Jólin og allar þeirra bækur

Eitt það skemmtilegasta við jólin eru bækurnar - þá ekki bara að selja þær, heldur ekki síður hitt að eiga ómældar nætur til að lesa þær. Var rétt í þessu að leggja frá mér lesna bókina um Elías Mar þar sem Hjálmari Sveinssyni tekst mætavel að lýsa þessu skemmtilega skáldi sem lést á liðnu vori. Ég kynntist Elíasi aðeins þegar hann las fyrir mig prófarkir í aukagetu fyrir tveimur áratugum. Hann var skemmtilegur og hlýr maður og bókin um hann er reglulega vel gerð og athyglisverð samantekt um einn kaflann í bókmenntasögu þjóðarinnar,- mótun borgarskálda í sveitalegu landi. eliasmar

Blessuð sé minning Elíasar,- sem ég veit ekki almennilega hvernig á að vera í eignarfalli seinna nafns, líklega Mars, en þá ekki borinn fram eins og reikistjarnan heldur með sterku erri og veiku essi.

Líklega er þessi bók næstbest þeirra jólabóka sem ég hef lesið og þá sleppi ég Guðna sem ég verð varla talinn dómbær um enda las ég hana í handriti (og hún er hrein snilld). Sú besta af jólabókunum sem ég hefi lesið er annars bók Jóns Kalmans um fátæka eyrarpilta fyrir vestan sem heitir því bratta nafni Himnaríki og helvíti.

Næst bíða mín ÞÞ, Davíð og fleiri snillingar auk þess sem ljóðabókin Skimað út liggur hér á reykborðinu og er bara giska góð en höfundur hennar er Gunnar M. G. en upplag hennar er takmarkað og hana því óvíða að finna. Vinkona mín og móðir skáldsins, Hrefna Birgisdóttir, var svo elskuleg að færa mér eintak. Þessvegna er við hæfi að ég endi þennan stutta bókapistil á tilvitnun í skáldið þar sem það yrkir um hlátrasköll fortíðar:

ástir fyrri kynslóða

er saga
sem sjaldan birtist

í öðru en tilveru okkar
sem tökum við

og elskumst síðar.

------------------

En annars þurfa jólabækur ekki endilega að vera nýjar. Sú merkasta sem ég fékk í pakka þessi jól er hið merka ritsafn Jóns Árnasonar og Ólafs Davíðssonar um gátur, skemmtanir, vikivaka og þulur sem foreldrar mínir færðu mér í tilefni dagsins. Meira en aldargömul bók sem fylgt hefur föður mínum hálfan þann tíma og þar áður lengstum þingmanninum Eiríki Einarssyni frá Hæli í Hreppum. Þeim sem hefur þá bók þarf aldrei að leiðast!

Gleðileg jól!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eignarfallsmyndin er Marar.

... (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 11:37

2 identicon

Komdu sæll Bjarni og gleðileg jól.  Ég rataðist inn á þessa síðu þína og sá þar meðferð þína á nafni. Þar beygðir þú mannsnafnið Mar og taldir eignarfallið eiga að vera Mars. Þú útlistaðir þína hugsun þannig, að féll mjög nákvæmlega að minni tilfinningu á notkun nafnsins; “með sterku erri og veiku essi”   (e.t.v. með löngu a-i á undan errinu.)  Einhver kom á síðuna og sagði að eignarfallsmyndin væri Marar. Sjálfsagt er það ekki rangt, þó að sú mynd falli mér ekki. Það er orðið algengt með þjóðinni að beygja orð á þennan hátt, eins og t.d. Brandur, sem ég vil nefna til Brands og Ágúst vil ég beygja til Ágústs. En margir segja “til Brandar og Ágústar”.  Þetta aukaatkvæði finnst mér vera til komið eftir að ég komst “á legg” og beygingar orða hafi breytst með okkur.  –En, hvað þá með   “Marar báran blá...”  Hlýtur að merkja    Hafs aldan blá...

        Þetta eru bara vangaveltur, til gamans, en um þessi orð eru áreiðanlega uppi mismunandi sjónarmið um beygingar.

Kveðja, Sigurgeir

Sigurgeir Jónsson, Fagurhólsmýri (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 13:52

3 identicon

Sesar (síðar Cæsar) faðir hans tók sér nafnið til að minna á sjóinn. Eignarfallið er marar.

Marar báran blá, brotnar þung og há, et cetera

Þorsteinn (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 15:55

4 identicon

Það var einmitt það! Sennilega var beygingin svona áður en "ég komst á legg"

Sigurgeir

Sigurgeir Jónsson Fagurhólsmýri (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 17:59

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Gleðileg jól, Bjarni og farsælt komandi ár með þökk fyrir það sem er að líða.

Satt best að segja þyrstir mig i sagnabrunn frásagna álíka þeim er er hér fyrr voru títt útgefnar um mannlíf í landinu.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 27.12.2007 kl. 02:14

6 Smámynd: Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir

Gleðileg jól. Mig langar að spyrja Sigurgeir Jónsson hvernig hann myndi beygja kvk nafnið Heiðbrá ?  Bara svona til gamans þar sem ég á stúlku sem ber þetta nafn og það hafa verið pælingar í fjölskyldunni hvernig nafnið beygist.

Guðbjörg Elín Heiðarsdóttir, 28.12.2007 kl. 08:54

7 identicon

Í upphafi skyldi endinn skoða.   Lentur í að svara spurningum "á netinu" áður en varir. En án þess að hugsa mig um, mundi ég stíla þetta til Heiðbrár.  Ég er hins vegar kominn á þá skoðun, að fólk eigi að fá að ráða -upp að einhverju ótilgreindu marki- meðferð á sínu eiginnafni og yrði ekki hissa á að margir (flestir?) mundu stíla til Heiðbráar.

Sigurgeir.

Sigurgeir Jónsson (IP-tala skráð) 28.12.2007 kl. 10:28

8 Smámynd: Bjarni Harðarson

sælir allir beygingamenn - þakka skemmtilega umræðu þó ég eigi ennþá erfitt með að kyngja mararbeygingunni. en vísast er þetta rétt þó ég geti ekki sagt að beygingin sé fögur.

Bjarni Harðarson, 28.12.2007 kl. 15:53

9 identicon

Hún er ágæt í kvæðinu, sem vitnað var í, en ég kann bara ekki við hana í mannsnafninu.

Sigurgeir.

Sigurgeir Jónsson (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 20:42

10 identicon

Sæll Bjarni minn gleðilegt ár og þakka þér fyrir gamla árið. Ég vil gjarnan leggja orð í belg um þessa beygingu á orðinu mar og þar er ég þér sammála eins og stundum áður. Forfaðir minn sem hét Einar Jónsson og var fæddur 1787 og bjó í Þerney á Kollafirði og Breiðabólstað á Álftanesi var kallaður Einar skans ( sjálfsagt eftir Bessastaðaskansi) Um þennan forföður minn var þessi vísa gerð.

Einar skans með fólk og fans

fer til lands á nóni.

Skeiðin hans þess mæta manns

mars á dansar lóni. 

gils 

gils einarsson (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 16:19

11 identicon

Góð vísa sem gaman var að sjá.

Kveðja Sigurgeir

Sigurgeir Jónsson (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband