Flensuhelgi með nóbelshöfundi í rúminu

Er nú vissulega tímabært - þó ótímabært sé um eilífð - að hefja þá óþrifnaðarsýslu að rita vanhelga bók um djöfulsins öfugsnúnu furður og stórmerki þá bók sem enginn getur lesna frá sér látið sér að skaðlausu og er þó ekki öllum gefið að mega stafa hana á enda. Þetta er sagan af þeim Birni og Sveini en hafa get ég sagt því ég var þar sjálfur... (Megas: Björn og Sveinn, bls. 51 )

 

Lífið sjálft er ekki á fundum, jafnvel þó þar sé setið með bráðskemmtilegum mönnum eins og segja má um t.d. formennina báða í fjárlaganefnd. Í eina tíð var lífið úti á því sem kallað var úti á lífinu en þeir erfiðu dagar eru nú góðu heilli liðnir í mínu kotkarlslífi enda slíkt ekki nema fyrir hraustmenni og börn. Og kannski ekki þó...

 

Í dag á ég mér lífið mest í bókum og líkar vel og byrjaði þennan pistil á tilvitnun í stórmerka bók meistara Megasar um þá feðga og kumpána Axla-Björn og Svein skotta. Það sækir aðeins að mér að skrifa um þessa bók því það hafa fáir gert og flestum þótti hún torlesin þegar hún kom út fyrir rúmum áratug. Einnig mér og henti henni þá frá mér hálflesinni en hefi þroskast það síðan að nú gat ég lesið hana til enda og mér til ánægju enda þótt söguþráður hennar sé nánast enginn, boðskapur óljós og efni fyrst og síðast mannvonska og heimskupör. Það sem gerir þessa bók heillandi er það sama og gerir bækur Þórbergs Þórðarsonar að snilldarverkum enda þótt sumar þeirra fjalli heldur ekki um neitt nema þá snilldarlegu hrynjandi máls sem ekki er nema örfáum okkar gefin. Björn og Sveinn er kannski ekki annað en 400 blaðsíðna torlesing stílæfing. Eiginlega ættu bæði Suðursveitarbækur Þórbergs og þetta furðurit Megasar að vera skyldulesning öllum sem vilja skilja íslenskuna og vegferð hennar á 20. öldinni.

 

En helginni eyddi ég með Doris Lessing í rúminu í vægri og eiginlega ljúfsárri flensulegu sem gaf mér löggilt leyfi til að gera ekki neitt. Ekki svo að skilja að kona þessi hafi verið hjá mér með holdi og blóði enda ku hún vera komin nokkuð til ára sinna og ég sjálfur ekki til skiptanna millum kvenna. En þar eð heimurinn ákvað að sæma þessa konu Nóbelnum gat ekki minna verið en ég hesthúsaði einni kilju eftir hana, þá fyrstu sem ég les frá hennar penna og sé ekki eftir því. Bókin heitir Grasið syngur á íslensku og eftir lestur hennar geng ég ekki að því gruflandi að kona þessi er vel að verðlaununum komin.

 

Ekki nenni ég að leita að mynd að Dorisu þessari enda kannski engin fríðleikskona lengur á tíræðisaldri og þaðan af síður myndi það gera síðu þessa fallegri að setja hér mynd af Megasi þó merkur sé svo sjálfum mér til yndisauka set ég hér frekar fjórðu myndina frá opnun bókakaffisins en þessi er af búðalokunum og kaffidömunum á nýja kaffibarnum okkar,  Guðbjörgu Runólfsdóttur starfsmanni Sunnlenska og Elínu Gunnlaugsdóttur konu minni sem stýrir bæði fyrirtækinu og mér. 

 

IMG_9389


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Reyndar held ég nú að frú Doris Lessing sé 88 ára gömul - sem sé á níræðis aldri, ekki tíræðis.

Hitt er rétt hjá þér að eyða helginni með góðri bók. Það mættu fleiri gera, burtséð frá flensu og annarri óáran.

Sirry (IP-tala skráð) 15.10.2007 kl. 13:40

2 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Heyrði viðtal við Doris Lessing á BBC ,og tilnefningin kom henni ekkert á óvart . Það hafði fyrst verið minnst á nóbel við hana fyrir fjörtíu árum.
Og hún bætti við ,að þeir yrðu að fara gefa henni nóbeelin,þ´vi þeir gefa hann ekki látnu fólki.
Kona með góða kímni.

Halldór Sigurðsson, 15.10.2007 kl. 20:59

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Af því þú minnist á Suðursveitarsögur Þórbergs, Bjarni þá finnst mér þegar ég kem í baðstofuna á Þórbergsetrinu ég jafnvel verða var við fjósalykt, svona ekta framsóknarlykt, sem þú ert hrifin af.Þannig lykt var víst í gömlu baðstofunum, segja þeir sem til þekktu.En þetta skil ég ekki, því enginn veit til þess að Þórbergur hafi verið framsóknarmaður.En kannski er hann orðinn það núna,hefur kannski fylgst með ykkur Guðna. 

Sigurgeir Jónsson, 15.10.2007 kl. 21:53

4 Smámynd: Heimir Tómasson

Þetta meistarastykki Megasar er eins og þú segir, einungis stílæfing. Enda gaf Megas hana bara út (reyndar í dulitlu lyfjarússi eins og það heitir) til þess að sjá hvað hann kæmist upp með. Var þessi bók reyndar ein af ástæðum þess að hann fékk Íslenskuverðlaunin (böns of monní) eins og frægt er orðið. Fáir hafa jafnmikið vald yfir Íslenskunni og Meistarinn. Gaman að lesa þessa bók út frá málfræðisjónarmiðum.

Heimir Tómasson, 19.10.2007 kl. 04:31

5 Smámynd: halkatla

ok þetta er mega weird tilviljun þann 15.10 minntist ég líka á Svein skotta á mínu bloggi! finnst þér það ekki undarlegt?

halkatla, 19.10.2007 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband