Er þá ekkert hægt að gera?

Í nýlegri úttekt hins ameríska Bloomberg kemur fram að stjórnvöld á Íslandi séu enn aðgerðalaus þrátt fyrir gengishrun og nú fær aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar þá einkunn að þykja í meira lagi undarlegt. Viðmælandi fréttamanns Bloomberg, sérfræðingur hjá BNP Paribas SA sem er stærsti banki Frakklands, notar reyndar hugtakið „somewhat bizarre" sem ég eftirlæt stjórnarliðum þessa lands að þýða eftir eigin smekk. Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins um páskana tekur í sama streng og hvarvetna heyrast nú áhyggjur af þyrnirósarsvefni ríkisstjórnarinnar. Svefnmóki sem við Framsóknarmenn höfum í mánuði vakið athygli á.

Öðrum að kenna!

Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru þau ein að efnahagsvandinn sé öðrum að kenna og eiginlega ekkert hægt við honum að gera. Á meðan æðir verðbólgan upp, vaxtasvipa Seðlabankans er þanin til hins ýtrasta og trúverðugleiki íslenskra viðskipta á heimsvísu hangir á bláþræði. Að ekki sé hér talað um hlutafjármarkaðinn.

Það er vissulega rétt sem komið hefur fram hjá bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra að hin alþjóðlega efnahagskreppa sem nú ríður yfir hefur mikil áhrif hér á landi og ef allt væri með felldu á heimsmarkaði hlutabréfa þá væru vandamálin hér heima vel viðráðanleg. En það breytir ekki því að sólarmerki þeirra kreppu sáust fyrir misserum síðan og stjórnvöld gátu gripið til aðgerða strax á síðasta ári en gerðu það ekki og það er þegar farið að valda þjóðarbúinu ómældum fjárhagslegum skaða. Áframhaldandi aðgerðaleysi er þjóðarbúinu háskalegt. Það er ekki rétt sem hinir úrræðalausu ráðherrar segja - að ekkert sé hægt að gera.

Samhljóm við hagstjórn

Það hefur mikið skort á samstöðu innan ríkisstjórnarinnar og víst er að þrálátar upphrópanir um Evrópusambandsaðild hafa ekki verið til að styrja samstarfið. Í reynd er landsstjórnin þríklofin þar sem eru Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Seðlabanki Íslands.

Það er alveg ljóst að við núverandi aðstæður verður ríkisstjórnin að ná samhljómi við Seðlabankann jafnvel þó að það þýði breytingar þar. Það er beinlínis háskalegt að Seðlabanki og ríkisstjórn gangi ekki í takt á viðsjártímum. Þar ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð, einkanlega þegar hér var farið fram með gassaleg og ábyrgðarlaus fjárlög á haustdögum. Þjóðin öll sýpur nú seyðið af þeirri eyðslustefnu sem ný ríkisstjórn ákvað að framfylgja þvert á alla skynsemi en fjárlög hafa ekki hækkað viðlíka milli ára síðan fyrir tíma þjóðarsáttar.

Fjárlögin voru þannig andstæð markmiðum Seðlabanka, andstæð ráðleggingum hagfræðinga og andstæð ráðum stjórnarandstöðu. En þau gengu líka þvert á kosningastefnur stjórnarflokkanna beggja þar sem m.a. var gert ráð fyrir jafnvægi og ábyrg í hagkerfinu til þess að vextir og verðbólga gætu lækkað. Við fjárlagagerðina í desember síðastliðnum varð hver stjórnarliði að fá að leika hinn gjafmilda og ábyrgðarlausa jólasvein og það veldur miklu um hversu erfið staðan er í dag.

Aðgerðir strax!

En talandi um núninginn sem greinilegur er milli ríkisstjórnar og Seðlabanka þá eru vitaskuld á því máli tvær hliðar þar sem viljaleysi til samstarfs hefur löngum virst gagnkvæmt. En einnig þar ber stjórnin ábyrgð. Það er í hennar valdi og verkahring að haga málum þannig innan Seðlabanka að gott samstarf ríki milli aðila. Það er löngu augljóst að stjórnvöld verða að færa verðbólgumarkmiðin nær raunveruleikanum og  endurskoða stýrivaxtavopnið en sú stefna að berja gengið upp með vöxtum er háskaleg gagnvart skuldsettum almenningi og ekki farsæl. Þá þarf ríkissjóður að gefa hressilega á garða í sjóði Seðlabanka og saman verða ríkissjóður og Seðlabanki að liðka eftir mætti til fyrir viðskiptabönkunum.

Á sama tíma verða stjórnvöld að gíra verðbólguna niður sem er hægt með lækkun á hverskyns neyslutollum á matvælum, eldsneyti og ýmsum öðrum varningi. Slíkar aðgerðir geta skilað árangri ef um leið er kallað eftir samstöðu og skilningi allra landsmanna. Með aðgerðum sem þessum má verja skuldugan almenning, húsnæðiseigendur og fyrirtækin fyrir verðbólgubáli.

Í landi þar sem önnur hver króna rennur í ríkissjóð er fráleitt að halda því fram að ríkið geti ekki haft áhrif á verðlag. Það er vissulega gott að eiga traustan ríkissjóð en ef allt annað brennur upp í verðbólgubáli er það til lítils. Ríkissjóður er ekki sjálfbær til langframa og verður því aðeins traustur að undirstaða hans sé traust í fyrirtækjum og heimilum landsmanna. Því getur verið meira virði að voga innistæðu ríkissjóðs til þess að halda þjóðarbúinu í viðunandi stöðu.

Það er vond búmennska að svelta búsmalann en safna firningum!

(Birt í Morgunblaðinu 31. mars - nema síðasta setningin sem var af ráðgjöfum talin of forn og tyrfin til að eiga erindi á prent...)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Það er einmitt siðast setningin sem maður metur mest,!!!hún er aðal meinið!!!!Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 31.3.2008 kl. 20:43

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

Það er auðvitað alveg met að þurfa að kommenta hjá sjálfum sér en ég má til með að koma því hér inn að þessa grein skrifaði ég á annan í páskum en varð vegna plássleysis að bíða í viku eftir birtingu á Mogganum. Get svosem ekki kvartað yfir að Morgunblaðið birti ekki eftir mig því þar eru menn liðlegir. En ég fæ samt eins og aðrir að finna að blað þetta er ekkert málgagn okkar Framsóknarmanna. Þannig kvað Staksteinahöfundur upp sinn dóm um daginn þegar ég atti kappræðu við Elínu Ragnheiði vinkonu mína og Sjálfstæðisþingkonu um málefni Keflavíkurflugvallar - og kvað engan efa á niðurstöðunni en þar stóð: Ragnheiður Elín vann. Mér varð hugsað til þess ef að Tíminn væri enn við lýði hefði hann líklega haft aðra skoðun á því hver hefði staðið sig betur en ég læt hér lesendum bloggsins að dæma þetta allt hver fyrir sig. En sjálfum dugir mér ágætlega að eiga eigin bloggsíðu sem málgagn og veit svo sem ekki hverju Morgunblaðið skilar Sjálfstæðisflokknum í dag, það veit það líklega enginn!

Bjarni Harðarson, 31.3.2008 kl. 20:50

3 identicon

Ljómandi góð grein hjá þér Bjarni.

Tilvísun í búsmala var einkar viðeigandi þegar almenningur stendur frammi fyrir þeim álitnu spurningum hvort stjórnmálamenn hafi almennt breyst í ráðlausa sauði?

Það var að vísu eitt  sem vantaði sárlega í aðgerðapakkann sem þú lagðir til, og það er, samdráttur í útgjöldum ríkissjóðs á móti lækkun tekna. Reyndar virðist það nokkuð augljóst að þó ríkisstjórnin haldi áfram að gera næstum lítið þá mun almennur samdráttur valda minnkun tekna og því haldlítil rök sem nú heyrast að búið sé að festa  verkefni í fjárlög og séu því óbreytanleg. Ekki stoppaði það menn frá því að fresta t.d. Siglufjarðargöngum á síðasta kjörtímabili! Ef einhver alvara væri að baki aðgerðum stjórnvalda í dag þá væri framboð til öryggisráðs slegið af, ferðum embættis og stjórnmálamanna til útlanda fækkað, hátæknisjúkrahús saltað, sendiráðum fækkað, nýráðningar hins opinbera stöðvaðar,  stofnun nýrra eininga s.s. Vatnajökulsþjóðgarðs verði slegið á frest, og svona mætti lengi telja. Ef ríkissjóður ætlar að eiga sjóði til að verja handónýtan gjaldmiðil, og banka, sem flytja meira fjármagn milli landa heldur en öll íslenska þjóðin til samans eyðir í bíla og flatskjái, þá er eins gott að fara að spara strax.

Eitt að lokum, hef ekki séð neina umræðu um hve miklu lífeyrissjóðirnir okkar hafa tapað undanfarið.  Væri fróðlegt að fá þær tölur fram í dagsljósið núna.

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 08:43

4 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll Bjarni, takk fyrir alla pistlana þína en mig langar til að athuga hvort einhver  sem les bloggið þitt geti bent Fjölskylduhjálp Íslands hvar hægt er að kaupa góðar kartöflur, okkur vantar sárlega kartöflur.  Þeir sem hafa kartöflur hringi í síma 892-9603.

Með góðri kveðju til þín.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 1.4.2008 kl. 13:39

5 Smámynd: Baldur Fjölnisson

"Somewhat bizarre" hahahaha.

Síðasta setningin er hrein snilld.

Frábær pistill.

Með kveðju,

Baldur F. 

Baldur Fjölnisson, 1.4.2008 kl. 18:44

6 identicon

Síðasta setningin er ekki nægilega forn, því fyrningar eru ekki mikil firn, heldur eru þær fornar og ritast með y. Annars er ég kominn yfir það að vera að gera athugasemdir við stafsetningu en gat ekki á mér setið nú.

Guðmundur Stefánsson (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband