Réttmætar áhyggjur af hráu kjöti

Þingeyskar húsfreyjur sendu frá sér ályktun í gær sem ég tel rétt að birta hér á blogginu enda algerlega sammála þeim og hef í bili engu við þetta að bæta. Skrifaði reyndar pistil um málið fyrir nokkrum dögum sem má sjá hér neðar:

"Aðalfundur Kvenfélagssambands Suður-Þingeyinga haldinn í Ýdölum dagana 18. og 19. apríl 2008, lýsir yfir þungum áhyggjum af fyrirhuguðum innflutnngi á hráu kjöti, samkvæmt frumvarpi um breytingar á matvælalöggjöfinni, mál 524, sem liggur fyrir Alþingi en með því er verið að innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins.

Aðalfundurinn telur að slíkur innflutningur muni ekki aðeins skaða innlenda landbúnaðarframleiðsu og veikja varnir gegn smitsjúkdómum í búfé heldur svipta komandi kynslóðir þeim lífsgæðum sem felast í því að eiga greiðan aðgang að þeirri gæða vöru, hreinleika og heilbrigði sem íslenskar landbúðarvörur sannarlega eru.

Þá kemur þessi breyting til með að hafa ófyrirsjáanleg áhrif á matvælaiðnaðinn í landinu þar sem hætt er við að fjöldi starfa í greininni gæti lagst niður.

Einnig hefur fundurinn áhyggjur af, að fyrirhugaður innflutningur leiði til skammtíma verðlækkana, en langtíma áhrif geti orðið verðhækkanir og minni vörugæði.  Afleiðingar þess geti orðið að þeir sem minna hafa milli handanna verði að sætta sig við minni gæði á matvöru sem aftur geti leitt til lakara heilsufars.

Því skorar aðalfundurinn á alþingismenn að koma í veg fyrir fyrrgreindan innflutning."

Jú annars - mig langar að bæta hér við: Líkurnar á að fá salmonellusmit hér heima eru í dag algerlega hverfandi svo vel sem tekist hefur að uppræta sjúkdóminn í íslenskum verksmiðjubúum en verður frekar sennilegt og tilfellin væntanlega alltaf nokkur á hverju ári hér á landi ef farið verður að flytja inn hrátt kjöt. Salmonella getur í vissum tilvikum valdið varanlegu heilsutjóni og örorku. Ef þetta er ekki nóg þá veit ég ekki hvað!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Harðarson

100% sammála - það er forgangsverkefni að lækka matarverð á íslandi og þar skiptir miklu að matarskattur verði felldur niður. síðan að samkeppni verði virkari og að síðustu að neytendavaktin verði virkari. við erum eins og alltaf sammála alex og sjálfur tel ég að framtíðarmarkmiðið eigi að vera niðurfelling allra tolla - EN ALDREI HRÁTT KET!!!

Bjarni Harðarson, 22.4.2008 kl. 11:50

2 Smámynd: Guðjón H Finnbogason

Sæll Bjarni.Ég held að verð á innfluttu kjöti verði ekkert ódýrt og lækki ekki miða við það sem það er í dag,ég skil ekki alveg þessa hræðslu og þennan hræðsluáróður sem þið Framsóknarmenn farið af stað með,ég hef notað þetta kjöt í mörg ár og margir Íslendingar hafa gert það og enginn er dauður af því og enginn veiki hefur komið upp í sambandi við það.Ég held að þetta hjálpi framleiðendum að vanda sína vöru og setja ekki á markað nema það sem er gott.Það hefur vantað upp á gæðin þó það sé alltaf að batna en samt erum við að fá nautakjöt sem er seigt það á bara ekki að finnast.lambsskrokkar eiga að hanga lengur áður ern frysting hefst,það vita allir en gerir enginn vegna þess að þú færð ekkert annað,þessi hugsunar háttur er til ennþá.Því miður held ég að það verði ekki þær breytingar sem fólk heldur í sambandi við þennan frjálsa innflutning.

Guðjón H Finnbogason, 22.4.2008 kl. 13:08

3 Smámynd: Lilja Kjerúlf

Á þessum link er einmit umræða um þetta mál.

kannski einhverjir fleiri vilji taka þátt?

http://annaragna.blog.is/blog/annaragna/entry/514110/#comments

Lilja Kjerúlf, 22.4.2008 kl. 15:00

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hahahaha

ekki er ég alltaf sammála þér Bjarni, en skemmtilegur ertu.

Brjánn Guðjónsson, 22.4.2008 kl. 15:54

5 identicon

Er þetta sama kvenfélag og sendi skeytið "Guði sé lof að það var bara arsenik!" um árið?

Harpa endalaus mágkona þín (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 19:29

6 identicon

Mér þykir rétt að bæta því við að Handprjónasamband húsmæðra á betri bæjum í Borgarfirði hefur átján sinnum ályktað gegn innflutningi á stuttermabolum frá Kína, enda margsannað mál að ef bændur fara á fjall í þessum glænepjulega klæðnaði slær að þeim, sérstaklega í eftirleitunum. Það þarf því ekki frekar vitnanna við. Mannslíf eru í húfi og það líf kjarngóðra manna í blómlegum sveitum. Látum ekki íslenska vaðmálið víkja fyrir ódýrum innflutningi. Minnumst heldur orða skáldsins: „Margan prýðir horskan hal, hamurinn sá er rollan ber.“

Form. ICBS (IP-tala skráð) 22.4.2008 kl. 19:37

7 Smámynd: haraldurhar

   Bjarni þetta er bara hrein og klár afturhaldspólitík að vera fjargviðrast út af innfluntingi a hráu kjötmeti frá útlöndum, auðvitað á þetta vera frjálst, og lækka tolla.

   Eins og þú auðvitað veist hefur kjöt bæði frosið og ófrosið verið flutt inn hér í áratugi, og ekki síst á vallarsvæðið, en afgangar frá eldhúsi hersins, voru notaðir á áratugi til að ala svín á.

   Ef þú vildir vera samkvæmur sjálfum þér þá ætturu að leggja til að banna allan innfluting á kjarnfóðri svo ekki sé talað um heilsufæðið svo sem híðishveiti og Rís.  allt getur þetta borið með sér veirur.

    Áhugavert að sjá í yfirlísingu þingeysku kvennana að þær höfðu áhyggjur að þeir sem minna mega sín leiddust í eta þennan innflutta óhroða, en gleymdu því að margt heimilið hér á landi hefur takmarkaða getu til að kaupa rándýrar ísl. landbúnaðarvörur.

  Ef framsóknarflokkurinn á að lifa verður hann að koma inn í nútímann, en ekki færa sig aftur um áratugi í stefnu sinni. Tími helmingaskipta og hafta er liðinn.

haraldurhar, 22.4.2008 kl. 21:53

8 Smámynd: Bergþór Skúlason

 Sæll Bjarni, 

Leitt þú skulir taka undir svo þröng sjónarmið sem koma fram í þessari yfirlýsingu. Þau endurspegla vissulega áhyggjur sem vert er að taka tillit til, en þú verður að byggja þín viðbrögð og afstöðu á víðari grunni en þetta.

 1. Við vitum vel að Íslenskar landbúnaðarvörur eru hreinar vegna þess hvernig staðið er að framleiðslu þeirra, ekki vegna þess að salmonella sé ekki til staðar í íslenskri náttúru, það hefur hún alltaf verið þó ekki sé nema vegna farfugla. Innflutningur á hráum matvælum mun engru breyta þar um. Þau hafa verið flutt inn hingað til lands með ólöglegum hætti um áratugi, það kannast margir við að hafa etið “sjórekið” brasilískt nautakjöt hér á landi. Ertu virkilega að leggja til að núverandi fyrirkomulag með smygli án nokkurs eftirlits sé betra en innflutningur með viðeigandi eftirliti.?? 2. Umræddar breytingar hafa verið í farvatninu í bráðum tvo áratugi frá því GATT lauk Uruguay samninganlotu sinni upp úr 1990. Íslenskur landbúnaður hefur haft nægan tíma til að undirbúast og aðlagast og Guðni getur staðfest að hann hefur unnið ötullega að því að aðstoða greinina að því að undirbúa sig undir þessar breytingar. Þær koma engum á óvart og munu ekki leiða til neinnar uppstokkunar hér á landi, helst munu svín og kjúklingar finna fyrir þessu en hefðbundnar greinar landbúnaðarins minnst. Reynslan frá m.a. Finnlandi sýnir að neytendur eru trúir þeim vörumerkjum sem þeir treysta og þekkja.  

3. Við lifum á erfiðum tímum og það er auðvelt að missa sjónar á því hvernig hag landsmanna verður best borgið við núverandi aðstæður. Frjáls viðskipti milli landa með sem minnstum hindrunum í formi tolla er affarasælust leið til að skapa jafnvægi milli innlendrar og erlendrar framleiðslu. Neytendur njóti þannig hags af ódýru erlendu verði sem stendur til boða og innlendir framleiðendur standi sig vel á þeim sviðum sem þeir eru góðir á. Ekki gleyma því að það hafa ekki allir endalaus efni á “þeim lífsgæðum sem felast í því að eiga greiðan aðgang að þeirri gæða vöru, hreinleika og heilbrigði sem íslenskar landbúðarvörur sannarlega eru.”

 

Framsóknarkveðjur úr Kópavoginum

Bergþór Skúlason, 22.4.2008 kl. 23:11

9 identicon

Burtséð frá öllum sjónarmiðum um matvælaöryggi, hollustu og fleira slíkt finnst mér um þetta mál gilda það grundavallarsjónarmið að fólk eigi að hafa valfrelsi. Við eigum að hafa frjálst val um hvað er í matinn, innlent eða erlent. Fyrir þá sem eru mótfallnir innflutningi er mikilvægt að velja réttar röksemdir, svo sem að tíunda gæði framleiðslunnar. Um það efast enginn. Að telja erlend matvæli beinlínis hættuleg heilsu fólks er hallærislegur hræðsluáróður. Rök um hrun í íslenskum sveitum hafa gjarnan verið notuð þegar innflutning matvæla ber á góma og að vá sé fyrir dyrum, þar sem þjóðmenningin hrein og tær varðveitist hvergi betur en meðal sveitafólks. Slík sjónarmið finnast mér óskaplega langsótt og lýsa best heimóttaskap og dæmalausum útúrboruhætti.

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 08:31

10 identicon

Stjórnlust frelsi er nú ekki allstaðar til bóta. Dæmi:  Síðan stór- markaðirnir yfirtóku verslunina höfum við Vestur- Skaftfellingar orðið að kaupa hinar ýmsstu vörur um 60- 100%dýrari en í stórmörkuðum og með þeim hætti mátt borga meiri virðisauka til ríkisins sem því nemur. Og nú er viðskiptaráðherra svo kallaðra jafnaðarmanna eins og þeir kalla sig sjálfir að boða niðurfellingu á svo kölluðum olíu- jöfnunarsjóði sem þíðir m.a. hærri virðisaukaskatt á dreifbýlið.

Bergþór.Hefur þú velt því fyrir þér hverning verð á íslenskum land- búnaðarvörum verður til. Mér skilst að af heildarútgjöldum fjölskildnna sé hlutur íslenskra landbúnaðvara um 8% þar af hlutur bóndans helmingur af því þ.e. 4% af heildarútgjöldum fjölskildnna. Hvað um hin 96% ætli að geti ekki verið hægt að finna eitthvað bitastæðara þar en ráðast alltaf á landbúnaðinn. Veltu því fyrir þér.

Ef halda á sem mestu af landinu í byggð sem ég held að flestir vilji, þá þarf þar að vera lámarks fólksfjöldi á hverju byggðu svæði sem byggt er,svo það fólk geti fengið þá þjónustu sem aðrir lands-  menn hafa. Ef hægt er að finna einhver önnur heilsársstörf en landbúnað í dreifbýlinu þá er það gott,en meðan svo er ekki þá verður þar rekin landbúnaður þó gamaldags sé talin af sumum.

                                  Gissur á Herjólfsstöðum  

Gissur Jóhannesson (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 08:56

11 identicon

Gissur! Hver í ósköpunum er að ráðast á landbúnaðinn, svo ég vitni í pistil þinn hér að framan? Gagnrýni og skiptar skoðanir eru allt annað en árásir. Ólík sjónarmið og frjáls skoðanaskipti um menn og málefni eru einfaldlega vitnisburður um heilbrigt samfélag. Að telja slíkt til árása gefur tilefni til að ætla, að málstaður íslenskra bænda sé ekki góður, þegar allt kemur til alls.

Sigurður Bogi Sævarsson

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 09:48

12 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Það er sennilega of langt síðan Íslendingar sultu.  Nú eru breyttir tímar og flest öll hráefni til matvælagerðar eru að verða skortsvara enda hafa verðin margfaldast á síðustu mánuðum á heimsmarkaði

Allar aðrar þjóðir hafa verið með neyðarfundi vegna ástandsins á matvælamarkaði heimsins. það hvergi sem frjáls markaður sem ræður ferðinni matvælaframleiðslunni, Hvergi.

Núna er verið að stórauka framlög um heim allan í landbúnað. Allur skalinn á eftir að stórhækka. Kornbændur hafa verið að stórgræða og anna ekki eftirspurn á meðan kjötframleiðendur hafa ekki náð að hækka í takt við fóðurhækkanir Svona er ástandið í Kanada 

10.000 svínabændur á Spáni eru gjaldþrota og geta ekki greitt fóðurreikningana. verð svínakjöti þarf að hækka um 140% á heimsamarkaði svo endar nái saman.

Ég get nú ekki sagt annað umræðan hér íslandi er svo á  skjön við umræðuna í öðrum löndum að sennilega búum við á örum hnetti

Hér skal bændum útrýmt með öllum tiltækum ráðum svo Baugur geti grætt eilítið meir

Einu get ég lofað að þessi breyting verður ekki til þess að lækka verð til neytenda 

Við getum tekið alla flóruna af tollausum þurrvörum sem eru miklu dýrari hér en annarstaðar. Með þessu frumvarpi verður Baugi gert auðvelt að  viðhalda offramboði á kjöti og þeir munu gera það.

Innlendir framleiðendur  reyna  og verðin munu lækka á meðan Baugur kreistir síðust dropana úr innlendum framleiðendum og láta þá taka rýrnunina eins og þeir gera dag. þegar bændur verða búnir kemur verð til með að hækka og verða 20-30% dýrara en í dag eða þá að eingöngu verða selt uppþýtt kjöt og frystivörur

Síðan þarf  að skaffa 10.000 manns önnur störf 

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 23.4.2008 kl. 10:48

13 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Leiðrétting á annarri klausu:

Aðrar þjóðir hafa verið með neyðarfundi vegna ástandsins á matvælamarkaði heimsins. það er hvergi sem frjáls markaður ræður ferðinni í matvælaframleiðslunni, Hvergi.

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 23.4.2008 kl. 11:30

14 identicon

Höft á milliríkjaverslun með landbúnaðarafurðir koma í veg fyrir hagvöxt í mörgum fátækum löndum. Þau stuðla því tæpast að betri heimi. Íslenskar landbúnaðarvörur er misgóðar eins og landbúnaðarvörur í öðrum löndum og af og frá að innlend framleiðsla sé alltaf hollari eða betri en innflutt. Þetta er álíka hallærisleg þjóðremba eins og að halda því fram að hér á landi séu allir hraustustu karlarnir og fallegustu konurnar. 

Íslendingar dreifðust á sínum tíma kringum landið af illri nauðsyn. Nú er sú nauðsyn sem betur fer úr sögunni og fólk þjappar sér saman þar sem flestir eru fyrir og þar með fjölbreytilegustu tækifærin til atvinnu, menntunar og tómstunda. Að reyna að koma í veg fyrir þetta er ekki bara rándýrt og heimskulegt heldur er það líka dæmt til að mistakast og því eins gott að hætta því strax.

Það er hrein vitleysa að fámenn atvinnugrein eins og landbúnaður hafi úrslitaáhrif á hvaða reglur gilda um verslun og viðskipti og löngu tímabært að taka upp raunverulegan markaðsbúskap með matvæli.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 23.4.2008 kl. 12:19

15 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Atli

Nefndu mér eitt land þar sem markaðsbúskapur stjórnar matvælaframleiðslunni. það verður erfitt fyrir Íslendinga eina að frelsa heiminn

Og ef þú heldur að frjáls innflutningur verði til að lækka verðinn þá verð ég hryggja þig með að svo verður ekki, ótal eru dæmin til að benda á t.d. grænmetið

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 23.4.2008 kl. 13:29

16 Smámynd: Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Ps

Að henda út 10 - 12 þúsund störfum aðeins til að Baugur geti grætt meira

Sennilega er það mjög skynsamlegt

Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 23.4.2008 kl. 13:34

17 identicon

Sæll Gunnar

Það virðist kannski gáfulegt og málefnalegt að spyrja: "Nefndu mér eitt land þar sem ..."

Það er hægt að ljúka slíkum spurdaga með ýmsu móti: Nefndu mér eitt land þar sem karlar og konur njóta sömu kjara - þar sem stjórnmálamenn beita aðeins málefnalegum rökum - þar sem enginn misnotar vald sitt?

Þú getur ekki nefnt slíkt land og það get ég ekki heldur. En við erum vonandi sammála um að þar sem mannlífið nálgast þetta ástand sé lífið ögn betra en hjá þeim sem eru fjær því.

Ætli þetta sé ekki eins með verslunarfrelsið. Það er hvergi algert. En þar sem menn njóta þess í ríkari mæli eru kjör að jafnaði heldur betri en þar sem höftin eru meiri (með fremur fáum vel þekktum undantekningum eins vondum afleiðingum af frjálsum rekstri spilavíta eða óheftri sölu vímuefna).

Þetta tal um að svo og svo margir missi vinnuna ef innflutningur á kjöti verður frjáls er óttalegt raus. Ef við fáum ódýrara kjöt þá eigum við meira fé aflögu til að kaupa önnur gæði og þar með fjölgar atvinnutækifærum, því einhverjir munu frameiða, veita eða selja þau gæði.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 12:48

18 identicon

Sæl Kolbrún

Með betri efnahag kaupa sjálfsagt fleiri þann varning sem þú taldir upp frá Armani og Porche o.fl. Það munu líka fleiri skipta við bændagistingu eða aðra sem selja íslenska vöru og þjónustu. Ef hægt verður að fá ódýrari sunnudagasteik munu líka fleiri hafa nýjan íslenskan fisk í matinn á laugardögum í staðinn fyrir innfluttar núðlur.

Fleiri krónur í vösum neytenda dreifast til framleiðenda og seljenda hér á landi og í viðskiptalöndum okkar. Þær krónur sem menn nota til að kaupa til dæmis íslenskt svínakjöt dreifast líka víða: til erlendra framleiðenda á aðföngum fyrir svínabændur, íslenskra verslunarmanna, vörubílstjóra, bænda, olíufélaga o.fl. o.fl.

Þetta haggar ekki á neinn hátt því sem ég sagði að innflutningur á vörum veldur að öllum jafnaði ekki atvinnuleysi hér heima heldur aðeins breytingum á vinnumarkaði þar sem fækkar lítt arðbærum starfsgreinum og fjölgar í öðrum sem eru hagkvæmari.

Stóraukin milliríkjaverslun á undanförnum árum hefur eftir því sem næst verður komist dregið úr atvinnuleysi en ekki aukið það.

Rafmagnsbrandarinn þinn var frekar slappur. Rafmagn sem yrði flutt inn um sæstreng yrði svo miklu dýrara en innlend orka að það seldist ekki.

Atli Harðarson (IP-tala skráð) 24.4.2008 kl. 17:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband