Birkilanskur álagablettur og guðdómlegt sumar

Eiginlega ekki þorandi að blogga þessa dagana. Ekki vegna neins sem er að gerast úti í henni versu heldur hinu hvað ég er áhrifagjarn sjálfur. Hef næstliðnar nætur rennt í gegnum hina ómótstæðilegu ævisögu Jóhannesar Birkilands og ekki örgrannt um að ég geti verið undir áhrifum þeirrar bókar. Og þó svo að Birkiland hafi verið snillingur þá er hann tæpast góð fyrirmynd þeim sem er í pólitík. birkiland

Heyrði það einhverntíma kallað Birkilönsk fræði þegar menn upphefja mikinn harmagrát, sjálfsvorkunn og mælgi um illsku veraldarinnar. Margt í samtímanum minnir reyndar á þessi fræði, s.s. allur sá óragrúi viðtala við stjórnmálamenn sem barma sér undan illsku annarra stjórnmálamanna. DV sérhæfir sig einnig í fræðum þessum. En tölum ekki um það í dag. 

Það er reyndar alltof ódýr lýsing á Harmsögu ævi minnar eftir Birkiland að telja hana harmagrútinn einan, í henni er líka að finna stórsnjallar bölmóðslýsingar á samfélagi Íslendinga frá torfbæjum til stríðsgróða, kostulegar mannlýsingar og ótrúlega andagift. Jóhannes hafði undirtitil á bók þessari; Hvers vegna ég varð auðnuleysingi og síðasti kaflinn minnir mig að heiti Hörmulegasta tímabil allrar minnar harmsögulegu ævi...

Sjálfur hef ég fátt harmsögulegt fram að færa og verð því seint skáld en lenti um daginn í einstæðri fjórhjólaferð með Skaftfellingum um Lakasvæðið, Miklafell og Blæng. Leiðsögumaður var Ragnar Jónsson í Dalshöfða. Myndirnar hér að neðan eru úr ferðinni.

Þetta var sömu helgina og hlaup hófst í Skaftá. Á sunnudagsmorgni losaði ég svefn í þéttskipuðum skálanum í Blæng við einhvern hinn undarlegasta óþef. Eiginlega of undarlegur til að stafa frá nokkrum þeirra Skaftfellinga sem lágu við hlið mér og mikið rétt,- þetta var þá hlaupþefurinn undan iðrum jarðar.

 

DSCF0036

DSCF0011


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Já, er það furða að þú hafir kúgast, ekki nóg með að um Skaftfellinga væri að ræða, heldur voru þeir flestir úr Mýrdalnum, ekki rétt? Maður sefur nú ekki rólegur í lokuðu rými með slíkum belgjum og er ég nokkuð viss um að þeir hefðu farið létt með að yfirgnæfa Skaftá gömlu, hefðu þeir verið fengið rétt að éta.

Kveðja af Síðunni,
Helgi  

HP Foss, 21.8.2008 kl. 13:19

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

úps - mér er afar illa við að breyta bloggi eftirá en sé nú að mér hefur orðið á í messunni,- ætlaði nefnilega þegar ég skrifaði fyrirsögnina að hafa hér með sögu af álagabletti í túninu hér á sólbakka - bletti sem sláttuvélin dó yfir tvívegis án nokkurrar sýnilegrar ástæðu en sleppti því svo og gleymdi að breyta fyrirsögninni sem er þessvegna svoldið útúr kú! álagablettur þessi er skammt í útsuður frá heimagrafreit þar sem þeir félagar óli og skjöldur hvíla í friði - vonandi. báðir eru af hollenskum skjaldbökuættum. já og svo má bæta því við að myndirnar hér að ofan tók sigurður hjálmarsson í vík.

Bjarni Harðarson, 21.8.2008 kl. 21:57

3 Smámynd: Bjarni Harðarson

... og helgi- auðvitað grunaði mig fyrsta kastið okkar ágætu mýrdælinga og sneri mér til veggjar en þeir voru saklausir enda fóður meinlaust, nokkrar kótilettur og ögn af viskíi í blængsskálanum nefnt kveld...

Bjarni Harðarson, 21.8.2008 kl. 22:00

4 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Allavega hárprúður mjög, hlítur að vera öðrvísi sjónarmið sem hann hefur staðið fyrir.

Ester Sveinbjarnardóttir, 22.8.2008 kl. 21:59

5 identicon

Sæll

Veist þú nokkuð hvort ég get náð í bók Birkilands einhvers staðar: "Harmsaga æfi minnar". Ég hef verið að reyna að finna hana en hvergi fundið.  Kv. jakob

Jakob Bragi Hannesson (IP-tala skráð) 3.9.2008 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband