávaxtanna.  Við þurfum vissulega vexti í hærra lagi en öfgar leiða alltaf í ógöngur.

Það getur vel verið að hér verði einhvern tíma tekin upp önnur mynt en króna og þá frekar dollar eða pund því allir sjá að evran er bara matadorpeningur. En myntbreytingu er ekki hægt að ráðast í á þenslutímum. Það hefði m.a. þau áhrif að snarlækka vexti og auka þar með enn á neyslu- og skuldafylleríið sem er okkar mesta vandamál. Stjórnleysið í efnahagsmálum yrði þá algert.

Seint og snemma er það höfuðvandi mannskepnunnar að hún kemur sér hjá því að hugsa en fer að þess í stað að trúa á patentin,- vaxtalögmál eða evruský. Þegar það er samt svo augljóst að það mun auðvitað taka Íslendinga einhverja áratugi enn að jafna sig á vitleysu verðbólguáranna og neikvæðu vöxtum eftirstríðsáranna. Á meðan verður auðvitað erfitt að stjórna hagkerfinu - en það er bara eitt sem er algerlega nauðsynlegt fyrir vinnufriðinn.:

Það er að Seðlabankinn hætti þessum barsmíðum.

(Birt í Blaðinu sl. laugardag.)

(Þessi grein var skrifuð sem nokkurskonar svar inn í mjög skemmtilega umræðu sem þeir vöktu hreppamaðurinn Sigmundur Sigurgeirsson í Ameríku og Atli bróðir minn á Skaganum. Til þess að koma henni inn í Blaðið liðinn laugardag þurfti ég að skera hana aðeins niður en hér á eftir fer hún í fullri lengd, - samt er hún eiginlega betri styttri og því alveg nóg að lesa hér að ofan...)

Patentlausnir í krónumálum

Til var það fólk sem trúði að flengja skyldi sífrandi börn og því meira flengt sem sífrið var meira. Þetta gat átt til að gagnast en miklu oftar urðu flengingarnar til þess að auka enn á sífrið og skælið en þeir sem fyrir urðu hálfgerðir kramaraumingjar á eftir.  En samt var þessu haldið áfram kynslóð af kynslóð að fylgja dyggilega lögmáli vandarins og sumir lögmálsmennirnir hafa jafnvel ekki enn áttað sig á að mannleg hegðun og miklu flóknari en þessar aðferðir gera ráð fyrir.

Í hagfræðilögmáli er skrifað að hækka skuli vexti til að draga úr eftirspurn eftir lánsfé og því meiri sem eftirspurnin var því meira skyldi hækkað. Fastar beitt vaxtavendinum til flenginga á fátækri alþýðu.  Og lögmálið er þarna óhagganlegt og öruggt í sinni fávísi þrátt fyrir að heimurinn hagi sér ekkert eftir því nema þegar honum sýnist svo.

Á Íslandi býr þjóð sem allt þar til fyrir fáeinum árum bjó við skömmtun á lánsfé þannig að í raun og veru hafði enginn verulegar áhyggjur af því að safna of miklum skuldum. Bankinn passaði það. Lengi var reyndar aðal áhyggjuefnið að ná ekki nógu miklum lánum í sinn hlut því neikvæðir vextir urðu þess valdandi að lán var í reynd happadrættisvinningur aðeins óvitar lögðu fé inn í banka.

Nú eru auðvitað áratugir síðan neikvæðir vextir voru ríkjandi á Íslandi, meira en aldarfjórðungur og mörg ár síðan bankar hættu að skammta lán en fóru að falbjóða þau eins og hrossaprangarar. En einmitt þar skjöplast allri okkar pólitík og reyndar mörgum okkar félagsvísindamönnum einnegin að halda að almenningur breyti forriti sínu samhliða breyttum aðstæðum. Það hefur aldrei verið þannig. Okkur er einmitt eiginlegt og heilbrigt að burðast með gamla úrelta þekkingu og haga okkur í samræmi við liðna reynslu en ekki komandi veruleik. Þannig er mannskepnan einfaldlega.  Þessvegna virkar vaxtasvipa Seðlabankans auðvitað ekki á íslenskan almenning,- ekki með sama hætti og hún gerir í löndum sem búið hafa við jákvæða vexti og opinn lánamarkað um aldir.

Ég hafði orð á því um daginn á heimasíðu minni (bjarnihardar.blog.is) að Sjálfstæðismenn væru nú einn af öðrum að hætta sér út á þann ís að gagnrýna hávaxtastefnu Davíðs Oddssonar sem er enn sem fyrr valdamestur allra manna á Íslandi. Vesturíslendingurinn Sigmundur Sigurgeirsson svaraði mér um hæl og margir síðan bent á að hann hafi rétt fyrir sér:

„Í "vaxtaokrinu" sem þú svo kallar, kann að verða óánægja með krónuna. Það er hinsvegar einkenni sjúkdómsins en ekki orsök. Ennfremur veldur núverandi ástand því að fátækir skuldarar verða fátækari, og ríkir fjármagnseigendur verða ríkari. Hversvegna heldurðu að það sé? Það er ekki af því að skuldararnir eignast ekki pening - heldur vegna þess að þeir eyða honum öllum - ýmist jafnharðan eða fyrirfram. Reyndu að koma í veg fyrir það með skrifum og skrafi - og ástandið lagast. Þó er ég ekki að hvetja til að við verðum eins og Japanir, en einhverstaðar þar á milli væri ágætt. Íslendingar yrðu þannig sælir með sína krónu."

Og þó ekki séum við flokksbræður enda Sigmundur reblúblikani, þá er ég honum algjörlega sammála. Aðal vandamálið á Íslandi er vissulega eyðslusemi og algerlega glórulaus skuldasöfnun almennings og nánast allra lögaðila í landinu. Á því pólitíska vandamáli þarf að taka. Grunnur alls þess er flottræfilshátturinn þar sem ríki og sveitarfélög ganga í dag á undan með vondu fordæmi.  Dæmin eru hvarvetna. Í opinberum störfum borgum við lakari laun en velflestar nágrannaþjóðir en sömu stéttir ganga um þau marmaraslegin gólf sem útilokað er að finna í nokkru öðru landi. Við höfum slegið algert heimsmet í sóun og bruðli, farið langt á undan öllum nágrönnum okkar. Skólakrakkarnir okkar mæta í skóla sem eru alsettir skrifstofustólum af sama klassa og við systkinin nurluðumst til að kaupa í sameiningu handa föður okkar sjötugum. Og auðvitað apar alþýðan þetta eftir og nú verða láglaunamenn að keyra um á milljóna jeppum um malbikuð stræti.

En ekkert af þessu lögum við með vaxtaokri, Sigmundur. Lögmálsmennirnir sem trúa á þá patentlausnina gera annað með vitleysu sinni. Þeir reka almenning í kvína hjá andstæðum og hálfu vitlausari lögmálsmönnum sem trúa að hægt sé að leysa vandann með því að ganga í Evrópusambandið og höndla hér með platmyntina evru.  Þar með væru efnahagsleg stjórntæki okkar engin og það sem verst væri, - enn gefin innspýting fyrir nýju skuldafylleríi.

Vandamálið er þegar mannskepnan nennir ekki að hugsa og trúir í staðin á patentin,- vaxtalögmál eða evrulögmál. Þegar reyndin er að það mun taka Íslendinga einhverja áratugi enn að jafna sig á vitleysu verðbólguáranna og neikvæðu vöxtum eftirstríðsáranna. Það verður ekkert auðvelt að stjórna landinu á meðan en það er eitt sem algerlega nauðsynlegt fyrir vinnufriðinn.

Það er að Seðlabankinn hætti þessum barsmíðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eina sem þið framsóknarmenn sparið þessa dagana eru álver. Hvílík hneisa fyrir þig Bjarni minn sem þingmaður framsóknarflokksins í suðurkjördæmi að slá af álver í Helguvík með þessum hætti!!!! Ástæðan? Jú það er búið að vera svo mikill niðurskurður fyrir norðan og svo mikill uppgangur fyrir sunnan. Hvílík vitleysa. Heyrðir þú ekki af kvotaskerðingunni? Nokkrar stærstu verstöðvar landsins á suðurnesjum. Heil herstöð lögð niður á suðurnesjum!! Ef einhver landshluti ætti að fá álver í túnið til atvinnusköpunar væru það suðurnesjamenn. Þú byrjar ekki vel í vinnunni fyrir umbjóðendur þína á suðurnesjum bjarni, hafir þú nokkurn tíma ætlað þér að sinna þeim.

Johann (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 20:51

2 Smámynd: Páll Jóhannesson

Það væri hollt og gott fyrir ykkur framsóknarmenn að líta í eigin barm og spyrja ykkur þeirra spurninga ,,af hverju er ástandið eins og það er í dag?". Kannski gott að þið minnist þess að Framsóknarflokkurinn á jafna sök við Sjálfstæðisflokkinn á þeim vandamálum sem þjóðin glímir við í dag, ekki þeir sem voru í stjórnarandstöðu síðustu kjörtímabil. Takið hausinn upp úr sandinum, það er örugglega ekki gott að fá sand í augun.

Páll Jóhannesson, 2.10.2007 kl. 22:14

3 Smámynd: Guðmundur Björn

Þótt að Davíð komi fram í fjölmiðlum sem talsmaður bankans, þá er hann ekki einn um ákvarðanir.  Til hvers er aðalhagfræðingur í Seðlabankanum?  Myndi halda að það væri hann sem myndi nú segja hvað mest til um hvað ætti að gera.  Síðan bera bankastjórarnir tíðindin fram.

Síðan hefur Bjarni og allir sem tuða og nöldra yfir háu vaxtastigi á Íslandi (sem er að vísu mjög hátt), ekki tekið eftir því að Alþjóðabankinn (að mig minnir) mælti með hærri vöxtum til að slá á þensluna, ekki alls fyrir löngu.  Haldið þið virkilega að það sé bara Davíð sem sé með grafísku reiknivélina og excelskjalið að finna út stýrivexti á Íslandi??

Ég trúi því ekki að fólk sé svo einfalt, að trúa þessu? 

Guðmundur Björn, 3.10.2007 kl. 06:12

4 Smámynd: Þórir Kjartansson

Góð samlíking á borðleggjandi staðreyndum, Bjarni.

Þórir Kjartansson, 3.10.2007 kl. 08:26

5 identicon

Því miður er hin ofnotaða samlíking um veisluna og þynkuna nokkuð nær lagi - það getur sviðið undan, og vissulega er það ömurlegt að horfa á mánaðargreiðslurnar vinna sama og ekkert á lánastofninum.  En ef það knýr virkilega þjóðina til þess að ræða um upptöku á öðrum gjaldmiðli eða gefa sjálfstæðið upp á bátinn, þá hefur þeim sem hafa stóran míkrafón fyrir framan sig á hverjum degi við Austurvöll, penna í hönd í hverri viku, og alnetið, þakið lesendum - mistekist hrapalega að leiða þá þjóð. Vonandi er það misskilningur hjá mér að lesa einhverskonar uppgjafartón hjá þingmanninum í fyrstu vikunni í vinnunni.

En að patentlausnunum. Þekktasta patentlausnin sem sett hefur verið fram í hagfræði var sett fram af Engels og Marx. Tilbúið kerfi frá rótum, ekki byggt á reynslu eða rannsóknum á hegðunarmynstri, ekki því hvernig hlutirnir væru, heldur hugsjón um hvernig þeir ættu að vera að þeirra mati. Ég endurtek: ...ættu að vera. Það patent kerfi átti bara ekkert skylt við hið mannlega eðli, enda ekki byggt á því. Þekktar síðaritíma kenningar byggja ekki á slíku - heldur er þar horft aftur til að sjá í hvaða horf er hægt að stýra hlutunum. Ólíkt þingmanninum er ég ekki tilbúinn til að gefa peningastjórnunarkerfið upp á bátinn, og tel raunar að því hafi verið gefinn of skammur tími á Íslandi. Auk þess sem önnur öfl - þau sem stjórna efnahagsmálum að stærstu leiti - hafi ekki gengið nægjanlega í takt. Gleymum ekki að efnahagsstjórn og peningastjórn eru tvö aðskilin atriði. Á þessu ruglast margir. Davíð Oddson hefur ekkert með efnahagsstjórn að gera! En ef engin bönd eru á efnahagsstjórn getur verið erfitt að hafa bönd á peningastjórn. Verst af öllum hafa sveitarfélög staðið sig í þessum málum og gerst sek um eyðslu og óstjórn, hækkað skatta, dregið úr kaupmætti, þrýst upp verðbólgu ofl. Um þetta erum við þingmaðurinn amk. sammála, og líka það að þetta verði ekki lagað með patent lausnum, enda tel ég stjórntæki seðlabankans ekki vera patentlausn. Skiptilykill er patent lausn.

Ég skora því á þingmanninn að halda áfram umræðunni um hættuna sem felst í skuldasöfnun og bruðli. Þá hvet ég hann og fleiri til að huga að skattalagabreytingum sem hvetja (ekki neyða) almenning til þess að safna fé. Til eru mörg dæmi erlendis frá, sem við getum hæglega tekið upp á Íslandi. Ríkissjóður hefur ekkert gott af því að tútna út. Og hvergi er nálægðin eins mikil og á Íslandi og því ætti að vera auðvelt að aðstoða fólk við að snúa fjármálum sínum til betri vegar. Stjórnmálamenn gætu þar verið ágætis fyrirmyndir - ef þeir svo kysu.

Lausnin við þynkunni felst ekki í einum gráum í viðbót.

-sigm. (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 11:14

6 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Nú held ég Bjarni að þingflokkur Framsóknarflokksins verði alvarlega að fara að hugsa sinn gang.Síðasta yfirlýsing ykkar gengur þvert á stefnuyfirlýsingu Framsóknarflokksins og margupptuggnar yfirlýsingar fyrrverandi formanns flokksins um að það sé ekki lengur í höndum stjórnvalda hvar álver rísi og hvar ekki.Eruð þið kannski búin að segja ykkur úr Framsóknarflokknum, eða eruð þið kannski að reyna að sanna ykkur svo þið getið fengið pláss í Spaugstofunni.Þið verðið að gefa skýringu, ef þið ætlið ekki að verða að athlægi, sem ég er hræddur um að þið séuð nú þegar orðinn. 

Sigurgeir Jónsson, 3.10.2007 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband